Sama viðfangsefnið hér, í Svíþjóð og víðar.

Í fréttum Sjónvarpsins í kvöld voru sýndar myndir af mótmælum landsbyggðarfólks í Svíþjóð vegna síminnkandi þjónustu og hraðasta fólksflótta í Evrópu úr dreifbýli í þéttbýli, að því er talið er. 

Einkennin eru alls staðar þau sömu, fækkun banka, verslana og alls kyns stofnana og fyrirtækja á vegum einkaframtaks eða ríkis og sveitarfélaga. 

Þegar stofnanir fyrir frumþarfir fólks á barneignaaldri eru vanræktar eða lagðar niður er vegið að undirstöðum byggðar. 

Ástæðurnar fyrir hinni stórfelldu tilfærslu fólks frá dreifbýli til þéttbýlis og borga í heiminum hafa verið þær sömu í meira en hundrað ár, krafan um svonefnda hagræðingu í þágu hagvaxtar eða sem viðbrögð við efnahagsörðugleikum. 

Fyrir 100 árum átti sér til dæmis stað stórfelld tilfærsla í fiskveiðum á Íslandi, þegar verstöðvar í tugatali á annesjum og útskerjum lögðust niður með tilkomu vélbáta og togara. 

Þessi bylting var að vísu af hinu góða því að þau kjör sem menn urðu að una við í verbúðunum voru ekki mönnum bjóðandi. 

En síðustu áratugi hefur staðið yfir stórkostleg tilfærsla á fiskveiðiheimildum til fárra og stórra útgerðarfyrirtækja á kostnað smærri fyrirtækja og dreifðra byggða.

Í Hruninu töldu menn sig tilneydda til að draga saman í þjónustu víða um land og hefur lítið af því gengið til baka eftir að efnahagurinn fór að rétta við.

Ástandið væri víða enn verra ef ekki komið til hin gríðarlegi vöxtur ferðaþjónustunnar sem hefur að hluta til, eðli málsins vegna, gagnast landsbyggðinni en hvergi nærri náð að snúa straumnum við.

Það er erfitt að finna ráð til að skapa betra jafnvægi í byggðinni þegar efnahagslegir kraftar eru jafn sterkir og raun ber vitni.

En í þeim efnum verður að huga betur að þeim þáttum í velferð fólks, sem ekki er hægt að setja sömu ísköldu verðmiðana á og á það, sem skapar unaðarstundir og upplifun og reikna dæmin út frá því, auk þess sem huga verður að þeim verðmætum, sem tapast þegar mannvirki eru skilin eftir mannlaus þegar byggðir fara í eyði eða hrakar hratt.  

  


mbl.is Nauðsynlegt að hafa verslun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Skagfirska efnahagssvæðið", - "SES".

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar, sér strax að það eru sérkennileg hlutföll að Skagafjörður fái 77% af störfum, sem tillögur eru um að flytja til Norðurlands vestra, en allir aðrir staðir aðeins 23%.

Hún áttar sig greinilega ekki á því að síðan upp úr síðustu aldamótum hafa einhverjar sterkustu rætur og uppspretta valda flokks forsætisráðherra og þar með núverandi ríkisstjórnar verið á Sauðárkróki.

Þau völd hafa farið vaxandi og styrkst svo mjög, að stundum er talað um þetta fyrirbæri banvænnar blöndu af peningum og stjórnmálum sem "Skagfirska EfnahagsSvæðið, skammstafað "SES", - á ensku "SEC", "the Skagafjörður Economic Connection", samanber nafn bíómyndarinnar góðu, The French Connection".

Þessi bíómynd var í tveimur hlutum, I og II, og Skagfirska efnahagssvæðið I var í mótun frá fram til 2008, en Skagfirska efnahagssvæðið II eftir Hrun.    

 

  

 

.  


mbl.is Óska eftir sömu vinnubrögðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er "ekki-pólitík" og hvað er "raunsæispólitík"?

Því er slegið upp og hneykslast og fussað yfir því að þingmenn sitji hjá við atkvæðagreiðslur. 

Notað er orðið "ekki-pólitík" yfir fyrirbærið og Píratar sakaðir um að fiska fylgi út á það að styggja engan og taka ekki ábyrgð. 

Þetta er of mikil einföldun og skulu nefnd dæmi um afdrifaríkar hjásetur heilla stjórnmálaflokka. 

Á hverju ári eru afgreidd fjárlög á Alþingi. Þetta er yfirleitt stærsta mál hvers þings.

En fyrir löngu er orðin venja að stjórnarandstaðan, eins og hún leggur sig, sitji hjá. 

Er það "ekki-pólitík"? 

Nei, það er raunsæispólitík, "real politik". Stjórnarandstaðan sættir sig við það að stjórnarflokkarnir fái sínu framgegnt og sitja hjá til að láta það vera opinbert að þeir taki ekki ábyrgð á fjárlögunum, heldur beri stjórnin ein þá ábyrgð. 

Frá febrúar til júní 2009 sat minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur við völd í skjóli Framsóknarflokksins, sem veitti henni hlutleysi með ákveðnum skilyrðum, svo sem um nýja stjórnarskrá, en gaf það út að ef þurfa þætti myndi hún verja hana vantrausti. 

Þetta var sko engin "ekki-pólitík" heldur afdrifarík stefna hjá Framsóknarflokknum þessa mánuði þegar hatrammt björgunarstarf stóð yfir eftir Hrunið. 

Minnihlutastjórnir Alþýðuflokksins sátu í skjóli Sjálfstæðisflokksins 1958-59 og 1979-80 með svipuðum formerkjum og stjórn Jóhönnu 2009. 

1959 var tækifærið notað til að gera langstærstu breytinguna á kosningalögunum í 100 ár. 

Var það "ekki-pólitík"? 

Í nágrannalöndum okkar hefur verið hefð fyrir því að minnihlutastjórnir væru við völd þegar annað þótti ekki framkvæmanlegt. Þetta hefur reynst vel úr því að annað var ekki í boði nema þá ófriður og upplausn. 

En sumir virðast telja það dyggð að velja ekki frið ef ófriður er í boði, velja átakastjórnmál í stað rökræðustjórnmála og samvinnustjórnmála, eins og stunduð eru um 90% af verkefnum sveitarstjórnanna i landinu. 

Seta ríkisstjórnanna í þessum löndum byggist oftast á hlutleysi hluta þingmanna. Þessi háttur hefur tryggt langvarandi stöðugleika og málefnalegra og farsælla stjórnarfar heldur er hér í landi "skotgrafahernaðarins" á þingi, þar sem það er talin dyggð að sjá aldrei neitt jákvætt við það sem sitjandi ríkisstjórn er að gera.

Stjórnmál eru nefnilega list þess mögulega. Til þess er fólk kosið á þing. 

 

 


mbl.is Hafa í flestum tilfellum setið hjá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í áttina til 1978?

 1978 voru Íranir með Resa Palevi keisarar sem þjóðarleiðtoga einn tryggasti bandamaður Vesturveldanna. Þjóðin var rísandi veldi og afar þýðingarmikið í öllum áætlunum Bandaríkjamanna. 

Í Seinni heimsstyrjöldinni gegndi landið mikilvægu hlutverki fyrir Bandamenn í stríðinu við öxulveldin. Í gegnum landið lá ein af þremur flutningaleiðum hergagna og vista frá Vesturveldunum til Sovétmanna og einn af fundum leiðtoga Bandamanna var haldinn í Teheran.

Eftir stríðið lögðu Vesturveldin kapp á að halda landinu sín megin í Kalda stríðinu og Mossadeck, sem þótti of sósíaliskur, var steypt af stóli. 

Í tímaritinu Time 1978 var lýsing á hraðvaxandi veldi Írana vegna auðlinda landsins, svo sem olíu, og legu þess.

Leyniþjónustur Vesturveldanna reyndust hins vegar hafa verið steinsofandi þegar klerkabyltingin var gerð 1979. Keisarinn var kominn með hættulegt mikilmennskkubrjálæði í öllum uppganginum og því komin viðbótarástæða fyrir andspyrnuöflu í landinu að steypa honum af stóli.

í 36 ár hefur ríkt óvinátta á milli Írana og vestrænu stórveldanna, sem hefur vegna viðskiptaþvingana bitnað mjög á efnahag landsins og stöðu þess, svo að það hefur verið svipt þeim miklu möguleikum, sem blöstu við 1978.

Nú virðast ráðamenn þjóðarinnar hafa áttað sig á því að samningaleiðin mun geta fært þjóðinni svo miklar kjarabætur og eflt svo mjög veldi hennar, að með samningum um kjarnorkuáætlun landsins á þann veg, að ekki verði smíðuð kjarnorkuvopn, sé verið að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.

Nú, eins og 1978, veltur á miklu að leyniþjónustur og ráðamenn Vesturlanda fylgist betur með því sem er að gerast í landinu en fyrir 1979.

Vera þarf á varðbergi gagnvart þeim möguleika að samningarnir núna séu aðeins millileikur að hálfu Írana á meðan þeir eru að efla sig stórlega, en að síðan geti þeir freistast í sterkari stöðu til að fara á fullt í sama farið með kjarnorkuvopnin.  

En samningarnir núna eru út af fyrir sig fagnaðarefni. 


mbl.is Segist munu heiðra samkomulagið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar íþróttaskór gátu orðið brottrekstrarsök.

"Fötin klæða manninn" var einhvern tíma sagt, og vissulega geta þau skipt miklu máli. Þegar ég byrjaði í M.R. fyrir 59 árum, kom ég á reiðhjóli í skólann og var í þykkum ullarsokkum og strigaskóm. 

Það þótti varla við hæfi í þeim fína skóla.

Síðar fór ég að ganga í íþróttaskóm, af því að mér fannst þeir þægilegir.

Þegar ég hóf störf á fréttastofu Sjónvarpsins var fréttastjóranum afar annt um heiður hennar og virðingu í hvívetna. Hann las sjálfur yfir allar fréttir og gerði mjög harðar kröfur til málfars og vinnubragða. Það var góður skóli.

En honum var mikið í nöp við íþróttaskóna mína hvítu, sem stungu í stúf við skófatnað allra á þeim tíma.

Hann tók mig á teppið og gerði mér grein fyrir því, að miklu skipti í starfinu að vera ekki að óþörfu að skera sig úr í losaralegum eða glannalegum og áberandi klæðaburði, sem drægju athyglina frá aðalatriðinu: Fréttunum sjálfum og efni þeirrra.

Auk þess yrðu fréttamenn að sýna lágmarks virðuleika í klæðaburði.

Mér tókst að semja við hann um að fá mánaðar frest til að skipta um skó í vinnunni.

Vissi, að ég þyrfti að fara til útlanda í mánuðinum og notaði ferðina til að leita að og finna einlita svarta íþróttaskó.

Þetta nægði og hef ég síðan gengið í slíkum skóm, jafnt við hátíðlegustu athafnir og tækifæri og á sviði sem skemmtikraftur eða ræðumaður.

En hið skondna var, að nokkrum árum eftir að ég hafði gert þessar ráðstafanir, gerðist einhver hraðasta bylting á mörgum sviðum þjóðlífsins i kjölfar bítla- og hippatímabilsins.

Merkilegast var það að þéringar lögðust af á örfáum árum, en hitt gerðist líka að það komst í tísku að ganga á ljósum íþróttaskóm.

Var fljótlega svo komið að ég var farinn að skera mig úr með því að ganga alltaf í svörtum skóm á meðan flestir aðrir gengu í ljósum skóm, oftast íþróttaskóm.

Og góða svarta skó nota ég meira að segja að mestu í gönguferðum um allt land, líka uppi á öræfum og þykir mörgum það skrýtin sérviska.  


mbl.is Rekinn vegna umdeildrar peysu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. apríl 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband