7:1 er sama markahlutfall og 14:2, sjö á móti einum.

Markahlutfallið 7:1 og 14:2 er það sama, 7 á móti 1. 

Munurinn er sá að 7:1 var í undanúrslitaleik  á HM milli tveggja af bestu landsliðum heims, en 14:2 var í vináttulandsleik tveggja þjóða, sem þá voru neðarlega á heimslistanum.

Sum af mörkum Þjóðverja komu á svipaðan hátt og mörk Dana í 14:2 leiknum, þar sem allt virtist ganga upp og falla með þeim, en allt ganga á afturfótunum hjá Brössunum.  

Ef eitthvað jákvætt er að finna við mesta burst í sögu undanúrslita HM er það fólgið í því að fjarvera Neymars skipti ekki minnsta máli.

Hann hefði aldrei getað breytt neinu um markaregn Þjóðverja og því síður séð um að Brassar skoruðum sjö eða fleiri mörk.  

Öðru máli gegndi um miðvörðinn og fyrirliðann Thiago Silva, en hann gat sjálfum sér um kennt að hafa komið sér í leikbann að óþörfu. 

Hugsanlega var það hluti af ókostum þess að spila jafn fast og hörkulega og Brassarnir gerðu, en það setti blett á leik þeirra á mótinu og gerði liðið að mörgu leyti ólíkt léttleikandi og prúðum liðum þeirra á HM á fyrri tíð. Að lokum hefndi þessi harka sín í þessum leik.   


mbl.is Sögulegur sigur Þýskalands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn íbúi skráður heimilisfastur í Skeifuhverfinu.

Í ágætum fyrirlestri um byggð í borgum hér um árið kom fram að þá væri aðeins einn íbúi skráður til heimilis í Skeifuhverfinu.

Ef Skeifuhverfið og Ártúnshöfði yrðu skipulögð frá grunni í dag yrðu þau talsvert öðruvísi en nú er.

Í Skeifunni eru mörg húsin hálfgerðar skemmur og nýting svæðisins lítil þar sem flest húsin eru bara á einni hæð. Merkilegt er að bílakjallari skuli ekki vera í hverfinu.

Í sambandi við þéttingu byggðar væri upplagt að skipuleggja bæði Skeifuhverfið og Ártúnshöfða upp á nýtt því að bæði hverfin liggja nær þyngdarpunti íbúðarbyggðar á höfuðborgarsvæðinu og stærstu krossgötum landsins en flest önnur sambærileg svæði.

Það mætti til dæmis hugsa sér að á rústum Skeifunnar 11 yrði reist margra hæða hús þar sem yrðu verslanir á neðstu hæð en íbúðir eða skrifstofur á efri hæðum.

Um nýtingu Ártúnshöfða mætti skrifa langt mál sem of langt yrði að skrifa hér.  


mbl.is Íbúðabyggð ekki útilokuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var sjálfbær þróun í nýtingu jarðvarmans ekki nefnd?

Þegar rennt er yfir upptalningu yfir efnisatriði þess sem Íslendingar töldu sig hafa fram að færa varðandi áherslur okkar varðandi sjálfbæra þróun á funndi Sþ um það hugtak, vekur athygli, að í þeirri upptalningu er ekki minnst á "sjálfbæra þróun við nýtingu endurnýjanlegra orkulinda" sem hefur verið ein helsta skrautfjöðrin í ræðum stjórnmálamanna þegar þeir mæra okkur sjálfa sem fremstu þjóð veraldar á því sviði.

Kannski er hér um að ræða svipað fyrirbrigði og það íslenskum ráðamönnum tókst að koma okkur í röð fremstu þjóða heims í umhverfismálum um síðustu aldamót með því að ljúga því að við hefðum engar upplýsingar um ástand jarðvegs og gróðurs á Íslandi á sama tíma og vitað var að Ólafur Arnalds hefði einn Íslendinga hlotið umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bestu greiningu á þessu ástandi sem um getur.

Staðreyndin um rányrkjuna og stórkostlega ofnýtingu jarðvarmans til rafmagnsframleiðslu er tabú, bannorð hjá íslenskum valdhöfum sem með stanslausri síbylju um dýrð hinnar sjálfbæru þróunar, sem meira að segja er sérstaklega sýnd erlendu fyrirfólki á borð við sænska kóngafólkið sem var hér á ferð um daginn.    

 


mbl.is Áherslur Íslands í sjálfbærri þróun kynntar á fundi SÞ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þarf ekki alltaf flugvélar lengur.

Drónarnir svonefndu eða mannleysurnar hafa ýmsa kosti fram yfir flugvélar við loftmyndatökur, einkum þegar komast þarf nálægt viðfangsefninu á lipurlegan hátt.

Loftmyndatökurnar í gærkvöldi voru ekki fyrstu loftmyndatökurnar af bruna í Reykjavík því að teknar voru loftmyndir úr flugvél af stórbruna í Skeifunni hér um árið og raunar af fleiri viðburðum. Slíkar myndatökur eru hins vegar vandkvæðum háðar.

Ekki má fljúga neðar en í 1000 feta / 300 metra hæð og því þurfa flugvélin og sjónarhornið úr henni að vera nægilega stöðug til þess að hægt sé að þrengja myndina þegar á þarf að halda.

Mannleysurnar geta hins vegar farið eins nálægt viðfangsefninu og þurfa þykir, enda eru þessi myndatökuflygildi örþyrlur.

Myndaþyrlurnar/myndþyrlurnar ryðja sér hratt til rúms hér á landi sem annars staðar. Ein var til dæmis notuð í torfærukeppni við Egilsstaði fyrir rúmri viku.

Þessar litlu myndaþyrlur hafa hins vegar sín takmörk. Þótt myndgæðin séu ótrúlega góð gefa myndir, teknar úr stærri kvikmyndatökuvélum, betri gæði, og myndaþyrlurnar komast ekki eins hratt og flugvélar.   


mbl.is Myndaði brunann úr lofti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. júlí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband