3.9.2009 | 23:27
Hellisbúarnir í umferðinni.
Lýsingin úr Hellisbúanum á körlunum, sem geta ekki hugsað nema um eitt í einu, virðist í fullu gildi fyrir bæði kynin í umferðinni hér á landi. Auk þess virðast íslensku umferðarhellisbúarnir ekki getað hugsað nema eina sekúndu í einu.
Tökum beygjuljósin sem dæmi.
Þegar sú framför var innleidd í umferðaljósum á Íslandi að búa til sérstök beygjuljós kom eðli eða réttara sagt óeðli íslenskrar umferðarmenningar / - ómenningar glöggt í ljós.
Erlendur sérfræðingur stjórnaði uppsetningu ljósanna upp en Íslendingarnir fórnuðu höndum þegar þeir sáu hvað hann ætlaði ljósunum að loga stuttan tíma í einu. Íslendingarnir fullyrtu að aðeins tveir bílar kæmust yfir á ljósinu í hvert sinn, en sérfræðíngurinn sagði, að alls staðar erlendis kæmust að meðaltali sjö bílar yfir.
Íslendingarnir reyndust hafa rétt fyrir sér og lengja þurfti tímann. Útlendingurinn átti ekki orð, hafði hvergi kynnst öðru eins.
Hér á síðunni eru nokkrar myndir teknar á beygjuljósum.
Efstu myndirnar tvær eru teknar á beygjuljósum af Kringlumýrarbraut til vinstri yfir á Háaleitisbraut upp í Skipholt.
Gefum okkur að við ætlum að beygja til vinstri þegar græna örin kviknar. En það er oft hægara sagt en gert.
Á efstu myndinni sést að enda þótt beygjuljósið logi glatt gerist ekkert, - bílstjórinn í fremsta bílnum er annað hvort steinsofandi eða hugsar sem svo að það skipti hann sjálfan engu máli þótt hann verði kannski eini bíllinn sem kemst yfir á grænu. Skítt með þá sem eru fyrir aftan hann.
Á næstu mynd, sem er tekin við annað tækifæri, sést, að bílarnir sem koma síðast þvert fyrir til að beygja frá Háaleitisbraut til suðurs yfir á Kringlumýrarbraut fara oftar en ekki yfir á rauðu ljósi og koma þannig í veg fyrir að við getum tekið okkar beygju á grænu til vinstri.
Hvíti sendibíllinn, ásamt að minnsta kosti einum bíl á undan honum, var á hvínandi rauðu ljósi þegar hann fór yfir og enn hefur enginn komist af stað fyrir framan okkur þótt beygjuljósið sé búið að loga drjúga stund.
Ég get ég nefnt sem dæmi um sofandaháttinn að ég hef oft séð vera allt að 20-30 metra langt bil á milli bíla á beygjuljósinu í Engidal frá Reykjavíkurvegi yfir á Reykjanesbraut á háannatíma þegar bílaröðin fyrir aftan sofandi hellisbúana getur verið orðin mörg hundruð metra löng.
Hver bílstjóri um sig virðist ekki getað hugsað nema um eitt í einu, - það er, að hann sjálfur hafi nú loksins fengið grænt ljós en engu skipti hvað verður um hina sem aka á eftir honum, þeir megi vel bíða þar til honum þóknast að drattast af stað.
Hann getur ekki heldur hugsað nema um nokkrar sekúndur í einu, - annars myndi hann hafa í huga að næsta dag verður hann kannski fyrir barðinu á bílstjórum sem þá verða fyrir framan hann og drattast ekki af stað.
Neðri tvær myndirnar eru af gatnamótum Grensásvegar og Fellsmúla. Við ætlum að beygja til vinstri af Grensásvegi upp Fellsmúla.
Meðan ég beið þarna aftarlega í röðinni í dag gerðist það að aðeins einn bíll, - segi og skrifa einn bíll komst yfir á grænu ljósi.
Ástæðan var margþætt.
Þótt góðar glufur mynduðust í umferðinni á móti og vel hægt að skutlast yfir, voru bílstjórarnir eins og steinsofandi yfir þessu. Kannski líka hræddir við íslenska fyrirbærið sem felst í því að ef bílstjórarnir, sem koma á móti, sjá bíl fara í gegn, gefa þeir jafnvel í og flauta til þess að mótmæla þessu eða jafnvel að koma í veg fyrir það.
Þegar öll halarófan hafði síðan beðið eftir því að fremsti bílstjórinn vaknaði, dugði það ekki til, því að bílarnir sem komu frá hægri og óku þvert fyrir, fóru nógu margir yfir á rauðu ljósi til þess að aðeins einn bíll, einn bíll í einu, komst á grænu ljósi frá Grensásvegi yfir í Fellsmúla.
Ég náði raunar ekki mynd af þessu en hins vegar mynd af því þegar aðeins tveir bílar komast yfir skömmu siðar.
Myndirnar sýna líka sofandaháttinn hvað snertir hið langa bil milli bíla sem erlendi sérfræðingurinn, sem minnst var á í upphafi þessa bloggpistlls var svo undrandi á.
Á þessum stað er ekki hægt að ná myndum frá þessu sjónarhorni nema vera á háum bíl.
Ástæðan er grindverk sem nauðsynlegt hefur verið að setja upp á umferðareyjunni til að koma í veg fyrir að gangandi vegfarandur (íslenskir hellisbúar) hætti lífi sínu og hlaupi þar yfir til að stytta sér leið um nokkrar metra.
Þessar girðingar sem eru víða í borginni, byrgja víða útsýn eins og ég hef áður sýnt hér á bloggsíðu minni og hafa reynst slysagildrur.
Bitur reynsla og slysatölurnar hafa því miður sýnt að hellisbúarnir í umferðinni okkar geta ekki hugsað nema um eitt í einu og ekki nema eina sekúndu í einu- þangað til allt í einu...
Athugasemdir
Ég hef stundum undrast í umferð erlendis hvað allt gengur lipurlega fyrir sig. Sama hvort er í Bandaríkjunum eða nágrannaríkjum í Evrópu. Þegar grænt ljós kviknar leggja allir af stað á sama tíma. Nema á Íslandi. Hér bíða flestir eftir að næsti bíll sé lagður af stað áður en sett er í gír. Menn hiksta í rólegheitum af stað hver á eftir öðrum þegar næsti bíll á undan hefur augljóslega farið af stað.
Sama sagan er með vinstri akrein. Erlendis er hún nánast hrein nema fyrir þá sem eru að flýta sér. Hérlendis er hún stífluð af gömlum mönnum með hatt sem dóla sér jafn hægt og þeir sem eru á hægri akrein.
Jens Guð, 4.9.2009 kl. 00:09
Rétt hjá þér, Ómar. Að venju.
Á umræddum beygjuljósum á Grensásvegi beið í ég í gær í 4 x ljós, áður en ég komst upp í Fellsmúla. Aldrei fóru fleiri en 2 x bílar yfir á hverjum beygjuljósum, stundum einn. En ástæðan var ekki síst að bílaröðin á móti, upp Grensásveginn, náði alltaf yfir gatnamótin og ENGINN gaf sjens.
Þegar Trausti bílkennari á Háaleitisbrautinni var að kenna mér, á öldinni sem leið, sagði hann tvennt við mig sem hefur alla tíð síðan komið sér afar vel.
1) ALLTAF að hreinsa gatnamótin, ekki hugsa of mikið um litinn á ljósinu, en passa að vera ekki strand og fyrir öllum hinum.
2) Þegar skipta þarf um akrein á að BYRJA á því að setja stefnuljósið á, síðan að líta um öxl og SVO að skipta.
Þessi trix þyrftu hellisbúarnir að kynna sér....
Lana Kolbrún Eddudóttir, 4.9.2009 kl. 01:29
Einsog talað úr mínu hjarta! - fátt fór meira í taugarnar á mér í íslenskri umferð en einmitt þetta.
Ég hef keyrt í fimm heimsálfum og einhverjum tugum landa, en hvergi eru þessi beygjuljós jafn slæm og á Íslandi. Samt er umferð hvergi eins lítil og á Íslandi. (Mín kenning er reyndar sú að svona fáir bílar og breiðar götur séu einmitt skýringin á þessum landlæga sofandahætti - Íslendingar hafi vanist því í áratugi að þurfa ekki að hugsa um aðra, nokkuð sem er nauðsynlegt í þéttbýlli borgum heims. En það réttlætir samt ekki vitleysuna og tillitsleysið!)
Tvennt tek ég sérstaklega undir í þessum pistli:
1. Seinagang þegar beygjuljós fer í gang. Það á ekki bara við um fremsta bíl, heldur líka þann sem er númer tvö og númer þrjú (þ.e. ef hann er svo heppin að komast yfir). Þeir eru allir að hugsa bara um sjálfan sig, þeir komast yfir og því þurfa þeir ekkert að vera að flýta sér, jafnvel þótt 10-15 bílar bíði fyrir aftan þá.
Ég kalla þetta einfaldlega tillitsleysi og frekju. Það er ekki hægt að skrifa þetta bara á sofandhátt. Við eigum nefnilega að gera þá kröfu að ökumenn séu vakandi og snöggir til þegar við á.
2. Hvergi í heiminum eru ökumenn jafn ragir að nýta sér glufur sem myndast, einsog myndir þínar frá Grensás og Fellsmúla sýna. Og ekki er það betra, að hinir sem eru á leiðinni úr hinni áttinni - vissulega í rétti - vilja helst koma í veg fyrir að menn nýti sér þessar glufur! Það er eiginlega verri synd, því hún verður til þess að hræða hina frá því að nota glufurnar. Ég skýst iðulega svona á milli í Reykjavík og fæ stundum flaut eða illt augnaráð þó að mjög langt sé í viðkomandi bíl og nákvæmlega engin hætta á ferðum. Hvaða rugl er það?
Ég get nefnt frábært dæmi um svona stað. Þar til ég flutti nýverið úr landi bjó ég til margra ára á Stýrimannastíg, í Vesturbænum, og keyrði daglega Suðurgötuna til suðurs, tók svo 270 gráðu hringtorg við Þjóðmiðjasafnið og austur inná Hringbraut. Iðulega voru 4-5 bílar stopp á Suðurgötunni og þorðu ekki inní hringtorgið, jafnvel þótt glufur mynduðust. Og ávallt biðu menn bara á innri akrein, sem varð til þess að ég fór alltaf hægra megin, á ytri akrein, og skaust inní hringtorgið án þess að þurfa svo mikið að stoppa. "Tæmaði" bara miðað við umferðina og lét mig bara renna inní tannhjólið. Þegar ég var búinn með hringtorgið og kominn inn á Hringbraut leit ég gjarnan til baka og sá að sömu 4-5 bílar (jafnvel orðnir fleiri) biðu enn sem fastast og þorðu ekki inní hringtorgið. Alltaf var ég jafn hissa á því hvað þeir væru að hangsa þarna.
En aftur er þeim reyndar smá vorkunn, því þarna áttu þeir sem þegar voru í hringtorginu - og vissulega í rétti - til að gefa í þegar þeir sáu að ég ætlaði að nýta mér glufuna og fara inn í tannhjólið. Hvers konar frekja er það af þeirra hálfu? Hverju tapa þeir á því að aðrir skjóti sér inn í plássið??
Ég mæli með einu: Flautið! Ekki þessa feimni. Ef menn haga sér svona, þá eiga þeir ekkert betra skilið en að fá duglegt flaut á sig. Ég hef reyndar prófað það nokkrum sinnum, með misheppnuðum árangri því ökumaðurinn varð svo móðgaður að hann sneri sér við í sætinu til þess að sjá hver væri svona "dónalegur" að flauta. Fyrir vikið bifaðist hann ekki neitt...!
Bestu kveðjur úr umferðinni í Buenos Aires :) hér er "breiðasta breiðgata heims", sem lætur Champs-Elysées líta út einsog mjóstræti...!
Þorfinnur (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 02:08
Sæll Þorfinnur
Ástæðan fyrir því að hringtorgin hérna ganga oft á tíðum svona illa er vegna þess að fólk er að keyra á ytri akrein framhjá fyrstu beygjunni.
Þetta gerir það að verkum að fólk sem ætlar sér á innri akrein þarf að passa sig á bæði innri og ytri akrein.
Ef það væri ekki hægt að nota ytri akreinina til þess að fara lengra en að fyrsta útganginum þá myndi þau án efa virka betur.
Á öðrum tengdum nótum þá eru það yfirleitt fólkið sem er að keyra á löglegum/hægari hraða sem tekur innri hring og þeir sem keyra hraðar taka ytri.
Þá verða til þær hættulegu aðstæður að þegar þeir sem koma af innri hring ætla að skipta yfir á hægri akrein en lenda í því að 1-2 bílar gefa frammúr þeim á hægri akrein þótt stefnuljósið til hægri sé búið að blikka alveg frá því að farið var úr hringtorginu.
Gunnar (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 06:24
Jú, Gunnar, vissulega kemur fyrir að ég sjái bíla þvælast fyrir á ytri akrein, en það er þó hverfandi vandamál miðað við það sem ég var að lýsa (og á heldur ekki við efni pistilsins).
Ég var að tala um það þegar stór og myndarleg glufa er fyrir bíla til að fara inní hringtorgið myndast (sem gerist oft). Þá eiga menn auðvitað að fara inní hringtorgið, en ekki bíða til eilífðarnóns. Það á jafnt við um bíla á innri og ytri akrein, menn verða að vera röskir og drífa sig.
Einsog ég sagði, þá keyrði ég þetta tilekna hringtorg mörgum sinnum á dag og þar var sífellt uppi þetta sama vandamál. Svo kom fyrir að einhver stoppaði allt hringtorgið á ytri akrein, einsog þú lýsir, en það var þó mjög sjaldan og miklu minna vandamál.
Þorfinnur (IP-tala skráð) 4.9.2009 kl. 12:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.