Er þetta rétta leiðin ?

Hjá mörgum hafa mikil sárindi og reiði hafa fylgt hruninu mikla. Ég trúi þó ekki öðru en að við viljum búa í réttarríki. Þar verður að hafa í huga nokkur höfuðatriði:

1. Allir séu jafnir fyrir lögunum.

2. Öll mál rannsökuð sem nauðsynlegt er að skoða til að allt komi fram.

3. Ekkert dregið undan þessum rannsóknum og þær hafðar nógu öflugar.

4. Allir skuli teljast sýknir saka, nema sekt þeirra sé sönnuð.

5. Sanngjarnir og réttlátir dómsúrskurðir kveðnir upp þar sem það á við. 

Skemmdarverkaherferðin sem nú stendur stenst ekki þessar kröfur.

1. Hvernig geta þeir, sem fyrir henni standa, sagt að allir séu jafnir gagnvart aðgerðunum, Hvar draga þeir línuna milli þeirra sem þeir beita sér gegn og hinna sem þeir láta í friði?

2. Augljóst er að skemmdarverkafólkið hefur enga aðstöðu til að rannsaka þau öll mál að neinu marki sem það telur ástæðu til þess að beitt sé hefndar- eða refsiaðgerðum. Hvernig er þá hægt að velja þá úr sem eiga það skilið að verða fyrir skemmdarverkum ? 

3. Ekki liggur tæmandi listi yfir þá sem hugsanlega eigi það skilið að fá yfir sig skemmdarverk.

4. Þetta atriði, að allir skuli teljast sýknir saka, nema sekt þeirra sé sönnuð fyrir dómi, er þverbrotið í aðgerðunum, sem nú standa yfir.

5. Eru það sanngjarnar og réttlátar aðgerðir sem beinast að heimilum manna og bitna á börnum og aðstandendum hjá sumum en síður hjá öðrum ?

Þegar farið er gegnum ofangreind atriði verður niðurstaðan sú, að rétt sé að huga að aðgerðum af öðrum toga til þess að láta í ljós sárindi og reiði.

Frægasta skemmdarverk í íslenskri mótmælasögu er það þegar hópur manna sprengdi upp litla stíflu Landsvirkjunar í Miðkvísl við Mývatn.

Fyrir lá að Landsvirkjun vildi sökkva Laxárdal undir miðlunarlón með óheyrilegum umhverfisskemmdum.

Andófsmenn gegn þessu höfðu beitt hefðbundnum mótmælaaðgerðum án nokkurs árangurs.

Þeir ákváðu að í stað þess að vinna skemmdir á eigum þeirra sem stóðu að fyrirætlununum um að drekkja Laxárdal, yrði hin litla stífla, sem var í almanna eigu og fjarri heimilum, fjölskyldum og eigum hinna ábyrgu, fyrir valinu. 

Þessi aðgerð var og verður umdeild en munurinn á eðli hennar og núverandi skemmdarverkum er ljós.  

 

 


mbl.is Málningu úðað yfir bíl Björgólfs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einhver Ágúst


Munurinn er einsog þú færir sterklega rök fyrir að þú ert semsagt ekki samþykkur þessum aðgerðum, þannig að einsog með laxárvirkjun eru menn ýmist með eða á móti.

Hummer eða virkjun hafa vonandi álíka lítið tilfinningalegt gildi, ef Hummerinn hefur meira gildi þá tel ég þessar aðgerðir afar viðeigandi, allavegann svo lengi sem börnin eru hvergi nærri.

Vissulega hefur þessi hópur eða allavegann menn honum tengdir haldið uppi hefðbundnum mótmælum hér í áraraðir án nokkur einasta árangurs, trúðar voru teknir af hörku á Snorrabraut, Saving Iceland handteknir trekk í trekk á kárahnjúkum og það allra ljótasta þegar meðlimir Falun Gong voru handteknir auk þess að erlendum meðlimum var ekki hleypt inní landið af yfirvöldum.

Vissulega er eini gildi punkturinn þinn Ómar að erfitt er að drag þessa línu hverjir og hverjir ekki skulu verða fyrir barðinu á þessum aðgerðum og svo lengi sem engum er sköpuð bráð hætta af þá er þetta nú varla svo hættulegt, það eru verii glæpir í þjóðfélaginu að berjast við en slettur.

Það má nú segja að það hafi slettst duglega á mig og þig í bægslaganginum í þessum vitleysingjum sem við fólum stjórn þessa lands í stjórnmálalegum og fjárm´lalegum skilningi.

En ss þú ert á móti þessum aðgerðum, það er meðtekið en ég er samt að mestu leyti að fíla þessar aðgerðir.

Hlakkar til að sjá það í mínu lífi að það yrði A1 útkall ef það sletti einhver lituðu skyri á mig eða mitt hús.

Hafðu það gott Ómar minn og áfram Fram, mikið gegnur vel þessa dagana.

Einhver Ágúst, 23.8.2009 kl. 13:07

2 identicon

Auðvitað er þetta ekki rétta leiðin - en kemur þetta þér á óvart?

Guðgeir (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 13:08

3 identicon

1. Allir séu jafnir fyrir lögunum.

Trúir almenningur því ? Trúir þú því ?

2. Öll mál rannsökuð sem nauðsynlegt er að skoða til að allt komi fram.

Bjarni Harðarson, þá innanbúðarmaður hjá Framsókn og alþingismaður, sagði: Um áramótin var ráðandi tónn í hrunflokkunum þremur og það væri ósiðlegt að stunda nornaveiðar (eða manngera vandann). Fellur það innan þessa liðar ?

3. Ekkert dregið undan þessum rannsóknum og þær hafðar nógu öflugar.

Hvað er búið að setja marga í gærluvarðhald ? Hvað er búið að frysta eigur margra ? Hvert heldur þú að rannsókn á hlut stjórnvalda muni leiða ?

4. Allir skuli teljast sýknir saka, nema sekt þeirra sé sönnuð.

Nema þeir geti keypt lögfræðigaskara landsins til að leita að lagatæknilegum smáatriðum sem leiða til sýknunar.

5. Sanngjarnir og réttlátir dómsúrskurðir kveðnir upp þar sem það á við.

Eins og í Baugsmálinu ?

Persónulega er ég hræddur um að ef ekki nyti almennings með blogg og málningu auk frjálsa fjölmiðilsins (í eintölu) Egils Helgasonar og afraksturs hans þ.e. Evu Jolie, væri ekki verið að rannsaka eitt né neitt.

Réttlæti skrílsins er líklega betra en réttlæti ráðandi stétta í þessu máli.

Magnús (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 13:09

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Algerlega sammála þér; Magnús, um að alltof illa og seint hafi verið staðið að því að kafa ofan í, upplýsa og hreinsa út það sem aflaga fór.

En séu í gangi reiði og sárindi gagnvart slælegri frammstöðu íslensks dómskerfis og ráðamanna, kemur þá ekki að því að farið verði út í skemmdarverk gagnvart einstaklingum, sem vinna í þessu kerfi?

Hvar ætla menn að draga mörkin í þessu efni ? Hver á að stjórna því hve langt er gengið og hvað getur sá aðili haft í höndunum til þess að tryggja réttlátan árangur ?

Ómar Ragnarsson, 23.8.2009 kl. 13:23

5 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Sammála þér Ómar, dómstóll götunnar hefur enga aðstöðu, getu eða hreinlega vilja til að kanna og rannsaka mál þannig að þau séu dómtæk. Mín skoðun nánar hér.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 23.8.2009 kl. 13:26

6 identicon

Auðvitað geta skrílslætin, þegar verst lætur, leitt til skelfilegrar niðurstöðu. En án skrílslátanna verður niðurstaðan líka skelfileg.

Áhrif skrílsins geta, þegar best lætur, neytt ráðandi öfl til að bregðast við. Áhrif skrílsins losuðu okkur við hrunríkisstjórnina. Ef skríllinn væri ekki að ýta væri ekki verið að rannsaka í neinni alvöru. Án skílslátanna stefndi ekki í uppgjör.

Án uppgjörs verður engin sátt í samfélaginu. Án sáttar horfir þjóðin bara í baksýnisspegilinn. Þá verða engar framfarir. (Sjáðu bara hvað frændþjóðir okkar gengu langt í lok stríðsins)

Magnús (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 13:42

7 identicon

"Allir séu jafnir fyrir lögunum."

Í hvaða draumaheimi býrðu þú maður? opnaður augun.

Óli (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 13:56

8 identicon

Finnst þér Ómar vera eittvað jafnrétti ríkjandi nú,ef svo er bentu mér vinsamlegast á það.

magnús steinar (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 14:05

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

"Í hvaða draumaheimi býrð þú'" er spurt. "Ég á mér draum" sagði Martin Lúter King.

Búsáhaldabyltingin bar meiri hárangur en flest annað síðastliðinn vetur. Hún var háð á réttum stað, fyrir utan dyr Alþingis og þegar "skrílslætin" fóru yfir strikið voru það mótmælendur sjálfir sem komu lögreglunni til varnar.

Vissulega skortir á jafnrétti en spurning er hvort það þjónar tilganginum í að ná fram jafnrétti að beita aðferðum sem tryggja hvergi nærri jafnrétti meðal einstaklinganna og fjölskyldnanna sem í hlut eiga.

Ómar Ragnarsson, 23.8.2009 kl. 14:33

10 identicon

Hvaða árangur bar búsáhaldabyltingin?

magnús steinar (IP-tala skráð) 23.8.2009 kl. 17:22

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég sótti nær alla útifundi búsáhaldabyltingarinnarinnar og þar voru hrópaðar eftirfarandi kröfur: Burt með ríkisstjórnina, burt með Seðlabankastjórnina og burt með stjórn Fjármálaeftirlitsins.

Kannski hefði allt þetta gerst hvort eð var en svona var þetta samt.

Ómar Ragnarsson, 23.8.2009 kl. 19:10

12 Smámynd: Þorsteinn Hilmarsson

Ómar,

Landsvirkjun kom hvergi nærri Laxárdeilunni.  Það er alrangt að Landvirkjunar hafii haft  eitthvað með áform um að sökkva Laxárdal að gera.  Fyrirtækið Laxárvirkjun var fyrst sameinað Landsvirkjun um 1982 ef ég man rétt - eða  um áratug eftrir þá atburði sem þú lýsir.

Þorsteinn Hilmarsson, 23.8.2009 kl. 19:30

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Rétt skal vera rétt, Þorsteinn, og ég biðst afsökunar á þessu mishermi mínu. Það hefur líklegast ruglaði mig í þessu rími að Landsvirkjun var seinna sameinuð Laxárvirkjun og Landsvirkjun kom reyndar fyrir nokkrum árum fram með nýjar áætlanir um að gera lítið miðlunarlón fyrir ofan Laxárstíflu.

Laxárvirkjunarmenn og Landsvirkjunarmenn voru tvö höfuð á sama virkjanaþursinum.

Um 1970 voru þeir sem vildu virkjanir á borð við þær sem drekktu Þjórsárverum og Laxárdal skoðanabræður í nokkurs konar samfylkingu virkjanasinna norðan og sunnan fjalla.

Aðal hugmyndasmiður þessara skoðanabræðra var og er Jakob Björnsson, sem lengi gegndi embætti orkumálastjóra.

Núna hefur Landsvirkjun tekið við keflinu af Laxárvirkjun hvað snertir virkjanahugmyndir á þessu svæði sem í sumum atriðum eru ekki síður magnaðar og en hugmyndirnar um Gljúfurversvirkjun voru á sínum tíma.

Ómar Ragnarsson, 23.8.2009 kl. 19:55

14 Smámynd: Einhver Ágúst

Ok allt í lagi, segjum það Ómar. En hvað vill Ómar Ragnarsson gera?

Einhver Ágúst, 23.8.2009 kl. 21:35

15 Smámynd: Alli

Það er bara einn galli við þetta, Ómar.

Það eru bara ekki allir jafnir fyrir lögum.

Tökum bara dæmið um Jón Ásgeir og co.  Allir þeir sem EKKI hafa tugi eða hundruð milljóna úr að moða í lögfræðikostnað hefðu verið dæmdir sekir í miklu fleiri liðum ákærunnar en Jón Ásgeir var dæmdur.  Hann hafði bara efni á, í krafti auðæfa "sinna" að flækja málið og tefja.  Svo minnir mig að hann hafi EKKI verið dæmdur saklaus, heldur hafi ekki tekist að sanna, án nokkurns vafa, að hann hafi framið þau brot sem á hann voru borin.

Það væri hins vegar gaman ef einhver tæki sig til og kannaði hver hafi greitt lögfræðikostnaðinn, Var það Jón Ásgeir, almenningshlutafélagið Bónus eða Baugur eða Gaumur eða hvað þau heita nú öll þessi félög í Bónus-flækjunni.  Eða var það kannske eitthavð félag á Tortóla.   Skoðið þetta, blaðamenn.

Eða er eignarhald á fjölmiðlum að skila sér í því að þetta verður ekki skoðað?

Alli, 24.8.2009 kl. 10:44

16 identicon

Vissulega var Franska byltingin heldur ekki sérstaklega lögleg, og gekk annan veg í rauðum lit heldur en með málningu. Það bara fer stundum svona þegar valdhafar, hvort heldur þeir eru víkingar, bankarar, pólítíkusar eða blanda af öllu, fjarlægjast þjóð sína eins og gerðist hér svona illilega. Vonum bara að þeir haldi sig við málningarvinnu og gangi ekki lengra. Þetta er sem betur fer tiltölulega meinlaust eins og er.

Nefnd var stíflubomban gamla, og kom fram sú skoðun (sem ég hygg að sé flestra í dag) að hún hefði í raun komið í veg fyrir spjöll. Það gerir hana að sjálfsögðu öðruvísi heldur en þessar aðgerðir, en eru þó ef til vill tvær hliðará þeim skildingi, þar sem að sá vandalismi sem er þar í gangi heldur ákveðnum hlutum föstum í sviðsljósinu svo að ekki verður sloppið undan.

Enn eitt skemmdarverkið var unnið nýverið uppi á Rangárvöllum á erfðarbreyttum akri. Sagan mun sjálfsagt hafa sinn dóm þar líkt og með stíflubombuna.

Jón Logi (IP-tala skráð) 26.8.2009 kl. 13:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband