21.7.2009 | 00:27
Landsala á kostnað lífeyrisþega.
Mikilvægt er að greina hið raunverulega orsakasamhengi hlutanna. Nú stendur yfir sala á landi til útlendinga. Iðnaðarráðherra lýsir yfir að nauðsyn sé að endurnýja viljayfirlýsingu við Alcoa vegna risaálvers á Bakka.
Skilyrði Alcoa vegna fyrri yfirlýsingar og líka þessarar er að orkuöflun sé tryggð fyrirfram. Alcoa krefst þess að stækka álverið úr 250 þúsund tonnum í 340 þúsund tonn þrátt fyrir að þrætt væri fyrir það að slíkt stæði til.
Uppfylling skilyrðis Alcoa um næga orku knýr Landsvirkjunt til að krefjast leyfis til borana í Gjástykki og geirnegla þar með að það að engu einasta háhitasvæði á Norðurlandi verði þyrmt, hversu mikið gildi sem það hefur sem heimsundur og sé mun aðbærara sem ósnortið ferðamannasvæði heldur en iðnaðarsvæði í Hellisheiðarstíl.
Í sjálfri orku- og einokunarparadísinni Íslandi stefnir Landsvirkjun í gjaldþrot. Til þess að hægt sé að tryggja að Alcoa fái alla þá orku, sem hún þarf í álver á Bakka, verður að taka lífeyrinnn okkar og nota hann til að hjálpa Landsvirikjujn til að seðja orkuþörf Alcoa, sama hvað það kostar.
Landsvirkjun segist ætla að eyða fénu í tilraunaboranir í Gjástykki en láta þar við sitja og virkja ekki !
Kanntu annan? Auðvitað er gjaldþrota fyrirtæki ekki að eyða hundruðum milljóna í boranir og láta síðan orkuna eiga sig. Sagt er að orkan verði ekki notuð nema ekki fáist næg orka annars staðar sem auðvitað þýðir það að það verður virkjað.
Raunar virðist Landsvirkjun vera búin að tapa allri glóru. Hún er nýbúin að klúðra milljarðsfjárveitingu til mjög mikilvægrar tilraunar með djúpborun með því að velja sér holu, sem tryggði áframhald sóknar inn að Leirhnjúki í þágu Alcoa sem í raun ræður nú yfir þessum landshluta og orkulindum þess.
Alcoa þarf nefnilega svo mikla orku að engir aðrir, skaplegri og hagkvæmari orkukaupendur komast að.
Yfirþyrmandi stærð og vald Alcoa mun jafnvel kalla á virkjanir Skjálfandafljóts og Jökulánna í Skagafirði.
Hina mikilvægu djúpborunarholu hefði verið eðlilegt að bora á Reykjanesskaga eftir almennum alþjóðlegum varúðarreglum en ásælnin í Leirhnjúk og Gjástykki réði því að spilað var fráleitt áhættuspil með einni alltof stórri holu rétt við nýgosið eldfjall, í stað þess að fikra sig áfram skref fyrir skref í þremur dýpkandi holum á öruggara svæði.
Ég hafði vonað að lítilfjörlegur lífeyrir minn og annarra lífeyrisþega , sem við höfum þó unnið fyrir á starfsævinni fengi að vera í friði fyrir virkjana- og skammgróðafíklunum.
En virkjana- og skammgróðafíklunum er ekkert heilagt, hvorki lífeyrinum né ómetanlegum náttúruverðmætum landsins sem nú er verið að selja Alcoa í raun.
Á næstu misserum verður deilt um hættuna á því hvort land og auðlindir komist í hendur útlendinga á næstu árum.
En sú stefna sem nú er rekin sýnir, að í raun er landsalan hafin og lífeyrir þeirra, sem skópu þetta þjóðfélag með vinnu sinni, fær ekki einu sinni að vera í friði.
Lífeyrissjóðir hlaupa undir bagga með Landsvirkjun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er ekki byrjunin, öllu heldur það sem koma skal. ESB er farið að virka, Orkan, fiskimiðin, og eins og þú segir 'Í raun er landsalan hafin´
Björn Emilsson, 21.7.2009 kl. 00:49
Já Ómar mér finnst alveg ótrúlega hljótt um þetta brask á lífeyrissjóðunum. Mér hefur verið að detta í hug hvort ekki sé kominn tími til að stofna samtök lífeyrissjóðseigenda til að berjast á móti því að verið sé að sukka með lífeyrinn okkar. Það virðist augljóst að forsvarsmönnum lífeyrissjóðana og verkalýðsforingjunum finnst þetta sukk í góðu lagi.
Sjálfur Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða virðist alla vega ekki hafa neinar áhyggjur af málunum: "Hann telur þó líklegt að lánin verði á ákjósanlegum vöxtum og hagstæð fyrir lífeyrissjóðina." Það er sem sagt "líklegt" en eingan veginn öruggt og ekki að sjá að honum finnist það skipta neinu máli í sjálfu sér. Honum finnst greinilega miklu meira gaman að leika jólasvein með peningana okkar en að vera að hafa einhverjar áhyggjur af því hvað verði eftir í sjóðnum þegar kemur að því að greiða okkur sem eigum þessa peninga lífeyri...
Jón Bragi Sigurðsson, 21.7.2009 kl. 00:57
Samfylkingin er ekkert skárri en SjálfstæðisFLokkurinn eða hvað?
Rósa (IP-tala skráð) 21.7.2009 kl. 04:10
Takk fyrir frábæran pistil um þetta málefni.
Hákon Jóhannesson (IP-tala skráð) 21.7.2009 kl. 05:52
Hvað er að því að útlendingar eignist hluti hér á Íslandi? Hafa Íslenskir fjárfestar staðið sig svona vel í gegn um tíðina?? Þessi hræðsla ykkar við fólk frá öðrum löndum verður að fara að stoppa,,.
Íslendingur (IP-tala skráð) 21.7.2009 kl. 08:37
Björn Emilsson! Hvað áttu við með að þetta tengist ESB. Alcoa er nú eftir því sem ég best veit ekki tengt Evrópu. Heldur er þetta bandarískt fyrirtæki með höfuðstöðvar í Pittburg.
Annars er ég sammála Ómari að öðruleiti. Eins þá má færa að því rök að sala á orku til svo einhæfs iðnaðar sé í raun stórhættulegt. Sem og að þetta dæmi með Landsvirkjun verður að stoppa því þetta fyrirtæki og stefna þeirra að virkjanir borgi sig upp á svo löngum tíma leiðir til svona ástands að fyrirtækið safnar skuldum og hvert hikst á lánamarkaði getur valdið fyrirtækinu verulegum vandræðum. Það verður auðsjáanlega að gera miklu hærri kröfur um arðsemi þannig að fjárfestingar borgi sig hraðar upp.
Magnús Helgi Björgvinsson, 21.7.2009 kl. 09:08
ESB reddar þessu, hættið að hafa áhyggjur.
Björn Heiðdal, 21.7.2009 kl. 09:47
Velkominn í samfylk. Ómar. Þeim er ekki treystandi fyrir náttúru íslands. Ég hef aldrei skilið afhverju þú kaust að renna íslandshreyf. inní þennan hóp. Þú sem elskar nátturu íslands eins mikið og þú gerir. Þetta voru svik í augum þeirra sem kusu ykkur og studdu á sínum tíma.
Jón S. Sigurðsson (IP-tala skráð) 21.7.2009 kl. 10:20
Í tilefni af inngöngu þinni í Samfylkinguna og umsókn þess flokks (og fáeinna skoðanasystkina í öðrum flokkum auk nokkurra tilneyddra Vinstri grænna) um inngöngu í evrópskt stórveldi langar mig að spyrja þig, Ómar, hvort þú lítir EKKI á það sem eins konar landsölu eða fórn okkar landsréttinda.
Í 2. lagi spyr ég: Ertu sammála því, að Katrín Júlíusdóttir telur (í þessari forsíðufrétt Mbl. í dag) "það vel koma til greina að Landsvirkjun útvegi álveri Norðuráls í Helguvík orku"? – Í fréttinni segir (lbr. min): "Norðurál hefur óskað eftir því að Landsvirkjun komi að Helguvíkurverkefninu til að brúa bilið. Raforkan þyrfti að koma úr neðri hluta Þjórsár sem stjórn Landsvirkjunar hefur tekið frá fyrir aðra uppbyggingu en stóriðju á Suður- og Vesturlandi. Þá er í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kveðið á um að engar ákvarðanir verði teknar um virkjanir í neðri hluta Þjórsár fyrr en ný rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða liggur fyrir. Hún á að koma fram í vetur," – en nú virðist Katrín ekkert láta halda aftur af sér að ofurselja þetta fallega land virkjunum. Sættir þú þig við það?
PS. Svo ítreka ég þessa spurningu til þín á næstu vefslóð þinni (um Ísrael) hér á undan.
Jón Valur Jensson, 21.7.2009 kl. 13:26
Íslendingur, ertu að tala hér um hræðslu Sjálfstæðisflokksins við erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi?
"Hvað er að því að útlendingar eignist hluti hér á Íslandi? Hafa Íslenskir fjárfestar staðið sig svona vel í gegn um tíðina?? Þessi hræðsla ykkar við fólk frá öðrum löndum verður að fara að stoppa."
Þorsteinn Briem, 21.7.2009 kl. 13:27
Til að borga IceSave verður líka að virkja gullfoss og geysi. Það er í forsendum seðlabankans. Til hamingju með að vera búin að koma þínu fólki inn í ríkisstjórn!!
kveðja
Jónas Hallgrímsson (IP-tala skráð) 21.7.2009 kl. 14:53
Jónas Hallgrímsson. Elur þú börnin þín upp í svona málflutningi?! Hvernig væri nú að kenna þeim gildi rökræðunnar en kokka ekki endalaust bull ofan í mann og annan?!
Að sjálfsögðu ráða félagar í Íslandshreyfingunni því sjálfir hvaða flokk þeir kjósa. Sumir þeirra hafa kosið Samfylkinguna, aðrir Vinstri græna og enn aðrir Borgarahreyfinguna. Og hugsanlega hafa einhverjir þeirra kosið aðra flokka, skilað auðu eða sleppt því að kjósa.
Í þessu landi er mönnum frjálst að kjósa hvaða stjórnmálaflokk sem er en það hefur greinilega farið fram hjá þér.
Og passaðu þig nú á að detta ekki ofan í Geysi. Kollurinn á þér gæti soðnað geysilega mikið og litið út eins og seytt rúgbrauð. Hollenskt.
Þorsteinn Briem, 21.7.2009 kl. 15:24
SAMM´ALA
Arnar Guðmundsson, 21.7.2009 kl. 16:43
Hver er þessi furðufugl Arnar Guðmundsson? Stöðugt með eins orðs upphrópanir, sem virðast vera meira og minna út í hött.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 21.7.2009 kl. 20:17
Ég játa að með inngöngu Íslandshreyfingarinnar í Samfylkinguna var tekin sú áhætt að ná engum árangri þar. Sem betur fer munaði það atkvæðum okkar, nýinngenginna félaga úr Framtíðarlandinu og skoðanasystkina okkar að komið var naumlega í veg fyrir að samþykkt væri á landsfundi flokksins að Ísland skyldi sækjast eftir öllum undanþágum sem hugsanlegar væru frá alþjóðasamþykktum um útblástur gróðurhúsalofttegunda.
Í greinargerð fyrir tillögunni var hún rökstudd með því að reisa þyrfti eins mörg álver á Íslandi og mögulegt væri.
Í sumum efnum tókst okkur að fá samþykktar ályktanir sem gengu lengra í átt til náttúruverndar en Vinstri grænir hafa lagt fram.
Af þessum sökum varð fullkomur samhljómur milli stjórnarflokkanna um þann kafla stjórnarsáttmálans sem fjallar um umhverfismál.
Ég og margir aðrir hafa ekki breytt um stefnu varðandi álverin í Helguvík og á Bakka og ég hélt að það hefði sést vel í bloggpistlum mínum að ég er andvígur báðum þessum álverum nú sem fyrr.
Ómar Ragnarsson, 21.7.2009 kl. 23:43
Því miður munaði það trúlega atkvæðum ykkar, nýinngenginna félaga úr Framtíðarlandinu og skoðanasystkina ykkar, að Samfylkingin fekk heldur fleiri þingsæti en hún verðskuldaði og að hún hefur síðan notað það vald sitt til að beita því, sem lögfræðingur Útvarps Sögu kallaði á nýliðnum degi "ofbeldi á Alþingi" í Evrópubandalags-umsóknarmálinu. Ertu sáttur við það, Ómar?
Ég spurði þig líka, hvort þú sættir þig við, að Neðri-Þjórsár-svæðið verði ofurselt virkjunum. Ég sé ekkert svar við því hér og bíð líka svars á Ísraels-síðu þinni (sjá hér ofar, kl. 13:26).
Jón Valur Jensson, 22.7.2009 kl. 00:38
Takk fyrir fína samantekt um þessi mál, Ómar.
Það er með ólíkindum að einhverjir Íslendingar með fullu viti trúi því enn að áform Landsvirkjunar og Alcoa hér á landi muni færa okkur auðsæld !
-svona á borð við Icesave...
Hildur Helga Sigurðardóttir, 22.7.2009 kl. 01:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.