Lágmenning og lágtækni ?

Fyrsta vélknúna flugið, flug Wright-bræðra í desember 1903, var nú ekki langt né hátt, 37 metra vegalengd á 12 sekúndum á þrefalt minni hraða en góður spretthlaupari. Þennan dag náði vélfluga þeirra aðeins þriggja metra hæð og má með sanni segja að það hafi verið sannkallað grasrótarflug.

Næstu árin máttu þeir þola lítilsvirðingu hjá mörgum og sex árum síðar hafnaði Bandaríkjaher þeim.

Engan hefði órað fyrir þeim ævintýralegu framförum í flugi sem síðan hafa orðið sem beint rökrétt framhald af verki og hugsun fyrstu flugmannanna.  

Flug "niður til helvítis" á reikistjörnunni mars er nýjasta dæmið um það hve langt grasrótarstarf frumherjanna hefur leitt okkur á þessu sviði.   

Mér varð hugsað til þessa í dag í Fluggörðum, sem margir líta hornauga, vegna þess að það þurfi að ryðja þessu flugskýlahverfi burtu, sem tákni um lágmenningu og lágtækni og innleiða í staðinn sanna hámenningu, æðri vísindi og hátækni.

Á yfirborðinu gat grasrótarflug Wright-bræðra sýnst vera lítilfjörlegt fikt manna sem voru að klambra saman einhverju hrófatildri út í bláinn. Þó lá að baki starf og hugvit sem var í raun afrakstur vísindalegrar hugsunar á sviði eðlisfræði og efnafræði.

Þeir voru hvort tveggja í senn í vísindalegu námi, vísindalegum tilraunum og úrvinnslu á niðurstöðum þeirra.

Þegar borgarfulltrúar komu fyrr í vor á fund þeirra, sem starfa í Fluggörðum, höfðu þeir ekki hugmynd um að þar væri starfandi flugskóli með tugum nemenda og að þar væri unnið við flugvélasmíði, flugvélahönnun, viðhaldi og viðgerðum, endursmíði og frumsmíði á alls meira en 80 flugvélum.

Ég nefni aðeins eina flugvél í Fluggörðum af þeim rúmlega 80, sem þar eru, sem dæmi um vísindalega hugsun og hugvit, af því að eftir mikla og áratuga langa leit að hliðstæðri flugvél í veröldinni, hef ég ekki fundið hana.

Þetta er flugvél Kristjáns Árnasonar, sem er algerlega hans hugarfóstur, hönnun og smíði, minnsta, og léttasta tveggja hreyfla tveggja manna flugvél, sem mér er kunnugt um að sé til.

Sjá myndir sem ég mun birta á facebook-síðu minni.

Með því að velja tvo af léttustu flugvélahreyflum samtímans, 85 hestafla Jabiru, sem vega aðeins um 85 kíló hvor með öllum búnaði, tekst Kristjáni að hanna flugvél sem er aðeins rúmlega 500 kíló tóm, en vegur aðeins 800 kíló fullhlaðin, nær rúmlega 200 kílómetra farfllugshraða og getur haldið flugi á öðrum hreyflinum ef hinn bilar.    

Til samanburðar má geta þess að minnstu bílarnir, sem nú eru á markaði, vega um 1000 kíló.

Að baki þessari einu litlu flugvél býr hátæknihugsun, sem er langt fyrir ofan þá hugmynd, sem margir virðast hafa um flugið, að tákn þess séu skítugar hendur inni í skúr eða skýli, fullu af drasli.

Á flugvellinum og við hann er starfsemi sem menntar hundruð manna sem starfa við hátæknistörf og veitir þúsundum þjónustu og atvinnu.   

 


mbl.is Undirbúa flug niður til helvítis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýr bera oft nöfn með reisn.

Nöfn dýra geta oft verið stór hluti af sambandi þeirra við umhverfi sitt eins og nafn verðlaunahanans Ólafs Ragnars ber vitni um.

Þegar ég var í sveit hétu kettirnir nöfnunum Eisenhower og Stevenson og báru þessi nöfn með sóma.

Var sá fyrrnefndi ötull við það hlutverk sitt að herja á rottur og mýs.

Heimilisköttur á heimili okkar Helgu um árabil hét Carl Möller og gaf hinum mennska nafna sínum lítið eftir hvað snerti persónuleika og góð áhrif á alla, sem kynntust þessu magnaða dýri.

Í Hvammi voru landnámshænsn og vel man ég eftir því hvað hænan Tuðra var sérlega glæsileg.

Ég og Dinni (Birnir Bjarnason), sem vorum 13 ára síðasta sumarið sem við vorum báðir á bænum, bjuggum til í miklum hugarspuna heilmikið félags- og stjórnmálalíf dýranna á bænum.

Þetta var sumarið 1953 þegar kosið var til Alþingis og við spunnum upp kosningar til Hvammþings dýranna. Tuðra var formaður hæsnafélagsins en afburðakýrin Branda var forseti bandalags dýrafélaganna.

Hún var stærsta kýrin, mjólkaði mest og þeirra langvitrust. Hún var á fremsta básnum og gekk fyrst út á morgnana og inn á kvöldin. Í haganum var hún mögnuð forystukýr, gekk ævinlega fremst upp í fjall og til baka og réði þvi hvar þær bitu gras.

Sumir segja að nautgripir séu heimskir og notað er orðið nautheimskur um vitgranna menn. Samt höfðu þessir gripir í Hvammi vit á því að láta heildina nýta sér hæfileika afburðakýrinnar Bröndu.   


mbl.is Sýna Ólafi Ragnari litla virðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Haustin og vorin henta vel.

Það hefur tekið okkur Íslendinga marga áratugi að átta okkur á því að erlendir ferðamenn koma ekki til Íslands til þess að leita eftir miklum og varanlegum sólarhita í logni og heiðríkju eins og við gerum þegar við förum til sólarlanda.

Einkum koma sólarlandabúar ekki til Íslands í þessu skyni, því að þeir hafa nóg af sólarsterkju, logni og molluhita heima hjá sér og eru að leita að nýrri upplifun.

Á sama hátt er það eðlilegt að við leitum suður á bóginn til að upplifa eitthvað nýtt. En að sumu leyti er hásumarið ekki heppilegasti tíminn til þess.

Hvort tveggja er, að þá eru veðrið og birtan best hér heima og hitasvækjan mest í suðurlöndum. Með vaxandi ferðamannastraumi er einnig mest þörf fyrir vinnandi hendur hér heima á helsta álagstíma ferðamannatímans hér heima.  

Vorin og haustin henta okkur betur til utanferða, enda vinnum við betur upp svalann hér heima á þeim tíma ársins en um hásumarið.

Þess vegna er æskilegt að skapa sveigjanleika í atvinnulífinu til þess að þeir árstímar verði meira notaðir til utanferða en verið hefur.  

 


mbl.is Sólarlandaferðir seljast betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband