12.7.2009 | 02:11
"Spilaborgin", "Hallærisplanið" og "Flóttamannaleiðin".
Í Reykjavík og nágrenni er að finna nokkur mannvirki sem annað hvort hafa öðlastl táknræn nöfn eða munu gera það.
Ofarlega í hugum þess unga íslenska fólks, sem nú verður að flýja land, verður vafalaust hin hrikastóra bygging sem gnæfir yfir allt og alla við Borgartún í Reykjavík og verður tóm að mestu um sinn.
Á meðfylgjandi mynd sést hvernig hún blasir við séð frá Sæbraut.
Hið myndarlega stórhýsi gegnt Höfða, sem hefur hýst mörg fyrirtæki og stofnanir er eins og smáhýsi undir þessu stóra glerskrímsli sem ég vil gefa nafnið "Spilaborgin", tákn um þá spilaborg ímyndaðra verðmæta að mestu, sem hrundi yfir landið í fyrra.
Sjálfur Höfði er eins og dúfnakofi í samanburðinum.
Spilaborgin átti sér hliðstæðu á stríðsárunum og lengi eftir stríð.
Það var vegur sem Bretar lögðu ofan byggða milli Hafnarfjarðar og Suðurlandsvegar við Rauðavatn og hlaut nafnið "Flóttamannaleið" vegna þess að á þeim tíma voru Bretar á flótta undan öxulveldunum um allan heim, á Balkanskaga, í Norður-Afríku og Malasíu þar sem sjálf Sinagpore féll og 80 þúsund breskir hermenn voru teknir til fanga.
Íslendingar göntuðust með það að leiðin sú arna væri lögð til þess að breska setuliðið ætti flóttaleið frá Reykjavík þegar Þjóðverjarnir kæmu.
Síðar var þessi leið kærkomin "flóttamannaleið" fyrir þá sem vildu forðast lögreglu eða aðra eftirgrennslan.
"Hallærisplanið" þar sem nú er Ingólfstorg hlaut sitt háðska heiti vegna þess að þar þóttu afskiptir karlar í kvennaleit eða konur í karlaleit, fólk í hallæri á þessu sviði, vera í miklum meirihluta.
Í Mývatnssveit kölluðu gárungar ógnvekjandi melöldu sem stefndi inn í Dimmuborgir "Féþúfu" vegna þess að Landgræðslan sóttist eftir fjárstuðningi við að græða hana upp. Það var gert og nú ógnar sandur ekki um sinn Dimmuborgum.
"Spilaborgin" hefur tekið frá mér útsýnið sem ég hafði úr blokkinni minni til Snæfellsjökuls.
Þess vegna er mér það ekki leitt að nefna þessa risabygginu þessu nafni, sem er svo táknrænt fyrir gróðærið sem hrundi eins yfir unga fólkið sem átti að erfa landið en verður nú að gjalda fyrir ruglið sem náði hér yfirhöndinni.
Við getum leikið okkur með öll þessi nöfn í einni setningu sem lýsir ástandinu:
Trúgirni okkar var gerð að Féþúfu sem hrundi eins og Spilaborg svo að margt ungt fólk helst ekki við á því Hallærisplani sem Ísland er orðið heldur verður að flýja Flóttamannaleið til útlanda.
Framtíðin utan Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það mætti einnig kalla turninn hálfvitann.
"Reisa þarf nýjan vita á Sæbrautinni því háhýsið á Höfðatorgi skyggir á innsiglingarvitann á Sjómannaskólanum. Samkvæmt lögum má láta rífa húsið. ...
Frá árinu 1944 hefur vitinn efst í turni Sjómannaskólans verið innsiglingarviti fyrir Reykjavíkurhöfn. Hann gegndi því hlutverki með sóma þar til í haust þegar reistur var nítján hæða turn á Höfðatorginu, við Borgartún 12-14. ...
Ef húsið verður ekki rifið, verður að flytja vitann. Margar leiðir hafa verið skoðaðar, meðal annars að setja ljósmerkið á Höfðatorgsturninn, en það reyndist ekki gerlegt. Niðurstaðan er því sú að reisa nýjan vita og hljóðar kostnaðaráætlun upp á 20 til 25 milljónir króna."
Þorsteinn Briem, 12.7.2009 kl. 04:32
Ég heyrði af fínni hugmynd um nýtingu á turninum: Gera hann að elliheimili fyrir aldraða Breta í staðinn fyrir IceSlave-greiðslur.
Margrét Sigurðardóttir, 12.7.2009 kl. 07:52
Kæri Ómar
Mig minnir að Hallærisplanið hafi nú fengið nafn sitt vegna þess að Tónabæ. Í Tónabæ var skemmtanahald með þeim hætti að hljómsveitir léku þar fyrir dansi eins og þú kannski manst. Þar spiluðu vinsælustu unglingahljómsveitir þess tíma en skyndilega var Tónabæ lokað. Mig minnir að það hafi verið gert vegna þess að þar þótti orðið nokkuð slarksamt. Unglingarnir sem sóttu staðinn fóru þá bara í bæinn og þótti það fréttaefni að unglingar söfnuðust saman á Hótel Íslandsplani eins og planið var kallað í þá daga. Ég man ekki betur en einhverjir unglingar hafi verið teknir tali af þínum fyrrum vinnufélögum hjá sjónvarpinu. Mig minnir að unglingur sem spurður var hvers vegna hann væri þar, hafi svarað; “Við erum bara hér í hallæri vegna þess að það er búið að loka Tónabæ”. Þar með var komið nýtt nafn á Hótel Íslandsplanið sem síðar þótti ekki nógu fínt og var síðar nefnt Ingólfstorg.
Þá var Bifreiðastöð Steindórs, Þöll, Herradeild PÓ þar sem símanúmerið var 12345, Miðbæjarmarkaðurinn og verslun á þrem hæðum í húsnæðinu þar sem nú er vínbúðin. Þetta var stórverslun á þess tíma mælikvarða og rekin af SÍS. Ég man ekki lengur hvað hún hét.
Styttingur (IP-tala skráð) 12.7.2009 kl. 09:50
Svo muna margir eftir “heita læknum” en á tímabili hleypti Hitaveitan út volgu vatni út í ræsi sem síðar rann út í lækinn sem rann niður í Nauthólsvík. Á þessum tíma var skemmtistöðum lokað klukkan eitt. Sumir lögðu þá leið sína að þessum læk og tóku sér þar bað. Eitthvað var lítið um sundfatnað á þessum baðstað enda engin skýluleiga þarna.
Vegna þessa fékk staðurinn fljótt nafnið LÆRAGJÁ og varð svo vinsæl að siðgæðisverðir beittu Hitaveituna þrístingi og skrúfað var fyrir rennsli heita vatnsins. Á þessum tíma var ekki ráðlegt að baða sig í Nauthólsvíkinni sjálfri og var þar skilti sem á stóð: VARÚÐ SAURMENGUN. Nú er öldin önnur og nú stendur Reykjavíkurborg og Orkuveita Reykjavíkur fyrir rekstri ylstrandarinnar þar sem heitu vatni er hleypt niður Öskjuhlíðina og niður í Nauthólsvík.
Styttingur (IP-tala skráð) 12.7.2009 kl. 10:11
Mér þykir fyrir því að gera þessa athugasemd, en þessi villa er svo algeng að ég rifna af pirringi í hvert sinn sem ég sé hana.
Í Íslensku (og Þýsku reyndar líka) hefjast gæsalappir niðri og lýkur uppi(„dæmi“).
Ef það er eithvað vesen að slá það inn á lyklaborðinu ykkar geta tvær kommur í röð dugað alveg jafnvel, þ.e.a.s. í réttu fonti.
Efri lappirnar eru þó áfram stór tveir (shift-2).
Sveinbjörn (IP-tala skráð) 12.7.2009 kl. 13:04
Ég á ekki um neitt að velja á mínu takkaborði varðandi gæsalappir. Hallærisplanið hafði þegar fengið nafn sitt á seinni hluta sjötta áratugarins, 1956-60 og nafnið er því eldra en Tónabær.
Ómar Ragnarsson, 12.7.2009 kl. 13:44
Takk fyrir góða grein Ómar,
Ég, kona mín og 3 börn erum eitt af þessu unga fólki sem flýjum þetta hroðalega ástand, ég er svo heppinn að ég bjó um árabil í danmörku hér áður þannig að ég á bakland hér í Danaveldi, kom hingað í maí, fékk vinnu strax í einu af ráðuneytunum hér, Videnskabsministeriet, Hér er niðursveifla á öllu en ekki hrun á sama hátt og við upplifðum síðasta haust á Íslandinu og ég held að hag mínum og minna sé betur borgið hér næstu misserin þó við hefðum ekki íhugað það að fara erlendis nema af þessum hroðalegu afleiðingum bankahrunsins. Haltu áfram að Berjast Ómar, það gerum ég og fjölskilda mín hér í danmörku þangað til við getum snúið aftur að ??? árum liðnum, Styð þig heilshugar í þinni baráttu og greinarskrifum!!!
Kær kveðja,
Hermann Ármannsson
Kokkurinn Ógurlegi, 12.7.2009 kl. 15:31
Íslensku gæsalappirnar hhef ég heyrt kallaðar 99 66 og er það vísat til útlits þeirra. Efri gæsalappirnar “ eru ekki eins að lögun og shift+2 gæsalappirnar "
Reyndar aflaga sumar leturgerðir gæsalappirnar og birta þær sem hallandi kommur en ekki með 99 66 lögunina.
Gæsalappirnar má skrifa á hvaða lyklaborði sem er. Til að skrifa neðri gæsalappir, er ALT hnappnum haldið niðri meðan slegnar eru inn tölurnar 0132. Gæsalappirnar birtast eftir að ALT hnappnum er að lokum sleppt. Efri gæsalappirnar eru skrifaðar á sama hátt, nema þá eru slegnar inn tölurnar 0147.
Brjánn Guðjónsson, 12.7.2009 kl. 17:04
Æ, ég held að þetta sé alltof seinlegt fyrir flesta, minn kæri Brjánn. }¡™@ Svona fór þetta hjá mér.}¡¢{
Ómar Ragnarsson, 12.7.2009 kl. 17:45
Hannes Hólmsteinn Gissurarson á hálfan annan helling af „íslenskum gæsalöppum“ uppi á háalofti:
Gæsaglappa,
gerði skot,
þurs í þrot,
lappabrot,
hólmsins grjóta,
veggja ljóta,
krot,
nú tárin vot,
karli vísa á í kot,
eins og skot.
Þorsteinn Briem, 12.7.2009 kl. 17:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.