9.10.2009 | 10:08
Hverjir voru hinir kandidatarnir?
Verðlaun og viðurkenningar til manna og hluta eru jafnan umdeild og í rökræðum um þau sést okkur oft yfir um hvað valið stóð.
Stundum er það svo að um svo margt stórt og merkilegt var að velja að maður eða hlutur, sem á öðrum tímum þegar úr minna var að moða, hefðu getað orðið fyrir valinn.
Þetta er þekkt meðal annars úr kvikmyndaheiminum og bílaiðnaðinum.
Veiting friðarverðlaunanna til Obama vekur svipuð fyrstu viðbrögð og þegar Winston Churchill fékk Nóbelsverðlaun fyrir bókmenntir. Spurningin er hvort friðarverðlaunin nú hljóti sama dóm til framtíðar.
Norska Nóbelnefndin tekur áhættu með veitingu verðlaunanna að þessu sinni. Er hægt að veita manni friðaverðlaun Nóbels sem hefur á stefnuskrá sinni að auka hernað í fjarlægu fjallalandi og stefna hugsanlega með því að öðru Vietnam?
Obama hefur að sönnu vakið meiri vonir en nokkur annar nýkjörinn forseti Bandaríkjanna síðan Kennedy var kosinn.
Ekki vantar viðleitnina hjá honum og snjalla framgöngu og kannski er það hinn sláandi munur á honum og forvera hans sem sveipar hann ljóma í augum norsku Nóbelnefndarinnar.
Það á endanlega eftir að reyna á þolrifin í honum við úrslausn viðfangsefna í Miðausturlöndum og Afganistan.
Kannski hefði verið betra að bíða og sjá hvernig honum tekst til þar áður en honum voru veitt þessi verðlaun, sem oft hafa verið umdeild.
Þegar þeir Anvar Sadat og Menachem fengu verðlaunin töldu sumir að Sadat hefði átt að fá þau einn. Hann átti þau fyrst og fremst skilið fyrir djarflegt frumkvæði sitt, sem hann síðar galt fyrir með lífi sínu.
Á hitt ber að líta að það þurfti tvo til og þegar verðaunin voru veitt lá árangur þeirra tveggja fyrir í friði á milli hinna forðum stríðandi þjóða, Egypta og Ísraelsmanna.
Í reglum um sumar viðurkenningar er veitt heimild til þess að láta þær niðurfalla þau ár sem enginn telst hafa unnið fyrir þeim. Nóbelsverðlaun og Óskarsverðlaun eru hins vegar veitt árlega, hvernig sem þessu er varið, og þegar litið er yfir sviðið er erfitt að sjá annan en Obama sem á verðlaunin skilið nú.
Spurningin er: Hverjir voru hinir 204 sem voru tilnefndir?
Obama fær friðarverðlaunin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Reyndar hefur það komið fyrir að friðarverðlaunin hafa ekki verið veitt neinum, t.d. gerðist það ítrekað á árunum 1914-1924.
Aðalspurningin varðandi Obama hlýtur að vera: hefur hann stuðlað að friði? Er hann búinn að draga úr hernaðarbrölti Bandaríkjamanna á erlendri grundu? (Nei, þvert á móti.) Er hann búinn að loka Guantanamo fangelsinu eins og hann lofaði? (Nei.) Hefur hann gert eitthvað til að stemma stigu við stórfelldum mannréttindabrotum Bandaríkjastjórnar á sínum eigin þegnum (Nei, lögregluríkið er ennþá við lýði.) Þessi verðlaun eru orðin eins og lélegur brandari, Henry Kissinger, Shimon Peres, Yitzhak Rabin, Barack Obama, eru þetta menn sem eiga skilið að fá friðarverðlaun?
Guðmundur Ásgeirsson, 9.10.2009 kl. 11:10
Að veita þessum manni friðarverðlaun getur í raun gert kröfu á hann að vinna betur í friðarmálum. Því getur þetta verið sterkur leikur í þágu friðar. Þar að segja af hann tekst.
Offari, 9.10.2009 kl. 11:16
Vonandi reynist tilgáta þín rétt Offari. Að fenginni reynslu ætla ég samt að vera hóflega bjartsýnn á það.
Guðmundur Ásgeirsson, 9.10.2009 kl. 11:19
Er hann búinn að draga úr hernaðarbrölti Bandaríkjamanna á erlendri grundu? Hann talaði um það fyrst að draga úr hernaði í Írak, í byrjun þessa árs, 1 Janúar, létu Bandaríkjamenn þá fá the "Green zone" til baka, og síðan í júní hafa bandarískir hermenn verið dregnir til baka. Hann hefur hinsvegar bætt við hermönnum í Afganistann, til að hjálpa þeim að berjast gegn Talíbönum og al-Qaeda, en ásamt flestum stóru þjóðum í heiminum sem taka þátt í því stríði, finnst þeim nauðsynlegt að klára það dæmi sem hefur verið í gangi síðan 2001.
Er hann búinn að loka Guantanamo fangelsinu eins og hann lofaði?
Hann undirritaði skipun að starfseminn myndi hætta og föngum myndi vera sleppt á árinu. Hinsvegar neitaði stríðsdómari Guantanamo beiðni hvíta hússins og hafa komið upp mörg mál í kringum Guantanamo sem hafa tafið fyrir, ég efast um að Obama sé ekki að gera sitt besta til að gera þetta vel. Á þessu ári hafa fjölmargar þjóðir verið að taka við föngum frá Guantanamo.
Hann hefur gjörbreytt utanríkisstefnu Bandaríkjana gríðarlega, hefja ný sambönd við lönd sem áttu í deilum við Bandaríkjamenn, þá sérstaklega í miðausturlöndunum. Þetta er gríðarleg breyting frá þeirri stefnu sem Bandaríkjamenn höfðu.
Það er í lagi að vera gagnrýnin, en það er hægt að halda því undir skynsamlegum mörgum.
Vífill (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 12:51
Ég treysti ekki Obama fyrir fimmaura, er erindreki alþjóðlegu bankaelítunnar og hergagnaframleiðenda og handvalinn, rétt eins og allir forsetar Bandaríkjanna um langa hríð.
Inside Bilderberg (IP-tala skráð) 9.10.2009 kl. 13:01
Útvalningin verður að skoðast í ljósi þess að það er rauð slagsíða á Nóbelnefndinni. Þetta er svo augljóst að það gæti skaðað stofnunina. Bæði Torbjörn Jagland og Osama Bin Laden elska Obama. Nú er aðallega verið að verðlauna amerískan líberalisma án þess að hann hafi nokkru komið til leiðar. Norðmenn hafa auðvitað leyndan draum um að hvíta húsið verði fyrir sterkum áhrifum af hugmyndafræði norska arbeiderpartiet.
Guðmundur Pálsson, 9.10.2009 kl. 13:51
Mér skildist að Osama Bin Laden og menn hans fordæmi þessa verðlaunaveitingu.
Ómar Ragnarsson, 9.10.2009 kl. 17:43
Þegar Kissinger fékk friðarverðlaunin sagði þinn uppáhaldsgrínisti, Tom Leherer:
"It was at that moment that satire died. There was
nothing more to say after that."
Þorfinnur (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 03:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.