Ein af mörgum breytingum þessarar aldar.

21. öldin verður kannski öld enn meiri breytinga en 20. öldin eða nokkur öld á undan henni.

Bann í Frakkalandi við því að henda matvælum kann að koma flatt upp á marga, en verða sjálfsagður hluti af nýrri hugsun og venjum þegar fram líða stundir.   

Á þessari öld verða óhjákvæmilega meiri breytingar á högum mannskyns en nokkru sinni fyrr, af hinni einföldu ástæðu að yfirþyrmandi veldi olíunnar mun renna sitt skeið og nýting margra hráefna og auðlinda ganga á þær með slæmum afleiðingum. 

Já, sólarlag skammvinnrar "olíualdar" verður aðeins einn hluti af þeim nauðsynlegu breytingum sem verða óumflýjanlegar á mörgum fleiri sviðum sóunar og rányrkju, sem olíuöldinni fylgdi. 

21. öldin mun leiða naumhyggjuna til vegs, ekki til þess að allir "fari á ný inní torfkofana" heldur til þess að nýta og njóta auðlinda jarðarinnar sem best og til framtíðar í stað þess að að eyðileggja þær og ræna þeim frá komandi kynslóðum. 

Í stað þess að hræðast þær áskoranir og viðureignir við það sem sýnast vera illleysanleg vandamál, gæti breytt hugarfar þvert á móti skapað meiri gleði og hamingju mannkyns, sem öðlast sjálfsvirðingu við að hrinda í framkvæmd umbótum og hugsjónum, sem skila svo miklu meira en andlaus fíkn í skammgróða. 


mbl.is Matvöruverslunum bannað að henda mat
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hætta störukeppninni! Koma svo!

Munurinn á vinnubrögðunum hér á landi og í nágrannalöndunum í vinnudeilum er sláandi. Þar stunda menn ekki störukeppni mánuðum saman og byrja síðan á deilum milli opinberra starfsmanna og ríkisins áður en tekið er til hendi á almenna vinnumarkaðnum.

Þetta íslenska ástand endar með þeim afleiðingum að flókin staða og ringulreið kemur upp, sem á sér enga hliðstæðu á Norðurlöndum og veldur miklu tjóni.

Nú stefnir í að byrjað verði að slátra stæstu mjólkurkúnni, ferðaþjónustunni, þegar stórum ráðstefnum og fjölda ferða með ferðamenn, sem samið var um fyrir meira en ári er stefnt í hættu.

Með slíku framferði sem leiðir af sér stórfelld svik á samningum við erlenda aðila ef allt fer á versta veg, er svipt burtu mikilvægasta atriðinu í ferðaþjónustunni og samskiptum við aðrar þjóðir, traustinu.

Þetta má einfaldlega ekki gerast, því að til hvers er að gera um síðir kjarasamninga í von um aukningu kaupmáttar ef búið er að ráðast að undirstöðunni og forsendunni fyrir bættum kjörum, en það eru auknar þjóðartekjur.

Svona nú! Hætta störukeppninni! Breyta og bæta vinnubrögðin á vinnumarkaðnum í samræmi við reynslu skyldustu þjóða! Koma svo!   

 


mbl.is „Tillagan skref fram á við“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær flöggum við okkar fána og fána mannkyns saman?

Þegar þetta er skrifað í Hörpu stendur þar yfir morgunþing um loftslagsbreytingar á vegum Landsvirkjunar, loftslagsbreytingar sem hafa áhrif í öllum löndum heims, enda andar allt mannkyn að sér sama loftinu í meginatriðum.Hlýnun.Staðbundin

Þar birtast staðreyndir á myndum á stórri töflu sem sýna að nú eru að mestu að rætast 20 ára spár vísindamanna um afleiðingar þess að nú er komið meira koldíoxíð í lofthjúpinn en nokkurn tíma síðustu 800 þúsund ár.

Sérstaka athygli vekur nokkurs konar kuldapollur suðvestur af Íslandi, sem við höfum verið að sjá undanfarin misseri þrátt fyrir mikla hlýnun víðast annars staðar.

Nú er búið að hanna fána jarðarinnar.Gróðurhúsa..

Jarðarbúar þurfa allir, hvort sem þeim líkar betur eða verr, að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga af eigin völdum.Fáni jarðar.

Mikið væri nú gaman ef við Íslendingar yrðum fyrstir þjóða til að flagga á hátíðisdegi fána jarðarinnar við hlið okkar eigin fána.      


mbl.is Fáni fyrir plánetuna jörð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framtíðin er Maríu. Lagið féll, ekki hún.

Í næstu bloggfærslu á undan þessari er rökstutt, að kreist var út úr laginu Unbroken það sem hægt var og að engin leið hefði verið að koma því betur á framfæri en gert var. Lagið féll, ekki María. 

Á hennar aldri finnst manni stundum þegar allt gengur ekki upp, að það sé eins og heimsendir.

En lífið er yfirleitt rétt að byrja á þessum fyrstu árum ævinnar og enginn fer í gegnum lífshlaupið án þess að þurfa að takast á við mótlæti. Framundan eru ótal áskoranir sem takast þarf á við og vinna sigra. 

Meistari sannar sig ekki endanlega með sigrum, heldur því hvernig hann tekur ósigrum og vinnur úr þeim. Það á María Ólafsdóttir að geta gert. 

Hæfileikar hennar eru ótvíræðir og nú er bara að fara með æðruleysibænina og halda áfram.

Það var óraunhæft fyrir okkur Íslendinga að treysta því að við gætum endalaust komist í topp tíu í útsláttarkeppninni og haldið áfram. Gaman væri að Eurovisionspekingarnir segðu okkur hve mörg þátttökulönd eiga slíkan feril síðan 2008. Duttu ekki bæði Danir og Finnar núna?  

Áfram María! Þú átt framtíðina fyrir þér!  


mbl.is „Ég söng af mér rassgatið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 22. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband