Þegar örlög fárra hafa meiri áhrif en örlög milljóna.

Eftir að Seinni heimsstyrjöldinni lauk voru birtar myndir af hrúgum af illa leiknum líkum þeirra, sem drepnar voru í helförinni og talan 6 milljónir þar með. 

Þetta hafði að vísu mikil áhrif, en þó hafði sjónvarpsþáttaröðin um Helförina mun meiri áhrif. 

Í henni var fylgst með afmörkuðum hópi, einstaklingum og nánustu ástvinum þeirra. 

Hvernig mátti það vera að það hafði mun meiri áhrif en haugarnir af líkum og líkamsleifum fyrst eftir styrjöldina? 

Ástæðan er sennilega sú að áhrifin eru meiri eftir því sem farið er nær einstaklingunum sjálfum, þannig að einskonar persónuleg tengsl myndast á milli þolendanna og almennings.

Dagbók Önnu Frank, eins einstaklings, hafði gríðarleg áhrif á sínum tíma, var sett á svið í leikhúsum og í kvikmynd. Allir gátu sett sig í spor Önnu og fjölskyldu hennar. 

Hér á síðunni hefur áður verið minnst á það hvað Geysisslysið hafði mikil áhrif á alemnning haustið 1950, mun meiri en margfalt stærri slys.

Ástæðan var líklega sú, að þá fimm daga sem áhöfnin var týnd, lærði fólk nöfn allra um borð og var þar með komið eins og inn á gafl hjá þeim.

Og einu sinni enn koma orð Stalíns upp í hugann: Þegar einn maður er drepinn er það morð, en þegar milljón er drepin er það tala. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Lést Anne Frank mánuði fyrr?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaðið yfir alla. Draumur um risalínu frá Hornafirði vestur um Fjallabak.

Varla líður sú vika að ekki berist fréttir af fyrirætlunum Landsnets, þar sem enginn hluti landsins er undanskilinn, allt frá ysta hluta Reykjanesskagans, þversog kruss um hálendið og um byggðir.

Fyrirtækið stendur ekki við loforð eins og dæmið með spennistöðina við Hamranes sýnir glöggt og tregðast við það út í hið endalausa við að leggja línur í jörð.

Fyrirtækið heldur því fram að verið sé að "tryggja afhendingaröryggi til heimilanna og fyrirtækja landsmanna" með lagningu þessara risalína þótt augljóst sé að þetta er einungis birtingarmynd hinnar takmarkalausu virkjana-og stóriðjustefnunnar, sem enn lifir jafn góðu lífi og hún gerði fyrir áratug.

Forstjóri Landsvirkjunar hefur lýst því yfir að það verði ekki spurning um hvort heldur hvenær sæstrengur verði lagður til Skotlands.

Í tengslum við það eru ekki aðeins uppi áform um risalínur þvers og kruss um hálendið heldur er líka í ráði að vegna þess að sæstrengurinn komi á land á Hornafirði verði lögð þaðan risaháspennulína um Suðursveit, Öræfasveit og Skeiðarársand en síðan liggi línan um suðurhálendið í gegnum Friðland að Fjallabaki til virkjananna við Tungnaá og Þjórsá.

Í skoðanakönnunum Önnu Þóru Sæþórsdóttur kemur fram að ekkert trufli eins upplifun útlendinga af ósnortinni íslenskri náttúru og háspennulínur, en meira en 80% erlendra ferðamanna koma til Íslands til að upplifa hana ósnortna.

En að sjálfsögðu stefnir Landsnet að því að gefa því langt nef og vaða yfir allt og alla.  

 


mbl.is Skora á bæjarstjórn að synja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólk gúglar ekki til sín lífsreynslu og þroska.

Áberandi munur er á viðhorfi fólks til aldurs hjá tækniþjóðfélögum vesturlanda og þjóðfélögum í þróunarlöndunum. 

Á vesturlöndum er einblínt á þá staðreynd að um 25 ára aldur telst líkamleg og andleg geta einstaklinga mest og fari smám saman dvínandi þar sem eftir er ævinnar.

Í austurlöndum eru reynsla og þroski hinna eldri í hávegum höfð og þeir njóta mestrar virðingar, svo að manni sýnist stundum, litaður af æskudýrkun vesturlanda, að það geti verið um of.  

Lítið dæmi um neikvæðu síbyljuna um aldurinn er sífelld endurtekning á því hve íþróttafólk er orðið gamalt strax um þrítugt. 

Sífellt er talað um Eið Smára Guðjohnsen sem "gamla manninn" og er það að vísu skiljanlegt þegar miðað er við óvenju ungan meðalaldur annarra landsliðsmanna.

En Eiður sýndi svo um munaði þegar "gamla manninum" var kippt inn í liðið hvers virði gamli maðurinn var. 

Þetta sífellda tal í neikvæðum tóni um miðaldra og gamalt fólk hefur smitandi áhrif, og eitt dæmi um það er að fólk yfir fimmtugu skuli ekki vera haft í meiri metum sem starfskraftar er raun ber vitni.

Sömuleiðis það hvernig fólk yfir sjötugu, að ekki sé nú talað um sístækkandi hluta þjóðarinnar sem er yfir áttrætt, er næstum algerlega afskrifað, til dæmis í skoðanakönnunum þar sem fólki yfir áttrætt er skipað í flokk með börnum að því leyti, að því sé ekki treyst til að hafa marktækar eða gildar skoðanir.

Á erlendum málum eru fréttir nefndar "news" eða "nyheder" sem vísar til þess að eitthvað nýtt þurfi að felast í þeim.

Því brá mér í brún að sjá hvernig reyndum frétta- og blaðamönnum var eins og sópað út af fjölmiðlunum í Hruninu.

Eitt sinn þegar ég kom á fréttastofu RUV var aðeins einn fréttamaður á vakt hjá RUV sem var eldri en fertugur.

Ef hann hefði ekki verið á vakt hefðu hinir ungu í mörgum tilfellum ekki vitað, hvort eitthvað "nýtt" eða einstakt fælist í álitaefnum dagsins.

Oft þarf að hafa hraðar hendur í frétta- og blaðamennsku og þá er ómetanlegt að reynslubolti geti lagt á það mat samstundis án þess að það þurfi að fara að gúgla út og suður.

Atvinnurekendur geta treyst því að fólk yfir fimmtugt þurfi ekki á fæðingarorlofi að halda.

Þátturinn 60 mínútur er gott dæmi um það hve mikils virði reynsla og aldur geta verið.

Ekki er annað að sjá að sjónvarpsfólkið þar sé vel við aldur, - á tímabili var sjálfur stjórnandinn kominn vel á áttræðisaldur en samt gefur þetta fólk ekkert eftir í því að leysa af hendi krefjandi og erfið verkefni í öllum heimshlutum.

Í gærkvöldi var ég að horfa á smá þátt á Youtube um Sean D. Tucker. Á flugsýningu í Oskosh í Bandaríkjunum fyrir rúmum áratug hreifst ég afar mikið af frammistöðu hans í listflugi á sýningunni.

Síðan þá hefur hann orðið enn betri ef eitthvað er og er viðurkenndur sem magnaðasti sýningarflugmaður í listflugi í heiminum. Þarf ekki annað en að sjá dæmi um það á Youtube hvernig hann stendur framar öðrum til að átta sig á snilld hans.

En samt er hann nú kominn á sjötugsaldur og er í líkamlegu formi á við fremstu íþróttamenn, eins og sést á því hvernig hann æfir stíft 340 daga á ári í líkamsræktarstöð, svo að hann er með "skorinn", vöðvastæltan og eins og tálgaðan skrokk.

Miklu skiptir að vera sem léttastur, því að hann verður að standast 9,5 líkamsþyngdir í dýfum og 7,5 líkamsþyngdir í dýfum á hvolfi. Hann æfir flugæfinga sínar líka helst daglega til þess að öðlast sem mesta reynslu og þroska.      


mbl.is Fólk um fimmtugt bestu starfskraftarnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldatilfærsla?

Það er út af fyrir sig gott að bílafloti landsmanna sé endurnýjaður hraðar en verið hefur undanfarin ár. Bílaflotinn varð eldri fyrst í kjölfar Hrunsins og það er ekki gott. 

Með hverju árinu verða bílar sparneytnari, miðað við stærð og þyngd, og einnig öruggari og því fengur að því að fá þá inn í bílaflota okkar. 

Sem dæmi má nefna að í Toyota iQ, sem er aðeins 2,99 metra langur, er með níu öryggisbelgi og -gardínur og fær fullt hús, 5 stjörnur í árekstraprófunum. 

Fróðlegt væri að vita hve mikinn þátt skuldaleiðréttingin á í fjölgun bíla og enn fróðlegra væri að vita hve hátt hlutfall nýju bílanna er keyptur með allt að 90% láni, sem voru og eru óspart auglýst. 

Í þeim tilfellum er skuldaleiðréttingin kannski frekar skuldatilfærsla en lækkun skulda og ákaflega íslenskt fyrirbæri. 


mbl.is Mikil aukning í sölu lúxusbíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 31. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband