Gildi Reykjavíkurflugvallar.

Ísland er eyland um 1300 kílómetra frá næstu alþjóðaflugvöllum. Staða landsins er að því leyti gerólík stöðu landanna á meginlöndunum sitt hvorum megin hafsins, þar sem örstutt er oftast á milli stórra flugvalla og margir flugvellir geta þjónað sem varaflugvellir fyrir hvern og einn. 

Þetta virðist mönnum ómögulegt að skilja og einnig það að Akureyrarflugvöllur og Egilsstaðaflugvöllur bera í sér landfræðilegar takmarkanir fyrir not sem varaflugvellir vegna langrar vegalengdar til Egilsstaða og hárra fjalla í nágrenni Akureyrarflugvallar. 

Hér er átt við það þegar flugvélar á borð við vélar Icelandair ætla að komast frá Keflavík í lélegu skyggni þar. 

Keflavíkurflugvöllur er með verra veðurfar en Reykjavíkurflugvöllur vegna þess að í Reykjavík er skjól af Reykjanesfjallgarðinum en Keflavíkurflugvöllur er berskjaldaður fyrir öllum veðrum þarna yst úti á skaganum. 

Á flugvöllum er oftast hægt að fara í loftið í slæmum flugskilyrðum en að lenda þar í slæmum skilyrðum. 

Því kemur það fyrir af og til að enda þótt Flugleiðaþota komist í loftið, eru flugskilyrðin það léleg að ef hún missir afl á öðrum hreyflinum, getur hún ekki lent þar aftur. 

Í slíkum tilfellum er henni bannað að fara í loftið nema hún hafi varaflugvöll með nothæfum skilyrðum og í innan við klukkustundar flugtíma frá upphafsvellinum. 

Reykjavíkurflugvöllur er í þessum tilfellum sá eini, sem nothæfur er. 

Á öðrum hreyflingum kemst þotan ekki í tæka tíð til Egilsstaða og hún getur heldur ekki komist á öðrum hreyflinum yfir hindranir og inn til hins erfiða aðflugs og fráflugs, sem Akureyrarflugvöllur hefur. 

Það, að þurfa að sæta því að að óþörfu sé tekið fyrir möguleika á því að stunda almennilegt flug til og landinu, felst ekki aðeins í því út af fyrir sig að þurfa að aflýsa flugi að óþörfu. 

Á bestu flugvöllum erlendis er slegist um aðgang að bestu afgreiðslustöðunum á degi hverju. 

Til þess að hægt sé að halda í þá, verður viðkomandi flugfélag að standast lágmarkskröfur um stundvísi, annars verður þeim vikið í burtu. 

Þá heyrir maður mótbárur eins og þessa: Ég held að það sé nú lítið mál að fara bara með flugið til Gatwick eða annarra staða.

Jahá, svona lagað er sagt án þess að skoða neitt grundvallaratriði samkeppni, sem er sá akkur sem er er í því að bjóða upp á það sem eftirsóttast er og samkeppnisfært. 

Maður heyrir upphrópanir eins og þá að svona lítil þjóð eins og við höfum ekki efni á því að vera með tvo alþjóðaflugvelli í sama landshlutanum. 

Þeir, sem þannig tala, virðist fyrirmunað að skilja sérstöðu legu landsins sem eyju langt úti í ballarhafi og skilja gildi flugsamgangna í nútímasamfélagi og gildi þess atvinnuvegar, sem er nú orðinn aðalatvinnuvegur landsmanna. 

 


mbl.is Lentu ekki í Keflavík vegna veðurs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvissutímar.

"Tíminn líður hratt á gervihnattaöld" söng Icy-tríóið 1986. Sá hraði varð mikill þremur árum síðar þegar meiri breytingar urðu í Evrópu á árunum 1989-91 en höfðu orðið á næstu 44 árum á undan. 

Nú virðist hraðinn vera að aukast á miklu fleiri sviðum en okkur óraði fyrir. 

Það þurfti bjartsýnismenn til að koma á byltingu netheima en nú hefur einn þeirra áhyggjur opinberlega af því að sú tækni sé að byrja að éta sjálfa sig upp og eyða sér, þannig að skyndilega kunni heimurinn að vakna upp við það að allt þetta, jafnvel gagnaverin, verði ónýtt. 

Hraðinn á nýjungunum í öllum forritunum og byltingarkenndu uppfinningunum gera það, sem var rétt í þann veginn að ryðja sér til rúms, úrelt á methraða. 

Það eru til dæmis ekki nema 3-4 ár síðan spólumyndavélar með hd skerputækni voru á hverju strái og það besta og viðráðanlegasta, sem maður get krækt sér í. 

Nú eru þær allar orðnar gersamlega úreltar og maður situr uppi með spólusafn, sem aldrei er að vita nema verði ónýtt eftir örfá misseri. 

Það eru óvissutímar, sem valda því stundum að maður gerir sér upp skjálfandi rödd gamalmennisins, sem hristir höfuðið og segir: "Þetta var allt saman miklu betra hér í gamla daga." 

 


mbl.is Ríki íslams á njala.is?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mistök í vörn = Hörð refsing. Mistök í sókn = Bara mistök.

Einn grundvallarmunur á því þegar varnarmaður gerir mistök og þegar mistök eru gerð í sókn er sá, að sé andstæðingurinn góður, refsar hann varnarmanninum grimmilega eins og gerðist í leik Íslendinga og Norðmanna í Algarve-mótinu í gærkvöldi. 

Hefði norska sóknarkonan gert þau mistök að klúðra færinu hefði þau mistök verið skráð sem "bara mistök"; markatalan 0:0 óbreytt í stað þess að mistök íslensku varnarkonunnar breyttu stöðunni í 0:1.

Í venjulegum leik Barcelona eða Real Madrid sjáum við snillingana Messi og Ronaldo gera margar tilraunir, sem flestar misheppnast, jafnvel allar, en það nægir til að menn fyrirgefi þeim, ef þeir bara skora úr einni eða tveimur tilraunum sínum.

Varnarmennirnir, sem verjast þeim, fá hins vegar heldur betur að súpa seyðið af sínum mistökum, jafnvel þótt þau séu bara ein í viðkomandi leik.  


mbl.is Skelfileg mistök (myndskeið)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konur á barneignaaldri = líf eða dauði byggðarlags.

Sú aðferð er kolröng að horfa eingöngu á mannfjöldatölur frá einstökum byggðarlögum eða landshlutum til þess að meta stöðu þeirra.

Um líf eða dauða byggðarsvæða gildir nefnilega nákvæmlega það sama og gilt hefur frá upphafi mannkynssögunnar: Tala kvenna á barneignaaldri er eina talan eða stærðin sem skiptir máli.

Það er íslenska konan sem allt stendur og fellur með. Tæknilega séð væri nóg að aðeins einn karlmaður væri í byggðarlaginu og þarf ekki að útskýra það nánar.

Mikið væri nú gaman ef Hagstofa Íslands birti tvenns konar mannfjöldatölur á landinu: Annars vegar heildartöluna og hins vegar tölu kvenna á barneignaaldri í byggðarlögunum, hverju fyrir sig.

Fyndi síðan út meðaltalið af hlutfallinu á milli þessara tveggja talna á landinu öllu og tilgreindi síðan hve hátt hlutfallið væri í hverri byggð.

Þá sæist hið raunverulega ástand og lífslíkur byggðarinnar. 

Segjum að meðaltalið væri 25% af heildarmannfjöldanum, þ. e. að helmingur kvenna á landinu væri á barneignaaldri, en að síðan kæmi í ljós að á Vestfjörðum væri talan aðeins 8% af mannfjöldanum þar.

Núna búa 2,2% landsmanna á Vestfjörðum. Ef ofangreindar tölur, 25 og 8 prósent væru raunveruleikinn, kæmi í ljós að aðeins 0,7% allra kvenna á landinu, sem eru á barneignaaldri, byggju á Vestfjörðum!

Þegar ráðist er gegn þjónustu við konur og börn, heilbrigðisþjónustu, fæðingarþjónustu og leikskólaþjónustu eins og gerst hefur víða landsbyggðinni og nú síðast á Ísafirði, er vegið að rótum samfélagsins á miklu grófari hátt en þótt einhver verksmiðja rísi eða rísi ekki.

Það er vegið að lífinu sjálfu og viðhaldi þess. 

1989 heimsótti ég minnsta kaupfélag landsins á Ströndum og gerði um það frétt.

1999, tíu árum síðar, hringdi ég að gamni í kaupfélagsstjórann, Sigrúnu Magnúsdóttur, og spurði frétta, hvort fólki hefði fækkað í byggðinni.

"Nei", svaraði hún, "við erum hérna ennþá öll."

"Það er gott að heyra," sagði ég.

"Nei, það er slæmt að heyra," svaraði hún.

"Ha? Slæmt að heyra? Af hverju?"

"Við erum öll orðin tíu árum eldri," svaraði hún.  

 

 

 

 


mbl.is „Afturhvarf mörg ár aftur í tímann“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband