Loksins eitthvað um sáralítinn hlut okkar.

Virkjanafíklar hafa jafnan látið eins og hið óvirkjaða vatnsafl Íslands sé slíkt að skipta muni sköpum fyrir heiminn. Fyrir 15 árum var í alvöru rætt um að Íslendingar gætu setið eins og Arabar með vefjarhetti og stjórnað rafmangsverði í Evrópu í gegnum sæstreng.

Ef þetta væri svona gætu Norðmenn það alveg eins og við, því að þar í landi er að magni til jafn mikið óvirkjað vatnsafl og hér. Þar að auki tandurhreint vatn á hálendi, sem ekki hefur hlotið sérstakan gæðastimpil sem eitt af undrum veraldar eins og Ísland hefur hlotið.

Í Noregi eru heldur ekki vandamál vegna þess að miðlunarlón fyllist upp af auri og heilu dölunum með lífríki og einstæðri náttúru sé sökkt eins og hér er ætlunin.

Norðmenn munu ekki virkja meira enda þarf ekki annað en að glugga í tölur til að sjá, að óvirkjað vatnsafl í þessum tveimur löndum er langt innan við eitt prósent af orkuþörf veraldar, aðeins nokkur prómill. Hvorki við né Norðmenn munum verða "Arabar norðursins" eins og lengi hefur verið gumað af.

Ég hef flogið í lítilli flugvél yfir þvera og endilanga Eþíópíu og séð allt það gríðarlega vatnsafl sem óvirkjað er í því landi. Þar eru þjóðartekjur á mann aðeins 0.5% af því sem þær eru hér.

Virkjanir í þessari álfu hafa því meira en hundrað sinnum meira hagrænt gildi fyrir örfátækt fólkið sem þar býr en þær hafa hér á landi.

Samt viljum við bjóða "lægsta orkuverð" og "sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum" og eyðileggja verðmæti sem eru ómetanleg.

Er nú í ferð um virkjanasvæðin norðan Mývatns og í kringum Snæfell og skortir orð til að lýsa því sem hér er að gerast, þótt ég muni reyna að blogga um það næstu daga, ef tími er til.

Það er ekki víst hvað sá tími verður mikill. Það er að hitna í kolunum hér og magnaðir dagar framundan.


mbl.is Gífurlegt afl liggur ónýtt í fallvatninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður og tímabær pistill Oscar, Mike, Alpha, Romeo.

Have a nice day.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 29.6.2009 kl. 22:29

2 identicon

Ég hef stundum hugsað til þessara óvirkjuðu risaáa í Afríku. Þegar þær verða virkjaðar, þá dettur mér í hug að Afríka muni kannski undirbjóða okkur allverulega í raforku og byggja álver þar, það er líka ódýrara f. álfyrirtækin að flytja áloxíð þangað þar sem báxít námur eru mun nærri (eða í) Afríku. Maður þarf ekki annað en að horfa á næturmynd af Afríku til að sjá hve lítið er virkjað þar(3/4 rafmagns í álfunni er notað af S-Afríku og N-Afríkulöndunum): http://sciencenotes.files.wordpress.com/2009/04/africa-night.jpg

Ari (IP-tala skráð) 29.6.2009 kl. 23:52

3 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Merkilegt hvað Íslendingar halda oft að þeir séu stórir á heimsvísu, bara af því hvað þeir eru stórir á landsvísu.

Má til með að þakka þér, Ómar, fyrir ötult framlag þitt til umhverfisvitundar og umhverfisverndar á Íslandi. Það er ekki hvað síst þörf á að halda þeirri vinnu áfram nú, þegar landsmenn eru svo uppteknir af því að vera á skuldabömmer að þeir hafa ekki orku i að huga að umhverfismálum.

Soffía Sigurðardóttir, 30.6.2009 kl. 01:16

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ari segir að það sé ódýrarar að flytja báxítið til Afríku en til Íslands. En þar með er bara hálf sagan sögð, því þá á eftir að flytja afurðirnar á markað og hann er ekki í Afríku nema að litlu leyti.

Norðmenn eru áratugum á undan Íslendingum í iðnvæðingu og hafa þegar nýtt yfir 75% af virkjanlegri orku sinni, en Íslendingar aðeins um 40% sinnar orku. Það er ekkert óeðlilegt að þeir, 15 falt fjölmennari þjóð vilji ráðstafa sinni orku í "eitthvað annað", við sínar aðstæður, sem eru ósambærilegar við hinar íslensku.  Íslendingar munu einnig ráðstafa sinni orku í annað en stóriðju ef og þegar tækifæri gefst til þess.

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.6.2009 kl. 09:40

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Og varðandi Afríku... ef ég man rétt er verið að reisa álverksmiðju í einhverju Arabalandanna sem mun framleiða svipað magn og allar álverksmiðjur á Íslandi framleiða samanlagt. Sú verksmiðja fær orku sína úr jarðefnaeldsneyti.

Gunnar Th. Gunnarsson, 30.6.2009 kl. 09:44

6 identicon

Sæll Ómar,

Já, það er rétt hjá þér að nú er að hitna í kolunum hér og magnaðir dagar framundan.  Með það í huga er vert að hafa neðangreint efni að leiðarljósi:

The Real Face of the European Union

http://video.google.com/videoplay?docid=2699800300274168460&hl=en

Kv.

Atli

 

Atli (IP-tala skráð) 30.6.2009 kl. 11:18

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Enn einu sinni notar Gunnar prósentutölutrixið til að sanna að miklu meira sé óvirkjað í vatnsafli á Íslandi en í Noregi. Það byggist á því að Noregur er þrefalt stærra land en Ísland og því eru t. d. 30 óvirkjaðar teravattsstundir í Noregi þrisvar sinnum lægri prósentutala af virkjanlegu vatnsafli þar en 30 teravattsstundir á Íslandi.

Staðreyndin er nefnilega þessi: Það er álíka mikil orka óvirkjuð í þessum tveimur löndum og norsku vatnsaflsvirkjanirnar valda miklu minni umhverfisspjöllum í heildina tekið en hinar íslensku.

Ómar Ragnarsson, 1.7.2009 kl. 00:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband