Ekki sama andrúmsloft og 2010.

Andrúmsloftið í síðustu byggðakosningum 2010 var um margt óvenjulegt. Stutt var frá Hruni og enda þótt óvenjugóður "vinnufriður" hefði verið í borgarstjórn Reykjavíkur síðasta ár kjörtímabilsins, var það skammt tilið frá einstæðri ringulreið og upphlaupjum í borgarstjórninni árin á undan, að það var efst í hugum stórs hluts kjósenda.

Þess vegna fengu ný framboð í stærstu bæjum landsins mikinn hljómgrunn og athygli, sem skilaði sér í stórsigrum þeirra.

Nú er annað andrúmsloft en 2010 og fátt nýtt eða spennandi að gerast. Í Reykjavík er ómögulegt að stærsta málið, flugvallarmálið, hafi nein teljandi áhrif á kosningarnar, því að framboðin hafa að mestu leyti sameinast um að setja önnur mál, sem eru nærtækari fyrir budduna, á oddinn í umræðunni.

Að höfða sem beinast til buddunnar hefur löngum dugað vel, bæði hér og erlendis.

En dauflegra andrúmsloft en 2010 mun líklega aðeins hraða þeirri vondu þróun, að fólk taki æ minni þátt í kosningum og stjórnmálum.  

Einn bloggarinn hefur reyndar fundið allsherjar skýringu á sífellt minnkandi kosningaþátttöku: Það er Samfylkingunni og VG að kenna.

Sami bloggari hefur haft það sem næstum daglegt stef í heilt ár að benda á að Sf sé 12,9% smáflokkur. Má það heita með ólíkindum að svo aumt stjórnmálaafl í hans huga beri ábyrgð á minnkandi kosningaþátttöku almennings.  


mbl.is Fyrstu tölur í Reykjavík um kl. 22.30
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk "leyni-eldgos."

Ísland er hluti af Reykjaneshryggnum sem teygist langt suður í haf og vafalaust hafa oft orðið eldgos þar á miklu dýpi án þess að þess sæist stað á yfirborðinu.

Mikil eldgosahrina gekk yfir landið 1783 og gaus ekki aðeins bæði suðvestan og síðan norðaustan við fjallið Laka og hraun gengu í tvær áttir frá þeim, heldur varð líka gos skammt undan Reykjanesi og síðan í Grímsvötnum.

Talið er líklegt að lítið eldgos hafi orðið undir ís við Hamarinn í ágúst 1996, rúmum mánuði áður en að síðan gaus í Gjálp.

Margt bendir til þess að lítið eldgos hafi orðið í Kötlu 1955 þegar Múlakvísl hljóp og ef til vill aftur þegar hljóp aftur í sambandi við skjálftahrinur þar fyrir þremur árum.

Fyrr á öldum urðu áreiðanlega minni háttar eldsumbrot í norðanverðum Vatnajökli, svo sem í Kverkfjöllum, án þess að þess yrði vart í byggð.   

Minnsta eldgos á Íslandi og kannski í heiminum er sennilega gos, sem varð í Bjarnarflagi, að mig minnir veturinn 1979, þegar gljóandi gjall kom upp úr borholuröri þar og dreifðist í kringum hana.  


mbl.is Merki um eldgos á Reykjaneshryggnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gert á hverjum degi um allt land.

Óteljandi eru þau skipti sem maður sér bílstjóra leggja bílum sínum í tvö stæði eða jafnvel allt upp í fimm ! Þetta hefur viðgengist hér á landi í áraraðir vegna þess að ekkert er aðhafst af hálfu lögreglu vegna þessara umferðarbrota og myndin á tengdri frétt á mbl.is sýnir þess vegna alvanalega íslenska hegðun.

Í Ameríku fjarlægir lögreglan svona bíla, lætur ökumennina borga kostnaðinn og sektar þá þar að auki.

"Á Íslandi við getum verið kóngar allir hreint" er hins vegar í fullu gildi hér á landi upp úr og niður úr.  

Nýlega kom ég á stað, þar sem var mikil umferð fólks og slegist var um bílastæðin. Þar lagði einn pallbílaeigandi bíl sínum þversum í ein fimm bílastæði ! Er búinn að setja ljósmynd á facebook síðu mína sem sýnir þetta.

Réttlætingarnar fyrir þessari frekju eru endalausar:

"Ég vil vera öruggur um að bíllinn minn sé ekki rispaður."

"Ég kom hérna á undan þér."

"Það var bíll hér, sem er farinn, en þvingaði mig til að leggja svona." Þetta er meira að segja sagt þótt bíllinn standi yst á stæðinu og enginn bíll hafi getað staðið þannig að það hafi valdið neinni þvingun. Líka sagt þótt maður hafi horft á þegar lagt var og séð að afsökunin er lygi.

Vegna þess hve ég ek um á litlum bílum, get ég oft lagt löglega innan settra marka, þótt búið sé að leggja öðrum bíl hálfum inn á það bílastæði. Ég er yfirleitt sjaldan í vandræðum að finna stæði fyrir örbílana mína, því að oftast er einhverjum bílum lagt ólöglega, sem gefa mér einum færi á að nýta hálf skert bílastæði. 

Að því leyti til get ég því verið persónulega þakklátur fyrir hina séríslensku hefð.  

Yfirleitt bregðast þeir plássfreku ókvæða við og saka mig um yfirgang. Einn sagði að ég kæmi í veg fyrir að kona hans kæmist farþegamegin inn í bílinn með því að leggja svona þétt upp að honum.

Ég sagðist vera með kaðal og geta dregið hann og gæti líka skutlast eftir hjólastól fyrir konuna hans. Hann varð eitt spurningamerki. "Jú," sagði ég, "það er greinilega bilaður bakkgírinn á bílnum þínum úr því að þú getur ekki bakkað þessa tvo metra sem þarf til að konan þín komist inn í bílinn, og ef hún getur ekki gengið þessa fáu metra, er sjálfsagt mál að ná í hjólastól."  

Ég hef líka svarað þessu fólki með því að hvetja það til að sækja lögreglu og láta hana skera úr. Þá sljákkar yfirleitt í því eða það ekur bölvandi og ragnandi í burtu.

Í því tilfelli sem myndin á facebook síðunni var tekin, voru flestir aðrir bílar farnir þegar ég kom að sækja minn bíl. Ég veit því ekki hvernig pallbílsbílstjórinn hefur brugðist við. Stundum sjá viðkomandi og viðurkenna að þeir hafi farið rangt að og kannski var það þannig í þetta skipti.

En oftar er það að þeir verða öskureiðir yfir afskiptaseminni og frekjunni í mér.  

Síðan er það hvernig ófatlaðir leggja í stæði fyrir hreyfihamlaða. Nákvæmlega sami yfirgangurinn.  


mbl.is Range Rover-eigandi tekur alltaf tvö stæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband