Önnur þyrlan rakst líklega á trjátopp.

Svo er að sjá á kvikmynd af þyrluslysinu, sem varð í Argentínu, að í samflugi tveggja þyrlna hafi önnur þeirra lent á trjátoppi og orðið stjórnlaus eða misst flugið við áreksturinn. Greinilega sést hvernig kurl úr greinunum kastast í allar áttir.

Vegna þess hve stutt var á milli þyrlnanna, rakst laskaða þyrlan á hina og þar með voru örlög þeirra beggja ráðin.

Þyrlur eru dásamleg loftför en einstaklega viðkvæmar fyrir hnjaski, einkum hinn flókni drifbúnaður loftskrúfanna, og því fór sem fór.

Það er margt að varast í flugi en ég hef alla tíð verið smeykur við árekstur við annað loftfar á flugi og alltaf mjög feginn þegar flugi með hættu á árekstri hefur verið lokið.

Ástæðan fyrir því að þyrlan lenti í trjátoppnum gæti verið sú að flugmaður hennar hafi verið of upptekinn við við fylgjast með hinni þyrlunni, til dæmis vegna myndatöku, og því ekki tekið eftir hindruninni.

Eða þá að flugmaður hinnar þyrlunnar hafi ekki tekið eftir því að hann hefði þrengt svo að þyrlunni sem stefndi á trjátoppinn, að hún rakst á hann. 

Hvort þetta skýrist nánar við rannsókn er óvíst úr því að allir um borð í þyrlunum fórust.  


mbl.is Þekktir íþróttamenn fórust í slysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hernaðurinn gegn landinu" í 50 ár.

Nú er að verða hálf öld síðan stórsókn virkjanafíkla Íslands hófst gegn Þjórsárverum og syðri hluta hálendisins. Á myndinni er horft hátt úr lofti yfir einn fossanna á aftökulistanum, Gljúfurleitarfoss í Efri-Þjórsá.  

Gljúfurleitar-foss

Það var ekkert verið að skafa utan af því í upphafi að ætlunin væri að sökkva öllum Þjórsárverum eins og þau lögðu sig og ekkert minna kæmi til greina. 

Þessu er mjög vel lýst í bók Guðmundar Páls Ólafssonar, og þegar farið er yfir þær hugmyndir, sem vikjanamönnum þóttu sjálfsagðar, skilst vel af hverju þessi áform voru ein helsta ástæðan fyrir tímamótagrein Halldórs Laxness 1970: "Hernaðurinn gegn landinu", sem hann skrifaði nokkrum árum eftir að ósköpin dundu yfir. 

Meðal þess sem verkfræðingarnir settu fram var, að vegna hinnar miklu hagkvæmni þessara tröllauknu virkjanaframkvæmda yrði bæði fjárhagslega og tæknilega auðvelt að búa til ný heimkynni heiðargæsanna annars staðar á hálendinu ! 

Í hálfa öld hefur staðið baráttan fyrir friðun þessa svæðis og þar með björgun fossanna stóru í Þjórsá, sem virkjun þarna mun annars eyðileggja.

Virkjanafíklarnir sáu fljótlega að það var of áberandi að nöfn Þjórsárvera eða fossanna væru í nöfnunum, sem þeir völdu.

Í stað þess að kalla áformin Þjórsárveravirkjun eða Dynksvirkjun, var fundið nafn á lítt áberandi malaröldu, sem er nálægt stíflustæðinu og einnig forðast að nota orðið virkjun, heldur hið meinleysilega heiti "veita."

Heitið Norðlingaölduveita segir nákvæmlega ekki neitt um eðli virkjunarinnar. 

Þetta var gert markvisst í svonefndri Kvíslaveitu, sem raunar fólst í fimm mismunandi virkjunum, sem allar tóku vatn úr einhverri af þverám eða kvíslum, sem féllu í Þjórsá austanmegin.

Þannig náðu virkjanamenn til sín þegjandi og hljóðalaust 40% af orku fossanna í Þjórsá, og upplýstu aldrei um hina háu prósentutölu fyrr en þeir voru örugglega komnir með allar veiturnar í höfn.

En þeim nægir ekki að hafa stórlaskað Dynk, flottasta stórfoss Íslands. Þeir halda áfram að að sækja að takmarki sínu og ósvífnin nær nýjum hæðum með því að dulbúa áformin í heitið "stækkun friðlands Þjórsárvera."

En þegar betur er að gætt, sést að ætlunin er að inn í áttina að hjarta veranna liggi eins og beitt sverð mjótt ófriðað svæði, nægilega stórt fyrir miðlunarlón og virkjunina!HjartaLandsinsNyrvefur_big

Í raun virðist staðan í stríðinu um landið hafi ekkert hafa breyst í 50 ár. Fyrir liggja yfirlýsingar og stefna um að stefna í "mestu virkjanaframkvæmdir í sögu þjóðarinnar" fram til 2025 með því að tvöfalda rafmagnsframleiðsluna í landinu, þannig að í stað þess að við framleiðum 5 sinnum meiri raforku en við þurfum fyrir okkur sjálf, framleiðum við 10 sinnum meiri raforku árið 2025 en við þurfum sjálf.Bjarnarflag, loftmynd

90% af þeirri orku á að fara til "orkufreks iðnaðar" í eigu útlendinga, (les: stóriðju) og aðeins 2% til heimilanna í stað 5% nú.

"Það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær, sæstrengur verður lagður til Evrópu" sagði forstjóri Landsvirkjunar á fundi þess fyrirtækis í hitteðfyrra og með tilkomu hans verður búið að gulltryggja að engu verði eirt. Gjástykki. Marssvæði. Sandmúli

Á teikniborðinu í þessari hernaðaráætlun einbeitts brotavilja gegn hinni einstæðu náttúru landsins eru meðal annars virkjanir Dettifoss, Jökulsánna í Skagafirði og Skjálfandafljóts (Aldeyjarfossvirkjun), virkjanir Skaftár og annarra áa í Vestur-Skaftafellssýslu, Tungnaár við anddyri Landmannalauga, virkjana- og mannvirkjabelti norður um Sprengisand, virkjun Bjarnarflags á austurbakka Mývatns 2022 og virkjanir við Leirhnjúk og í Gjástykki 2025 o.s.frv. o.s.frv.

Nöfn virkjananna eru á bilinu 80-100 eftir því hvenær þau birtast, og þegar er búið að gera um 30 stórar virkjanir.

Neðst hér á síðunni eru loftmyndir yfir Bjarnarflagssvæðið og þann hluta Gjástykkis, sem Alþjóðleg samtök áhugafólks um marsferðir, hafa valið sem æfingasvæði.  


mbl.is Krefjast friðlýsingar á svæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú er maður hættur að jafna sig. Maður "endurheimtir sig".

Ýmis stutt, góð og þægileg íslensk orð eiga nú undir högg að sækja og gætu verið í útrýmingarhættu með sama áframhaldi. 

Orðin "svona" og "hvernig" þykja ekki lengur nógu fín. Í staðinn fyrir þessi tveggja atkvæða orð er alls staðar þrengt inn fimm atkvæða orðaröðinni "með þessum hætti" og "með hvaða hætti."

Það nýjasta er að sagt er að íslenska hagkerfið hafi "endurheimt sig" eftir Hrunið. Það hlýtur að þýða að hagkerfið hafi glatast eða týnst og hafi nú verið enduheimt. 

En á mannamáli er verið að ræða um að hagkerfið hafi veiklast eða lamast og sé nú búið að jafna sig. 

Ég fékk umgangspest fyrir hálfum mánuði og er nú að jafna mig af henni, - nei, afsakið, ég er að endurheimta mig eftir hana. 

Þegar Joe Frazier sló Muhammad Ali niður með einhverjum svakalegasta vinstri krók sögunnar, tók það Ali undraverðan tíma að standa upp og jafna sig, - nei, afsakið, það tók hann víst fjórar sekúndur að standa upp og endurheimta sig. 

Sögnin að "endurheimta" er tvöfalt lengra en sögnin að "jafna" og þykir sennilega miklu fínna fyrir bragðið. 

 


mbl.is Landsframleiðslan aldrei meiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugtakaruglingurinn um "miklar frosthörkur" og "vetrarhörkur".

Það þarf ekki að fjölyrða um það að veturinn hefur verið sérlega vindasamur og illviðrasamur. Þó er það ekkert einsdæmi að mikið snjói og skafi. Slíkt veðurfar var frá janúar fram í mars fyrir þremur árum og snjórinn þá meiri á Suðurlandi en hann hefur verið í vetur, raunar einhver hinn mesti í áraraðir.

Í fyrravetur voru mikil snjóalög og hríðar fyrir norðan alveg fram á vor þótt hitinn væri yfir meðallagi, og meðalhitinn ekkert lægri á þessum tímabilum syðra og nyrðra en gengur og gerist, heldur var úrkoman í formi snævar mun meiri en í meðalári.

Síðast í gær voru orðin "einstakar vetrarhörkur" og "einstakar frosthörkur" notuð í fjölmiðlum um veturinn núna, en það er stórlega ofmælt.

Þrátt fyrir öll illviðrin og snjóinn í desember var sá mánuður hlýrri en í meðalári um mestallt land, og engar sérstakar frosthörkur hafa verið fram að þessu, heldur einungis miklu meiri vindur og úrkoma en venjulega, og þegar hitinn er langtímunum saman í kringum frostmark fellur úrkoman sem snjór.

Undanfarnar vikur hefur verið sérlega hlýtt á meginlandi Evrópu langt austur í Rússland og enda þótt það hvítnaði í Norður-Ameríku á tímabili, voru flestar hitatölur rauðar þar í gær og fyrradag langt norður úr.

 

P. S. Í athugasemd við þennan pistil er haldið fast í "frosthörkurnar" og "vetrarhörkurnar" og sagt að undanförnu hafi ríkt mesti kuldi á þessari öld.

Staðreyndirnar eru þessar samkvæmt tölum Veðurstofunnar:

Meðalhitinn í janúar og febrúar í Reykjavík er aðeins 0,1 stigi undir meðaltali áranna 1961-90 sem yfirleitt er miðað við, og það er sami meðalhiti og í sömu mánuðum 2008.

Meðalhitinn á Akureyri í janúar og febrúar er 0,9 stigum HÆRRI en meðaltalið 1961-90, og janúar og febrúar voru kaldari þar árið 2010 en nú.

Þetta eru nú allar frosthörkurnar og vetrarhörkurnar!   

 


mbl.is „Líklega versti vetur í áraraðir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband