"Takið þið hann fyrst, hann er yngri!"

Þegar ég heyri um atvikið, sem þessi pistill er tengdur við, kemur mér í hug þegar tengdafaðir minn heitinn, Jóhann Jónsson vélstjóri, ákvað í sjávarháska að fórna sér fyrir yngri mann. 

Þeir flutu báðir í sjónum efir að togarinn Vörður frá Patreksfirði sökk langt suðaustur af Vestmannaeyjum í haugasjó um hávetur fyrir 58 árum.

Togarinnn Bjarni Herjólfsson, sem kom að,  sigldi um þar sem mennirnir börðust fyrir lífi sínu í sjónum og bjargaði skipverjum einum af öðrum.

Þegar þeir komu að tengdaföður mínum og ætluðu að bjarga honum kallaði hann til þeirra og benti í áttina að hinum yngri skipsfélaga sínum: "Takið þið hann fyrst, hann er yngri!"

Þeir sigldu að manninnum og tókst að bjarga honum, en aðstæður voru mjög erfiðar í svona miklum sjógangi og myrkri og þetta tók því sinn tíma.

Þegar þeir komu aftur að Jóhanni var það of seint. Hann hafði fórnað lífi sínu til að bjarga félaga sínum.

Alls fórust fimm menn í þessu hörmulega sjóslysi. 

Jóhann var enn á besta aldri, um fimmtugt, en samt vildi hann að yngri manninum yrði bjargað fyrst.

Ég hef alla tíð verið ákaflega stoltur af því sem hann gerði og mér þykir vænt um að börnin mín segist vera Vestfirðingar að uppruna þegar um það er spurt.

Skipsfélagi Jóhanns, Guðmundur Halldórsson, var fyrstur Íslendinga sæmdur heiðursorðu forseta Íslands á sjómannadaginn fyrir það mikla afrek sem hann vann við að bjarga félögum sínum.

Ég gerði um hann sjónvarpsþátt sem hét "Hinn hljóði afreksmaður."

Í íslenskri sjómannastétt eru og hafa verið margir hljóðir afreksmenn. 

Sumir þeirra voru ekki eins lánsamir og Guðmundur Halldórsson að lifa af.

En afrek þeirra lifa.  

 


mbl.is „Þá skaltu líka lifa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórður Guðmundsson

Ég þakka fyrir mig. Góður pistill.

Þórður Guðmundsson, 27.12.2009 kl. 05:08

2 Smámynd: Baldvin Jónsson

Ómar minn, takk fyrir þessa frásögn. Hún er góð áminning um þessar hetjur vors lands.

Óska þér og stórfjölsyldunni gleðilegra jóla.

Baldvin Jónsson, 27.12.2009 kl. 08:25

3 Smámynd: Eyjólfur Jónsson

Gleðileg jól Ómar minn og öll þín fjölskylda. Ég er að reina að skrifa þetta með 2-10 ára gamla hunda í fanginu. Þessi óskaplega fórnfýsi sumra  er alveg svakaleg. Ég hef rekist á þessa á sjónum og á landi. Þú gefur stærstu gjöf sem til er, þitt eigið líf. Þetta einkennilegt líf.

Wolfang

Eyjólfur Jónsson, 27.12.2009 kl. 14:14

4 identicon

Já hetjur!
Þekktirðu Árna Njálsson íþróttakennara? Hann teygði og togaði í eyrun á nemendum sínum þannig að undan sveið ef þeir voru ekki eins og hann vildi! Þvílíkur ofbeldisseggur. Manstu eftir þessum fótboltamanni. Honum nægði ekki að sparka í leðurtuðruna heldur sparkaði hann í nemendur sína sem ekki hlíddu.
kveðja, Jón bóndi.

Jón bóndi (IP-tala skráð) 27.12.2009 kl. 16:28

5 Smámynd: Ingvi Rúnar Einarsson

Ég fór í heimsókn til konu,sem er komin yfir nírætt.Hún sagði við mig,að hún vildi fara,en Guð vildi hana ekki.Svo bætti hún við,að það væri henni að móti skapi,að börn og ungt fólk,væri frekar tekið,en hún sem þráði ekkert frekar en að yfirgefa þetta líf yrði að bíða.Þetta er óréttlátt,en Guð ræður þessu.Verði Guðs vilji.

Ingvi Rúnar Einarsson, 27.12.2009 kl. 17:14

6 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

fyrirgefðu bóndi góður, en hvernig tengist íþróttakennarinn Árni Njálsson færslunni?

Brjánn Guðjónsson, 27.12.2009 kl. 22:19

7 Smámynd: Guðmundur Pálsson

Hafðu þakkir Ómar. Það er mikilvægt hverri þjóð að eiga afreksmenn og minnast þeirra sómasamlega, öðrum til hvatningar.

Guðmundur Pálsson, 28.12.2009 kl. 13:20

8 identicon

Jú sérðu kæri Brjánn!

Þar sem hvítt er sést svart best!

kveðja, Mr Bond.

Jón bóndi (IP-tala skráð) 30.12.2009 kl. 00:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband