Gróin íslensk hefð.

Í sumar hef ég þurft að svara spurningum erlendra fjölmiðlamanna varðandi það séríslenska fyrirbæri að virkjanir séu forsenda þess að hægt sé að stofna þjóðgarða og varðveita náttúruundur.

Útlendingarnir hafa átt erfitt með að skilja það af hverju ekki hefur verið hægt að friða einstæð náttúruundur og skapa að þeim aðgengi eins og gert er á sambærilegum svæðum erlendis.

Erlendis er þetta oft gert í samræmi við áætlun fram í tímann vegna þess að þetta borgar sig til lengri tíma litið vegna tekna af ferðaþjónustu og álitsauka. Aukið álit og viðskiptavild væri hægt að reikna í miklu hærri fjárhæðum en hefði fengist með virkjunum. 

Svar mitt hefur verið einfalt: 

1. Það er þúsund ára hefð fyrir því á Íslandi að til þess að lifa af verði ævinlega að stökkva tafarlaust til og veiða fiskinn, þegar gefur, eða ná inn heyinu um leið og þurrkurinn kemur. Bandaríska máltækið "take the money and run" er miklu meira íslenskt en bandarískt. 

Þetta kom berlega í ljós í þenslu "gróðærisins". Fólk sá lánsfé og tók eins mikið af því og það gat, oft langt umfram þarfir eða getu til að borga. Aðrar þjóðir hefðu notað góðæri til að borga upp skuldir. Íslendingar notuðu það til að fjórfalda skuldir sínar. 

2. Það er tæplega hálfrar aldar hefð fyrir því að þetta gildi um virkjanir. Um leið og ákveðið er að virkja koma jarðýtur, vörubílar og stórvirkar vinnuvélar, samgöngur, aðgengi og fjarskipti. Annars kemur ekkert af þessu. Engu skiptir þótt vinnuvélarnar staldri aðeins við í nokkur ár og við taki samdráttur eins og gerðist á áhrifasvæði Blönduvirkjunar á sínum tíma. "Take the money and run!"

Þegar þetta hefur gerst nógu oft verður það að hefð sem ekkert getur stöðvað, burtséð frá því hvort nokkurt vit sé í þessu til lengri tíma litið.  

Þýsk sjónvarpskona undraðist þar sem við vorum stödd inni við Brúarjökul, að þar skyldi vera gott GSM símasamband svo fjarri sem við vorum stödd öllum mannvirkjum.

Ég útskýrði að þetta væri dæmi um íslensku hefðina. Þarna myndi ekki hafa komið GSM samband nema vegna þess að virkjað var.

Smám saman fara jafnt opinber sem frjáls fyrirtæki að hegða sér í samræmi við þetta. Símafyrirtæki bíður með að koma á GSM-sambandi, til dæmis við Þjórsá, þangað til virkjað er. Vegagerðin bíður með vegaframkvæmdir og notar peningana annars staðar. 

Sveitarstjórnarmenn vita að með virkjunum koma aukatekjur.

Ég sagði þýsku sjónvarpskonuni frá því sem dæmi um það hve sterk þessi viðbrögð Íslendinga væru að daginn sem undirritað var samkomulag um Kárahnjúkavirkjun hófst mikil þensla, ári áður en framkvæmdir fóru af stað, og að sérfræðingur í Seðlabankanum hefði fundið út að 80% þenslunnar stöfuðu af auknum yfirdráttarlánum út á komandi þenslu.

Ef nógu oft er sagt orðið "kjöt" við hundinn áður en hent er í hann bita, fer hann að slefa af tilhlökkun í hvert skipti sem orðið er nefnt, jafnvel þótt hann fái aðeins leifar eða jafnvel smá brot úr beinum en verði af stóru steikinni. Hann slefar jafnvel í þau skipti þegar hann fær ekki neitt. 

Landsvirkjun setti upp stór skilti við aðkeyrslur inn á hálendið þar sem fullyrt var að Kárahnjúkavirkjun væri forsenda fyrir stofnun þjóðgarðs norðan Vatnajökuls. Við þá 25 þjóðgarða og friðuðu svæði sem ég skoðaði vegna myndarinnar "Á meðan land byggist" sá ég enga hliðstæðu þessa. 

Menn áttu hugsanlega að falla á kné fyrir framan þessi skilti og þakka LV fyrir þetta. Við Kárahnjúka falla menn nú á kné og þakka Landsvirkjun fyrir að hafa opnað aðgengi að fallegri náttúru í kringum Hálslón.

Það sem eftir er þarna af náttúruundrum samsvarar því að drepið hafi verið fallegt dýr og það fallegasta af því eyðilagt og tekið í burtu en skildir eftir nokkrir hlutar af skrokknum, afturhluti, kjálki og fætur.

Fyrrgreind hefð varðandi virkjanir myndi eiga aldar afmæli ef Gullfoss hefði verið virkjaður um 1920. Með Gullfossvirkjun hefði komið gott vegasamband með bundnu slitlagi frá Reykjavík austur að Gullfossi í stað þess að það dróst í 80 ár.  

 

 


mbl.is „Ekkert óeðlilegt við greiðslur LV“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hafðu þökk fyrir góðan pistil Ómar.

Á Íslandi síðustu aldar hefði þessi gjörningur LV verið kallaður einfaldlega 'mútur'.

Ætli nútíminn hafi ekki skapað þannig umgjörð að hægt sé að kalla þetta 'viðskiptavild'.

"Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá."

Guðgeir (IP-tala skráð) 3.9.2009 kl. 22:17

2 identicon

Virkilega góður og nauðsynlegur pistill. Las hann fyrir nokkrum dögum og var spenntur að sjá hver viðbrögðin yrðu. Fólk er greinilega of upptekið við eitthvað allt annað í augnablikinu. Sem þýðir líka að fólk er búið að missa sjónar á því sem er mikilvægt í okkar heimi (eða hefur ennþá ekki hugmynd).

Valgeir (IP-tala skráð) 7.9.2009 kl. 12:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband