Myrku morgnarnir yrðu næstum helmingi færri.

Þegar verið er að velta vöngum yfir birtunni á morgnana á kvöldin er mikilvægt að miða ekki við sólarupprás heldur hugtak sem í fluginu heitir "birting" og er miðað við þann tíma þegar sólin er 6 gráður undir sjóndeildarhringnum. 

Þessi tímapunktur er viðmið fyrir skilgreiningu á skilyrðum fyrir nætursjónflug og er að meðaltali um eina klukkustund fyrir sólarupprás og eina klukkustund eftir sólarlag. 

Dagsbirtan miðuð við klukkan átta á morgnana sést hér að neðan á töflu, vinstra megin miðað við núverandi klukku og síðan hægra megin miðað við það að seinka henni um klukkustund, eða kannski öllu fremur, að seinka fótaferð yfir háveturinn. 

26. október kl. 8:01 - 18:24 ......færist aftur til   16.nóvember. 

26. febrúar kl. 8:00 - 19:25 ......færist fram til    6. febrúar  

Samkvæmt þessu styttist það tímabil vetrarins, sem birtir klukkan átta að morgni úr fjórum mánuðum, niður í tvo mánuði og 10 daga eða næstum því um helming.

Styttingin nemur alls um 50 dögum.

Að sjálfsögðu tapast jafn mikill birtutími í staðinn síðdegis, en sennilega er gróðinn á morgnana meira virði fyrir líkamlega og andlega vellíðan varðandi að byrja daginn í sem bestu birtuskilyrðum.

En þetta sýnir líka hve miklu munar ef námstími og vinnutími eru einfaldlega færð í stað þess að hringla með klukkuna. Það er mín tillaga. Seinka fótaferð yfir háveturinn en flýta henni og birtutímanum síðdegis þegar sólin er komin hærra á loft.    


mbl.is Svona birtir með breyttri klukku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi ekki annað "Engihjallaveður".

Flestir sem ég hef rætt við um óveðrið 3. febrúar 1991 nefna götunafnið Engihjalla þegar rætt er um það óveður. Jafnvel talað um "Engihjallaveðrið". 

Ástæðan er sú einstæða uppákoma þegar bílar fuku til eins og eldspýtustokkar og skemmdust á bílastæði við íbúðablokk við Engihjalla í Kópavogi. 

Mér er enn í minni talan 93 hnútar eða um 50 metrar á sekúndu í Reykjavík. 64 hnútar eru skilgreindir sem fárviðri.  

Hluti dagsins hjá mér fór í að koma í veg fyrir að tvær flugvélar, sem ég átti, eyðilögðust, en þær stóðu úti. 

Önnur, Cessna 210, stóð inni í svonefndum Básum norðan við Loftleiðahótelið og það þurfti að vakta böndin sem hún var bundin í svo að hnútarnir á þeim röknuðu ekki upp, því að allt lék á reiðiskjálfi inni í básnum hennar og hún hoppaði til og frá í böndunum.

Stórum vöruflutingabíl var lagt sem skjólvegg fyrir hina vélina, Dornier 27, sem stóð við flugskýli suður í Skerjafirði. Hvað eftir annað lyfti vindurinn bílnum upp svo að hann var við það að velta á flugvélina.

En í hvert sinn sem bíllinn vó salt, var kominn það mikill halli á hann, að vindurinn brotnaði aðeins betur af honum svo að hann fór aldrei alveg á hliðina. Það var einstök sjón.

Vonandi kemur ekki jafn slæmt veður nú í kvöld.  


mbl.is Svona var ofsaveðrið 1991
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn skjálfti núna undir Holuhrauni en fleiri undir Bárðarbungu.

Þótt stóru skjálftunu hafi ekki fækkað að undanaförnu undir Bárðarbungu er áberandi síðustu dagana hvað skjálftum hefur fækkað undir Holuhrauni.

Nú er liðið óvenju langt frá síðasta stóra skjálftanum undir bungunni en litlu skjálftunum hefur fjölgað þar, en núna er engan skjálfta að sjá norðan Dyngjujökuls á grafinu á vedur.is.

Fróðlegt væri að vita hvað vísindamenn segja um þetta.  

Sem leikmanni dettur mér í hug að þetta geti verið venga þess að við langvarandi rennsli kvikunnar í gegnum Baug og út úr honum, sé leið fyrir kvikuna orðin svo greið, að landið skjálfi ekkert við þetta og að Baugur sé einfaldlega eins og þægilegt afrennsli fyrir þá kviku, sem þrýstist enn til norðausturs út úr kvikukerfi Bárðarbungu.

Og síðan spurningin um það hvort eðli umbrotanna undir bungunni sé að breytast og þá hvernig. 

Sé svo, kann að vera að spá Haraldar Sigurðssonar eldfjallafræðings um að gosið kunni að lognast út af í mars eða seinna í vor rætist og jafnvel að gosið lognist út ennþá fyrr. Hver veit?


mbl.is Öflugt eldgos í þrjá mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falsvonirnar fyrir hálfri öld.

Upp úr miðri síðustu öld var farið að reisa kjarnorkuver og það er minnisstætt hve bjartsýnin varðandi beislun þessarar orku var mikil. 

Hér á landi var til dæmis höfð uppi hvatning til þess að virkja sem allra mest vatnsafl sem allra fyrst áður en það yrði ekki samkeppnisfært við kjarnorkuna. 

Aldrei var minnst á hættu af "kjarnorkuslysum" eða þá staðreynd að kjarnorkuvinnsla á grundvelli notkunar úraníums getur aldrei leyst allan orkuvanda mannkynsins, því að þá verður úraníum uppurið á nokkrum áratugum. 

Lítið fór fyrir upplýsingum um kjarnorkuúrgang og vandann, sem hann skapar. 

Miðað við það hve langan tíma tók að átta sig á og upplýsa um mikilvægar staðreyndir varðandi beislun kjarnorkunnar, ætti að hafa varann á þegar nú eru gylltir mjög möguleikarnir á svonefndri "fracking" aðferð, eða "bergbrot" til að vinna jarðefnaeldneyti úr jörðu. 

Þótt þessi aðferð hafi skapað Bandaríkjamönnum möguleika á að framleiða meiri olíu og gas sjálfir heldur en olíu, sem þeir flytja inn, og að af þessum sökum hafi olíuverð hríðfallið á heimsmarkaði, eru þegar farin að blikka ýmis aðvörunarljós varðandi ógnarhraðan vöxt þessarar vinnslu, bæði hvað snertir umhverfisáhrif og eitrunaráhrif og ekki síður það, að þetta muni verða afar skammgóður vermir vegna þess að þetta er svo sannarleg óendurnýjanlegur orkugjafi.

En lítil von er til þess að hægt verði á hinu nýja æði. Obama forseti þarf á svona innspýtingu að halda fyrir fylgi sitt þau tvö ár sem hann á eftir í embætti og Vesturlöndum er mjög í mun í togstreitunni við Rússa að nota gamla trikkið hans Reagans gagnvart Rússum, sem fólst í því að standa sem staðfastastir í því að láta aukið framboð verðfella olíuna, en það kemur sér alveg sérstaklega illa fyrir olíuþjóð eins og þá. 

 


mbl.is Draugabær myndaður úr lofti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. nóvember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband