29.12.2009 | 10:16
"Veit einhver hvar flugvöllurinn er?"
Það er ekki nýtt að jafnvel atvinnuflugmenn villist. 1. maí snemma á sjöunda áratugnum var flogið með mig og fleiri skemmtikrafta frá Reykjavík til Snæfellsness þar sem við áttum að koma fram í Grundarfirði og Ólafsvík.
Á þessum tíma hafði ég ekki enn byrjað flugnám en naut þess í hvert sinn sem ég flaug með áætlunarflugi eða í leiguflugvélum að fylgjast vel með á kortum og reikna út hraða og staðsetningar.
Sunnanátt var, súld, lágskýjað og lélegt skyggni á leiðinni frá Reykjavík en flugmaðurinn flaug samt sjónflug allt upp á Snæfellsnes.
Mér þótti einsýnt að hann kæmist ekki yfir Kerlingarskarð eða þá leið sem nú er kölluð Vatnaleið og var því ekki rótt.
Skyndilega reif flugmaðurinn vélina upp og flaug upp í skýjaþykknið. Ég fylgdist spenntur með á kortinu og reiknaði út hvar við værum og sá, með því að fylgjast með hraða- og hæðarmælum flugvélarinnar hvernig vélin lyftist yfir fjallgarðinn.
Flugmaðurinn hafði nóg að gera að fljúga þetta blindflug og var ekki í neinu sambandi við mig um gang flugsins.
Með mér í vélinni voru Tryggvi heitinn Emilsson, sem átti að vera ræðumaður,og Tómas Grétar Ólason, undirleikari minn, sem enn er á lífi og man þetta áreiðanlega jafnvel og ég.
Flugmaðurinn hóf nú að lækka flugið til norðurs og ég var alveg pollrólegur því að ég vissi að bjartara væri norðan nessins og engin hindrun yfir hinum 60 kílómetra breiða Breiðafirði.
Við komum út úr skýjum rétt vestan við Stykkishólm og hóf nú flugmaðurinn að fljúga meðfram ströndinni í átt til Grundarfjarðar.
Hann flaug þvert fyrir Kolgrafarfjörð og var á leið yfir Grundarfjörð þegar mér sýndist að hann ætlaði áfram án þess að vita hvar hann væri.
Þetta þótti mér athyglisvert og beið spenntur alveg eftir því hvað gerðist næst.
Þá leit flugmaðurinn loks til okkar og spurði: "Veit einhver ykkar hvar flugvöllurinn er?"
Ég vissi það og gat látið hann snúa við og lenda á vellinum, sem þá var utarlega á ströndinni við austanverðan fjörðinn.
Fleira og miklu skrautlegra gerðist í flugi okkar um kvöldið sem ekki verður rakið hér, en eftir þetta styrktist ég í því að það gæti verið í lagi að ég lærði að fljúga, því varla gæti ég orðið mikið lakari í þessum fræðum en þessi flugmaður.
Þess má geta að flugmaður þessi staldraði stutt við sem atvinnuflugmaður og flutti skömmu síðar til útlanda.
Og einnig er rétt að halda því til haga að svona uppákomur eru algerar undantekningar og að ég átti eftir að læra margt og mikið af fjölmörgum frábærum flugmönnum sem ég kynntist á ferli mínu.
![]() |
Farþegar vísuðu flugmanni til vegar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæll Ómar.
Þetta minnir mig á flug til Akureyrar rétt upp úr 1970. Þá flaug ég með flugkennara og -nema norður í land. Ballið byrjaði fljótlega eftir Hvalfjörð. Stuttu síðar sagði kennarinn, eftir lestur á korti og úr merkjum frá stefnuvitum, að við værum yfir Lundarreykjadal. Ég benti þá á að þetta væri Skorradalsvatnið fyrir neðan okkur. Þegar lengra kom benti ég á að þetta væri Grímsá, þarna Lundur og fleiri bæir sem ég nefndi og þeir væru ekki í Reykholtadal. Þá þótti ég ekki skemmtilegur farþegi lengur, hafi það einhvern tíma þótt!! Alla leiðina norður héldu þessi vandræði áfram og ég var farinn að ókyrrast nokkuð og velta fyrir mér hvort þeim tækist að finna einhvern völl á leiðarenda. Þetta var á kosningadegi og í leiðinni átti að skjóta nokkrum atkvæðum á Krókinn og einhverra hluta vegna álpuðumst við nú á Skagafjörð. Þá tilkynnti flugstjórinn að nú kæmum við yfir Blöndudal. Enn gat ég ekki þagað og benti á að bærinn fyrir neðan okkur væri efsti bær í Skagafirði (sem ég man ekki lengur nafn á), en mikið létti mér þegar við lögðumst inn til lendingar á Sauðárkróksflugvelli. Leiðin þaðan til Akureyrar lá svo beint við að ég hætti við að hlaupa frá borði þarna og koma mér landleiðina áfram, enda skipti tiltölulega litlu hvernig hann gat ruglast á leiðinni yfir Öxnadalinn en mikið var það léttari gæi sem steig frá borði á Akureyrarflugvelli og þakkaði pent fyrir sig. Síðan held ég ekki að ég hafi komið um borð hjá þessum tveim mönnum, en kannski hafa þeir líka náð áttum síðan. Ég velti aftur á móti fyrir mér í mörg ár á eftir að sennilega ætti ég að læra að fljúga sjálfur. Því kom ég aftur á móti því miður aldrei í verk.
Með jólakveðju, Erlingur Friðriksson
Erlingur Friðriksson (IP-tala skráð) 29.12.2009 kl. 11:29
Skemmtileg frásögn og ég veit að þú átt hafsjó af skemmtilegum flugsögum sem þú ættir nú að koma í letur meðan tími er til. -- Ég er enginn flugkappi og hef aldrei verið, en man þó að einn af frumherjum flugsins á Íslandi bauð mér einu sinni með sér í flug til Ísafjarðar og heim aftur af því hann ætlaði að sýna mér ýmislegt á leiðinni. Kannski líka lenda á Flatey á Breiðafirði þar sem hann hafði heyrt að komin væri flugbraut en aldrei séð hana sjálfur.
Þar hnitaði hann svo hringa yfir í bakaleið. Frekar lágskýjað var og tekið að bregða birtu en svo þóttist hann sjá hvar flugbrautin væri og bjóst til lendingar. Allt í einu gaf hann svo í aftur og reif flugvélina upp og tautaði fyrir munni sér: Nei, þetta er bara kartöflugarður.
Svo lentum við heilu og höldnu í Reykjavík og þó flugferð þessi væri að mörgu leyti minnileg var ég afar fegin að hafa aftur fósturjörð undir fótunum.
Sigurður Hreiðar, 29.12.2009 kl. 14:47
Skemmtilegar frásagnir hjá ykkur piltar. Mér hefur alltaf þótt gaman að fljúga, og sá áhugi kom þegar ég flaug sem stráklingur (7-8 ára) til Ísafjarðar, en þá flaug ég með Grumman flugbáti,síðan lent á Pollinum þá ekið upp í fjöruna á svona bretajárn. Þegar flogið var til baka brunaði vélin eftir pollinum og reif sig upp í loftið, tók svo stóran sveig út fjörðinn. Þvílíkur kraftur. Ég man enn eftir honum rúmlega sextíu árum síðar.
Nokkru seinna flaug ég vestur með Katalinaflugbát og var sú ferð ekki síðri, nema þá var ferjað úr henni í land á trillu. Sennilega verið of stór til að fara með hana upp í fjöru.
Bestu jóla og nýárskveðjur.
Jón Thorberg Friðþjófsson, 29.12.2009 kl. 19:00
Sæll og blessaður Ómar og gleðilega hátíð.
Ég tek undir með Sigurði Hreiðari og hvet þig til þess að leggja nokkrar flugsögur niður á blað. Þú þekkir þær nokkrar ansi góðar og ert góður sögumaður.
Kveðja,
ÞyrluKalli
Karl Jóhann Guðmundsson (IP-tala skráð) 29.12.2009 kl. 23:20
Í ferðum mínum í margra klukkutíma akstri á flugsýningar erlendis sagði ég flugsögur og út úr því kom nafnalisti yfir 55 flugsögur. Það er aðeins helmingurinn af þeim flugsögum sem ég gæti bætt við á listann og sagan sú arna að ofan er ekki ein af þeim.
Ómar Ragnarsson, 29.12.2009 kl. 23:27
Sæll Ómar.
Endilega drífðu í því að skrásetja allar sögurnar. Ekki bara skrifa, heldur taka þær upp á band. Góða saga verður betri vel sögð. Það kannt þú. Kannski ný hljóðbók næstu jól?
Kv.JAT
Jón Tynes (IP-tala skráð) 30.12.2009 kl. 17:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.