Skómigustefnan sækir á.

 Það sem ég vil kalla skómigustefnuna hefur nú gripið ráðamenn víða um lönd. Heitið vísar í máltækið að "það er skammgóður vermir að míga í skó sinn."

Þrátt fyrir því að andmælt sé ótvíræðum tölum um það að allar helstu auðlindir mannkynsins muni þverra á þessari öld sést greinilega á mörgu, að viss örvænting er farin að grípa um sig. 

Til dæmis þótti svo mikið við liggja hér á landi í upphafi þessarar aldar að ákveðið var að vaða áfram á mesta ofurhraða virkjanaæðis, sem um getur, bæði á Norðausturlandi og Suðvesturlandi. 

Nú þegar er orka Hellisheiðarvirkjunar farin að dvína af því ákveðið var að pumpa hámarks orku út úr svæðinu hið snarasta strax í upphafi. Enn er eiturefnadreifingin frá virkjuninni óleyst vandamál. 

Bergbrotsæðið hefur gripið engilsaxnesku þjóðirnar og getur frestað um eitthvert tímabil hinu óhjákvæmilega að jarðefnaeldsneytisauðlindin muni þverra hratt og binda enda á olíuöldina. 

Þar er á ferðinni svipuð skómigustefna og ríkir hér og með svipuðum vandamálum varðandi eitrun og umhverfisspjöll. 


mbl.is Bergbrot eins hættulegt og asbest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gefum okkur of oft að útlendingar hugsi eins og við.

Ef hér á landi hefðu risið byggingar úr varanlegu efni, sem væru nú dýrmætar fornminjar og að þar hefðu gerst stórir atburðir í sögu lands og þjóðar, til dæmis kristnitakan,gætu einhverjar þeirra verið ígildi Þingvalla og með álíka mikla umferð ferðamanna og þeir.

Þar sem gjaldtaka er inn á slíka staði erlendis þykir ferðamönnum það ekki vera óeðliegt og heldur ekki þar sem um er að ræða þjóðgarða eða vernduð svæði með miklum náttúruverðmætum. 

Af því má ráða að hér á landi myndi þeim heldur ekki finnast það óeðlilegt að borga aðgengseyri, svo framarlega sem þeir fengju eitthvað áþreifanlegt í hendurna við að borga sig inn,svo sem flotta kynningar- og upplýsingabæklinga.

Einnig er mikilvægt að þeir fengju að sjá árangurinn af gjaldtökunni í formi þjónustu og vandaðra göngustíga eða palla, sem væru gerðir af smekkvísi og natni til þess að valda ekki óafturkræfum umhverfisspjöllum.

Við Íslendingar erum alltof gjarnir á að gefa okkur það hverju útlendinga sækist eftir, svo sem að hér sé miklu hlýrra og bjartara veður og aðal aðdráttaraflið fyrir þá hljóti að vera staðir á borð við Hallormsstaðaskóg en ekki víðáttur og auðnir öræfanna.  

Að útlendingar vilji frekar bruna á malbikaðri hraðbraut og yfir flottar brýr inn um alla Þórsmörk og Goðaland heldur en að upplifa safari-ferð um ósnortnar slóðir eins og nú er. 


mbl.is Fjölgun sem hefur áhrif
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju ekki frekar að færa vinnutímann yfir háveturinn?

Ef þjóðfélag okkar ætti að fara bókstaflega eftir kenningunni um lífklukkuna og sólarganginn, atriði sem hafa erfst í gegnum árþúsundir frá því að maðurinn bjó nálægt miðju jarðar, yrði sólarhringnum skipt í tvennt á þann hátt að svefntíminn með adraganda svefns og tíma fótaferðarinnar yrði um 10 tímar og vökutíminn til vinnu um 14 tímar, en miðja hvors tímabils um sig yrðu miðnætti annars vegar og hádegi hins vegar.  

Fólk gengi þá til náða um um klukkan sjö á kvöldin, sofnaði um klukkan átta, vaknaði klukkan sjö á morgnana og hæfi vinnu klukkan sex.

Raunar þekki ég allmarga í svonefndum a-flokki sem vakna um sexleytið á morgnana og eru orðnir syfjaðir um kvöldmatarleytið og passa inn í þessa kenningu.

En hinn gríðarlegi munur á sólargangi um hávetur og hásumar hér á landi ruglar þetta allt. Fótaferð klukkan fimm til sex á morgnana myndi þýða margra klukkustunda vinnu eða nám í skóla í myrkri á hverjum morgni.Enda er allt þjóðlífið kolskakkt ef kenningin er tekin bókstaflega. 

Búseta svona norðarlega hlýtur að hafa skekkt grundvöll lífsklukkunnar í gegnum aldirnar, spurningin er bara hversu mikið. 

Kosturinn við að hafa klukkuna eins og hún er núna, er sá, að öll samskipti við Evrópu, sem er okkar aðal viðskiptasvæði, verða þægilegri en ef klukkunni verður seinkað.

 

Ameríka er hvort eð er það margar klukkustundir frá okkur að ein klukkustund til eða frá breytir ekki miklu 

Hér áður fyrr var "hringlað með klukkuna" hér á landi á milli sumartíma og vetrartíma eins og dæmi eru um að gert er erlendis, en spurningin er hvort ekki sé alveg eins hægt að færa til vinnu- og námstímann aftur um eina klukkustund frá 10. nóvember til 10. febrúar.

Þessir dagar sem ég nefni miðast við það að klippa af myrkurstímanum á morgnana og taka það með í reikninginn að sólarupprás er seinna á degi hverjum eftir sólstöður en fyrir sólstöður.

Ótalinn er einn kostur þess að halda klukkunni kyrri. Hann er sá að í okkar norðlæga landi með tilheyrandi lágum sólargangi og mörgum dögum með skýjuðu veðri er gott að geta notið sólarinnar eftir vinnu klukkustund lengur en ella, einmitt þá stund sem sólin er ekki búin að lækka of mikið.    


mbl.is Mjög brýnt að seinka klukkunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband