Útsýni milljarða virði í Reykjavík.

Þegar tekin var ákvörðun um Kárahnjúkavirkjun var því slegið föstu að landið, sem fór undir Hálslón og Kelduárlón væri ekki krónu virði. Því var hafnað að hægt væri setja verðmiða á það þótt upplýst væri að svonefnt "skilyrt verðmætamat" hefði verið notað með góðum árangri erlendis, svo sem í Noregi. 

Í myndinni "Á meðan land byggist" er farið til Sauda eða Sauðafjarðar í Noregi þar sem matinu var beitt og fjölda fossa og gilja þyrmt og einnig rætt við Staale Navrud prófessor um matið. 

Í handriti myndarinnar "Örkin" er setið í blómabrekku í haustlitum í Hjalladal með dalinn og Fremri-Kárahnjúk í baksýn og síðan aftur í blómabrekku í svonefndri Stuðlagátt, gili Kringilsár, þar sem stuðlabergshvelfingar eru beggja vegna, og á báðum sögum greint frá því að það sem sést á myndinni sé ekki talið krónu virði og þess vegna í góðu lagi að sökkva alls rúmlega 60 ferkílómetrum og fylla dalinn og gilið upp með jökulaur. 

En þetta gildir ekki alls staðar á landinu.

Í þeim íbúðum, sem efstar eru í háhýsunum við Skúlagötu, fer verðið á hverjum fermetra upp í milljón krónur. Í dæmigerðri 200 fermetra íbúð þar er verð íbúðarinnar 200 milljónir króna eða 150 milljónir yfir gangverði í borginni.

Hluti af þessum 150 milljónum felst að vísu í glæsilegum innréttingum og þægindum en útsýnið úr þessum blokkum má líkast til teljast samtals milljarða virði.

Það er mikið borgandi fyrir það að geta notið ótruflaðs útsýnis til Esjunnar!

Það er ekki sama hvað þú sérð þegar þú lítur út um gluggann heima hjá þér!

Og það er ekki aðeins í íbúðum, sem útsýni er í raun verðlagt þótt þrætt sé fyrir það.

Það stefnir í að erlendir ferðamenn borgi 400 milljarða króna í erlendum gjaldeyri inn í þjóðarbúið árlega og 80% þeirra segja íslenska náttúru og útsýni yfir ósnortin náttúruverðmæti landsins vera höfuðástæðu Íslandsfarar sinnar. 


mbl.is Hálendið 80 milljarða virði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð spurning: Hvað heitir þú?

Atvikið við Þórsgötu er um margt athyglisvert. Lögreglumaðurinn er á almannafæri og almenningi er heimilt að taka myndir á slíkum vettvangi.

Þegar Halldór Bragason heldur fram rétti sínum gerir lögreglumaðurinn sig líklegan til að gera myndavél hans upptæka á staðnum en Halldór verst þeirri aðför og löggan hikar.

Þá á hún eitt tromp á hendi, að spyrja Halldór nafns. Þetta kemur hjá honum eins og róbót sé að störfum.

Þarna á hann nefnilega möguleika á að handtaka Halldór fyrir að segja ekki til nafns og færa til fangelsis.

Ha?

Jú. 

Því ef Halldór neitar hefur lögreglan hingað til talið sér heimilt í slíkum tilfellum að handtaka viðkomandi, setja hann í fangelsi og halda honum þar, jafnvel svo dögum skiptir.

Það gegnir furðu í ljósi þess að í skjól nafnleyndar neyta ýmsir færis á að fara með svívirðingum meiðyrðum og lygum um aðra í netheimum. 

Þetta leiðir hugann að atviki varðandi skylduna um að segja til nafns, sem ég hef áður sagt frá hér á síðunni en tek upp aftur í tengslum við þetta mál: 

Fyrir allmörgum árum gerðist það að öll skilríki eins vinar míns brunnu í eldsvoða. Þegar hann ætlaði að endurnýja þau kom í ljós að hann hafði verið skráður þannig úr heimilisfestu í heimabyggð sinni nokkru áður, að það jafngilti því að hann væri ekki lengur á þjóðskrá og því sama sem dauður.

Var hann ósáttur við það þegar svo virtist sem engin leið væri fyrir hann að fá sér að nýju ökuskírteini og önnur nauðsynleg skilríki hvers Íslendings.

Íslendingum hafði fækkað um einn í bókhaldinu, sem samt var nú þessi dauði enn sprelllifandi og það á Íslandi.  

Þegar lögreglumaður í Reykjavík spurði hann síðan að nafni vegna meints umferðalagabrots, sem vinur minn harðneitaði að hafa framið, neitaði vinur minn að svara og gerði það í mótmælaskyni við það að geta ekki verið lengur á þjóðskrá og þar með með gilt ökuskírteini og önnur skilrík handbær.

Var hann þá settur í fangelsi og sat þar í viku, því að hann stóð fast á sínu og sagði ekki til nafns.

Svona langt getur nú þetta ákvæði leitt um skyldu til að segja til nafns.   


mbl.is Lögreglan biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Útreiknuð áhætta."

Heil fræðigrein, "útreiknuð áhætta" fjallar um allt sem getur gerst frá fæðingu til dauða. 

Sumar niðurstöðurnar geta verið skondnar en um leið grimmar. 

Þannig er það til dæmis einföld útreiknuð áhætta. að það eru 100% líkur á því að hver sá, sem fæðist, muni deyja.

 

Sem sagt: Ekkert smá áhætta að fæðast. 

Þetta er nánast eina atriðið í áhættureikningi sem er svona afgerandi.

Eina leiðin til komast hjá því að deyja ekki er að fæðast ekki. En enginn fær nokkru ráðið um fæðingu sína. 

Fallhlífarstökk er byggt á útreiknaðri áhættu sem sýnir að á mörgum öðrum hliðstæðum sviðum er hættan á meiðslum eða dauða meiri. 

Ótti við að stökkva í fallhlíf og ýmislegt fleira byggist meira á tilfinningalegu mati en rökréttu. 

Útreiknuð áhætta gildir um þær þúsundir stökkva fram af háum klettum, björgum eða tindum sem heppnast vel ef allar forsendur standast. Stökkin byggjast á því þegar fallið er mjög hátt, að láta sig falla á svo miklum hraða án notkunar fallhlífar að hægt sé að skekkja fallið þannig að það verði ekki alveg lóðrétt heldur aðeins á ská, og í lokin þegar nothæfur lendingarstaður birtist, er fallhlífin opnuð og lent farsællega. 

Eitthvað hefur farið úrskeiðis í útreikningi eða að forsendurnar breyst í Yosemite, svo sem ástand loftsins og vindafar, sem hafa breyst eða verið rangar. 

Sama gildir um mat á stöðu hvers manns í lífshlaupi hans. 

Þegar bók Þorsteins Jónssonar, "Dansað í háloftunum" kom út var líka á markaði ævisaga með titlinum "Lífsháskinn". 

Í síðarnefndu bókinni var þó minni lífsháski á ferð í allri bókinni en á einni blaðsíðu hjá Steina. 

Lífsháski Steina var mismunandi mikill og langmestur meðan Þjóðverjar voru öflugir og bardagarnir um Bretland harðastir. En Steini upplifði það ekki þannig meðan á þjónustu hans stóð í breska flughernum. 

Þvert á móti kvaðst hann hafa verið langhræddastur á flugi yfir Frakklandi eftir innrás Bandamanna í Normandy þegar þýski flugherinn var ekki nema svipur hjá sjón og Bandamenn höfðu algera yfirburði í lofti. 

Ástæðan var svipað hugarástand og hjá manni sem hefur verið svo heppinn við að draga úr spilastokki, að hann hefur ekki enn dregið verstu spilin. 

Eftir allt sem á undan var gengið var Steini orðin lafhræddur við að hafa sloppið á ævintýralegan hátt úr margföldum lífsháska, að hann væri búinn með heppniskvótann, líkt og maður sem finnst hlotið að vera komið að því að draga versta spilið úr spilastokknum eftir að hafa dregið öll þau bestu. 

Steini óttaðist að í lokin myndi eina þýska flugvélin á svæðinu laumast að sér aftan frá undan blindandi sól og skjóta sig niður. 

Hann átti eftir að lenda í miklum lífsháska hvað eftir annað seinna í flugi sínu um allan heim en dó samt á sóttarsæng. 

Sjálfur hef ég verið svo heppinn svo oft um dagana og þakklátur forsjóninni fyrir það, að tilfinning Steina er farin að sækja að. 

Í eitt skipti fékk ég þau skilaboð í gegnum millilið frá djöfladýrkendum, sem gerðu tilraun til að koma mér fyrir kattarnef með særingum, að þeir hefðu gefist upp, - það væri sterkara sem fylgdi mér. 

Sé svo dregur það samt ekki úr "Steina-heilkenninu" hjá mér, því að mikið óskaplega hljóta þessir verndarar mínir að vera orðnir þreyttir. 

 


mbl.is Einn helsti ofurhugi heims látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskir vísindamenn í fremstu röð.

Eldgosin í Eyjafjallajökli 2010 og í Grímvötnum 2011 vörpuðu skýru ljósi á það hve óviðbúið alþjóðlega vísindasamfélagið var slíkum atburðum hvað varðaði flug. TF-FRÚ og ÁST, Hvolsvelli

Strax í fyrra gosinu fórum við Sverrir Þóroddson að ræða um vanmátt flugyfirvalda á þessu sviði og möguleika á því að afla upplýsinga um gosmettað loft og gosmekki, því það blasti strax við að þegar teknar voru ákvarðanir um lokanir svæða vegna hættu á skemmdum af völdum eldfjallaösku, voru þær allt of oft rangar vegna ófullnægjandi upplýsinga og vafa, sem óþarfi var að láta skapast.

En ekkert hefði auðvitað komið út úr þessu ef hinn aldni og sífrjói eldhugi Jónas Elíasson hefði ekki einnig frá upphafi verið logandi af áhuga á málinu.TF-TAL mælitæki

Og þegar þeir tóku tal saman, gömlu vinirnir, hann og Sverrir, var ekkert verið að tvínóna við hlutina, heldur látnar standa hendur fram úr ermum við að hanna og smíða mælitæki sem hægt væri að nota til að mæla þéttleika eldfjallaösku í lofti.TF-TAL mælingar

Sverrir hafði fyrr á árum ljáð flugvél sína í vísindaleg verkefni og verið í sambandi við vísindamenn og nú var það sama gert hvað Jónas varðaði. 

Strax varð vart við tregðu og efasemdir um þetta framtak hjá alþjóðlegum flugmálayfirvöldum,sem voru að taka ákvarðanir í gegnum tölvu í London um stórfelldar lokanir víða um Evrópu. TF-TAL mælt inni

Það var skiljanlegt að því leyti, að svona ódýr lausn á stórum hluta vandamálsins virtist vera of gott til að vera satt.

Ekki gafst tími til að fara nema tvö flug í byrjun, því að gosið stóð það stutt. Annars vegar var flugvélinni TF-TAL flogið í fyrsta reynsluflug og einnig flaug ég mælitækjalaus inn í öskumettað og blautt loft í hálfa mínútu í reynsluskyni á TF-FRÚ yfir Markarfljótsaurum, nota bene í skilyrðum þar sem ekkert flugbann var í gildi. 

Af öskunni sem féll á framrúðu vélarinnar mátti álykta að enda þótt vél með bulluhreyfli þyldi þetta skamma stund, myndi þota alls ekki þola það og raunar engin flugvél til lengdar. 

Jónas hélt áfram að þróa mælitækin þar til gosið í Grímsvötnum hófst og á því ári sem hafði liðið, voru íslensk flugmálayfirvöld búin að taka við sér og því hægt að byrja að nota tækni Jónasar. 

22. maí hófst mælingaflugið á TF-TAL frá Selfossflugvelli og stóð linnulítið í tvo sólarhringa. 

Búið var að fá uppgefið hve mikið magn af ösku mætti vera í lofti svo að óhætt væri að fljúga þotu í því og kom í ljós að það samsvaraði um 5 kílómetra skyggni í öskuloftinu. 

Tímamótaárangur náðist mánudaginn 23. maí þegar átti að loka bæði Reykavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli á grundvelli gagna frá tölvunni stóru í London. 

Þennan dag var heiðskírt veður við Faxaflóa og Snæfellsjökull blasti við úr flugturnunum. 

En með því að fljúga TF-TAL stanslaust í aðflugssvæðum vallanna og senda niðurstöður mælinganna, ritaðar á strimil, beint til London, var hægt að halda völlunum opnum og fluginu óskertu. 

Jónas fór síðan til Japans til að þróa og bæta mælitæki sín í flugi nálægt gjósandi eldstöð og nú hafa öflugir íslenskir vísindamenn komið til skjalanna til þess að rannsaka betur eðli öskunnar og er það vel. 

Íslendingar eiga allt sitt undir greiðu flugi til og frá landinu og því er það gleðiefni að okkar vísindamenn starfi ótrauðir og geri gagn á þessu sviði eins og greint er frá í tengdri frétt á mbl.is 


mbl.is Getur stuðlað að auknu flugöryggi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband