29.12.2009 | 01:07
Ógnin kemur ekki aðeins frá Afganistan.
Hryðjuverkasamtök munu ekki lognast útaf við það eitt að Bandaríkjamenn vinni sigur í stríðinu í Afganistan.
Þau eru með áhangendur og miðstöðvar víða og ekki bundin við eitt eða tvö ríki.
Eldsmatur hatursins er líka á mörgum stöðum, ekki hvað síst í Palestínu. Þann eldsmat er brýnast að fjarlægja og hika ekki við róttækar aðgerðir til að koma málum þar í sanngjarnt og friðsamlegt horf.
Hlífiskjöldurinn sem Bandaríkjamenn halda yfir spilltum einræðisstjórnum í ýmsum löndum eins og í Sádi-Arabíu fóðrar líka uppsprettu þessa haturs, og er sjálfur Osama bin Laden gott dæmi um það.
11. september 2001 flaug mér í hug að farþegum í flugvélum yrði í framtíðinni gert skylt að fara í sérstaka búninga fyrir flug og bannað að hafa neitt með sér, heldur færi allur farangur og fatnaður í sérstökum farangursflutningavélum.
Í hernaði verður ávallt að reikna með því að andstæðingarnir finni ný ráð til að stunda hernað sinn. Þess vegna held ég að ýmislegt sem gerist í framtíðinni muni koma mönnum jafnvel meira á óvart en það hvernig nýjasta sprengjumanninum tókst að fela sprengiefnið innan klæða.
Þar með kann hugmyndin um algeran aðskilnað farþega annars vegar og fatnaðar og farangurs hins vegar ekki að virðast jafn galin í framtíðinni og mér fannst hún sjálfur vera 11. september 2001. Hver veit?
Al-Qaeda lýsir sprengjutilræði á hendur sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ef andstæðingar Þjóðverja í Fyrri heimsstyrjöldinni hefðu haft öflugan her í Þýskalandi í nokkra áratugi eftir styrjöldina væri Ísrael ekki til.
Þorsteinn Briem, 29.12.2009 kl. 02:43
Fólk þarf aðeins að fara að pæla í hlutunum út fyrir litla kassann sinn og hugsa hvað er það sem ógnar heiminum.
Það eru EKKI hryðjuverk.
Líkurnar að deyja úr hjartaáfalli eru margfalt meiri en að deyja útfrá hryðjuverkaárás, þær eru svona álíka miklar og að deyja vegna skyndilegs hnetuofnæmis eða verða fyrir eldingu. Ef hryðjuverk ættu að ná uppí dauðsföllin sem verða vegna bílslysa í Bandaríkjunum þá þyrfti að vera árás eins og árásinn 11. september í hverjum mánuði og eins og er hefur ekki orðið slík árás í nánast 8 ár.
Hvernig stendur þá á því að sú þjóð sem eyðir mestum peningum í heiminum í hernað til að koma í veg fyrir hryðjuverkaárásir, skuli eyða margfalt minni pening í heilsuvandamál eins og hjartasjúkdóma og krabbamein?
Það er kominn tími til að fólk vakni upp frá þessum hræðsluáróðri og reyni að gera sér grein fyrir þeirri virkilegu ógn sem stafar að því þegar fólk heimskast til að gefa frá sér frelsi til að eignast vonlausa drauma um öryggi.
Ég er ekki að gera lítið úr því að fólk deyji vegna hryðjuverka eða stríðs í heiminum mannslíf er mannslíf ég er bara að reyna að koma hlutunum í rétt viðmið, það er kominn tími til að forgangsraða vandamálum rétt.
Á þeim tíma sem tók mig að skrifa þetta dóu rúmlega 200 manns vegna hjartabilana rúmlega 100 vegna krabbameins 50 vegna lungnasjúkdóma einungis 3 dóu vegna stríðs.
ævar (IP-tala skráð) 29.12.2009 kl. 04:07
Öll deyjum við, fyrr eða síðar, en ég hef nú mestar áhyggjur af kjarnorkusprengjum, því það er alltaf hálf leiðinlegt þegar margir deyja á einu bretti.
Bandaríkjamenn hafa lengi eytt miklu fé í að verja sitt eigið öryggi og hagsmuni úti um allan heim, til dæmis í báðum heimsstyrjöldunum, Kóreu og Víetnam.
Þeir voru einnig með herstöð hér á Miðnesheiði í sama tilgangi.
Og ef Bandaríkjamenn vilja skoða vandlega alla Íslendinga sem endilega vilja eyða dýrmætum gjaldeyri í Mall of America er það bara hið besta mál.
Þegar ég fékk vegabréfsáritun (business visa) til Rússlands fyrir fjórum árum gat ég búið þar í eitt ár án þess að endurnýja áritunina. Þurfti bara að fara úr landi eftir hálft ár og koma svo aftur til landsins. Skrapp þá frá Moskvu til Kænugarðs (Kiev) í Úkraínu, fór svo til baka daginn eftir og þurfti ekki að fá vegabréfsáritun til Úkraínu.
Húsmóðir hér í Vesturbænum var hins vegar handtekin í jólainnkaupum í New York fyrir tveimur árum, send til baka í Vesturbæinn og fékk ekki einu sinni að halda handjárnunum.
Þorsteinn Briem, 29.12.2009 kl. 04:50
"Ye-minn" einasti upphrópunin í íslensku máli á sér þá kannski sínar skýringar eftir allt...
Ómar Bjarki Smárason, 29.12.2009 kl. 09:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.