Fréttastofa RÚV gengur erinda Stalíns, Norður-Kóreu og Kúbu ?!

Í Staksteinum Morgunblaðsins í dag er sagt að fréttastofa RUV hafi í anda Jósefs Stalíns, Prövdu og "DDRRÚV" reynt "að bregðast ekki veikum vonum" ráðamanna í Norður-Kóreu og Kúbu með því að spila Nallann fyrir hádegisfréttir 1. maí.

Nafn Jósefs Stalíns er dregið inn í umræðuna af því að Karlakór verkamanna hafi sungið lagið 1933 á stjórnarárum hans og sú upptaka hafi verið spiluð í gær.

Nú vill svo til að ég hef unnið á þessari fréttastofu og veit að hún hefur hvorki fyrr né síðar haft nein afskipti af laginu, sem hefð er fyrir að leikið sé fyrir fréttir á rás eitt, heldur hefur það verið og er enn starfsmaður á dagskrárdeild ríkisútvarpsins sem velur þetta lag hverju sinni, og val þess, sem velur lagið, er alfarið á ábyrgð dagskrárstjóra hljóðvarpsins.

Ég minnist þess ekki að í allri sögu Ríkisútvarpsins hafi það verið gert að stórmáli hvaða lag hefur verið spilað á þessum stað í dagskránni, þannig að ádeilan á val lags og flytenda í gær á sér ekkert fordæmi.

Ég hygg líka að það eigi sér ekkert fordæmi á Vesturlöndum að fréttastofa ríkisfjölmiðils sé ásökuð í fullri alvöru um að reyna allt sem hún geti, til að þjóna skoðunum Stalíns og ráðamanna DDR, og "veikum vonum" ráðamanna Norður-Kóreu og Kúbu.   

En höfundi Staksteina virðist ekki varða neitt um þetta, heldur býr hann til djúphugsað samsæri vegna þess að þetta lag, sem hefur öðrum lögum verið táknrænt fyrir 1. maí um allan heim, skuli hafa verið spilað á undan fréttunum.

Það sýni að þrátt fyrir mannaskipti á fréttastofunni séu nú ekki aðeins vondir kratar og kommar, sem þar ráði öllu, heldur séu hreinir Stalínistar og aðdáendur Kastrós og Kim Jong-un við stjórnvölinn !  

Það á að sanna þetta að upptakan, sem spiluð var, skuli vera frá árinu 1933.

Nú hefur þetta lag raunar verið spilað áður 1. maí á undan fréttum með ýmsum flytjendum, sennilega til að viðhafa tilbreytingu. Til dæmis hefur Lúðrasveit verkalýðsins oft heyrst spila þetta og hefði maður haldið að það væri ekki óviðeigandi að lúðrasveitin, sem farið hefur áratugum saman á undan kröfugöngunni 1. maí, flytji lagið.

Í gær var það Karlakór verkamanna sem söng, en sem kunnugt er, eru verkamenn enn hluti launþeganna sem standa fyrir kröfugöngunni.

En nei, það er hið versta mál að mati Staksteinahöfunar og samsæri fólgið í því að verkamenn syngi lagið, heldur telur Staksteinahöfundur þetta sönnun þess að Stalínistar hafi nú tekið völdin á fréttastofu ríkisútvarpins, en þeir séu reyndar búnir að yfirfæra aðdáun fréttastofunnar á einum af þremur mestu fjöldamorðingjum seinni alda yfir á einræðisherra Norður-Kóreu og Kúbu !

Maður spyr sig hvort þessi Staksteinaskrif eigi að vera fjárstæðubrandari svo að allir geti hlegið. Og einhver kann að efast um að ég vitni rétt í skrifin.  

En þá er rétt að benda fólki á að lesa þessi skrif og hafa í huga, að miðað við hátt á fjórða hundrað pistla og skrifa um fréttastofu hins illa, sem búið er að skrifa síðustu ár, er því miður líklegra að þetta eigi að vera í fúlustu alvöru þess sem lætur andann fljúga hærra í takmarkalitlu hugarflugi en flestum öðrum er mögulegt.

 

 


Burt með varúðarregluna og Ríósáttmálann við Mývatn !

Íslendingar undirrituðu Ríósáttmálann fyrir 22 árum. Tvö meginatriði hans eru um sjálfbæra þróun og svonefnda varúðarreglu, að þegar um vafa sé að ræða vegna framkvæmda mannsins, njóti náttúran vafans.

Leitun er að þjóð í okkar heimshluta þar sem báðar reglurnar hafa verið þverbrotnar jafn ítrekað.

Í þinglok í fyrra voru að vísu samþykkt náttúruverndarlög sem innihalda varúðarregluna. Núverandi valdamenn hafa hins vegar lýst yfir eindregnum vilja til að nema hana í burtu, og þess vegna hefur hún ekki enn tekið gildi og mun væntanlega ekki gera það ef krafan um að hafa hana að engu nær fram að ganga. Sem fyrr verður allur vafi túlkaður virkjunum í hag.  

Við Mývatn hófst hæg atburðarás eftir 1970, og fyrir sérkennilega "tilviljun" var það eftir að kísilgúrnám hófst í vatninu fyrir Kísiliðjuna, sem sögð var forsenda fyrir því að byggðin í Mývatnssveit færi ekki í eyði. Árni Einarsson líffræðingur, sem best þekkir Mývatn eftir áratuga rannsóknir, hefur fært líkur að því að námið hafi átt þátt í útrýmingu kúluskíts og hruni silungastofnsins.

Varúðarreglan hefði að minnsta kosti átt að fá menn til að staldra við. Í staðinn hefur þess nú verið beðið í áratugi að sjá til hvort tilgáta Árna sé rétt. Verksmiðjan hefur verið látin njóta vafans.  

Fyrir meira en áratug hætti Kísiliðjan störfum, ekki vegna baráttu "öfga-umhverfis-og náttúruverndar- hryðjuverkafólks" gegn henni, heldur vegna þess að enginn markaður fékkst fyrir afurðina.

Það vantaði sem sé þingeyskan Kristján Loftsson til að halda verksmiðjunni gangandi áfram, burtséð frá markaði fyrir vöruna.

Aftur og aftur hafði það verið fyrsta frétt í fjölmiðlum að hugsanleg niðurlagning Kiisiliðjunnar myndi leggja Mývatnssveit í rúst.

Þegar í ljós kom, að svo var ekki, þótti það engin frétt.

Ef Mývatn er að deyja, er ljóst, að þá er greið gatan til að reisa 90 megavatta gufuorkuvirkjun örfáa kílómetra frá eystri bakka þess, og aðeins 2,8 kílómetra frá skólunum í Reykjahlíðarþorpi.

Notuð verður ein drýgsta röksemd virkjanafíklanna, sem sé "hvort eð er" röksemdin: "Mývatn er hvort eð er að drepast og mun hvort eð er fyllast á næstu öldum og eins gott að það gerist sem fyrst svo að hægt sé "að nýta orkulindina á skynsamlegan hátt" og "lifa af landinu".

Virkjunin verður sex sinnum nær byggð en Hellisheiðarvirkjun en á tveimur borgarafundum við Mývatn var fullyrt að engar áhyggjur þyrfti að hafa af loftmengun vegna brennisteinsvetnis né heldur af affallsvatni.

Þau vandamál væru öll þegar leyst þótt stór tjörn af affallsvatni suðaustur af Námaskarði stækki ár frá ári, 10 kílómetra frá Kröfluvirkjun. Stóraukin umferð fólks við Mývatn ætti að vera áhyggjuefni, en auðvitað má náttúran heldur ekki njóta vafans í þeim efnum.

 Nákvæmlega sama var sagt fyrir áratug varðandi Hellisheiðarvirkjun og sagt er nú um Bjarnarflagsvirkjun.

Þegar manngerðir jarðskjálftar urðu skammt vestur af Hellisheiðarvirkjun, öllum að óvörum vegna tilrauna með niðurdælingu affallsvatns og stórfelldri loftmengun vegna brennisteinsvetnis varð ekki lengur afneitað var farið fram á 10 ára frest til að rannsaka, hvort hægt væri að leysa vandann.

Var það talið nægja sem lausn.  

Heilbrigðiseftirlit gekk þá í lið með "öfga-umhverfis- og náttúruverndar hryðjuverkafólki" og vildi ekki veita svo langan frest. Þá var beðið um 5 ára frest, en fengist hefur 2ja ára frestur.

Um leið og hann fékkst var því síðan slegið upp í fjölmiðlum að búið væri að leysa vandann, sem rímar alveg við svörin sem veitt voru á íbúafundunum í Reykjahlíð.

Hellisheiðarvirkjun er mærð af Íslendingum, allt frá forseta vorum niður í okkur almenna borgara þessa lands, og við auglýsum kappsamlega um allan heim, að hagkvæm nýting jarðvarmans hér á landi sé dæmi um "hreina og endurnýjanlega orku".

Raunar er orkan þegar farin að dofna, enda ekki gert ráð fyrir meira en 50 ára endingu í forsendum virkjunarinnar. Og 85% af orkunni fer til spillis út í loftið.

Hreina orkan" birtist í 30 kílómetra fjarlægð í skemmdum rafeindatækjum og svörtum góðmálmum á höfuðborgarsvæðinu, auk þess sem loftgæði í Reykjavík standast ekki lágmarkskröfur Kaliforníu í meira en 40 daga á ári. Fólk talar um að flýja úr austasta skólanum á höfuðborgarsvæðinu.  

Þrýst er á um virkjanir um allan Reykjanesskaga, nú síðast líka á þeim svæðum sem fóru í verndarflokk, meira að segja í Grændal, alveg ofan í Hvergerðingum.

Svo heppilega vill til fyrir virkjanamenn að hreppamörk liggja þannig að Hvergerðingar hafa ekkert um þá virkjun að segja og geta því ekki lagst á sveif með "öfga hryðjuverkamönnum."

Einhverjum kann að finnast að talað sé full skýrt í ofangreinum pistli. En þá er að minnast þess, að vegna þess að 10 daga hlé varð á skrifum mínum um Bjarnarflagsvirkjun í undanfara seinni íbúðafundarins um hana sóttu virkjanamenn allt í einu hart að mér hér á síðunni og sökuðu mig um að hafa með andvaraleysi valdið því hvernig komið væri.

Hafði ég þó fyrstur manna einu og hálfu ári fyrr, vakið athygli á fyrirhugaðri Bjarnarflagsvirkjun í blaðagrein.  

 


mbl.is Einkenni Mývatns að hverfa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumir virðast bara ekki eldast.

Konrad Adenauer var 87 ára þegar hann lét af völdum í Vestur-Þýskalandi og hafði allan tímann á 14 ára valdaskeiði sínu, sem einn áhrifamesti valdamaður í sögu Þýskalands og Evrópu, verið hálfan valdatímann á áttræðisaldri og síðari helming valdatímans á níræðisaldri og náð hámarki afreksferils síns kominn á níræðisaldurinn. 

George Foreman varð heimsmeistari í þungavigt í hnefaleikum 46 ára gamall, níu árum eldri en nokkur annar hnefaleikari hefur hampað þeim titli.

Linford Christie var fljótasti maður heims 35 ára gamall, tíu árum seinna en venjulegir menn ná hámarki líkamlegrar getu.  

Sumir menn virðast geta upphafið lögmál aldurs og elli langt umfram það sem eðlilegt má teljast.

Einn slíkur er Harrison Ford, sem virðist verða æ meiri töffari eftir því sem árin líða, - verður 72ja ára á þessu ári.  Það er gaman að þessu.

 


mbl.is Harrison Ford í nýjustu Star Wars myndinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband