Rauf múr fordóma. Fegurð nyrðra og syðra.

Þegar Reynir Pétur Ingvarsson gekk hringveginn 1985 og hafði á undan heillað þjóðina upp úr skónum með framkomu sinni í Sjónvarpi þar sem hann vafði hálærðum háskólamenntuðum verkfræðingum um fingur sér í stærðfræði, rauf það í raun múr fordóma fólks gagnvart fólkinu á Sólheimum og öðrum svipuðum stofnunum hér á landi. Sólarlag 12.7.2015

Hringurinn laðaði líka fram sérkenni og fegurð landshlutanna og sameinaði þjóðina.

Til að leggja áherslu á það bæti ég við myndum að sunnan í þessum pistli og á facebook, en myndir að norðan prýða pistil og facebook síðu fyrr í dag.

Myndirnar allar teknar í dag.    


mbl.is Reynir Pétur ruddi hringveginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norðlensk dýrð á degi og sumarnóttu.

Í ferðalagi í dag og í gær um Norðurland, allt austur til Húsavíkur, bauðst sú dásemd að upplifa náttúruna á margvíslegan veg.Akyureyri, Pollurinn. Fjöllin 2

Upplifunin var fjölþætt,  allt frá því að stansa og njóta fegurðar Eyjafjarðar um hábjartan dag til þess að líða hægt og hljótt á rafknúnu reiðhjóli í bjartri sumarnótt og heyra þyt golunnar í stráunum, tíst unga og fugla í móum og hjal lækja og áa, nokkuð sem enginn upplifir á 90 kílómetra hraða á hraðbraut.

Akueyri, pollurinn og Eyjafjarðarfjöllin nutu sín vel í dag, eins og sést á þessari mynd og annarri mynd á facebook síðu minni.  


mbl.is 14 fuglahræður við þjóðveginn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugarfarið skiptir öllu.

Muhammad Ali ætlaði sér frá blautu barnsbeini að verða heimsmeistari í þungavigt í hnefaleikum. 

Járnvilji hans virkjaði og efldi sálarstyrk hans og vitsmuni á sama hátt og Gunnar Nelson virðist gera. 

Þótt ósigrar virðist beisk áföll geta þeir verið ómetanlegir til þess að efla aðlögunarhæfni og læra af mistökunum. 

Allir gera mistök en án mistaka lærir enginn neitt, en nýting lærdómsins og úrvinnsla úr þeim er lykillinn að því að meistarinn lyfti sér um eitt þrep í næsta bardaga, íþróttamóti eða kappleik. 

Þegar ég var í rallinu kom það iðulega fyrir að kappsamir ungir menn voru komnir langleiðina á verðlaunapall þegar þeir duttu úr keppni. 

Þeir urðu alveg miður sín og óhuggandi og það var afar skiljanlegt, þetta hafði maður upplifað sjálfur. 

En þetta verða menn að sætta sig við í mörgum íþróttum og hvað rallið snertir, að velta sér ekki bara upp úr "óheppni" heldur segja þvert á móti við sjálfan sig: Eg ég hefði dottið snemma úr keppninni hefði ég ekki haft mikið til að læra af. 

En það eitt að fá tækifæri til að læra af langri keppni með mörgu sérleiðum er þakkarvert út af fyrir sig. 

Því að ekkert er eins dýrmætt í íþróttum og keppnisreynsla, því að hún er grunnurinn undir því að bæta sig.  


mbl.is Gunnar sigraði á þremur mínútum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrelt mörk sveitarfélaga, kjördæma og landshluta.

Mörk sveitarfélaganna Hveragerðis og Ölfuss eru gott dæmi um það hvernig löngu úrelt mörk sveitafélaga valda óréttlæti og óþægindum vegna breyttra aðstæðna. 

Þannig hefur sveitarfélagið Ölfus í krafti landamerkja yfirráð yfir því að hægt sé að demba niður stórum jarðvarmavirkjunum með tilheyrandi smáskjálftum og brennisteinsmengun sem leggur yfir Hveragerði. 

Dæmin eru mýmörg um allt land. Eignarhaldið á landi Reykjavíkurflugvallar er eitt þeirra. 

Þegar Keflavíkurflugvöllur var gerður snerti það yfirráð fimm sveitarfélaga á flugvallarsvæðinu. Það er kaldranaleg staðreynd að ef ekki hefði staðið yfir heimsstyrjöld er alls óvíst að hægt hefði verið að byggja flugvöllinn vegna hættu á ósætti á milli sveitarfélaganna. 

Höggvið var á hnútinn í krafti herveldis, sem knúði það fram að landið fyrir flugvöllinn yrði tekið úr lögsögu sveitarfélaganna og sett undir forræði ríkisins. 

Þegar litið er á gildi vallarins fyrir stærsta atvinnuveg þjóðarinnar blasir við hve farsæl þessi lausn var, þótt hún væri kannski erfið fyrir marga þegar þessu var þrýst fram. 

Nefna má tvö ný og sambærileg dæmi um það þegar þjóðhagslegir hagsmunir verða að víkja fyrir svæðisbundnum hagsmunum, en það eru annars vegar Reykjavíkurflugvöllur og hins vegar lega þjóðvegar 1 í gegnum land Blönduósbæjar. 

En af nógu er að taka varðandi það að löngu liðið ástand á tíma dreifbýlis og landbúnaðar er látið skipta sköpum um stórfellda almannahagsmuni. 

Mörk atvinnusvæða eru ekki látin ráða, heldur fyrrnefnt löngu liðið ástand. 

Þannig vegur vægi atkvæðis manns á Akranesi, sem í raun býr í úthverfi á höfuðborgarsvæðinu, meira en tvöfalt á við vægi atkvæðis manns í Vallahverfinu í Hafnarfirði, sem líka býr í úthverfi á höfuðborgarsvæðinu. 


mbl.is Erindi hafnað um breytt landamörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. júlí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband