Umhverfið virðist engu skipta.

P1010009Morgunblaðið hefur fylgst vel með djúpboruninni í Vítismóum. Er það vel. Aldrei eru þó sýndar myndir af henni.

Myndin hér efst sýnir hluta borbúnaðarins og hvernig hann kallast á við Leirhnjúk, sem er í baksýn skammt frá.

Myndirnar má stækka og láta þær fylla út í skjáinn með því að smella á þær í tveimur áföngum.

Næst efsta myndin sýnir hvernnig borbúnaðurinn blasir við frá bílastæði ferðamanna sem ætla að ganga að Leirhnjúki. 

 

P1010003

Á mynd númer þrjú sést frá víðu sjónarhorni afstaða bílastæðisins til vinstri, borstaðarins og Leirhnjúks, en næst okkur á myndinni er heljarinnar gufuleiðsla sem lögð hefur verið frá borholu ofan við sprengigíginn Víti, sem kallast þannig á við Leirhnjúk, að djúpborunarstaðurinn er þar á milli. 

Holurnar sem kallast á við Leirhnjúk og Víti eru nefnilega á þremur stöðum.

Núna heyrist ekki mannsins mál fyrir hávaða frá blásandi holu við Víti.

Á fjórðu mynd talið ofan frá er horft yfir holuna í átt að Víti og Leirhnjúki. 

Á fimmtu myndinni er horft yfir gíginn sjálfan yfir til ferðamannanna sem eru á barminum hinum megin við hann. 

Nú er stefnt að því að innramma þetta svæði allt í virkjanamannvirki. 

Líklega þætti það ekki sjálfsagt mál að innramma Kerið í Grímsnesi inn í einskonar Hellisheiðarvirkjun við gíginn og er sá gígur þó stórum minna virði en gígarnir Víti við Kröflu og Víti í Öskju.

P1010031

En þetta þykir sjálfsagt þarna fyrir norðan. 

Er þó verið að rótast um á svæði sem kalla má heimsundur og stefnt að því að leggja það allt undir virkjanir. 

Þetta er eini staðurinn á jörðinni þar sem hægt er að upplifa "Sköpun jarðar og ferðir til mars." 

Ég er með kvikmynd í smíðum með því nafni. 

Ástæðan er sú að í níu eldgosum 1975-84 færðust meginlandsflekar Evrópu og Ameríku hvor frá öðrum og hraun fossaði upp um sprungur í landinu.

Teknar voru af því myndir sem nota má til að setja sig inn í aðstæður og ganga ofan á gjár þar sem Evrópa er á aðra hönd en Ameríka á hina og ganga fram á stað þar sem hraunið þrýstist upp úr sprungunni og fellur niður í hana á víxl auk þess sem það breiðir úr sér og myndar nýtt land.  

Alþjóðasamtök áhugafólks og kunnáttumanna um ferðir til mars hafa valið svæðið sem æfingasvæði fyrir marsfara framtíðarinnar.

Þetta fólk mun þó vafalaust draga þetta til baka ef þetta verður allt virkjað. Marsfarar æfa sig ekki innan um borholur, gufuleiðslur, háspennulínur og stöðvarhús. 

Þetta svæði tekur fram sjálfri Öskju sem hefur öðlast sess og aðdráttarafl vegna þess að þar þykja vera aðstæður sem gera fólki kleift að upplifa sköpun jarðar og ferðir til tunglsins eftir að tunglfararnir komu þangað 1967. 

P1010022P1010036Þar skortir hins vegar allar myndir af umbrotunum og engin eru þar merki um það hvernig meginlöndin færðust hvort frá öðru.  

Í Yellowstone þjóðgarðinum í Bandaríkjunum skapar miðstöð um skógareldana þar 1988 hundruð starfa í miðstöð sem helguð er skógareldunum og nýtir sér myndir af þeim.

Mun magnaðri miðstöð mætti reisa undir nafninu "Sköpun jarðar og ferðir til mars" fyrir norðan og byggja á náttúruverndarnýtingu til að skapa hundruð starfa í stað þess að umturna svæðinu til að skapa ígildi 10-20 starfa í álveri í 70 kílómetra fjarlægð.  

Greinilegt er að gildi umhverfisins virðist engu skipta á svæðinu Leirhnjúkur-Gjástykki.

Í fyrstu virtist djúpborunarholan ekki valda miklu raski en þegar snjóa er að leysa kemur í ljós að jarðýtur hafa farið þar hamförum.

Hluti þess sést á myndum fyrir neðan myndina af Víti.  

Þar fyrir neðan er mynd tekin ofan við borholusvæðið fyrir ofan Víti og sést glytta í Leirhnjúk í gegnum gufuna en djúpborunarholan dylst á bak við gufuna. 

Ég veit ekki hve oft ég hef fjallað um það sem þarna er að gerast án þess að það veki hin minnstu viðbrögð. 

Þetta er eins og að klappa í stein, slík er tilbeiðslan við álguðinn.

Ég mun þó ekki hætta umfjöllun um þetta, hversu vonlaus sem hún kann að sýnast.

DSCF5485Þeir sem eru orðnir leiðir á henni geta einfaldlega sleppt því að kynna sér hana og haldið áfram að víkja þessum málum frá sér. DSCF5489 

 

P. S.

Vegna athugasemda þess efnis að þetta sé svæði sem ekki sé eftirsjá að ætla ég að bæta við myndum af því fyrir neðan myndirnar af rótinu við djúpborunarholuna. 


DSCF3068DSC00191DSCF0591

 



IMG_0405P1010021


mbl.is Enn eru erfiðleikar við djúpborun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Sjálfur þvældist ég mikið á þessu svæði með föður mínum á Kröflueldatímabilinu. Þetta er ekki landslag sem ég sé eftir og er því tilbúnn til að fórna því ef orkan skila atvinnu og arðsemi fyrir þjóðina.

Ég skil vel afstöðu þína til þessara mála því ekki vildi ég sjá svona borholur í Dimmuborgum, hljóðaklettum eða öðrum fallegum náttúrperlum. Málið er að við eigum það mikið magn af náttúrperlum að aðeins örfáir geta leyft sér að skoða þær allar.

Offari, 10.6.2009 kl. 12:50

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Athugasemd Offara er dæmigerð fyrir þann hugsunarhátt sem búið er að innprenta þjóðinni með hálfrar aldar stanslausum áróðri.

Samkvæmt honum eru virkjanir og álver það eina sem "skila atvinnu og arðsemi fyrir þjóðina".

Það eina sem skilar arðsemi er það sem hægt er að mæla í tonnum eða megavöttum.

Einu gildir þótt ég færi gild rök að því að það muni skila miklu meiri arðsemi fyrir þjóðina að láta Leirhnjúk-Gjástykki ósnortið.

Úr Gjástykki á að fá 30 megavött sem gefa 20 störf á Bakka. Virðisaukinn af þessum 20 störfum inn í efnahagslífið samsvarar 7 störfum í sjávarútvegi eða ferðaþjónustu.

Offari er reiðubúinn að fórna heimsundri fyrir sjö störf í verksmiðju í 70 kílómetra fjarlægð þótt hægt yrði að skapa margfalt fleiri störf á staðnum ef farið yrði að tillögum mínum.

Samkvæmt skilingi Offara skapar Gullfoss engin verðmæti af því að ekki er hægt að mæla gildi hans í tonnum, megavöttum eða beinum greiðslum fyrir að skoða hann.

Baráttu mína fyrir þyrmingu Leirhnjúks-Gjástykkis byggi ég á því að hægt er að bjóða betur fjárhagslega með því að láta svæðið óhreyft og nýta það á annan hátt en til orkuöflunar.

Eina vonin virðist vera sú að geta boðið meiri peninga því að þessi þjóð hugsar ekki um annað.

En ekki einu sinni það er nóg eins og skrif Offara bera með sér.

Ég spyr Offara: Hefur hann gengið um svæðið eins og það er nú. Farið gönguleiðina um Leirhnjúk?

Gengið í gegnum gjána þar sem hraunið kom upp og fór niður á víxl 1984? Skoðað gígana að vetrarlagi?

Ætla að bæta við einni eða tveimur myndum af landlaginu sem hann sér ekki eftir.

Ómar Ragnarsson, 10.6.2009 kl. 14:21

3 identicon

Samkvæmt mbl var orkumálastjóri að kynna nýja virkjanakosti í gær, þ.m.t. fimm í Hvítá.  Fimm stykki, hvorki meira né minna.

Hvenær skyldi verða komið nóg?

Jóhann (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 15:00

4 Smámynd: Offari

Ég hef ekki farið þarna uppeftir í fjöldamörg ár. Einfaldlega vegna þess að mér þykir margar aðrar náttúrperlur vera meira virði að skoða. Það er vissulega mismunandi smekkur manna og vissulega rétt hjá þér að nýlegt hraunið vekur áhuga ferðamanna. Síðast þegar ég fór þarna uppeftir fór ég með Franskan hóp og ekki fannst mér á þeim finnast þetta vera það áhugaverðasta sem þeir skoðuðu í þeirri ferð.

Því tel ég að við eigum margar merkilegri náttúrperlur og í raun það mikið að aðeins örfáir hafi efni á að skoða þær allar á einni æfi.

Offari, 10.6.2009 kl. 15:58

5 identicon

Það er skrýtið að einungis virðast vera náttúruperlur alls staðar annars staðar en á Suð-Vesturhorninu.

Fáir skammast yfir Hellisheiðarvirkjun, þó svo að hún sé arfaljót.

Enginn skammast yfir Svartsengisvirkjun, og öllum finnst Bláa Lónið frabært, þó svo að hér sé í raun um umhverfisrask að ræða.

Enginn skammast yfir mesta stóriðjusvæði landsins sem þar að auki VAR eitt sinn náttúruperla.  Þetta svæði Hvalfjörðurinn.

Og enginn skammast yfir því að búa í ljótustu höfuðborg í heimi, einni mestu bílaborg á norðurhjara, þar sem menn aka um á mini-álverum og einskonar reðurtáknum er kallast ofur-jeppar.

Kannski eru þessi svæði of nálægt 101 Reykjavík til að þess að skammast út af.  Menn sjá flísina í auga síns bróður, en ekki bjálkan í sínu eigin auga.

En það að einhverjar framkvæmdir eigi sér stað úti á landi fara óskaplega í taugarnar á mörgum.

Skil ekki hvernig þú færð að einungis 20 störf skapist í álveri fyrir norðan, þegar ca. 500 störf skapast í álverum suð-vestanlands.

Og hvernig á að skapa mörg hundruð störf í einhverjum eldfjallaþjóðgarði sem þú talar í sífellu um?  Á að búa til einskonar Las Vegas þarna norður frá með alþjóðlegum flugvelli?

Ps. Mér vitanlega eru ekki til neinar álbræðslur hér á landi.  Og ekki veit ég til þess að hér sé brætt ál.

Hinsvegar veit ég að til eru álver hér á landi, þar sem málmurinn ál verður til við ragreiningu.  Álver þessi eru hátæknivinnustaðir, þar sem flestir eru með sérfærðimenntun á sínu sviði, þó svo að ekki sé krafast neinnar sérstakrar menntunar við sjálf framleiðslustörfin þar sem 1/3 af starfsliði álversins starfar.

Að kalla álver fyrir "álbræðslur" kemur upp um litla þekkingu fólks á hátæknivinnustöðum eins og álverum.

Geir Ó. Magnason (IP-tala skráð) 10.6.2009 kl. 16:29

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Meðan bráðið ál er í kerjunum er alveg eins hægt að tala um árbræðslur eins og álver. Mér sýnist Geir fjölga "sérfræðimenntaða" starfsfólkinu um meira en helming miðað við þær upplýsingar sem hingað til hafa verið gefnar um hlutföllin hjá starfsfólkinu.

Ég vil minna Geir á stanslausa baráttu mína fyrir stöðvun ágengrar orkunýtingar á Reykjanesskaga.

Yellowstone er eins fjarri því að líkjast Las Vegas og hugsast getur. Í bæði skiptin sem ég fór þangað þurfti ég að aka í meira en sólarhring frá alþjóðlegu flugvöllunum í Salt Lake City og Denver til að komast inn í þjóðgarðinn og gista utan marka hans.

Ég tek það ekki tím mín, Geir, að aka um daglega á ofurjeppum og reðurtáknum. Ég hef talað stanslaust fyrir nýrri hugsun á því sviði og ek daglega um á ódýrasta og einfaldasta bíl landsins.

Ómar Ragnarsson, 10.6.2009 kl. 20:40

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Offari, það fer eftir fræðslunni sem veitt er í ferðunum, hvers fólk verður vísari um gildi náttúrufyrirbæra.

Augljóst er að þú hefur ekki gert þér neina grein fyrir því hvað hægt væri að skoða á Leirhnjúks-Gjástykkissvæðinu enda greinilega aðeins farið með hópinn inn að öðrum enda þessa einstæða svæðis.

Á tímum Kárahnjúkavirkjunar var fólki greidd leið að stíflustæðinu sjálfu en vandlega komið í veg fyrir að það skoðaði 25 kílómetra langa dalinn sem sökkva átti.

Ómar Ragnarsson, 10.6.2009 kl. 20:44

8 identicon

Sæll Ómar

Ég verð að segja að þær eru einstaklega fallegar myndirnar af Gjástykkinu.  Ég er fædd og uppalin í Kelduhverfinu og hef gengið um hluta þessa svæðis vegna smalamennsku með föður mínum.  Að mínu mati er ekkert svæði þessu líkt.  Ég man líka eftir að hafa horft út um stofugluggann heima hjá foreldrum mínum á tíma gosanna í Kröflu og séð bjarmann af gosinu bera við himininn og var ég ekki gömul þá.  

Fæ ég leyfi til að prenta út eintak af þessum myndum þínum til að eiga þegar virkjanagleði álverssinna (sem einna helst veldur manni ógleði)verður búið að eyðileggja Gjástykkið í stundarbrjálæði sem enginn virðist gera sér grein fyrir hvað skilur eftir sig þegar fram líða stundir?  

Kveðja

Helga

Helga Sturludóttir (IP-tala skráð) 18.6.2009 kl. 14:58

9 Smámynd: Stefán Stefánsson

Málið er bara það að ekki er verið að eyðileggja þessi svæði. Það er bara hreint og klárt bull.
Það er hægt að nýta svæðin og hugsa vel um þau líka í leiðinni og það verður gert.
Kröflu- og Gjástykkissvæðið er einstakt og verður það áfram þó virkjað verði.

Ég vildi nú sjá þig berjast eins á móti eyðileggingunni á höfuðborgarsvæðinu og þar á ég við Hafnarfjarðarhraunið og Álftanesið. Þar virðist vera sjálfsagður hlutur að jafna allt við jörðu og byggja vegi og verslanamiðstöðvar. 

Stefán Stefánsson, 22.6.2009 kl. 21:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband