"Úrlausnin" á að vera í höndum verkefnastjórnarinnar.

Svonefnd "úrlausn" rammaáætlunar varðandi virkjanakosti í biðflokki sem nefnd er í fréttum í kvöld á að sjálfsögðu að vera í höndum verkefnisstjórnarinnar. 

Viðfangsefnið heyrir undir það meginatriði Ríósáttmálans, sem við Íslendingar gerðumst aðilar að 1992 að náttúran eigi að njóta vafans, ef hann er uppi. 

Það er nefnilega reginmunur á því að færa virkjunarkost úr virkjanaflokki (nýtingarflokki) í biðflokk eða að gera öfugt, að færa kost úr biðflokki í virkjanaflokk. 

Ástæðan er sú, að í langflestum tilfellum er ákvörðun um að færa úr biðflokki í virkjanaflokk og fylgja því eftir með virkjun, óafturkræf vegna neikvæðra umhverfisáhrifa. 

En eðli biðflokks er hins vegar það að allt er óbreytt meðan það ástand gildir og á þessu sami reginmunur og munurinn á því, annars vegar að fresta dauðadómi yfir manni og setja mál hans í bið, og hins vegar að taka hann af lífi, að það er ekki hægt að snúa dauðadómnum við. 

Þetta skilja virkjanafíklarnir ekki og hamast þess vegna við að valta yfir eðileg vinnubrögð verkefnisstjórnar með offorsi sínu á Alþingi til þess að koma sem flestum virkjanakostum á aftökulista sinn. 


mbl.is Rammaáætlunin enn án úrlausnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki nýtt í Eurovision.

Það er ekki nýtt að lög séu meira og minna "stolin" í Eurovision eða þá svo keimlík öðrum lögum að frumleikinn er nánast enginn. 

Áberandi var fyrir rúmum tveimur áratugum hvað ítalska lagið sem vann þá, var á stórum kafla líkt laginu "What am I living for?" sem var efst á bandaríska vinsældalistanum og víðar 1959. 

Það var beinlínis pínlegt að hlusta á lagið fyrir þá sem þekktu eldra lagið. 

Það er bagalegt þegar það er látið dragast að upplýsa um svona mál fyrr en allt er um garð gengið og of seint í rassinn gripið. 

Minnisstætt er þegar lagið "Söknuður" sem Villi Vill söng svo eftirminnilega heyrðist allt í einu í Noregi og hinn norski höfundur, sem hafði verið á Íslandi þegar "Söknuður" var vinsælt hér, taldi sig höfund þess og hefur stórgrætt á því síðan víða um lönd. 

Raunar eru lögin bæði keimlík laginu "Londonderrry Aír" sem var afar vinsælt fyrir hálfri öld. 

Þrjár fyrstu nótur og fyrstu taktar lagsins "Ó, þú" eru nákvæmlega eins og í lagi sem Nat King Cole söng. Síðan fara lögin hvor sína leið og lag Magga Eiríks er miklu betra en það bandaríska. 

Hann hefur sennilega verið á barnsaldri þegar hann heyrði bandaríska lagið, og ég kannast sjálfur við það að lög geta sokkið niður í undirmeðvitundina á barnsaldri og skotist upp á yfirborðið löngu síðar á þann hátt að hinn uppvaxni heldur að hann hafi samið lagið sjálfur.

Það eru aðeins 12 nótur í tónstiganum og möguleikarnir á frumlegu lagi eru því ekki miklir þegar lögin skipta alls milljónum.  


mbl.is Segja sænska lagið vera stolið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þetta mikill slysakafli?

Spurningin varðandi veginn um Þingvallaþjóðgarð hlýtur að vera sú hvort slysatíðni á veginum hafi verið óeðlilega mikil. 

Sé svo, þarf að greina, hvers vegna. Sé hún mikil kann það að stafa af því að hraðatakmörk, sem eru 50 km/klst, séu ekki virt.  

Áður en vaðið er af stað með breikkun vegarins mætti því athuga hvort notkun hraðamyndavéla geri ekki sama gagn og vegaframkvæmdir.

Maður hélt að Vegagerðina vantaði um þriðjung fjár sem þarf til að viðhalda þeim vegum sem komnir eru en eru að drabbast meira og meira niður með tilheyrandi skerðingu á öryggi fyrir vegfarendur.  

 


mbl.is Óttast rask við vegabætur í þjóðgarðinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. maí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband