19.12.2009 | 22:14
Stormur í vínglasi.
Í þættinum Vikulokunum í morgun innti þáttarstjórnandinn mig eftir skoðun minni á frétt Kastljóss í gær um það að í annað sinn á þessu ári hefði þingmaður verið staðinn að því að greiða atkvæði ölvaður.
Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, hafði Ögmundur Jónasson fengið sér hvítvín með máltíð áður en kallað var með litlum fyrirvara til atkvæðagreiðslu.
Vitni segja að ekki hafi sést á honum að hann væri ölvaður.
Ljóst sýnist mér að að í þeirri atkvæðagreiðslu myndi hann byggja á þeirri niðurstöðu sem hann áður hafði komist að í viðkomandi máli allsgáður og að vel athuguðu máli.
Þegar hann var beðinn um að koma í krefjandi og óundirbúið sjónvarpsviðtal færðist Ögmundur undan því og sagðist ekki vilja gera það eftir að hafa drukkið vín með matnum.
Í þessu svari sé ég koma fram heiðarleika og vandvirkni Ögmundar. Hann var ekkert að fela þetta, en feluleikurinn í kringum áfengisdrykkjuna hefur verið landlægur hér á landi og flestir aðrir en Ögmundur hefðu ekki fært fram neina ástæðu eða þá gripið til einhverrar annarrar útskýringar.
Ég sagði í svari mínu í þættinum að ég hefði lengið átalið það hvernig sífellt væri verið í feluleik og yfirhylmingu hér á landi varðandi áfengismál og við Njörður P. Njarðvík vorum í þættinum ekkert að skafa af því hve gríðarmikið það tjón væri sem þessi hluti fíkniefnavandans ylli.
Gott dæmi um það hvernig færst væri undan að horfast í augu við þennan vanda hvernig Íslendingar kæmust að orði þegar sagt væri "æ, greyið hann var fullur," - "hann datt í það" svona svipað eins og þegar menn hrasa á göngu.
Nánast alltaf er sagt: "Hann lenti á fyllerií", svona eins og að hann hefði á engan hátt borið ábyrgð á því sjálfur.
Ég sagði einnig að í samræmi við þetta teldi ég ekkert athugavert við það að fjallað væri um svona mál í fjölmiðlum en að í þessu tilviki hefði málið verið "stormur í vínglasi."
Þrjú önnur atvik en þetta koma upp í hugann þegar rætt er um þessi mál, mál Sigmundar Ernis Rúnarssonar í sumar, "Bermúdaskál" Davíðs Oddssonar hér um árið og órói sem ummæli Jóns Baldvins Hannibalssonar ollu á fundi Evrópuríkja í Írlandi þegar hann var utanríkisráðherra.
Sigmundur Ernir baðst afsökunar á ölvun sinni.
Þegar Davíð Oddsson tók á móti briddsmeisturum í Leifsstöð sýnist mér ekki hægt að flokka það sem beint embættisverk heldur var hann sem mikill briddsáhugamaður að leggja sitt af mörkum til að heiðra hina nýkrýndu meistara.
Málið var auðvitað leiðinlegt fyrir hann sem forsætisráðherra en þetta getur að mínum dómi ekki flokkast beint undir embættisafglöp.
Tilfelli Jóns Baldvins var alvarlega vegna þess að þar snerist málið um það hvort um misfellu í starfi hefði verið að ræða. Hann var óumdeilanlega að gegna opinberu starfi í umboði þjóðar sinnar í viðkvæmum og vandasömum málum þegar þessi uppákoma varð.
Öllum getur orðið á og ég tel rétt að taka fram að ég tel að Jón Baldvin Hannibalsson hafi verið einhver snjallasti og skarpasti stjórnmálamaður sem við höfum átt og að hann sé það enn.
Mér fannst hvorugt þessra síðastnefndu tveggja tilfella krafin til mergjar heldur látið nægja að slá málum upp á fremur yfirborðskenndan hátt.
Af þessum fjórum fyrrnefndum málum sýnist mér tilfelli Ögmundar Jónassonar lang lítilfjörlegast.
En ég tel þarft að rætt sé um þessi mál á opinskáan og hreinskiptinn hátt. Mál er að feluleiknum linni.
Athugasemdir
Gamli vinur, - Pistill eða ræða Sigmars,veit ekki hvað á að kalla það, var óafsakanleg. Þetta var hneyksli og Páll Magnússon, Þórhallur og Sigmar hljóta að biðja Ögmund og okkur öll afsökunar á þessum mistökum sjónvarps ríkisins , sjónvarpsins sem er í eigu okkar allra.
Eiður Svanberg Guðnason, 19.12.2009 kl. 23:27
Að mönnum skuli finnast það lítilfjörlegt að þingmenn eða toppembætissmenn séu að sulla í víni í vinunni sýnir hvað áfengismórall okkar er sjúskaður og eiginlega hálf slompaður.
Sigurður Þór Guðjónsson, 20.12.2009 kl. 01:25
Alveg er mér hjartanlega sama hvort Ögmundur sullar í sig áfengi
eða ekki. En mér er fyrirmunað að sjá hvað það er sem
Ríkissjónvarpið á að biðjast afsökunar á. -
Ég sá hins vegar, Ómar, að þú slepptir því í umfjöllun þinni um
Bermúdaskálina, - vinnur þú annars ekki við RÚV?, -
að minnast á þá fáheyrðu óhæfu þegar upptaka RÚV fór fram
á efni án þess að mönnum yrði gert aðvart um það í þessu sambandi.
Finnst þér ekki að ríkisútvarpið eigi að biðjast afsökunar á
slíkum vinnubrögðum? Þetta mál gæti orðið þeim skeinuhætt
við Gullna hliðið og enn tækifæri að sjá að sér!
Húsari. (IP-tala skráð) 20.12.2009 kl. 12:36
Assgoti missir maður af mörgu, að sjá ekki alltaf fréttir og Kastljós, en það helgast af því að hvort tveggja á það til að svæfa mig svo ég vakna ekki aftur fyrr en komið er fram í einhver skemmtilegheit.
Og get því ekki látið ljós mitt skína í þessu máli. Þó bláedrú sé.
EN: Ómar, eigum við ekki að brjóta til mergjar? Eða kryfja málin? Ég held varla að hægt sé að krefja þau til mergjar.
Gleðileg jól.
Sigurður Hreiðar, 20.12.2009 kl. 15:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.