"...Hagráð var skínandi bjart..."

"Fjármálastöðugleikaráð" er langt orð. Ekki er ég viss um að mikilvægi nefnda og ráða fari eftir því hvað nafn þeirra er langt. Vafalaut eru miklar vonir bundnar við þetta nýja ráð með langa nafninu og víst er að verkefnin ætla að vera erfiðari en búast hefði mátt við.

Vinnudeilufréttirnar, sem nú eru farnar að dynja í fjölmiðlum daglega, vekja vondar minningar um fyrri tíð þegar Ísland var með einhverja mestu verkfallatíðni á byggðu bóli og tilheyrandi verðbólgu vegna víxlverkana kaupgjalds og verðlags, að ekki sé minnst á það, að tjónið af þessum verkföllum var oft meira en ávinningurinn.

Einstaka verkfall skapaði þó félagslegar umbætur, styttri vinnutíma, lengra orlof, almannatryggingar og félagslega bústaði.

Á sjöunda áratug síðustu aldar höfðu verkföll áratugsins á undan orðið til þess að menn þráðu að bæta ráð sitt.

Þegar Viðreisnarstjórnin skar hagkerfið upp og minnkaði stórlega höft, var deildin, sem verið hafði í Landsbankanum og séð um prentun peningaseðla og gengismál, tekin út úr bankanum og stofnaður sérstakur Seðlabanki Íslands.

Jafnframt var stofnað svonefnt Hagráð, sem mig minnir að hafi átt að sýsla við svipuð verkefni og Fjármálastöðugleikaráð á að sinna nú, en ekki minnist ég þess að Hagráð hafi komið nokkru  nýtilegu í verk.

Heitið Hagráð er tvö atkvæði en nýja nafnið er átta atkvæði, fjórum sinnum lengra. Það eru 6 stafir í orðinu "Hagráð" en 22 stafir í nýja heitinu, sem ég nenni ekki einu sinni að skrifa.

Þegar kreppa dundi yfir í íslensku efnahagslífi 1968 gerði ég það mér til dundurs á skemmtunum að herma eftir Gylfa Þ. Gíslasyni og fara með skopstælingu á ljóðinu "Ísland, farsælda frón".

Í fyrri hluta þess voru meðal annars þessar hendingar:

"Landið var ferlega flott 

og fannhvítar þingmanna tennur, -

Hermann var heiður og blár, -

Hagráð var skínandi bjart. "   

 

Þetta hefði verið útilokað að gera ef ráðið hefði heitið "Fjármálastöðugleikaráð"

Árið 1968 var mjög kalt og gríðarlegar kalskemmdir í norðlenskum túnum.

Í síðari hluta ljóðsins voru meðal annars þessar hendingar:

 

"Landið er ferlega fryst

og fannhvítar kalskemmdasveitir, -

Hermann ei heiður og blár, -

Hagráð er skínandi svart."

 

Setningin um Hagráð reyndist innihalda áhrínsorð. Einhvern tíma á næsta áratug minnir mig að það hafi safnast til feðra sinna á mesta verðbólgutíma, sem komið hefur í sögu landsins, svo að heitið Hagráð hefði frekar átt að vera Hag-óráð.

Vegna þess hvað heiti hins nýja Hagráðs er langt, er ekki hægt að koma fyrir neinum áhrínsorðum um það í stuttum ljóðlínum. En það mun samt engu ráða um það hvort það lifir lengur eða skemur enda auðvelt að setja saman ný áhrínsorð undir öðrum bragarhætti.

 

Hagráð dróst upp, varð eymd´að bráð.

því uppskorið var sem til var sáð.    

Mun farlmama róa fram í gráð

Fjármálastöðugleikaráð ?

 

 

 

 

 


mbl.is Fjármálastöðugleikaráði komið á fót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað gerðist hjá Suður-Kóreska flugfélaginu hér um árið.

Fyrir allmörgum árum tapaði Suður-Kóreska flugfélagið miklu á því að slysatíðni á vélum félagsins var mun hærri en hjá öðrum flugfélögum. Einstaka slys gat að vísu hafa gerst hjá einhverju öðru félagi, en loks kom að því að þau voru orðin of mörg.

Eftir að eitt stórslysið varð og upptökur úr stjórnklefanum sýndu að flugstjórinn naut óeðlilegrar og nánast tilbeiðslukenndrar virðingar sem hamlaði því að aðstoðarmenn hans þyrðu að koma með athugasemdir um gerðir hans, hrundi traustið á félaginu og það stórtapaði, rétt eins og malasíska flugfélagið gerir nú.

Forráðamenn Suður-Kóreska félagsins tóku sig til og létu fara fram gagngera könnun á  samskiptavenjum starfsmanna félagsins þar sem gamlar foreskjulegar hefðir reyndust gera mikið ógagn.

Voru tekin upp gerbreytt vinnubrögð byggð á nauðsynlegum og nútímalegum samskiptum starfsmanna og í kjölfarið komst flugfélagið í hóp öryggustu flugfélaga heims.

Slysa- og óhappatíðni hefur verið í hærri kantinum hjá Malasyan Airlines síðustu ár og við rannsókn á hvarfi Boeing 777 þotunnar í vor kom í ljós að félagið hafði sparað sér að taka í notkun tækni sem hefði hugsanlega getað breytt miklu um það hve gersamlega vélin hvarf.

Þar að auki er það jafnvel enn verra að vélin hafi horfið með öllu en þótt hægt hefði verið að komast að orsökum slyssins. Það er óvissan sem er verst, því að hún býður upp á það að leita að verstu hugsanlegum skýringum.

Það er erfiðara fyrir flugfélög frá litlum eða vanþróuðum þjóðum að ávinna sér traust í flugi en hjá stórum og velmegandi þjóðum.

Fyrir sum löndin, eins og Eþíópíu, er virt flugfélag sem keppir á alþjóðamarkaði gríðarlega mikilvægt.

Það var Loftleiðaævintýrið líka fyrir okkur Íslendinga þegar við vorum að reyna að öðlast traust og virðingu meðal sjálfstæðra þjóða eftir að við stofnuðum lýðveldi 1944.   


mbl.is Afbóka flug með Malasyan Airlines
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æ fjölbreyttari hjól.

Æ fjölbreyttari reiðhjól eru nú á markaði, allt frá þessum gömlu, einföldu og venjulegu og upp í hrein vélhjól.

Fyrir tilviljun verð ég næstu daga að kynna mér reiðhjól, sem er rafknúið en þó með þeim möguleika að hjóla með gamla laginu. Það kom þanni til að í fyrra keypti ég gamlan ódýran jeppa til að nota á Sauðárflugvelli en hafði síðan ekki not fyrir hann í fyrrahaust og þurfti peningana til baka.

Þannig vildi til að hann var til sölu á Akureyri í vetur, en þar var eindæma slæm tíð og hann gekk ekki út fyrr en nú á dögunum, og þá á þann hátt að ég skipti á honum og alveg splunkunýju, ónotuðu rafknúnu reiðhjóli.

Ódýrustu hjólin af þessu tagi eru boðin á um 150 þúsund krónur ný, en þetta hjól er aðeins öflugra og hefur meiri möguleika að því leyti að hægt er að hjóla á því með gamla laginu og ná á þann hátt meiri hraða en þeim 25 kílómetra hámarkshraða, sem það hefur rafknúið.

Nýtt kostar þetta hjól 250 þúsund krónur og ég sé fram á að bjóða það til sölu á næstunni.

Ef ég hefði búið á Háaleitisbrautinni þar sem ég bjó í 13 ár fram til síðasta hausts, hefði verið gráupplagt að prófa að nota hjólið og spara með því akstursútgjöld, en á styttri leiðum er maður alveg jafn fljótur á svona hjóli og á bíl.

Ég sló á að hægt væri að spara 10 þúsund kall á mánuði eða 120 þúsund kall á ári.

En nú á ég heima í næsta húsi við Borgarholtsskóla og það eru 11 kílómetrar héðan niður að Umferðarmiðstöð. Það þýðir að borgarskreppur vestur í Skeifu fram og til baka tekur 20-30 mínútum lengri tíma en ella og fyrir kannski er það óraunhæft fyrir mann, sem hefur nóg við tímanna ð gera, að reikna með mörgum slíkum ferðum.

Ég hef meira að segja enn ekki haft tíma til að skoða hjólið almennilega og kynna mér hvernig það virkar. Er hins vegar sagt af þeim, sem eiga svona hjól, að það sé feyki kraftmikið og skemmtilegt.  


mbl.is Reiðhjólin runnu út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað eru þetta mörg "hjörl"?

Mælieiningin "hjörl" varð til þegar Hjörleifur Guttormsson var upp á sitt besta sem "ræðukóngur" Alþingis, þ. e. sá, sem átti lengstan ræðutíma að baki á hverju þingi.

Því miður er ég búinn að gleyma hvað "hjörlið" er langt en kannski getur einhver upplýst mig um það.

Steingrímur J. sér um það að halda þessum titli innan raða VG, eftir að Hjörleifur er ekki aðeins farinn af þingi heldur líka búinn að segja sig úr flokknum.

Þess má geta að Hjörleifur var ekki einhamur eingöngu að þessu leyti heldur á ýmsum fleiri sviðum.

Ég hef fyrir því heimildir, að fyrir nokkrum misserum hafi þurft að taka til hjá prentsmiðju hér í borg, þar sem söfnuðust fyrir hundruð, ef ekki þúsundir tilskipana, sem komu til þingsins frá ESB eftir að við gengum í EES og höfðu verið ætluð þingmönnum til lestrar og varðveislu.

Var ákveðið að henda öllu gumsinu, enda nokkuð ljóst að þingmennirnir myndu ekki sækja þessi gögn.

En það fylgdi sögunni að einn þingmaður hefðu skorið sig úr, sem ævinlega hefði tekið öll þessi gögn til sín svo að ekkert varð eftir.

Þetta var auðvitað Hjörleifur Guttormsson, og má kannski yfirfæra mælieininguna "hjörl" yfir á lengd opinberra gagna.

Ég sting upp á að eitt hjörl af skýrslum sé 100 blaðsíður, enda vafasamt að nokkur ESB tilskipun sé styttri en það, að minnsta kosti varla styttri ef greinargerðir og fylgigögn eru talin með.

Gögnin sem lágu eftir stjórnarskrárnefnd Guðrúnar Pétursdóttur var þá 8 hjörl og skýrslur rannsóknarnefna Alþingis gott betur.

Gaman væri að vita hvað öll gögn Sérstaks saksóknara eru mörg hjörl. En ég efast ekki um að Hjörleifur Guttormsson myndi fara létt með að hakka þau öll í sig.   


mbl.is Steingrímur J. er ræðukóngur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband