Fulltrúar nýrra tíma með ný viðhorf.

"Lengi tekur sjórinn við" er gamalt viðkvæði sem lýsir vel þeim gróna hugsunarhætti að það sé nokkurn veginn sama hvernig við umgöngumst móður jörð og að auðlindir jarðarinnar séu óþrjótandi og því engin takmörk fyrir neyslu okkar og hagvexti í efnahagslífinu. 

Hér á landi hefur þessi hugsunarháttur verið sérstaklega lífseigur af því að við erum fá og búum í stóru landi. 

Því er viðtekið viðhorf hér, að það skipti engu máli þótt við mengum loftið meira á hvern mann en aðrar þjóðir, af því landið, loftrýmið og hafið í kringum okkur sé svo ógnarstórt.

En hver íbúi jarðar er hins vegar jafnábyrgur í þessu efni, því að eins og Kennedy Bandaríkjaforseti sagði, "við öndum öll að okkur sama loftinu."  

Með hverju árinu nálgast mannkynið endimörk olíualdarinnar og þeirrar rányrkju og sóunar sem hefur verið einkenni hennar með mestu . 

Að sama skapi er það ástand sem er að skella á í ástandi lofthjúpsins og afleiðingar þess æ nær hverri nýrri kynslóð.

Ungir umhverfissinnar eru fulltrúar þess unga fólks sem unir ekki því tómlæti og skammsýni sem ræður ríkjum og því er það vel að þetta fólk nýrra tíma og nýs viðhorfs láti til sín taka, þótt einhverjum finnist að 2000 helíumfylltar plastblöðrur lítilfjörlegt mál.

"Dropinn holar steininn" segir íslenskt máltæki, og enda þótt okkur þyki hver plastpoki eða hver hlutur úr plasti sé ekki tiltökumál, eru þegar farnar að myndast víðfeðmar fljótandi plasteyjar í úthöfunum.

Myndband af deyjandi fuglum á Midway í Kyrrahafi, eins langt frá öllum meginlöndum og mögulegt er, ætti að vera skylduáhorf hvers nútímamanns.   

 


mbl.is Gagnrýna helíumblöðrur á Ljósanótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afhverju "séríslenskt" vandamál?

Í umræðum um verðtrygginguna er ævinlega einblínt á núið þegar undrast er að hún skuli vera við lýði. 

"Séríslenskt fyrirbrigði" eru orðin sem notuð eru og látið felast í þeim að verðtryggingin hafi alla tíð verið böl, sem illa þenkjandi stjórnmálamenn hafi búið til. 

Alveg hefur gleymst að upphaflega var verðtryggingunni komið á til að vinna gegn einhverju stórtækasta misrétti og hreinu ráni fjármuna, sem saga landsins þekkir, einkum á árunum 1973-90. 

Skuldarar þess tíma, til dæmis þeir sem voru að koma sér upp húsnæði, fengu hreinlega gefins allt að 40% lánsfjárins, sem gufaði upp í óðaverðbólgu þessara ára. 

Sparifjáreigendur, oft á tíðum eldri kynslóðin og liknar- og menningarsjóðir, voru hreinlega rændir á þessum tíma og á núgildandi verðlagi var um mörg hunduð milljarða króna að ræða. 

Á árunum 1990 til 2008 breyttist þetta og þar með kom fram réttmæt gagnrýni á það hve verðtryggingunni var haldið mjög til streitu umfram aðra kosti.

Höfuðatriðið núna hlýtur að vera það að lántakendur og lánveitendur hafi frelsi til að ákveða sjálfir hvernig þeir vilji hafa þetta, en enn mikilvægara er að sem bestar upplýsingar og fræðsla liggi ævinlega fyrir um kosti og galla hvers fyrirkomulags um sig.   

 


mbl.is Vandinn er verðtryggingin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það verður að arka að auðnu.

Ofangreind orð mælti Kristján heitinn Eldjárn eitt sinn um það, að allir verði að sætta sig við það að heppni geti ráðið um það hvernig okkur tekst til um ýmislegt, sem við tökum okkur fyrir hendur. 

Þetta er fallega orðað. Nafnorðið auðna þýðir heppni eða lán, og sögnin að arka er hér notuð um sem líking í lífshlaupinu.

Aníta Hinriksdóttir getur borið höfuðið hátt. Hún hefur gert sitt besta alla tíð og sýnt fallega framkomu. Það var spurning um heppni hvort það dugði til þess í þetta sinn til að hlaupa í undanúrslitunum og heppnin var ekki með henni í þetta sinn eins og kemur vel fram í fréttinni.

Fyrirsögn tengdrar fréttar getur valdið misskilningi því að þegar ég sá hana í sjónhendingu hrökk ég svolítið við og hélt fyrst að hún hefði komið of seint til keppninnar og "misst af" undanúrslitunum á þann hátt. Skondinn misskilningur hjá mér. 

Nákvæmara hefði verið að segja: "Antía var nálægt því að komast í undanúrslit" - eða - "Aníta var óheppin að komast ekki í undanúrslit."  


mbl.is Aníta rétt missti af undanúrslitunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband