27.10.2009 | 20:57
Hvað næst? Barrskógur og lúpína í Surtsey? .
Síðan í gærkvöldi hef ég verið að "loka kvikmyndargerðarsjoppunum" endanlega. Fór á Subaru-fornbíl norður til Akureyrar í gærkvöld, en hann og gamall, frambyggður Rússajeppa-fornbíll hafa þjónað þar og munu þjóna mér sem farartæki og vistarverur í framhaldi vinnunar nyrðra og eystra.
Flaug síðan FRÚnni suður eftir dygga þjónustu nyrðra og eystra. Í vetur verður henni lagt á stæði við Reykjavíkurflugvöll.
Á leiðinni suður sá ég ýmislegt forvitnilegt. Ætla að nefna annað atriðið af tveimur úr þessari ferð.
Rétt er að taka það strax fram að landgræðsla og skógrækt hafa lengi verið einna efst á lista mínum yfir áhuga- og umfjöllunarefni.
En á leið yfir Þingvallavatn sá ég nokkuð, sem mér hefur yfirsést þar til nú.
Í Sandey á miðju vatni hefur verið gróðursettur barrskógur sem hækkar ár frá ári.
Hann er ekki stór eins og er, en þegar skoðað er nánar sést í hvað stefnir.
Nú er það svo að Sandgræðsla og síðar Landgræðsla ríkisins og Skógræktarfélag Íslands eru fyrirrennarar nútíma náttúruverndar- og umhverfissamtaka.
Landgræðslan og Skógræktin voru stofnuð af brýnni þörf vegna alvarlegasta umhverfisvandamáls Íslands.
Enn í dag blasa tröllaukin og brýn viðfangsefni þeirra við um allt land. Af nógu er að taka.
En ég set spurningarmerki við það skipulagsleysi sem stingur í augu víða í þessum málum.
Sandey á engan sinn líka á Íslandi, ekki einu sinni á Mývatni. Hún er hluti af þeirri einstæðu landslagsheild Þingvalla og Þingvallavatns sem fengið hefur gæðastimpil Heimsminjaskrár UNESCO.
Hins vegar er Sandey ekki innan þjóðgarðsins og er því ekki á Heimsminjaskránni.
Það finnst mér bagalegt.
Hvað næst? Barrskógur í Surtsey? Ja, því ekki það? Sandey og Surtsey blasa við þeim sem þær skoða sem mjög sérstæð og mögnuð sköpunarverk íslenskrar eldvirkni og ef önnur þeirra er ákjósanlegur staður fyrir barrskóg getur hin verið það líka.
Nú kunna einhverjir að segja sem svo að það séu svo fáir sem sjái Sandey að það skipti ekki máli hvernig með hana er farið.
Þeim vil ég benda á að til eru farartæki sem heita bátar og flugvélar og eru talsvert notuð til að flytja ferðamenn sem sjá Sandey.
Þetta er svosem ekki eina dæmið um barrskógaást Íslendinga.
Á vesturströnd Þingvallavatns er slíkur skógur í miklum uppgangi.
Í blokkaríbúðinni sem ég bý í og hefur hingað til verið með einstaklega fallegu útsýni yfir borgina, byrgja háar hraðvaxandi Alaskaaspir skyndilega fyrir þriðjung útsýnsins.
Nú er hlýnandi veðurfar og íslenska birkið og reynirinn ættu því að geta dugað vel í viðleitninni til að endurheimta þau landgæði sem hér voru við landnám.
Ari fróði sagði að landið hefði verið "viði vaxið" og átti vafalaust ekki aðeins við birki og reyni heldur ekki síður við víðikjarr.
Ef kona missir húð græða menn ekki húð af kú á hana, eða hvað ?
P. S. Viðbót kl. 14:00. Sævar Helgason sendir mér mynd sem tekin er í Sandey og sýnir að þar hefur líka verið sáð lúpínu. Það gerir umræðu og rökræðu um þessa eyju enn áhugaverðari og spurningar vakna.
Lúpinan hefur gert kraftaverk þar sem ekkert annað hefur dugað til að hefta sandfok og græða upp örfoka land. Þarf ekki annað en benda á mikil afrek sem áhugafólk um landgæði hefur unnið á Hólasandi og Mýrdalssandi þar sem um er að ræða víðaútmikil landflæmi og sandfok sem ógnar svæðunum í kring.
1. Hefur verið svo mikill uppblástur og jarðvegseyðing í Sandey að lúpínu og barrskóg þarf til að taka í taumana ?
2. Getur hugsanlegur uppblástur og jarðvegseyðing í Sandey ógnað nærliggjandi svæðum?
Mér sýnist gígurinn í Sandey vera grasi og mosa gróinn með jarðvegi sem hefur haldið þar velli. Var það ekki góðu lagi?
Athugasemdir
„Ég er alinn upp við að fussa og sveia þegar ekið er framhjá furulundinum í þjóðgarðinum - það er skilyrt viðbragð hjá mér þegar ég kem á Þingvelli að segja að hann sé ljótur” „Ég velti því samt stundum fyrir mér hvort þessi hreinleikakrafa sé kannski tímaskekkja á öld fjölmenningarinnar; ef menn vilja ekki útlend tré, ekki lúpínu og ekki erlenda fósturvísa í kýr - hví ættu þeir þá að vilja útlent fólk?”
Egill Helgason, skodun.is, 27/4 2004
Aðalsteinn Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 00:16
Hvernig berast barrfræ? Getur ekki verið að þetta séu sjálfsáin tré?
Sigurður Þór Guðjónsson, 28.10.2009 kl. 00:29
Þetta snýst ekki um "ekki vilja menn útend tré", ekki lúpínu." Ég hef ekkert á móti lúpínuræktinni á Hólasandi eða Mýrdalssandi eða útlendum trjám þar sem þau fara vel í byggð.
En ég vil til dæmis ekki lúpínu í Surtsey, Sandey eða Hvannalindum og ekki heldur barrtré á slíkum stöðum, - og tel slíkt ekki vera einhverja öfgakennda hreinleikakröfu.
Ómar Ragnarsson, 28.10.2009 kl. 00:43
Ég tel að landgræðslu- og skógræktarfólk hafi úr þvílíkri gnægð verkefna að velja næstu tugi ára að kraftar þeirra muni nýtast betur á óumdeilanlegum slóðum þar sem þörfin er brýn.
Ég sé sem sé enga brýna nauðsyn á barrtrjáaræktinni í Sandey.
Ómar Ragnarsson, 28.10.2009 kl. 00:46
Þetta er örugglega ekki sjálfsáð, Sigurður.
Ég get alveg tekið undir það að þessari skógrækt í Sandey hefði mátt sleppa. En varðandi barrtré við strendur Þingvallavatns, þykir mér of seint í rassin gripið og út í hött að fella þann skóg allan, eins og einhverjir öfgasinnar hafa stungið upp á.... jafnvel krafist í frekju sinni.
Vesturströndin er orðin vel gróin og fallegt og hlýlegt um að litast þar víða. Það mætti þó e.t.v. "friða" aðrar strendur vatnsins, fyrir barrskógarækt.
Barrtré uxu á Íslandi í eina tíð, löngu áður en mannskepnunni skolaði á land. Allt er í heiminum hverfult.
Gunnar Th. Gunnarsson, 28.10.2009 kl. 01:51
Sorgleg er hún Sandey,
sýnist nú ei hrein mey,
og sussum það er svei,
sú fékk skóg það grey.
Þorsteinn Briem, 28.10.2009 kl. 02:55
Það hefur lengi valdið mér undrun að skógræktarfólk virðist aldrei geta séð neina staði til að planta barrtrjánum sínum aðra, en þá þar sem hinn fátæklegi íslenski kjarrgróður hjarir enn á. Nefni bara sem dæmi Stafholtstungur og Norðurárdal, en dæmin eru auðvitað fleiri. Lúpínan, svo ágæt uppgræðsluplanta sem hún er, virðist oftast notuð til að útrýma móagróðri og hríslendi, en ekki á þann hátt sem á að nota hana, svona eins og Ómar bendir á að er gert á Hólasandi. En skógræktarfólk er því miður margt öfgafólk og það er borin von að ræða þetta við þau.
Gróandinn (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 05:01
Það er undarlegust allra stjórnmennskuhvata mannsins að hald að það sé hlutverk hans að halda lífríkinu í tiltekinni frosinni kyrrstöðu. Fátt veit ég fáránlegra en þegar menn vildu rífa upp sjálfsáð tré í kirkjuholtinu sem Kópavogskirkja stendur á.
Lífríkið er sérstakast allra náttúrufyrirbæra og við vitum ekki til að það fyrirfinnist neins staðar í alheimi nema á litla blá hnettinum okkar Jörðinni. - Eldfjöl og jafnvel vatn er á þúsundum milljarða hnatta um allan alheim. - En lífríkið er aðeins hér, það er heldur aldrei eitt augnablik eins það er síbreytilegt á hverjum punkti þess, ekki eitt gras er eins í dag og í gær og útbreiðsla þess, hlutföll tegunda og blöndun í vistkerfi breytist sífellt.
Okkar hlutverk mannsins er að styðja við það í heild þannig að það eigi sem dýpstar rætur og sé sem öflugast, afkastamest og fjölbreyttast í heild.
Sá harðgerði lággróður sem hefur þraukað Ísland lifði líka af ísaldir og tórði á jökulskerjum, ekki þarf að óttast um hann þó öflugri hágróður dafni og breiði úr sér, eða þó köfnunarefnisbindivélin Lúpína fari yfir mikil svæði og leggi jarðveg fyrir annað og meira.
Íslensk gróðurþekja fær nú ný tækifæri með nýjum tegundum sem tegundin maður hefur flutt vísvitandi til eyjunnar í stað seinvirkari og tilviljunarkenndu driti fugla. Sumar tegundir munu finna sér ból en aðrar hverfa héðan aftur að mestu. - Það mun leiða til margra stórra en á okkar mælikvarða hægfara sveifla tegunda sem virðast á tímabilum ætla leggja allt undir sig. - þannig á lúpínan eftir að fara um allt en hörfa svo undan margskonar skógarplöntum sem nýta sér jarðvegin sem lúpínan gefur.
Við getum ekki stjórnað þessu en lífríkið fær hér stórkostlegt tækifæri til að gera sínar eigin tilraunir sem birtast í stórum sveiflum tegunda þar til blandan finnur sér nýtt besta jafnvægi í sátt við aðrar aðstæður og loftslag - það verður þó fyrst öldum eftir okkar daga - og allar tilraunir okkar til að hafa stjórn á þessari eflingu lífríkis Íslands eru fyrirfram tapaðar - sem betur fer.
Helgi Jóhann Hauksson, 28.10.2009 kl. 05:34
Löng ræða hjá Helga Jóhanni og þar tíndir til allir frasar öfgamanna í skógrækt. Þarna er þó margt sem ekki stenst skoðun, nefni bara fullyrðinguna um að þegar lúpínan er búin að fara um hrísmóana og leggja þá undir sig, þá hverfi hún. Það gerir hún ekki, það hefur sýnt sig. Ef hún víkur eitthvað til hliðar, þá kemur allt annar gróður í staðinn en lyng og fjalldrapi, svo eitthvað sé nefnt. Ég þekki til þess, að menn hafi dreift köfnunarefnisáburði m.a. með flugvélum á móasvæði með lyng- og hrís gróðursamfélögum til þess beinlínis að eyða þeim og fá grastegundir í staðinn. Landnýting er skipulagsmál. Það þarf að hafa eitthvert form annað en þann böðulgang sem til þessa hefur tíðkast varðandi gróðursetningu nýrra tegunda. Það er gott mál að græða upp ógróið land, en það er ekki gott að hafa það sem stefnumið að eyða hinum upprunalega gróðri í landinu.
gróandinn (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 07:29
Ja, gróandi, varstu viðstaddur „hinn upprunalega gróður í landinu“? Ekki var ég það, þykist þó vita að hinn upprunalegi gróður landsins og gróðurástand þess hafi verið víðs fjarri því sem nú er. Þess er einnig að geta að eftir því sem grasafræðingar herma vaxa allar þær plöntur sem hér á landi þrífast einnig annars staðar.
Auðnavanir Íslendingar (og auðnavinir) eiga sumir bágt yfir uppvaxandi trjágróðri, barrskeggjuðum og laufguðum. Held að sumir óttist stórvaxin tré. Í rauninni. Púrítanar vilja allt útlent út en hvernig þeir ætla sér að særa fram hinn upprunalega gróður landsins er mér ráðgáta.
Vil taka undir sjónarmið Helga Jóhanns Haukssonar. Og jú, Sandey í Þingvallavatni verður miklu flottari og meira spennandi með skógi.
Kristján Sveinsson (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 08:48
Ómar, eg er alveg sammála þér. Við eigum að halda í upprunann á öllum ´islenskum gróðursvæðum. Hingað til hefur skogrækt að langmestu leyti verið hrein landbreyting en ekki landgræðsla... Almenningur veit heldur ekki lengur hvað eru ísl. tré og hvað ekki. Skógrækt hefur lengi verið á villigötum a Íslandi. En nu er frábær grein í nýjasta Náttúrufræðingnum, eftir Ásu L. Aradóttur prófessor við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Hún fjallar um landgræðslu og náttúruvernd. Þar segir m.a . ; Vistheimtar-aðgerðir miða að því að hraða náttúrulegum framvinduferlum og endurreisa virkni vistkerfa..........Það ættu allir að lesa þessa grein, sem áhuga hafa á landgræðslu og skógrækt. á Íslandi.
Vigdís Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 09:53
er þetta ekki bara fínt að græða smá skóg ? Barrtré eru falleg tré. Það er nú allt betra en þessi eyðimörk sem alls staðar blasir við. Er þetta ekki einhvers konar fanatík að vera á móti trjám á Íslandi. Held það væri nær að græða sem mest með trjám. Skapar skjól og bætir veðráttu og dýralíf.
Jón B G Jónsson (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 09:55
Það væri nú öllu líklegra að um birki, reyni og víði væri að ræða ef um sjálfsprotnar tegundir væri að ræða. Jafnvel ösp því fræ hennar geta borist víða með vindi rétt eins og fræ víðitegunda. Þarna sýnist mér að um sé að ræða skógarfuru og lerki. Vissulega gætu fræ þessara tegunda hafa borist í fuglsiðrum en ef maður skoðar myndirnar virðist þetta óeðlilega beinar raðir.
Þá væri líka miklu líklegra að þarna yxu berjarunnar svo sem rifs og sólber sem víða finnst í kring um bústaði við vatnið. Að ekki sé nú talað um lyng, bæði bláberjalyng, aðalbláberjalyng og sortulyng. Það sést ekki á myndunum hvort þarna vaxi krækiberjalyng og hrútaberjalyng svo ekki er hægt að fullyrða neitt um það.
Nei, að öllu samanlögðu virðist allt benda til þess að þessu hafi verið plantað. Maður bara þakkar fyrir að ekki er um alaskalúpínu að ræða en að mínu viti er það mesta umhverfishryðjuverk sem nokkurn tíman hefur verið framið á Íslandi og er meira að segja Hálslón bara hjóm eitt í samanburði við þann skaða sem lúpínan er búin og á eftir að valda. Skógarkerfillinn kemur fast á hæla lúpínunnar og þar gæti nú síðuhaldari átt einhvern hlut að máli eftir herferðina um árið undir slagorðinu „Flag í fóstur.“
Sorrý Ómar minn. Ekkert persónulegt. Þér gekk gott eitt til en maður flytur ekki innfluttar erlendar tegundir út í náttúruna og sleppir þeim lausum. Ekki fremur en erfðabreyttu korni. Það er ekkert flóknara en það.
Þorsteinn Úlfar Björnsson (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 10:19
Mér finnast barrskógar ljótir. Tréin eru falleg einn og sér en þegar þau safna sér haman í hóp finsst mér þau ekki njóta sín. Laufskógar finnst mér hinsvegar vera fallegir, þó sérstaklega birkiskógar þar sem hvert tré fær sinn svip.
Barrskógar gefa hinsvegar meira skjól því þeir eru þéttari. Því finnst mér í lagi að gróðurstetja þau hér á þessu stormaskeri.
Offari, 28.10.2009 kl. 10:52
Samkvæmt mínum heimildum voru umrædd grenitré gróðursett í Sandey á 6. áratug síðustu aldar og hefur ekki verið gróðursett þar síðan. Á þeim tíma var framboð á landi til skógræktar lítið og allt land utan afgirtra skógarreita þrautnýtt til sauðfjárbeitar. Því fengust helst svæði til nýskógræktar sem ekki var hægt að nýta til búfjárbeitar og á þessari eyju þurfti ekki einu sinni að verja fé í girðingarkostnað. Í Sandey er jarðvegur afar ófrjór og næringarsnauður og því urðu afföll þar veruleg í byrjun. Vegna næringarskorts uxu grenitrén afar hægt næstu hálfu öldina, þótt sum þeirra sem gróðursett voru í dældir niðri við lónið hafi tekið nokkurn vaxtarkipp hin síðustu ár.
Sandey er ekki í Þingvallaþjóðgarðinum og er þá (skv. lögum) eins og hver önnur landspilda í einkaeign sem landeigendur mega planta trjám í, kjósi þeir svo. Í könnun IMG-Gallups sem unnin var fyrir Skógrækt ríkisins árið 2004 voru landsmenn spurðir um afstöðu sína til barrtrjáa á Þingvöllum: 35% aðspurðra höfðu á þessu máli enga skoðun; 33% fannst að þeim barrtjám sem nú þegar eru á Þingvöllum ætti að þyrma en ekki gróðursetja fleiri og 28% fannst að barrtré mættu vera á Þingvöllum til frambúðar. Aðeins 4% fannst að barrtré ættu ekki að vera á Þingvöllum og því ætti að fjarlægja þau.
Hefði ég verið spurður í könnun Gallups árið 2004, hefði ég líklega lent í flokki þeirra 33% aðspurðu sem sögðu að "þeim barrtjám sem nú þegar eru á Þingvöllum ætti að þyrma en ekki gróðursetja fleiri" (og þar með í Sandey, þótt hún tilheyri ekki þjóðgarðinum). Ekki þó af öðrum ástæðum en löghlýðni: Sandey er nefnilega gervigígur og skv. 37. gr. Náttúruverndarlaga (44/1999) skulu "Eftirtaldar [jarðmyndanir..] njóta sérstakrar verndar og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er:
a. eldvörp, gervigígar og eldhraun"
Svo er það aftur túlkunaratriði hvort gróðursetning trjáa í Sandey (hvort heldur er með innlendum eða innfluttum lauftrjám eða barrtrjám) teljist „röskun“ (og þar með lögbrot), svo fremi að slíkri framkvæmd fylgi ekki jarðvinnsla eða slóðagerð. Trjágróður (sjálfgróinn eða gróðursettur) „raskar“ í sjálfu sér ekki jarðmyndunum, heldur hylur sá gróður sjónum manna þær jarðmyndanir sem t.a.m. Ómar gæti ella myndað úr lofti.
Umrædd ákvæði Náttúruverndarlaganna höfðu hins vegar ekki tekið gildi þegar sitkagreni og rauðgreni var gróðursett í Sandey upp úr miðri síðustu öld. Skógræktarmennirnir sem að því framtaki stóðu eru nú flestir horfnir yfir móðuna miklu og verða varla dregnir fyrir dómstóla úr þessu. Því er líklega þýðingarlaust að grípa til lagatæknilegra túlkana á því hvort lögbrot hafi verið framið eður ei.
P.S. Samkvæmt Baggalúti ('áreiðanlegri heimild') hefur margt verra gerst í Sandey en gróðursetning barrtrjáa. Skv. sömu heimild tókst Böðvari nokkrum tókst að “vinna þar greni" árið 1976.
Aðalsteinn Sigurgeirsson, 28.10.2009 kl. 11:18
Sorglegra en þessi dæmi eru þegar bændur hafa fengið þá flugu í höfuðið að þegar þeir hafa hætt búskap þá hafa þeir lagt jafnvel fleiri hundruð hektara af rækanlegu landi undir skógrækt.Það finnst mér hrikalegt!
Birna Jensdóttir, 28.10.2009 kl. 11:40
Saga skógræktar í Sandey er vel þekkt. Fyrri eigendur Sandeyjar gáfu Skógræktarfélagi Íslands og Skógrækt ríkisins Sandey gegn því skilyrði að þar væri gróðursettur barrskógur. Þar með varð Sandey að hluta að því sem við köllum nú þjóðskóg þ.e. í umsjón Skógræktar ríkisins. þetta var á 6. áratug síðustu aldar. Á næstu árum fóru skógræktarfélagsmeðlimir og starfsmenn Skógræktar ríkisins nokkrar gróðursetningarferðir í Sandey og gróðursettu það sem þar er nú, bæði birki og barrtré. Þar hefur ekkert verið gróðursett síðan laust eftir 1960. Trén áttu lengi mjög erfitt uppdráttar, einkum vegna skafrennings af ísilögðu vatninu, og var því ákveðið að gróðursetja ekki meira þar til ljóst væri að trén myndu yfir höfuð lifa. Þegar ljóst var að trén lifðu og voru farin að vaxa var komið framyfir 1990 og aðstæður skógrækta mikið breyttar. Hægt var orðið að fá land til skógræktar um 1990, sem ekki var hægt með góðu móti þegar trén voru gróðursett í Sandey. Þá hafði orðið nokkur afstöðubreyting líka - um 1960 datt engum skógræktarmanni annað í hug en að skógrækt væri til bóta allstaðar, enda nánast hvergi skógur á Íslandi. Þá hafði þjóðernishyggja varðandi náttúruna ekki rutt sér til rúms.
Þegar býsnast er yfir nokkrum trjám í Sandey er um leið verið að skamma fólk sem 1) taldi sig vera að gera landi sínu gott miðað við skoðanir og hugsun sem þá ríkti og 2) er nú flest látið. Hitt er svo annað mál að mörgum er ljóst að gróður á Íslandi gæti verið miklu ríkulegri og fjölbreyttari en hann er og margir þeirra eru ekki með fordóma í garð innfluttra tegunda. En flestir þeirra taka þó tillit til þess að suma staði beri að vernda óbreytta. Langstærstur hluti skógræktar nú er vel skipulagður og í þeirri skipulagningu er ríkt tillit tekið til verndarsjónarmiða.
Það er næstum hálf öld síðan síðast var gróðursett í Sandey og engin áform eru uppi um að gróðursetja meira þar (hvað þá í Surtsey). Trén í Sandey eru þó söguleg heimild um aðstæður og afstöðu fólks á tilteknum tíma, tíma minni fordóma.
Þröstur Eysteinsson (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 11:43
Þessi barrtré eru klárlega gróðursett þarna. Og miðað við stærð þeirra eru þau sennileg frá því á árunum skömmu eftir stofnun lýðveldisins- þá var mikil skógræktarhugljómun í gangi.
Oft hef ég komið í Sandey og ég hefði gjarna vilja sjá þarna íslenska birkið í stað þessara barrtrjá - þau eru aðskotahlutir í íslenskri náttúru-finnst mér.
En það er fleira að taka sér bólfestu þarna við sprengigýginn (tjörninna)í Sandey, því Alaskalúpínan er að breiða mjög úr sér þarna.... Hennar fræ hafa nokkuð örugglega fokið með vindum og sest að í skjólinu við gýginn... Það eru þessir innflytjendur... sumum er vísað úr landi...
Sævar Helgason, 28.10.2009 kl. 11:53
Varðar: "Sorglegra en þessi dæmi eru þegar bændur hafa fengið þá flugu í höfuðið að þegar þeir hafa hætt búskap þá hafa þeir lagt jafnvel fleiri hundruð hektara af rækanlegu landi undir skógrækt":
Með "ræktanlegu landi" er gjarnan átt við "plógtækt land". Þessi meinta ógn hefur verið landfræðilega greind og kynnt nýverið á Fræðaþingi landbúnaðarins af Birni Traustasyni og Fanneyju Ósk Gísladóttur, sjá HÉR. Ógn sem íslenskri matvælaframleiðslu stafar af skógrækt virðist skv. þeirri greiningu mjög orðum aukin (svo ekki sé dýpra tekið í árinni).
Aðalsteinn Sigurgeirsson, 28.10.2009 kl. 12:02
Hvaða bull er þetta um erlend og íslensk tré? - Ef menn eiga við að tilverurétt á íslandi eigi bara trjágróður sem lifði hér af ítrekuð hundruð þúsunda ára ísaldarskeið þá er það einfaldlega ekki gróður fyrir það loftslag sem nú er. Birkið er svona kræklótt og runnalegt afbrigði bjarkar vegna þess að þetta eru afkomendur þeirra einstaklinga frá tímum æva fornra glæsiskóga fjölbreyttra tegunda á íslandi, sem svo einir hjörðu af í endurteknum hundrað þúsund ára samfelldum ísaldarskeiðum.
Hvað er íslenskur gróður? Hver ætlar að skilgreina það og hvernig? - er nú lífið upprunnið á Íslandi?- hvernig halda menn að surtarbranda-lögin hafi orðið til? Eða leyfar hjartardýrs sem hér hefur fundist í fornum jarðlögum - eða bara ummerki stórtrjá frá síðasta hlýskeiði á undan þessu?
Endurheimt og uppbygging skóga er grundvöllur framtíðar mannlífs ef ekki alls lífs á Jörðinni fyrir utan að þeir eru skjól og grunnur allskyns annars lífs. Eyðing skóga er mesta ógn við jafnvægi vistaðstæðna á jörðinni og framtíð allra tegunda. - Það besta sem við getum gert fyrir nátturuna er að gefa lífríkinu tækifæri til að efla sig og breiða úr sér og endurblanda tegundum innan vesælla eyðimarka Íslands.
Helgi Jóhann Hauksson, 28.10.2009 kl. 12:26
Það er ótrúlega sterk taug í öllum dýrategundum og manninum líka að sækja í umhverfi uppvaxtar síns og æsku. - Við getum því miður gengið skrefinu lengra og reynt að endurskapa umhverfi æsku okkar eða hindra breytingar á því.
Þetta er hvöt sem eykur líkur tegunda að þær tryggi afkomendum öruggt umhverfi - einstklingur sem lifði af æsku sína er honum sjálfum sönnun þess að þar geti efkomendur hans líka lifað af. Þessvegna fljúga kríur frá suðurheimsskautinu til að verpa á Seltjarnarnesi á Íslandi - það er öruggasti blettur sem þær kríur sem þar klöktust út og stálpuðust þekkja því þar lifðu þær sjálfar af sem ungar. Þessvegna krefst rótgróið eðlið þess að þær fari þangað til að eignast sína unga.
Það er þó verra þegar þessi hvöt knýr manninn til að halda aftur af lífríkinu til þess eins að það passi við þær myndir sem greiptust í vitund hans í sinni æsku. - Það eitt gildir um íslenska flóru og lifandi náttúru að hún er síbreytileg af náttúrulegum ástæðum en einnig mörkuð hrikalegum áföllum bæði ísalda, eldgosa og komu mannsins. Hvergi í veröldinni nema á öðrum heimsskautaeyjum hefur flóran í heild marg endurtekið verið nánast að fullu afmáð. - Svo bætast eldgosin við með móðuharðindum og „eldgjám“ og hamfargosum og loks ofbeitin og umrót mannsins á láglendi þar sem í dag er hvergi blettur sem ekki er markaður okkur
Íslensk gróðurþekja þarfnast alls uppbyggingastuðnings sem völ er á og allur gróður sem getur þrifist af sjálfsdáðum á íslandi er þar með íslenskur og tegundirnar íslenskar. - Nema íslenskar tegundir séu alls ekki til sem þó lætur nær.
Helgi Jóhann Hauksson, 28.10.2009 kl. 12:55
Mér dettur ekki í hug að skamma neitt af því mikla hugsjónafólki sem um þarsíðustu aldamót tók sig til og fór að berjast gegn íslenskri gróðureyðingu nánast með berum höndunum. Við getum öll tekið margfalt ofan fyrir því fólki og hugað að þeim hugsunarhætti sem var að baki, - að skila landinu betra til afkomenda okkar en við tókum við því.
Ég hygg að fólkið sem gróðursetti í Sandey hafi afrekað svo miklu á öðrum stöðum þar sem framtak þess var lofsvert, að það eigi að vera óhætt að benda á mannleg mistök sem orðið hafa á einstökum stöðum.
Á þeim tíma sem þetta fólk var uppi voru þetta ekki mistök, - þá var annar hugsunarháttur í gangi en nú, fólkinu gekk gott eitt til og vildi skila góðum verkum til afkomendanna.
Reglustikubein röð barrtrjáa vestast á gróðursetningarsvæðinu í Sandey sýnir að þeim trjám var plantað. Ég hélt reyndar að þetta væri nýrra framtak en upplýst hefur verið í athugasemdum.
Ég tel furulundinn á Þingvöllum vera orðinn að sögulegri heimild um þann tíma sem honum var plantað og að hann megi alveg standa þar sem hann er, svo framarlega sem ekki verður gróðursett meira í slíkum dúr á því svæði.
Ráðstefnan í Ríó 1992 þar sem þjóðir heims undirrituðu sáttmála um varðveislu tegundanna markaði tímamót.
Þess vegna þarf aðgát og fyrirhyggju við innleiðslu nýrra tegunda, sem oft eru ágengar.
Þarf ekki annað en nefna minkinn sem dæmi um það.
Ómar Ragnarsson, 28.10.2009 kl. 13:16
Íslenskar tegurndir alls ekki til, ritar Helgi Jóhann. Já, er það ekki einmitt svo. Allar plöntur sem þrífast á Íslandi, hverju nafni sem nefnast, vaxa einnig í öðrum löndum hér næst okkur. Séríslenskar plöntur, sem hvergi þrífast nema hér á landi eru engar til eftir því sem ég best veit. Íslenskt er því allt sem hér vex og dafnar.
Kristján Sveinsson (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 13:22
Ómar þessa gróðursetningu er hægt að gera afturkræfa svo vart er hækt að kalla þetta landspjöll. Mér er illi við að fella skóga því við stóriðjusinnar viljum flestir fá súrefni í staðin fyrir það súrefni sem við eyðum.
Offari, 28.10.2009 kl. 13:41
Ég held að það sé að verða breyting hér á a.m.k. sumstaðar, eins og í þjóðgarðinum í Ásbyrgi. Það er svæði, sem var í "klónum" á Skógrækt ríisins, og nú er farið að taka burt barrtrén þar, sem ég er mjög ánægð með. Þar er yndislegur upprunalegur birkiskógur, með fjölbreyttu ísl. gróðurríki. Það er bara þannig, að borgarbörn nútímans þekkja upprunann minna og minna, sem kannske er von. Og skógræktarmenn eru ótrúlega seigir í sínum heilaþvotti.......................
Vigdís Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 28.10.2009 kl. 13:42
Varðar: "Þess vegna þarf aðgát og fyrirhyggju við innleiðslu nýrra tegunda, sem oft eru ágengar." (Ómar)
In their new paper, Dr. Sax and Dr. Gaines analyze all of the documented extinctions of vertebrates that have been linked to invasive species. Four-fifths of those extinctions were because of introduced predators like foxes, cats and rats. But Dr. Sax and Dr. Gaines argue that competition from exotic species shows little sign of causing extinctions. This finding is at odds with traditional concepts of ecology, Dr. Sax said.
http://fatknowledge.blogspot.com/2008/09/invasive-species-increase-biodiversity.html
http://www.pnas.org/content/105/suppl.1/11490.abstract?sid=fe3a51f0-b305-416c-8993-78c29b126d30
Ótti manna gagnvart innfluttum trjátegundum og öðrum framandi plöntum virðist m.ö.o. byggjast á rangtúlkunum og alhæfingum vegna ýmissa dæma af einangruðum eyjum í Kyrra- og Atlantshafi um skaðsemi rotta, refa og heimiliskatta. Rökréttari túlkun á fyrirliggjandi rannsóknagögnum er sú að halda beri rottum, refum, köttum o.fl. rándýrum frá frá einangruðum eyjum (svo sem Íslandi) til þess að koma í veg fyrir útrýmingu tegunda. Hins vegar kemur ekkert annað fram í rannsóknum Sax og Gaines á plöntutegundum annað en að plöntur séu aufúsugestir á slíkum eyjum. Með tilkomu þeirra fjölgar bara tegundum í lífríkinu, án þess að líffræðileg fjölbreytni í frumbyggjagróðurlendinu bíði tjón af samneyti við nýbúana!
Í krækjum við greinar í New York Times um rannsóknir þeirra Sax og Gaines birtust tvö gröf sem segja í raun alla söguna um að ótti sumra landa okkar um örlög frumbyggjaflóru þessa einangraða eylands af völdum framandi jurta sé ástæðulaus:
http://graphics8.nytimes.com/images/2008/09/08/science/09inva_1.GIF
http://graphics8.nytimes.com/images/2008/09/08/science/09inva_2.GIF
Aðalsteinn Sigurgeirsson, 28.10.2009 kl. 13:59
Ég hef hingað til aðeins minnst á mjög litla bletti þar sem varúð þurfi að hafa við. Sandey er smáey og Surtsey er ekki stór. Krepputunga og Hvannalindir geta ekki talist stór svæði.
Raunar eru þau svæði á Íslandi sem gæta þarf vel, aðeins örlítið brot af Evrópu, en þeim mun merkilegri vegna sérstöðu sinnar.
Í ofangreindum pistli fjalla ég aðeins um Sandey og Surtsey og ég sé ekki þá brýnu nauðsyn að rækta í Sandey barrtré og lúpínu né heldur skil ég hvernig tillaga um að Sandey sé haldið ósnortinni geti talist öfgakennd.
Ómar Ragnarsson, 28.10.2009 kl. 14:50
Vigdís, hvað eru íslenskar tegundir og hvaðan eru þær upprunnar? - í hverju felst það að þú telur þær „íslenskar“? Þekkir þú eitthvað hverskonar skógar hafa vaxið á Íslandi um nokkurra milljóna ára skeið, eða í hvaða umhverfi smávaxin hjartardýr lifðu á Íslandi en menjar slíkra dýra hafa fundist hér?
- Hvaða sögu segja surtarbrandalögin þér? Eða menjar stórtrjáa - veistu hvaða tegundir lifðu hér þegar hér voru útbreiddir stórskógar og hvað óx og þreifst í skjóli þeirra? - Hvaða tegundir þekkir þú á Íslandi sem ekki finnast annarsstaðar.
- Hvaða tímapunkutur í sögu Íslands markar hvað er íslensk flóra og hvað af jurtum sem nú plumma sig vel fái ekki að teljast með? - Hafa einhverjar tegundir beinlínis orðið til á Íslandi? - Hvað þekkir þú um „upprunnan“ sem þú segir borgarbörn þekkja minna og minna? Hvenær var „upprunninn“?
Helgi Jóhann Hauksson, 28.10.2009 kl. 18:02
Ég held, að of seint sé að stöðva útbreiðslu lúpínu, hérlendis. Hún muni taka yfir þau svæði, sem hún getur þrifist á.
Við skulum muna, að hálendi Íslands, er í raun og veru ekki óraskað frá mannsins hendi.
Náttúruhamfarir hafa alltaf átt sér stað, en tilkoma mannsins og sauðfjár var nýlunda.
Fyrir bragðið, átti sér stað mikil breyting á gróður- og náttúrufari, sem sést á þeim sem hafa augu til að sjá þau verksummerki, er blasa við nánast hvarvetna á hálendinu.
--------------------------------
Þannig, að núverandi ástand, með lágvöxnum móagróðri, smávöxnum plöntum inn á milli steina, - er ekki endilega, hið náttúrulega ástand landsins.
Mig rennur grunur til því, að sú hugmynd ímissra landverndarsinna, að lággróðurinn er sést víðast hvar, á hálendinu, sé hið rétta náttúrulega ástand, þeirra svæða. Sé einfaldlega byggður á misskilningi.
Af þeim hugmyndum, sprettur m.a. andstaða við gróðurtilraunir, sem fela í sér tilraunir til að auka gróðurþekju.
-------------------------------------
Ég tók eftir mjög áhugaverðri frétt í bændablaðinu, í september sl. En, hún var þess efnis, að þess hefði orðið vart - einkum á suðurlandi - að fiðrildalirfur sóttu í lúpínu. Sagt var, að á svæðum hefði mátt sjá umtalsverðar skemmdir á lúpínunni, þ.s. m.a. hefði sést niður í svörð á stöku stað - á skemmdu svæðunum.
Ástæðan fyrir því, að þetta var áhugaverð frétt, er það - að þetta sýnir að náttúran er að aðlaga sig að lúpínunni. Með öðrum orðum, dýr eins og fiðrildi sem eru náttúrulegir óvinir margra plantna, eru að komast á lag með að nýta sér hana.
Punkturinn, er sá að með því að náttúran lærir á lúpínuna, þá dregur smáma saman úr almætti hennar, og aðrar plöntur munu eiga auðveldara í samkeppninni við hana - þá einkum svokallaðar háplöntur.
En, einmitt nákvæmlega slík beit, ef hún heggur skörð í breiðuna, skapar öðrum plöntum tækifæri.
--------------------------------
--------------------------------
Varðandi Sandey, er alveg hægt að fjarlæga þessi tré. Þau eru óþörf þarna.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 28.10.2009 kl. 18:26
Hið alþjóðlega viðmið hvað varðar "ósnortið" land eða ekki miðast við upphaf iðnbyltingar.
Vitað er að í Fönikíu (Lybíu) og Mesapótamíu (Írak) olli starfsemi manna jarðvegseyðingu og sama er að segja um viðarhögg og ofbeit frá upphafi landnáms Íslands en línan er dregin síðar.
Þetta viðmið var tekið upp vegna þess að samkomulag var um að einhverja línu þyrfti að draga.
Iðnbyltingin með áhrifum sínum byrjaði ekki á Íslandi fyrr en undir miðja síðustu öld.
Það breytir ekki því að gjarnan vilja menn endurheimta þó ekki væri nema hluta þeirra landgæða sem hafa glatast síðan Ísland byggðist.
Mikið af þeim hefur glatast síðan iðnbyltingin varð hér á landi og virðist ekkert lát á.
Ómar Ragnarsson, 28.10.2009 kl. 19:03
Ómar ertu nú ekki orðinn svolítið öfga? Ísland er örugglega ósnortnasta land veraldar og er þá litið til mannanna verka enda ekki nema 3,2 íbúar pr hvern ferkílometer eða svipað og í Ástralíu. Ég tala nú ekki um ef við teljum 200 mílurnar með. Ísland er örugglega með hreinast loft allra landa, enda hér út í Atlantshafi þar sem vindar blása hressilega. Hér er orkan hreinust af öllum löndum.(að mestu græn og sjálfbær). Hér skiptir sköpum varðandi gróður og margt fleira að meðalárshiti lækki ekki. Ég segi, Guð sé lof að það er frekar að hlýna en kólna á landinu. Að endingu skora ég á þig að lesa færslurnar hans Erlings Garðars á svona til afréttunar í orkumálum.
Sigurður Ingólfsson, 28.10.2009 kl. 20:22
Jarðvegseyðing á Íslandi hefur verið sú mesta utan eyðimerkursvæða heims.
Enn eru beittir óbeitarhæfir afréttir á hina eldvirka svæði landsins.
Hugmyndir Steingríms Hermannssonar 1980 og Hjálmars Jónssonar 1998 um að dreifa beit á afrétti landsins eftir beitarhæfni þeirra voru slegnar strax út af borðinu af bændasamtökum og landsbyggðarþingmönnum.
Loftgæði í Reykjavík eru þegar orðin undir lágmörkum Kaliforníu vegna virkjananna fyrir austan borgina.
Íslenski bílaflotinn mengar meira pr. bíl en nokkur annar í Vestur- og Norður-Evrópu.
Kárahnjúkavirkjun hafði í för með sér meiri óafturkræf umhverfisspjöll en nokkur önnur framkvæmd í okkar heimshluta.
Hreina loftið er ekki okkur að þakka heldur fámenninu og vindunum og því að við beisluðum heitt vatn til húsaupphitunar.
Það gerðum við ekki vegna umhverfishugsjóna heldur eingöngu af peningalegum ástæðum, - þetta er ódýrara og sparar gjaldeyri.
Nú er stefnt að ágengri vinnslu og áframhaldandi áhættufíkn með auðlindirnar.
Mér finnst ofangreindur listi ekkert sérlega glæsilegur.
Ég skal glugga í færslur Erlings Garðars, takk fyrir ábendinguna.
Ómar Ragnarsson, 28.10.2009 kl. 20:50
Ég ítreka að mér finnst það ekki öfgakennt að leggja til að ein lítil eyja í Þingvallavatni fái að vera eins og hún hefur verið.
Ómar Ragnarsson, 28.10.2009 kl. 20:51
Varðar: „ Hið alþjóðlega viðmið hvað varðar "ósnortið" land eða ekki miðast við upphaf iðnbyltingar“ (Ómar, kl. 19:03).
Þetta er afar vafasamt og handahófskennt viðmið hjá Ómari, að „ósnortið land“ miðist við tímasetninguna „fyrir eða eftir iðnbyltingu“. Slíkt viðmið hefur mér vitanlega ekki nokkurn tíma fengið nokkra alþjóðlega viðurkenningu, þótt vissulega sé það fyrirferðarmikið í orðræðu hinna ýmsu fræðimanna í nokkrum enskumælandi löndum (BNA, Kanada og Ástralíu).
Fyrir þá sem nenna að velta fyrir sér þrætubókarlist um viðmiðanir og skilgreiningar á því hvað telst náttúrlegt eða ónáttúrlegt, snortið eða ósnortið, manngert eða ómanngert, raskað eða óraskað o.s.frv. er lag að vísa í grein Ástralans Ridder, HÉR.
Aðalsteinn Sigurgeirsson, 28.10.2009 kl. 21:25
Fyrir um 60 árum var strandlengjan frá gömlu höfninni í Reykjavík og allt inná Gelgjutanga í Elliðaárvogi eins og þegar þið horfið út til Viðeyjar. Þá sjáið þið hvað hefur gerst Reykjavíkurmegin sundsins. Og menn hafa sumir verið friðlausir með að gera Viðey að samskonar útnára... Þetta hefur gerst á langt innan við einni mannsævi
Sævar Helgason, 28.10.2009 kl. 21:49
Helgi Jóhann spyr hvort einhverjar plöntur séu íslenskar.
Ég get sagt honum að þær eru til. T.d. eru tvær grasategundir sem vaxa í Oddsskarði norðanverðu, í Blóðbrekkunum svokölluðu, sem hvergi vaxa í heiminum nema þar.
Gunnar Th. Gunnarsson, 28.10.2009 kl. 22:54
Kollegi minn benti mér á að leita að upplýsingum um skógrækt í Sandey frá dögum dögum dönsku nýlenduherranna, á vef þjóðskjalasafnsins. Mundi hann eftir gömlum skjölum sem hann hefði rekist á fyrir margt löngu, en í þeim stæði að eyjan hefði verið lögð undir skógrækt með konungsúrskurði árið 1801. Ekkert virðist hins vegar hafa orðið úr slíkri tilraun til skógræktar í Sandey fyrr en upp úr miðri 20. öldinni.
Við leit í gögnum Þjóðskjalasafnsins fannst þessi áhugaverða heimild (sem örugglega á við um eyna Sandey):"2. sept. 1801. Ólafur Stefánsson stiftamtm. ræðir um skógræktartilraun í eyju í Þingvallavatni sem hann segir að heyri til jörðinni Ölvesvatni og er sú jörð í eigu Steindórs Finnssonar sýslum. Það er jústitsráð Stephensen sem er helsti hvatamaður að umræddri tilraun til skógræktar."
Það virðist því sem "draumurinn um að rækta skóg í þessari litlu eyju í Þingvallavatni" eigi sér forsögu allt aftur til aldamótanna 1800. Líklega er það hvatinn að því að eigendur Sandeyjar ákváðu eftir seinna stríð að gefa Skógræktarfélagi Íslands og Skógrækt ríkisins Sandey, gegn því skilyrði að þar væri gróðursettur barrskógur.
Aðalsteinn Sigurgeirsson, 28.10.2009 kl. 23:01
" gefa Skógræktarfélagi Íslands og Skógrækt ríkisins Sandey, gegn því skilyrði að þar væri gróðursettur barrskógur."
Það eru fleiri skógarlundir í Sandey en þessir í gýgnum.
Á vesturhluta Sandeyjar, innaf sandtanganum sem þar skagar út er nokkuð stór skógarlundur. Þar ægir saman hinum ýmsu trjátegundum þ.á.m nokkur barrtré. Þessi skógarlundur er á sama aldri og þeir í gýgnum...
Ég mæli með kynnisferð útí Sandey á Þingvallavatni og eyða þar svona dagsstund-ágætt í lok júní .
Sævar Helgason, 28.10.2009 kl. 23:43
Hið alþjóðlega viðmið varðandi fyrir og eftir iðnbyltingu er notað þegar lagt er mat á þjóðgarða og friðuð svæði og flokkanir einstakra svæða innan þeirra.
Sigrún Helgadóttir líffrræðingur og fleir hafa kynnt sér þetta og vita meira um það en ég.
Ómar Ragnarsson, 29.10.2009 kl. 13:59
Mér finnst virkilega flott að innfluttar trjátegundir hafi verið gróðursettar í Sandey á sínum tíma. Þessi „rasismi“ gagnvart fallegum og nytsömum trjágróðri, finnst mér ganga full langt. Hvað með annað eins og t.d. öll þau katta- og hundakyn sem flutt hafa verið til landsins? Af hverju er ekki verið að fárast út í það? Þar er þegið þunnu hljóði.
Þessi árátta gagnvart innfluttum trjátegundum má að öllum líkindum rekja til Helga Sæmundssonar sem var mjög þekktur og ljóngáfaður bókmenntamaður á síðustu öld. Hann lét einu sinni hafa eftir sér að barrtrén á Íslandi minntu sig á „skeggrót á fjallkonunni“!!! Eðlilega ætlaðist hann til að þetta yrði afskaplega fyndið en með þessu hefur hann kannski ómeðvitað styrkt mjög neikvæð viðhorf gagnvart innfluttum trjátegundum sem við trjáræktarmenn sitjum uppi með.
Svo má spyrja þessa dæmalausu herramenn: Hvenær verður innflutt gróðurtegund innlend? Hversu mörg ár telja barrtrjáa„rasistar“ þurfa að líða frá innflutningi einnrar tegundar þangað til hún teljist innlend?
Og hvernig er með uppruna íslensku þjóðarinnar? Er þjóðin ekki mun blaðndaðri en margur telur og komin úr sitt hvorri áttinni þegar betur er að gætt? Mér skilst t.d. að alla 19. öldinu hafi allt að 4.000 franskir fiskimenn á duggum verið sendir árlega til að dorga við Íslandsstrendur. Oft lentu þeir í sjávarháska og þá var stundum síðasta úrræðið að bera líflitla karlana upp í heitt rúm þar sem kona var gjarnan fyrir. Margar sögur hafa farið af ótímabærum þunga þeirra en það er önnur saga sem ekki er rétt að rifja upp í öðrum sóknum!
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 29.10.2009 kl. 17:29
Ómar - ég held að það sé augljóslega alvarlega gallað, að miða við upphaf iðnbyltingar - þ.s. samfélög mannsins hafa um miklu lengri hríð en tvær aldir, verið að umbylta sínu nærumhverfi, og einnig fjærumhverfi, með stórfelldum hætti.
Upphaf akuryrkju samfélaga, væri raunhæfara viðmið.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 29.10.2009 kl. 22:14
Sammála Einari Birni. Ekki liggur fyrir neitt alþjóðlega viðurkennt, tímasett viðmið t.d. í alþjóðlegum sáttmálum um umhverfismál sem nýtist til að staðsetja upphaf stórtækra og hnattrænna umhverfisáhrifa mannkyns. Einstökum hópum fólks er auðvitað frjálst að velja sér eitthvert handahófsvalið ártal til þess að marka upphaf tímatals síns (sbr. upphaf vélvæðingar í breskri textílvinnslu á 18. öld = iðnbylting; Kristsburð árið núll; flótti Múhameðs frá Mekka til Medínu árið 622 A.D., o.s.frv.).
Beri á annað borð brýna nauðsyn draga einhverja slíka sögulega línu í sandinn og miða eitthvert tímatal við þá línu, væri nærtækast að marka þeirri línu stað við „upphaf ræktunarmenningar“ (þegar menn sneru frá því að vera einungis veiðimenn og safnarar og gerðust hjarðmenn og jarðræktarmenn). Flest bendir nefnilega til að fornar aðferðir við akuryrkju og kvikfjárrækt (sem fólu í sér þá landbreytingu að eyða skógi með eldi til að opna land fyrir akuryrkju og kvikfjárrækt) hafi valdið stórtækum loftslagsbreytingum, sem og öðrum breytingum á umhverfi og náttúru, sem enn sér ekki fyrir endann á.
Þessi saga áhrifa mannsins á loftslag jarðar er því árþúsundum eldri en saga iðnbyltingar í V-Evrópu.
Sjá nánar:
The Anthropogenic Greenhouse Era Began Thousands of Years Ago (Ruddiman 2003)
The prehistoric and preindustrial deforestation of Europe (Kaplan et al. 2009) Climate model tests of the anthropogenic influence on greenhouse-induced climate change: the role of early human agriculture, industrialization, and vegetation feedbacks (Vavrus, Ruddiman & Kutzbach 2009)Aðalsteinn Sigurgeirsson, 30.10.2009 kl. 13:48
Í Fréttablaðinu var verið að fjalla um hvað á að gera við spilduna þar sem Valhöll var. Miðað við að þar verða að öllum líkindum ekki plantað barrtrjám vegna sérstakra sjónarmiða, þá er sjálfsagt að setja ekkert innflutt þar niður. Spurning t.d. með innflutt byggingaefni? Má ekki syngja það líka í bann eins og þessir hörðu andstæðingar skógræktar vilja gagnvart innfluttum trjátegundum?
Sá spyr sem gjarnan vill fá á hreint hvað má og ekki má.
Mosi
Guðjón Sigþór Jensson, 4.11.2009 kl. 15:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.