15.11.2009 | 14:19
Áfram á sömu braut !
Fyrir einu og hálfu ári hefði verið óhugsandi að halda Þjóðfund á borð við þann sem hann var haldinn í gær.

Á þeim tíma og raunar næsta ár á undan því, þegar allt snerist um að græða sem mesta peninga, ímyndaða að stærstum hluta, hefði verið óhugsandi að umhverfismál hefðu lent í einu af efstu sætum málaflokkanna sem ræddir voru.
Fyrir einu og hálfu ári hefði eitthvað annað orð en heiðarleiki lent í efsta sæti yfir þau gildi sem þjóðin mæti mest.
Fyrirfram óttaðist ég að svona fundur gæti ekki haldið þröngri tímaáætlun og að á hverju níu manna borði yrði hægt að koma frá sér 20 orða ályktun um stefnu þjóðarinnar til framtíðar.
Meirihluti fundarfólks var ekki vant fundarstörfum af þessu tagi.

En hvort tveggja tókst með glæsibrag í gær og fundarstörfin voru á undan áætlun ef eitthvað var án þess að neitt skorti á að skila viðfangsefnunum á viðunandi hátt.
En þá spyrja menn: Er ekki flest af því sem kom út úr fundinum marklaust orðagjálfur?
Vissu allir hvað orðin og setningarnar merktu sem frá fundinum komu?
Ég vil nefna eitt algegnasta dæmið um þetta.
Á tveimur borðum, sem ég starfaði, reyndist það erfiðast að átta sig á hvað tískuorðið "sjálfbærni" þýddi.
Gallinn við þetta íslenska orð er sá að í hugum Íslendinga nær þetta orð yfir miklu víðara svið en enska hugtakið "sustainable developement".
Sama er að segja þótt orðinu "þróun" sé bætt við. Íslendingar virðast almenn leggja miklu víðari merkingu í þetta hugtak en aðrar þjóðir og rugla þessu saman við það að þjóðin sé sjálfri sér nóg á öllum sviðum eins og kostur er og þurfi ekki að flytja inn vörur og hugmyndir.
Orðið "sustainable" þýðir að eitthvað sé varanlegt og geti gengið áfram þannig að kynslóðir framtíðarinnar séu ekki rændar fyrirbærinu, og "developement" sem er samheiti sem nær yfir starfsemi, framkvæmdir, nýtingu.
Þetta er mjög bagalegt því að í umræðu í því alþjóðlega samfélagi sem við Íslendingar erum hluti af verður svona að að vera á hreinu.
Á ráðstefnunni í Ríó 1992 gengust Íslendingar við því ásamt öðrum þjóðum að hafa "sustainable developement" í heiðri og var þetta þýtt sem sjálfbær þróun.
Fólkið, sem sat við borðin, sem ég sat við, speglaði þverskurð þjóðarinnar. Á báðum borðunum reyndist óhjákvæmlegt að fara í gegnum það hvað orðið sjálfbærni merkti og hvað væri meint með orðunum "sjálfbær þróun."
Mjög algengt virtist að fólk tengdi orðið við sjálfsþurftabúskap og þetta heyrði maður að væri svipað um allan salinn.
Eftir þennan þjóðfund verður unnið úr ályktunum og niðurstöðum fólksins og þá kemur þetta vandamál aftur upp. Hvað meinti fólkið við viðkomandi borð raunverulega þegar það lagði áherslu á sjálfbærni?
Þetta atriði, skortur á upplýsingu og þekkingu er eitt af fjölmörgum, sem svona fundur leiðir í ljós.
Það er ekki fólkinu í salnum að kenna heldur þeim sviðum og stofnunum þjóðfélagsins sem eiga að sjá um að dreifa þekkingu og halda uppi umræðu.
Orðtakið "sjálfbær þróun" er skilgreint svona: "Sjálfbær þróun er þróun sem tryggir að komandi kynslóðir geti valið sér þá þróun sem þær kjósa."
Þetta þýðir að við eigum að forðast að taka fram fyrir hendurnar á komandi kynslóðum, til dæmis að forðast aðgerðir, starfsemi eða nýtingu sem hafa neikvæðar og óafturkræfar afleiðingar fyrir kynslóðir framtíðarinnar.
Þjóðfundurinn í gær markar vonandi upphaf aukinnar og skilvirkari lýðræðislegrar þátttöku og áhrifa almennings í þjóðlífi og stjórnmálum.
Ef rétt verður á haldið getur hann farið inn í sögubækurnar sem stórmerkur atburður.
Ef neðri myndin er stækkuð eins og hægt er að gera með því að smella tvívegis á hana, sjást raðir af gulum miðum, en á hverjum þeirra stendur hugmynd um gildi og takmörk, sem hver maður við borðið hefur sett á hann.
Þarna er búið að flokka miðana í málefnaflokka og fullrúarnir eru að gefa þremur miðum atkvæði sitt og síðar þeim þremur málaflokkum atkvæði sem þeir telja mikilvægasta.
![]() |
Fólk logandi af áhuga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nákvæmlega. Þessi fundur sýnir okkur að þjóðin er reiðubúin til að mæta á fundi og kryfja þjóðmálin. Fulltrúar okkar á Alþingi þurfa að fá skilaboð frá grasrótinni en þeir munu ekki sækja þau til hennar né senda eftir þeim.
Árni Gunnarsson, 15.11.2009 kl. 16:24
Nú verður spennandi að fylgjast með störfum og þróun verka á Alþingi.
Lagafrumvarpið um Skuldaskil heimilanna - skjaldborgin um heimilin tók á sig mynd sem ekki er hægt að kenna við heiðarleika. Lauma átti inn í lögin allsherjar eftirgjöf skatta fyrir útrásar og kúlufólkið- máli sem kom skuldaskilum heimila ekkert við . Þannig að spillingargerjun er enn til staðar.
Sjálfbær þróun . Er ekki ágætt að skýra það með skógareyðingunni á Íslandi um aldir. Þar var tekið meira en endurnýjunin stóð undir... Það var ekki sjálfbær þróun.
Sævar Helgason, 15.11.2009 kl. 19:41
Flott niðurstaða.
Sigurður Haraldsson, 15.11.2009 kl. 23:26
"Heiðarleiki er það gildi sem þjóðfundarfulltrúum finnst mikilvægast fyrir samfélagið. Þar á eftir kemur jafnrétti, virðing og réttlæti. Því næst kærleikur, ábyrgð, frelsi, sjálfbærni og lýðræði. Fjölskyldan, jöfnuður og traust er einnig ofarlega á blaði."
Pólitíkusar - vel studdir af hagsmunahópum - munu reyna sitt ýtrasta til að sem allra fyrst fenni yfir þennan fund!
Haraldur Rafn Ingvason, 16.11.2009 kl. 00:16
maður vill sjá árangur!!!! áður en þetta er lofað svona mikið,hvað varð um búsáhaldabyltinguna,hvar er sá árangur i reynd/en ekki gera litið úr hlutunum, vonum að þetta beri árangur/Halli gamli
Haraldur Haraldsson, 16.11.2009 kl. 10:38
Sæll Ómar,
ég kynni að meta ef þú sendir mér póst á kristingri08@ru.is þar sem ég á erfitt með að nálgast netfangið þitt.
Hef áhuga á sterkum skoðunum þínum og hugmyndum um uppbyggingu Íslands fyrir blað sem verður gefið út eftir áramót sem tileinkað verður nýsköpun, krafti, framtíðinni og jákvæðni.
Fyrirfram þakkir,
Kristín
Kristín Grímsóttir (IP-tala skráð) 16.11.2009 kl. 13:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.