Jackson - Björk.

Michael Jackson og Madonna voru kóngur og drottning í ríki poppsins í kringum 1990. Þau nutu þess að ítrasta tækni og og nýting gríðarlegrar líkamlegrar getu gátu magnað upp tónlist þeirra.

Bara það eitt var rosalegt að horfa á hvernig Jackson fór hamförum á sviðinu á þann hátt að aðrir litu út eins og smá spítukallar. Hann leit því vafalaust á endurkomu sína líkt og hnefaleikameistarar sem æfa eins og berserkir til að komast í fyrra form. 

Tískan ræður miklu í poppinu. 1956 gufuðu sykursætu dægurlögin í gamla stílnum nær upp ásamt stórhljómsveitunum og rokkið með Presley í fararbroddi tók öll völd.

Síðan kom diskóbylgan, Bee Gees og Abba, en þegar pönkið kom þar á eftir fyrirlitu sumir helstu pönkararnir Abba ósegjanlega opinberlega.

Í dag viðurkenna þeir stórkostlega tónlist Abba.

Upp úr miðjum sjöunda áratugnum var Presley horfinn, - Bítlabylgjan hafði sópað honum í burtu.

En það sem einu sinni var gott verður það yfirleitt aftur. Presley var og er kóngurinn og Abba hefur náð nýjum hæðum í flutningi annarra.

Ég hef sett fram þá kenningu að Björk hafi verið réttur listamaður á réttum tíma þegar hún sló í gegn eins og sagt er.

 Þegar hún kom fram höfðu Michael Jackson og Madonna verið mögnuð upp í áður óþekktar hæðir með hin ofurtæknilegu, flóknu, fyrirferðarmiklu og hátimbruðu uppsetningu.  En ackson og Madonna var komin á endastöð, rétt eins og að tískufyrirbrigði, hvort sem það eru útvíðar skálmar, pínupils eða himinhá stél á bílum.  

Það var ekki hægt að ná lengra í þessari tegund skemmtunar og veröldin þráði eitthvað gerólíkt. Hún fann það meðal annars í Björk, með sína ótrúlegu og barnslegu rödd og framkomu, einfaldleikann og frumleikanna í fyrirrúmi.

Án Jackson og Madonnu er óvíst að Björk hefði slegið jafn vel í gegn og hún gerði á hárréttu augnabliki. Hún og Íslendingar eiga því óbeint Jackson mikið að þakka.

"Ars longa, vita brevis." Listin er löng en lífið er stutt. Undrabörn gefa heiminum mikið en færa miklar persónulegar fórnir með því að vera rænd æsku sinni eða skorta persónulegan þroska.

Mozart, Presley, Jackson og fleir nöfn koma í hugann, loguðu skært og brunnu upp.

Jackson var risi í poppinu, alla tíð frá hann sem barn söng "Santa Claus is comin to-night" svo að líklega verður aldrei gert betur.  


mbl.is Jackson æfði af kappi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Villi Asgeirsson

Það er svolítið merkilegt að listamenn sem ná hæstu hæðum, gera það yfirleitt í upphafi ferilsins. Hátindinum er náð á fyrstu fimm árunum, tíu í örfáum tilfellum, og eftir það er reynt að eltast við fyrri frægð. Fæstum tekst að toppa sjálfa sig eftir það. Þeir listamenn sem lifa lengst eru þeir sem falla frá áður en frægðasólin fer að setjast. Dæmi um þá eru Buddy Holly, James Dean og Marilyn Monroe. Svipað með John Lennon og Freddie Mercury, en þeir höfðu ennþá eitthvað að segja þegar þeir féllu frá.

David Bowie er smá undantekning, en hann náði að halda sér á listrænum toppi frá 1972 til 1980. Hann sló svo sjálfum sér við í plötusölu 1983 með Let's Dance. Sú plata markaði þó endalok snillingsins og það sem tók við var ekki merkilegt miðað við fyrri verk.

Paul McCartney var einhvern tíma spurður að því hvers vegna honem hefði aldrei tekist að toppa lagasmíð sína eftir að Bítlarnir hættu. Hann svaraði einhvern vegin svona. Ef þú lendir á tunglinu fyrir þrítugt, hvernig geturðu komist lengra?

Villi Asgeirsson, 27.6.2009 kl. 14:05

2 identicon

Hér er fullyrt að sumir tónlistamenn nái hæstu hæðum snemma á sínum ferli. Það má vel vera að svo sé, en á þá aðeins um lægri list, eins og létta tónlist. sem fyrnist undantekningarlaust mjög fljótt. Í sígildri eða klassískri tónlist, sem fyrnist aldrei, er þessu öfugt farið. Gigantar eins og Bach, Beethoven, Bruckner, Verdi, Tschaikowsky, Mahler, svo ég nefni aðeins nokkra, hækkuðu flugið með aldrinum og með meiri þroska. Þarna höfum við kannski það sem greinir á milli alvöru tónlist og dægurflugu.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 27.6.2009 kl. 17:43

3 identicon

Skemmtilegur pistill hjá þér Ómar sem sýnir næmni og skilning á sviptingum í tónlist og tísku sem ég hefði ekki endilega búist við frá þér... fólk á þínum aldri heldur yfirleitt dauðataki í gamla tónlist og hafnar öllu sem komið hefur eftir þeirra unggæðingsár sem þvælu og leiðundum.

Guðmundur Ragnar Björnsson (IP-tala skráð) 27.6.2009 kl. 18:53

4 Smámynd: Karl Tómasson

Já, Ómar. Allt fer þetta í hringi, marga hringi.

Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó.

Karl Tómasson, 27.6.2009 kl. 19:15

5 Smámynd: Hildur Helga Sigurðardóttir

Ómar missir aldrei af lestinni. Verð þó að benda á að Madonna er ennþá að -á fullum dampi.

Hildur Helga Sigurðardóttir, 27.6.2009 kl. 19:35

6 Smámynd: Villi Asgeirsson

Vegna athugasemdar Hauks, vil ég benda á að ég var að tala um vinsældir og áhrif. Alls ekki um gæði listarinnar. Svo ég haldi mig við David Bowie. Hann gaf út plötuna 1.Outside árið 1995, 22 árum eftir að hann "drap" Ziggy Stardust, en hún skákar flestu sem hann hefur gert, fyrr og síðar. Þá var hann tæplega fimmtugur. Paul McCartney gaf út Memory Almost Full fyrir tveimur árum, en hún er ein besta plata hans frá upphafi. Ekki slæmt af hálf sjötugum tónlistarmanni sem hefur ekkert að sanna. Mark Knopfler, gítarleikari Dire Straits skákaði öllu sínu fyrra efni á Shangri La árið 2005. Nýjasta plata Judas Priest, Nostradamus, er á við það besta sem þeir hafa gert.

Þetta eru örfá dæmi um "lágmenningu" sem batnar með árunum. Það sem ég átti þó við er að þessar plötur seldust ekkert miðað við fyrri verk þessa listafólks og höfðu því ekki sömu áhrif. Auðvitað voru Beethoven, Mozart og fleiri algerir snillingar, en það er mikil einföldun að halda því fram að þeir hafi gert betri eða merkilegri hluti en margir sem enn lifa. Ég er reyndar á því að það sé ekki til lág- eða hámenning. List sem nær að snerta við fólki á rétt á sér.

Það þarf enginn að segja mér að það besta sem komið hefur frá Pink Floyd sé verra eða lægra en eitthvað annað. Comfortably Numb og Echoes eiga stað í hjarta mínu, rétt við hliðina á sjöundu eftir Beethoven.

Villi Asgeirsson, 27.6.2009 kl. 21:20

7 identicon

Flott færsla hjá þér Villi og ég er þér sammála. Quality er eitt af erfiðustu hugtökum sem til eru. En Quality er til, skal vera til, en hvað er Quality? Hrífandi spurning en erfið.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 27.6.2009 kl. 21:34

8 Smámynd: Edda Björk Hafstað Ármannsdóttir

Madonna er nú enn að og hefur alltaf verið í hæstu hæðum að undanskildum þessum fáu árum meðan hún var að eignast krakkana sína. EN góð grein. Ísland best í heimi, sammála!

Edda Björk Hafstað Ármannsdóttir, 28.6.2009 kl. 10:59

9 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Ómar,

Það má ekki gleyma rollingunum í þessari umræðu!  Þeir hafa verið að síðan ég var einsárs og eru enn að:)

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 28.6.2009 kl. 17:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband