Körfuboltinn er íþrótt ársins.

Körfuknattleikur er meðal vinsælustu íþróttagreina heims, gagnstætt handboltanum og vinsældum hans er jafnar dreift um lönd og álfur en vinsældum knattspyrnunnar, því að í Norður-Ameríku er körfuboltinn risinn, knattspyrnan litli maðurinn og handboltinn nær óþekktur eins og víðast annar staðar. 

Körfuboltinn hefur lengi notið þess að mun minni keppnisvöll þarf fyrir hann en handboltann. Strax á upphafsárum hans hér á landi naut hann þess á sama tíma og fara varð í íþróttahús bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli til þess að leika löglega landsleiki í handbolta og allt of lítill hermannabraggi við Hálogaland í Reykjavík var eina húsið sem hægt var nota til að keppa í handbolta.

Körfuboltinn varð sömuleiðis og er enn afar vinsæll á landsbyggðinni og ómetanlegur fyrir hana.

Vegna skorts á hentugu húsnæði þegar ég var unglingur, var aðeins kenndur körfubolti í Gagnfræðaskólanum við Lindargötu, og var íþróttahús Jóns Þorsteinssonar notað í því skyni. 

Þetta var kvöl fyrir mig, því að ég var og hef ætíð verið lélegasti körfuboltamaður á Íslandi. 

Að sama skapi dáist ég ákaflega af þeim sem geta leikið hann af fallega, allt frá Edvardi bróður mínum upp í NBA í Bandaríkjunum. 

Ég var hins vegar svo heppinn að vagga íslensks handbolta var í MR þegar Valdimar Sveinbjörnsson innleiddi hann þar, svo að handboltinn kom í staðinn fyrir körfuboltann, Guði sé lof. 

Veturinn 1967-68 spilaði ég í áhugamannahópi um sport, þar sem Kolbeinn Pálsson, sá eini sem hefur verið útvalinn íþróttamaður ársins, var meðal iðkenda, og kynntist vel hæfileikum hans. 

Þó ekki í körfubolta heldur í innanhússknattspyrnu! 

 

Á þeim tíma sem körfuboltalandsliðið íslenska vinnur sér keppnisrétt á erlendu stórmóti í fyrsta sinn og við eigum heimsklassa leikmann erlendis er kominn tími á að íþróttin hljóti þá þreföldu viðurkenningu sem hún fékk í kvöld með íþróttamanna ársins, liði ársins og inntöku Péturs Guðmundssonar í Heiðurshöllina.

Til hamingju, íslenskt körfuboltafólk!   


mbl.is Jón Arnór íþróttamaður ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ég veit allt, skil allt, geri allt betur en fúll á móti, - haltu kjafti!"

Ég hef verið að reyna að melta í rólegheitum ræður leiðtoga þjóðarinnar á áramótum.

Fallegar og uppbyggjandi ræður í snyrtilegum umbúðum með nauðsynleg skilaboð. Í ræðu forsetans var minnst á að gagnrýni gæti verið nauðsynleg en engin þjóð gæti lifað á henni einni saman.

Já, á maður ekki að reyna að skilja það þannig, að leitast skuli við að meta sem réttast allar hliðar málanna, jákvæðar og neikvæðar, og finna út réttustu leiðina eftir það ef vel á að fara? Það hefði maður haldið.

En forsætisráðherrann minntist hins vegar ekki á gagnrýni en dró upp einhliða dýrðarmynd af stöðu mála.   

Get samt ekki að því gert að í huganum hefur þessa hátíðardaga ómað lag Bjartmars Guðlaugssonar þar sem orðin "fúll á móti" og "haltu kjafti!" stóðu upp úr.

Ekki furða, því að þetta var á allra vörum á sinni tíð og er orðið að klassík. 

 

"Ég veit allt! Ég get allt! 

Geri allt miklu betur en fúll á móti!

Ég kann allt! Ég skil allt! 

Fíla allt miklu betur en fúll á móti!

Smíða (þjóðar)skútu, skerpi skauta,

bý til þrumu ost og grauta!

Haltu kjafti!!"  

 

Minnist þess óljóst að hafa upplifað svolítið svipað 2007 hjá þeim, sem þá réðu ferðinni með hallalújasöng og blésu á hvers kyns gagnrýni sem rangfærslur, niðurrif, nöldur og öfund.  

 

 


mbl.is Senda Sigmundi og Bjarna tóninn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölþætt reynsla og opinn hugur.

Sigún Magnúsdóttir á að baki fjölþætta reynslu á mörgum sviðum þjóðlífsins og hefur farið í gegnum lífið með óvenju opnum huga fyrir því og verkefnum þess. 

Eftir að hafa verið borgarfulltrúi í áraraðir þekkir hún vel til málefna borgarbúa og hefur viðhaldið tengslum sínum þar þótt hún hafi búið norður í Blöndudal. 

Það er algengur misskilningur að umhverfismál og náttúruverndarmál séu aðallega mikilvæg úti á landi.

Þau eru ekki síður mikilvæg í borgum og bæjum, og ættu málefnin og vandamálin, sem hafa verið og eru í kringum Orkuveitu Reykjavíkur, að vera gott dæmi um það. 

Varðandi tengsl Sigrúnar við borgarmálefnin má nefna, að meðal annars hefur hún reglulega haft samband við og hitt þverpólitískan hóp kvenna sem gegndu störfum fyrr á árum í borgarstjórn og kallar hópurinn sig "Bæjarins bestu." 

Sem eiginkona fyrrverandi alþingismanns og ráðherra þekkir Sigrún vel þau samskipti, sem fylgja slíkum embættum og allt fljótfærnistal í netheimum um hana sem tákn um heimóttarskap og forneskju er hrein öfugmæli. 

Umhverfismáli voru lengi viðfangsefni og umræðuefni á Höllustöðum. 

Á sínum tíma var maður Sigrúnar, Páll Pétursson, í hópi Húnvetninga sem andæfðu þvi hvernig til stóð að sökkva 57 ferkílómetrum lands vegna Blönduvirkjunar og bentu Páll og hans skoðnanasystkin á miklu skaplegri lausn með annarri tilhögun með mun minna lóni og miklu minni umhverfisáhrifum. 

Hefði betur verið farið að þeim ráðum. 

En í staðinn var valtað yfir réttmætar ábendingar þessara staðkunnugu manna og hrein skammtímasjónarmið varðandi kostnað við virkjunina látin ráða, illu heilli. 

Ég hef síðar lesið yfirlit yfir þau loforð sem gefin voru varðandi mótvægisaðgerðir og fleira varðandi virkjunina og var það dapurlegur lestur að sjá hvernig þau voru flest svikin.

Sigrún fór í háskólanám á efri árum og ætti í gegnum það að hafa öölast góða innsýn í reynsluheim unga fólksins sem er á námsaldri. 

Ég tel að reynsla og æviferill Sigrúnar beri vitni um óvenjulega fjölbreytni og opinn huga, sem eykur víðsýni og finnst dapurlegt á hafa fundið mig knúinn til að standa í andsvörum á netinu við fordómafullar yfirlýsingar þeirra sem hafa haft skipan hennar sem ráðherra á hornum sér vegna þess að hún sé eldri en títt er um nýliða á ráðherrastóli.

Efa ég ekki að hún muni vanda sig við að "spá í spilin" eins og hún hefur stundum haft á orði þegar "Bæjarins bestu" hafa hist. 

Ég hlaut mótandi sveitauppeldi í sumardvöl í æsku hjá eðal Framsóknarbóndakonu ekki langt frá heimaslóðum þeirra Páls og Sigrúnar.

Ömmusystir mín taldi það heilaga skyldu sína og annarra að skila landinu betra til afkomendanna til allrar framltíðar en hún tók við því.

Stundum hefur mér fundist fylgjendur flokksins hafa villst frá slíkri hugsun og þess vegna fylla mig von þau ummæli Sigrúnar um það að vilja líkjast hyggnnum bónda í starfi sínu  sem umhverfisráðherra.

Er vonandi klassík gildi á sviði umhverfis- og náttúruverndarmála í anda Eysteins Jónssonar fyrrum formanns Framsóknarflokksins fái góðan talsmann í hópi flokksmanna þar sem Sigrún er.     


mbl.is Vill líkjast hyggnum bónda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. janúar 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband