Tvær bækur og ein ferð nóg í bili.

Þrennt er það einkum sem hefur áhrif á skoðun mína á því sem aflaga fer í Rússlandi.

1. Bókin "Rússland Pútíns" eftir Önnu Politovskaya, afar upplýsandi og áhrifamikil greining á því díki spillingar og kúgunar sem viðgengist hefur í Rússlandi eftir fall Sovétríkjanna. Fyrir bókina og störf sín sem hugrakkur blaðamaður galt hún með lífi sínu.  

2. Bókin "Sagan, sem varð að segja." Í henni er lýsing á sama fyrirbærinu og Politovskaya lýsir, en í þetta sinn er það Íslendingur, Ingimar Ingimarsson, sem lýsir umhverfinu í viðskiptalífi og undirheimum Rússlands. Bókin lýsir því vel, að til að ná markmiðum sínum í hinu spillta umhverfi, þarf að kunna á það og spila djarft. Gangi mótherjunum betur er það eingöngu vegna þess að þeir gengu lengra í beitingu óvandaðra meðala.

3. Stutt ferð sem ég fór til Rússlands 2006 og átti þess kost að vera í sambandi við rússneska menn, einn þeirra búinn að vera nokkur misseri á Íslandi, á ferð minni um Moskvu og síðar út í víðáttur rússneska vetrarins til bæjarins Demyansk nálægt Valdaihæðum fyrir norðvestan Moskvu. Allt það sem ég fékk að vita um Rússland Pútíns í þessari ferð rímaði við bækurnar tvær.

Pútín var í forystu fyrir KGB og er allra manna snjallastur í að fara út að ystu mörkum í valdasókn sinni án þess þó að ofkeyra sig.

Stalín geggjaðist á sínum tíma vegna þess að hann gat ekki stöðvað sig í hreinsunum sínum þar sem sjúkleg tortryggni hans krafðist dauða milljóna manna og þúsunda af hans nánustu vinum og samherjum.

Ef Pútín nýtir sér reynsluna frá KGB árunum og ber ábyrgð á morðum, er mikilvægt að bera ekki beina eða óbeina ábyrgð á drápi á fleirum en "brýn þörf" er á.

Stalín sagði: "Að drepa einn mann er morð. Að drepa milljón er tala."  


mbl.is „Pútín samþykkti morðið “
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snjóflóð á Blönduósi? Já, fyrir rúmum tveimur áratugum.

Það voru afdrifarík mistök á síðari hluta 20. aldar að reisa íbúðabyggðir á stöðum, þar sem landi hallaði fyrir ofan byggð og gat snjóað mikið.

En þessi tvö atriði taldi norskur snjóflóðasérfræðingur, sem var kvaddur hingað til lands í framhaldi af snjóflóði á Seljalandsdal 1994, að nægðu til að snjóflóð gætu fallið.

Og varaði við snjóflóðahættu á Vestfjörðum.

Menn uggðu ekki að sér af því að engar sagnir voru úr fortíðinni um snjóflóð á nýjum byggingarsvæðum, svo sem í Súðavík og á Flateyri.

En þá gleymdist, að vegna þess að þarna voru áður auð svæði, höfðu snjóflóð þar ekki talist til tíðinda.

Ég minnist þess enn þegar fregnir bárust af snjóflóði á Blönduósi fyrir rúmum tuttugu árum, trúði ég því ekki í fyrstu.

Taldi mig þekkja það vel til staðhátta á Blönduósi, að þar væri útilokað að snjóflóð félli.

Ekkert fjall og engin hlíð.

Þegar komið var á staðinn blasti hins vegar við, að furðu stórt snjóflóð hafði fallið úr lágri brekku fyrir vestan bæinn Enni, og fallið upp að íbúðarhúsum, sem þar stóðu.

Þegar ég var þarna í sveit var engin þéttbýlisbyggð nálægt Enni, heldur öll fyrir vestan Blöndu.

Hafi fallið snjóflóð austan við ána á fyrri tíð og fyrri öldum hefur varla nokkur orðið þess var.

 

 


mbl.is Huldufólk á hættusvæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

5-9 mínútna stytting en oft vanmetinn sparnaður.

Þegar Vaðlaheiðargöng verða komin í gagnið verður leiðin milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals mun öruggari að vetrarlagi en leiðin um Víkurskarð, (svo framarlega sem ekki verður um bátsferð að ræða um göngin vegna vatnselgs. Djók.).

En stytting ferðatímans verður ekki eins mikil og styttinginn í kílómetrum gefur til kynna.

Ástæðan er sú að 70 kílómetra hámarkshraði verður í göngunum á sama tíma og 90 kílómetra hámarkshraði er mestalla hina leiðina.

Ef stansa þarf til að kaupa miða verður töfin við göngin enn meiri.

Í tímalengd verður styttingin því varla meiri en 5-9 mínútur og þá er spurning hvort menn tími að borga fyrir svo litla tímastyttingu.

Nema að því verði sleppt að taka gjald fyrir aðgang að göngunum.

Þegar ferðakostnaðurinn er borinn saman gleyma menn því oft að kostnaðurinn við aukakílómetrana er meiri en sem nemur eldsneytiskostnaði.

Af því að kostnaðurinnn við viðhald bílsins og slit á honum fellur ekki á bíleigandann fyrr en síðar og því réttast að tvöfalda eldsneytiskostnaðinn, sleppa menn honum oft.

Ef um bílaleigubíl er að ræða fellur aukalegur viðhaldskostnaður á bílaleiguna og það dregur úr hvatanum fyrir leigutakann til fara í gegnum göngin.

Á leið ferðamanna á vesturleið missa þeir af stórbrotnu útsýni yfir Eyjafjörð þegar komið er vestur yfir Víkurskarð.

Sem fararstjóri og almennt sem ferðalangur í fyrstu ferð milli Fnjóskadals og Akureyrar myndi ég hika við að sleppa því að njóta þessa útsýnis úr því að tímatöfin er ekki meiri en raun verður á.

Þar sem ég þekki til í Noregi er sami hámarkshraði í göngum og á vegum sitt hvorum megin við þau ef hann er jafnbreiður utan og innan ganganna. 

En ekki hér á landi. Ef 90 km hraði væri leyfður í göngunum myndi það verða ferð um þau í hag.

Ef ferðamönnum heldur áfram að fjölga kann það að draga úr rekstrartapi á göngunum.

Það má hins vegar ekki einblína á beint rekstrarumhverfi ganganna sjálfra heldur taka með í reikninginn sparnað í reksturskostnaði farartækjanna og tímasparnað fólksins sem notar göngin.  

Framtíðin mun leiða í ljós hvernig það dæmi kemur út.


mbl.is Umferð eykst vegna umsvifa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einu sinni voru hús Framsóknarforkólfanna flottust.

Það er mér í barnsminni þegar nokkur hundruð metra löng gönguferð nægði til að fara á milli andstæðra póla í íslensku þjóðfélagi um miðja síðustu öld.

Ég var oft hjá ömmu Ólöfu og afa Finni á Ásvallagötu 51, sem bjuggu þar í tæplega 50 fermetra íbúð í Verkamannabústöðunum.

Hann var múrari en þau fluttust ekki til Reykjavíkur frá Öræfum og Síðu í Skaftafellssýslu fyrr en á þrítugsaldri.

Þau voru því alþýðufólk og verkalýðssinnar og lifðu spart.

Við Áavallagötu var lítið fjárbú þar sem hafnarverkamaðurinn Þórarinn á Melnum drýgði lágar og stopular tekjur með því að hafa nokkrar kindur og hæsn.

Það hefur verið erfitt líf á kreppuárunum.

Á morgnana fór hann niður að höfn og beið í biðröð verkamanna eftir því að fá vinnu þann daginn.

14 ára fékk ég að upplifa það, hvað það var fyrir hann og aðra verkamenn að bíða þar og vera kannski hafnað í nokkra daga en komast síðan að í óákveðinn tíma. 

Að vera kannski rekinn og ráðinn á víxl.

Ég fékk vinnu eftir nokkra daga fyrir jólin þegar fleiri verkamenn þurfti og líka  vegna þess að afi þekkti verkstjórann svo vel.

Kunningjasamfélagið var þarna yfirsterkara hugsjónum sósíalismans og ég hef oft síðan verið hugsi yfir því að hafa kannski tekið af lífsbjörg einhvers sem ekki komst að.

Það þurfti aðeins að ganga 200 metra frá verkamannabústöðunum til þess að detta inn í eitt mesta fátækrahverfi bæjarins, braggahverfið Kamp Knox.

Og síðan var aðeins 200 metra spölur upp eftir Hofsvallagötunni að tveimur af flottustu íbúðarhúsum Reykjavíkur.

Annað þeirra var hús Jónasar frá Hriflu ráðherra 1927-31 og formanns Framsóknarflokksinns til 1944, við hornið á Hávallagötu og Hofsvallagötu, - en efst við Hofsvallagötu var ennþá flottara, dýrara og íburðarmeira hús Vilhjálms Þórs, forstjóra SÍS og ráðherra 1942-44.

Á villum þeirra var ekki að sjá að þeir væru málsvarar fátækra bænda, vinnuhjúa og verkafólks.

Vestar við´Ásvallagötu var síðan miklu yfirlætislausara hús Eysteins Jónssonar alþingismanns og ráðherra Framsæoknarflokksins 1927-31, 1934-42, 1947-1949 og 1950-51.

Eysteinn barst lítt á, var skíðamaður og náttúruunnandi, og umtalað var, að hann hyglaði aldrei sjálfum sér þótt hann stundaði fyrirgreiðslupólitík að hætti stjórnmálamanna.


mbl.is 130 milljóna höll á Sólvallagötu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. janúar 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband