Sá, sem þráði titilinn meira, vann.

Það fór eins og mig grunaði og setti á blað hér á blogginu í gær, að þegar jöfn hörð og langvarandi keppni er í úrslitarimmunni í handboltanum, standi það lið uppi sem sigurvegari, þar sem leikmenn og stuðningsmenn þyrstir ögn meira í titilinn en mótherjinn.

Margir spáðu því fyrirfram að Haukar myndu hafa betur í rimmunni og vinna með tölunum 3:0, þ. e. sigra í þremur leikjum í röð og nýta sér sína miklu breidd í leikmannahópnum og sigurhefðina.

En það fór á aðra lund og minnir á það þegar KA varð Íslandsmeistari í knattpyrnu hér um árið.

Sigurinn er fyrst og fremst Vestmannaeyinga sem heildar, hinnar órofa samheldi og smitandi baráttugleði sem gæddi gamal málttæki nýju lífi: "Trúin flytur fjöll."

Til hamingju, Eyjamenn !   


mbl.is Ótrúleg stemning þegar bikarinn fór á loft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur eina vonin frá útlöndum ?

Vitnað hefur verið í þau orð Jóns Sigurðssonar að Íslendingar þyrftu aðstoð útlendinga við að færa þjóðinni fullveldi.

Danskur maður, Ramus Kristján Rask, var slíkur maður, forgöngumaður um að bjarga íslenskri tungu.

Enskur maður hafði um það forystu að bjarga íslenska hundinum. 

Þetta á ekki síst við um ýmis mál, þar sem smæð samfélags okkar gerir þetta enn nauðsynlegra.

Geirfinns- og Guðmundarmálin voru þess eðlis, að hafi einhverjir haldið að við Íslendingar gætum haldið þeim málum alveg út af fyrir okkur, mun það ekki takast.

Í lýsingu Guðjóns Skarphéðinssonar og lýsingum þeirra tveggja, sem sannanlega voru hafðir saklausir í margra vikna gæsluvarðhaldi við illan kost, má glögglega ráða, hvernig þeir voru brotnir niður með aðferðum, sem voru þá og ekki síður á okkar tímum svo harkalegar, að slíkt er ekki aðeins ólöglegt, heldur eru framburðir, sem neyddir eru fram á þann hátt algerlega marklausir.

Davíð Oddsson, sagði eitt sinn á þingi þegar hann var forsætisráðherra, að í þessum málum hefðu verið framin dómsmorð.

Enn virðist ekki vera nógu langt síðan þessir atburðir gerðust og þar að auki er návígið svo mikið í okkar örþjóðfélagi, að okkur er það mögulegt að hreinsa upp þá smán á íslensku samfélagi, sem Geirfinns- og Guðmundarmálin voru, eru og verða þar til þau verða gerð upp.

Ef BBC og fleiri öflugir aðilar erlendis koma nú til skjalanna til að varpa ljósi á þetta mál er það kannski eina vonin til þess að við sem þjóð getum horfst í augu við þetta verkefni og leys það.

Ljóst er af framburði í dagbókum sakborninganna og vitnisburðum þeirra síðar, sést, að það var hin óbærilegi þrýstingur í íslensku þjóðfélagi sem knúði þessa vitleysu áfram, þar sem vantaði lík, vantaði morðvopn og vantaði ástæðu til þess að fremja morð á tveimur aðskildum mönnum sem aldrei tengdust neitt hvor öðrum, hvað þá sakborningunum.

Í dag bárust fréttir af harkalegum dómi í Súdan yfir konu, sem neitar að hverfa frá kristni og gerast múslimi.

Þær hafa réttilega vakið hörð viðbrögð um allan heim. Framkvæmd dómsmála hvar sem er í heiminum skipta máli.  

  


mbl.is „Ég viðurkenndi að hafa drepið Geirfinn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf alþjóðlegt dómsvald í svona málum?

Forræðismál virðast vera einhver erfiðustu mál, sem rekin eru fyrir dómstólum, og verða enn erfiðari ef þau eru orðin að eins konar milliríkjamáli.

Í ævisögu Steingríms Hermannsssonar, sem þurfti að glíma við mörg afar erfið mál í stjórnmálum, má skynja hve forræðismál hans sem tengdist tveimur löndum, var honum erfitt.

Enn er í minni málarekstur Sophiu Hansen, þar sem um var að ræða brottnám tyrknesks föður á tveimur dætrum Sophiu til Tyrklands.

Þrátt fyrir allt tal um að nútíma réttarfar sé svo miklu betra en það var fyrr á öldum, er engu líkara, en að þegar forræðismál lenda á borði tveggja þjóða, ráði þær ekki við þau, heldur verði þessi mál að bitbeini á milli þjóðanna.

Af þeim upplýsingum, sem fást af dómstólameðferð á máli Hjördísar Svan Aðalheiðardóttur í Danmörku, er að sjá að dönsk yfirvöld séu ekki fær um að leggja faglegt mat á mál hennar.

Og af tali lögfræðinga er heyra að slík hegðun sé alvanaleg þegar um svona mál sé að ræða.

Einhvern veginn finnst manni að til þyrfti að vera sérstakur alþjóðlegur dómstóll, sem fjalli eingöngu um svona mál út frá sjónarmiði óháðs þriðja aðila.  

 


mbl.is Ein­göngu að klekkja á Hjör­dísi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband