16.8.2009 | 01:52
Laugarnesið, dýrmætur staður.
Undanfarna daga hef ég unnið að gerð tónlistarmyndbands um Reykjavík undir heitinu "Reykjavíkurljóð."
Það byrjar svona: "Ljúf stund, safírblá sund / þegar sindraði á jöklinum glóð. / Tvö ein, - aldan við hlein / söng um ástina lofgerðarljóð. / Þau leiddust inn í Laugarnes, - / lögðust þar / ástfangin og rjóð hið fyrsta Reykjavíkurpar / þau Ingólfur og Hallveig. "....
Ljóðið átti að byrja á því að finna stað þar sem fyrsta Reykjavíkurparið hefði getað átt ástarfund við nákvæmlega sömu aðstæður og nú eru og allir hafa þekkt jafn vel í meira en 1100 ár.
Sem sagt: Sami kossinn á sama stað.
Enn einu sinni nutum ég og fleiri þess í dag hve dýrmætur staður Laugarnesið er fyrir borgina okkar því það reyndist vera eini staðurinn sem uppfyllti þessar kröfur. .
Í dag fór ég þangað með ljósmyndara og brúðhjónum, sem urðu að flýja rigningu uppi í Mosfellsdal þar sem upphaflega átti að taka af þeim myndir.
Myndin hér er af brúðhjónunum í brúðarbílnum, þeim Silju Edvardsdóttur og Benjamins Mokry.
Þarna er eitthvert dýrasta byggingarland borgarinnar látið óhreyft í stað þess að þétta byggðina og reisa 20-30 hæða íbúðablokkir eins og gert hefur verið við Skúlagötu.
Slíkar byggingar eru í anda þekktasta íbúa nessins, sem gerði slík íbúðarháhýsi að einu aðalatriðinu í mynd sinni "Reykjavík í nýju ljósi" þótt hann sjálfur búi þarna meira út af fyrir sig en nokkur annar íbúi nessins sem Reykjavík stendur á milli Skerjafjarðar og Kollafjarðar.
Strandlengja nessins er líkast til á annan tug kílómetra að lengd og á norðurströnd nessins er þetta eina vinin sem eftir er.
Hrafn Gunnlaugsson er einhver frjóasti og skemmtilegasti maður sem ég hef kynnst og það hefur verið unun að vinna með þeim manni.
En háhýsablokkir í sunnanverðri borginni sem hann sýndi myndu varpa skuggum á stór svæði fyrir norðan þær.
Háhýsi í Laugarnesi myndu ekki hafa þennan ókost af því að þeim myndi verða raðað meðfram ströndinni og varpa skuggum sínum út fyrir hana.
Ég hygg hins vegar að þrátt fyrir áhuga Hrafns á því að sem flestir borgarbúar búi í slíkum húsum, myndi hvorki honum né mér hugnast að slíkar ofurblokkir risu þar.
Ég hef sjálfur búið um nokkurra ára skeið í háhýsum og átti fyrst heima á tólftu hæð. Mér líkaði það vel. Ég bý nú í blokk og hefði ekkert á móti því að búa í hærra húsi og finnst sjálfsagt að þeir, sem hafa þennan smekk eigi kost á að gera það.
En það eru takmörk fyrir því hve margt fólk kýs að búa á þennan hátt og þess vegna held ég að hugmyndir um að þetta verði kjarninn í vali fólks á bústað sínum muni ekki verða raunhæfar.
Ef hugmyndir um þéttingu byggðar með ítrustu hagkvæmni yrðu einráðar yrði Laugarnesinu, síðasta svæðinu í Reykjavík sem tengir saman ósnortið saman allar kynslóðir sem búið Reykjavík frá Landnámi, notað undir háhýsi.
Það vona ég að verði aldrei. Við hljótum að hafa efni á að skilja eitt svona svæði eftir þegar við byggjum upp borgina okkar svo að koss, sem þar var veittur árið 874, verði endurtekinn öld fram af öld á sama stað með sama útsýni.
Kossinn endurtekinn | |
Tenging við þessa frétt hefur verið rofin vegna kvartana. |
Athugasemdir
Mér finnst þú leggja Hrafni Gunnlaugssyni orð í munn, þegar þú segir:
"...og reisa 20-30 hæða íbúðablokkir í anda þekktasta íbúa nessins, sem vill að við eigum heima í slíkum háhýsum ."
Er þér ekkert heilagt Ómar, í viðleitni þinni til þess að afla fylgis við náttúruvernd?
Í mínum huga, er ekki sama náttúruvernd og náttúruvernd.
Gunnar Th. Gunnarsson, 16.8.2009 kl. 03:32
Sástu ekki myndina sem hann gerði, "Reykjavík í nýju ljósi?" Aðalatriðið í henni voru stóru háhýsa-íbúðablokkirnar sem hann vildi láta vera kjarna byggðarinnar þar sem nú er Háskóli Reykjavíkur og útivistarsvæðið inn af Nauthólsvík.
Ég ítreka að mér finnst gott að eiga heima ofarlega í háhýsi með góðu útsýni en mér dettur ekki í hug að allir hafi þann smekk eða nógu margir til þess að slíkt magn af slíkri byggð sé hægt að reisa í Reykjavík.
Í lýðræðisþjóðfélagi eru það grundvallarréttindi að fólk geti búið í því umhverfi sem það kýs sér.
Ómar Ragnarsson, 16.8.2009 kl. 07:55
Ég tek undir með þér að Hrafn er skemmtilegur persónuleiki, þó svo að ég sé ekki sammála honum með háhýsabyggð. Mér finnst einmitt það vera svo sérstakt við Reykjavík sem höfuðborg, vera öll lágreistu húsin með litafögru þökin. Það er nóg til að ljótum himnakljúfum um allan heim. Þar fyrir utan er sólin svo lágt á lofti hér á landi að svona þéttbyggð háhýsa myndi byrgja fyrir sólina. Við höfum ekki það marga sólardaga að við þurfum að vera að loka fyrir hana með háhýsum og búa til ekta skuggahverfi.
Myndin hjá þér er falleg og ég vona að við fáum notið þessa útsýnis um ókomna framtíð.
kveðja Rafn.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 16.8.2009 kl. 08:52
Jú, ég sá mynd Hrafns og fannst margar hugmyndir hans áhugaverðar.
Gunnar Th. Gunnarsson, 16.8.2009 kl. 10:46
Er þetta bifreið sem er í þinni eigu Ómar? Það getur þá ekki verið að þú eigir minnsta brúðarbílinn á Íslandi:)
S. Lúther Gestsson, 16.8.2009 kl. 11:08
Góð grein hjá þér Ómar.
Laugarnesið er perla sem við eigum að varðveita. Nú í sumar hefur verið fjöldi manna á hverju kvöldi að njóta útsýnisins og kvöldsólarinnar, eini staðurinn í miðri borg sem er ósnortinn. Sem betur fer missti Laugarnesið af 2007 uppbyggingunni, og vonandi að Glitnislóðin, gamla SVR lóðin verði ekki afskræmd með háýsum eins og til stendur. Það er tími til kominn að huga að Laugarnesinu og helst gera ekki neittt nema þá varðveita það.
Andrea (IP-tala skráð) 16.8.2009 kl. 13:29
Ég var einmitt í Laugarnesinu í gær einu sinni sem oftar á fallegum degi. Ég man ekki hvað Hrafn Gunnlaugsson sagði um háhýsi en hann hefur verið duglegur að koma með ahugasemdir við skipulagsmál sem hafa skapað umræður.
Það er mjög persónulegt í kringum íbúðarhús Hrafn Gunnlaugssonar ... flott ... en hann tekur þarna á nesinu of mikið útsýni frá almenningi með gróðrinum sem er alltof hár og hólum og hæðum. Svipað á við um nágranna hans sem eru með há tré sem skyggja á útsýnið. Ég hélt að Laugarnestanginn væri friðaður!?
Jónína Óskarsdóttir, 16.8.2009 kl. 14:06
Ég gæti nú trúað það megi ekki byggja þarna vegna fornra minja, og er það vel. Áhugafólki um Laugarnesið er bent á að kynna sér þessa merku skýrslu um fornleifaskráningu á svæðinu:
http://www.minjasafnreykjavikur.is/english/skyrslur/skyrsla_103.pdf
Magnús Axelsson, 16.8.2009 kl. 14:16
"Ljóðið átti að byrja á því að finna stað þar sem fyrsta Reykjavíkurparið hefði getað átt ástarfund við nákvæmlega sömu aðstæður og nú eru og allir hafa þekkt jafn vel í meira en 1100 ár. "
Frábær pæling Ómar. Mjög skemmtilegt!
Sigurður Viktor Úlfarsson, 16.8.2009 kl. 14:36
Omar.
Thu ert allra manna frodastur um fjoll og landslag a Islandi, svo eg er viss um ad thu veist svarid.
A bloggsidu hja prestinum a Akureyri i dag, svavaralfred.blog.is, er mynd tekin fra Laugarvatni med fjall i baksyn sem hann bidur folk um ad segja ser nafn a. Kannski mundir thu vilja hjalpa honum.
Bestu thakkir og
Kvedja fra Florida
Islendingur (IP-tala skráð) 16.8.2009 kl. 20:00
Það er rétt hjá þér, S. Lúther, að bíllinn sá arna er minnsti brúðarbíll á Íslandi með númerið ÁST sem sést betur, svo og umhverfið, ef smellt er í tveimur áföngum á myndina.
Ómar Ragnarsson, 16.8.2009 kl. 20:57
Bjó sjálfur við Laugarnesveginn sem strákur (1957 - 61) og hef alltaf heimsótt æskuslóðirnar, þegar ég er á Íslandi (bý í Noregi). Vona bara, að ekki verði eyðilagt meira en gert hefur verið. Íslendingar ættu fyrst að beita sér fyrir því, að klára það sem byrjað er á....og svo læra aðeins og ekki eyðileggja meira...
Snæbjörn Björnsson Birnir, 16.8.2009 kl. 22:58
Þakka þér kærlega fyrir Ómar
Ég er sammála þér um að Laugarnesið er dýrmætur staður. Ég leyfi mér að láta fylgja hugleiðingar mínar um Laugarnesið og aðkomu Hrafns Gunnlaugssonar að þeirri náttúruperlu sem það er.
Virðum LaugarnesiðÉg er uppalin í Laugarnesinu, fædd í gamla Laugarnesbænum sem nú heyrir sögunni til en eftir stendur Laugarneshóllinn. Hann stendur hátt í landslaginu og á sér merkilega sögu því þar er eitt af elstu bæjarstæðum á Íslandi.Perla í borgarlandslagi
Laugarnesið hefur að geyma mikinn sannleik um sögu og náttúru og er í eðli sínu er flatt og grösugt með stórstraumsfjöru. Enn mótar fyrir sléttuðum túnflákum og í móanum má finna upprunalegan gróður. Á Laugarneshólnum er gamall kirkjugarður og sagan hermir að Hallgerður langbrók, sem þekkt er úr Njálu, sé jörðuð í Laugarnesi. Í fjörunni er Norðurkotsvör sem á sér mikla sögu. Á túninu eru tóttir kotbæja og garða. Fuglalífið er einstakt og fjaran geymir dularfullan heim þess smáa í dýraríkinu. Að mínu mati eru þetta perlur í borgarlandslaginu sem þarf að hlúa að. Í fjörunni er gott að setjast á stein, anda að sér sjávarloftinu, fylgjast með fuglum, hlusta á öldugjálfrið, hugsa.
Náttúruspjöll Allt mun þetta hverfa eins og húsið á hólnum ef einn maður fær ráðið, sem um nokkurt skeið hefur hreiðrað um sig á Laugarnestanganum, umkrýndur aðfluttu stórgrýti, moldarhaugum, leikmunum, risahvönn, sem meiðir og brennur, innfluttum njóla, tilbúnum tjörnum með fuglaómegð, gæsum, sem ekkert eiga skylt við náttúrufarið á nesinu, frekar en annað það sem hann hefur týnt í laupinn sinn með aðstoð stórvirkra vinnuvéla í trássi við deiliskipulag sem liggur fyrir.
Leikur í Laugarnesinu
Mér þykir óendanlega vænt um Laugarnesið, þar var lagður grunnur að því sem ég er og stend fyrir sem náttúruunnandi og listamaður. Borgarbörn þekkja sum hver ekki hvernig það er að leika sér í fjöru, vaða, veiða, velta steinum og uppgötva lífið sem þá blasir við. Hlaupa berfætt í grasinu, lesa blómin í móanum, fuglana, velta sér niður hól og renna sér á rassinum. Skoða söguna í landslaginu. Allt þetta og miklu meira gætum við gert í Laugarnesinu með börnunum okkar og barnabörnum í nútíð og framtíð ef menn virtu lög, reglur og náttúru.
Þuríður Sigurðardóttir
Þuríður Sigurðardóttir, 17.8.2009 kl. 11:35
Ég er alveg sammála því að ekki ætti að byggja frekar á nesinu en það mætti nú samt alveg snyrta til á því. En þá æpir einhver í vistkvíðakasti, að að ekki megi hrófla við neinu, allt eigi að vera svo ósnortið.
Í fyrsta lagi er Laugarnesið ekki ósnortið og þar hefur verið jarðrask með reglulegu millibili í aldanna rás. Túnin sem Þuríður minnist hér á, myndu fáir bændur kalla tún.
Ég mæli með því að hafin verði samkeppni meðal landslagsarkitekta um að hanna Laugarnesið með tilliti til útivistar. Mér finnst að umhverfið við hús Hrafns Gunnlaugssonar, mætti alveg taka breytingum. Ég vona að Hrafn taki slíkum fyrirætlunum með opnum og víðsýnum huga.
Gunnar Th. Gunnarsson, 18.8.2009 kl. 08:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.