Gos-guðmóðirin ekki af baki dottin. Rangvalin ljósmynd.

Mafíósar eða svonefndir guðfeður í mafíunni voru og eru þekktir fyrir að ráða lögum og lofum í samtökum sínum og stjórna þeim með harðri hendi, en senda aðra út af örkinni til að framkvæma glæpina.

Bárðarbunga er ekki næsthæsta fjall landsins fyrir ekki neitt, en gerir lítið af því að gjósa sjálf.

Þeim mun meira gerir hún af því að vera potturinn og pannann í gosum allt frá Holuhrauni suður í Friðland að Fjallabaki.

Það er engu líkara en hún sendi eldstöðvar á þessari meira en 100 kílómetra löngu línu í eldgosaleiðangra og sé einskonar gos-guðmóðir.

Fyrir 20 árum fór skjálftum að fjölga í henni og í kjölfarið komu gos í Gjálp, Grímsvötnum og loks í Holuhrauni.

Nú er hún enn á ný farin að sýna af sér merki um óróa, hvert sem framhaldið verður.

Í tengdri frétt á mbl.is er sýnd mynd frá Kverkfjöllum en látið í texta liggja að því að það sé Bárðarbunga.

Það er alrangt, enda liggja Kverkfjöll alls ekki á áðurnefndri sprungulínu, sem Bárðarbunga er hluti af. Súkka á Bárðarbungu

Á mynd mbll.is er horft ofan frá norður yfir þann hluta Kverkfjalla, þar sem hinn eldsorfni Efri-Hveradalur sker í augun.

Myndian hér fyrir ofan tókk ég í jeppaferð á hábungu Bárðarbungu og ofan frá er hún líkust sléttri ísbreiðu og heitir Bárðarbunga, af því að kollur hennar er stór ísbunga en ekki sjóðheitur hveradalur.   


mbl.is Aukin skjálftavirkni í Bárðarbungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ein mikilvægasta hegðunarbreytingin.

Á sama tíma sem fæðu skortir fyrir stóran hluta mannkyns er óheyrilegu magni af mat og efni í mat hent.

Gamlar og grónar venjur við matborðið eru oft ástæðan og sú hugsun, að það sé hallærislegt og óviðeigandi að halda matarafgöngum til haga.

Sóun á þessu sviði verður að leggja af og taka upp viðleitni til að gernýta fóður, hráefni í mat og matinn sjálfan.

Hér erum að ræða einhverja mikilvægustu hegðunarbreytingu sem mannkynið verður að tileikna sér.

Af því fæst ekki sá aðeins sparnaður og ávinningur sem felst í því að fá meiri verðmæti út úr þessum vörum, heldur er líka um að ræða að ráðast gegn einu mesta, ef ekki stærsta heilsfarsvandamáli nútímans, sem er ofþyngd fólks.     


mbl.is Hendir hver íbúi 180 kg af mat árlega?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útlendingur í eigin landi?

Ofurveldi enskunnar er mikið á alþjóðlegum vettvangi. Ef ná þarf hámarksárangri við að vekja athygli á einhverju málefni sem víðast um heim, telja margir sig tilneydda að nota það tungumál.

Í afmörkuðu og tiltölulega litlu flugstjórnarsviði einstakra flugvalla er heimilt að nota þjóðtungu viðkomandi lands og er umferðin við Reykjavíkurflugvöll ágætt dæmi um það.

En samkvæmt flugreglum nægir til dæmis, að einn flugmaður, sem ekki talar íslensku, sé á flugi við völlinn , til þess að skipt sé úr því að nota íslensku yfir í það að allir noti ensku.

Þetta er hliðstætt því sem gildir í fluginu um allan heim, og er nauðsynlegt til þess að halda uppi fyllsta flugöryggi og fyrirbyggja misskilning í flugumferðarstjórn og flugumferð almennt.

Ég er núna að vinna að gerð tónlistarmyndbands, sem dreifa þarf á Youtube til að vekja athygli á þörfu málefni, og neyðist til að semja við það fyrsta og hugsanlega eina söngtextann á ensku, sem ég geri um ævina.

Er meira að segja að breyta honum lítillega á Degi íslenskrar tungu.

Það eina sem ég get huggað mig við er að hafa gert á þriðja þúsund íslenskra texta.

En daðrið við enskuna gengur of langt þegar hún er notuð að þarflausu eða þegar slakað er á sjálfsögðum kröfum til notkunar og meðferðar íslensku, sem ætti að njóta sérstakrar verndar hér innanlands í stjórnarskrá okkar.

Með auknum ferðamannastraumi verður æ algengara að ekki sé hægt að notast við íslensku á stöðum þar sem margir ferðamenn eru, svo sem á hótelum og veitingastöðum.

Hvað eftir annað kom það fyrir í sumar þegar ég hringdi í hótel í Reykjavík, að afgreiðslumaður í gestamóttöku krafðist þess af mér að ég talaði ensku, af því að hann talaði ekki íslensku.

Mér fannst ég vera orðinn útlendingur í eigin landi.

Er hægt að ímynda sér að starfsfólk í gestamóttöku í Frakklandi kunni ekki frönsku? Eða starfsfólk í gestamóttöku í Þýskalandi kunni ekki þýsku?

Það held ég varla. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að starfsfólk á stöðum þar sem er mikið af erlendum ferðamönnum kunni erlend tungumál eins og ensku.

En samt er lágmarkskrafa að hann kunni jafnframt íslensku, sem ætti að vera stjórnarskrárbundið tungumál.

Í ýmsum erlendum stjórnarskrám er getið um það í stjórnarskrá hvaða tungumál sé þjóðtunga og beri að nota í starfsemi í landinu.

Það virðist þörf á slíku hér á landi.

 


mbl.is Vill örva lestur í leikskólum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kamikaze okkar tíma.

Merkilegt má telja það ofurvald valdsherra, herstjóra, trúarbragða og stjórnmálaskoðana, sem getur fengið fólk á besta aldri til að sprengja sig í loft upp eins og gerðist í árásunum í París.

En þetta er ekki nýtt heldur hefur það´fylgt mönnum frá örófi alda.

Oft voru fótgönguliðar sendir út í opinn dauðann og til dæmis fórust tugþúsundir breskra hermanna á fyrstu klukkustundum orrustunnar við Somme 1916 þegar þeir voru látnir hlaupa beint inn í skothríð andstæðinganna í árásinni í byrjun orrustunnar.

Þeir sem komust lengra áfram voru oft brytjaðir niður af eigin stórskotaliði.

Stundum eru menn heppnari. Þegar 16 sprengjuflugvélar af gerðinni B-25 Mitchell voru sendar undir stjórn Doolittle til árása á Tokýo og fleiri borgir í apríl 1942, vissu flugmennirnar fyrirfram að þeir gætu ekki komist til baka heldur yrðu þeir að bjarga sér sem best þeir gætu við að leita uppi staði í Kína til að lenda þegar vélarnar nálguðust það að verða bensínlausar.

Ein nauðlenti við Vladivostok í Rússlandi, Rússum til armæðu, því að að þeir höfðu gert griðasamning við Japani.

Árásir fólks sem sprengir sig í loft upp á síðustu árum eiga fordæmi í sjálfsmorðsárásum Japana síðustu 10 mínuði Heimsstyrjaldarinnar síðari.

Ungum flugmönnum var smalað inn í flugvélar, hlöðnum sprengisefni, og látnir fljúga yfir skip Bandamanna til að steypa sér niður á þau.

Japanska heitið yfir þetta var kamikaze, alls tóku 3800 flugmenn þátt í þessum sjálfsmorðsárásum og sökktu alls 47 skipum og drápu þúsundir manna.

Að baki var sérstök Samurai menning heiðurs og fórnar, sem meðal annars fólst í því að Samuraiinn framdi kviðristu frekar en að þola auðmýkingu ósigurs.

Hjá Rómverjum létu menn fallast á sverð sín.

Japanski keisarinn var heilagur og það var ekki til meiri heiður en að fórna lífi sínu fyrir hann og japönsku þjóðina.

Kamikaze árásirnar voru framdar í örvæntingu. Japanir voru í raun búnir að tapa stríðinu, alls staðar á flótta, fóru halloka og hergagnaframleiðslan hrundi niður.

Flugvélar þeirra voru orðnar úreltar og fækkaði stöðugt þannig að notin af þeim minnkuðu hratt.

Stríðið var tapað en fyrir sannan Samurai var uppgjöf óhugsandi, - aðeins dauðinn gat bjargað orðstír og sæmd sem allt byggðist á.

Það þarf ákveðinn heilaþvott til að framkvæma voðaverk af þessum toga og honum er beitt miskunnarlaust.

Kamikaze-árásir vöktu ótta og skelfingu, einkum í fyrstu, en vegna hernaðaryfirburða Bandamanna tókst að taka úr þeim beittasta broddinn og koma í veg fyrir að hinn brjálæðislegi tilgangur þeirra, að láta þær snúa stríðinu Japönum í vil, næði fram að ganga.  


mbl.is Þrír Frakkar meðal árásarmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 16. nóvember 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband