Hefnir sín að svíkja loforð og gefa of miklar væntingar.

Rafbílasala tók kipp fyrir tveimur árum þegar æðstu menn þjóðarinnar töluðu um það að drifið yrði í því að reisa hraðhleðslustöðvar á helstu þjóðleiðum landsins. Nissan Leaf

Það hefur verið rækileg svikið. En er aðeins hægt að komast á venjulegum rafbílum frá Reykjavík austur að Hvolsvelli með hraðhleðsluvikomu á Selfossi og norður að Bifröst með viðkomu í Borgarnesi. 

Akureyringar komast til Sauðárkróks að sumarlagi. 

Tiltölulega örfáir hafa efni á að eiga bíl af Tesla-gerð sem komast lengra á hleðslunni en samt komast þeir ekki svo langt að hægt sé að fara hringinn eða milli Akureyrar og Reykjavíkur nema með miklum tilfæringum. Renault Twizy

Tölur um drægi rafbílanna miðast við kjöraðstæður erlendis en rauntölurnar eru allt að 40% lægri hér á landi, einkum í köldu veðri. 

Ég hef reynslu af rafreiðhjóli sem sýnir vel að rafhlöðurnar endast verr sem þessu nemur þegar brekkur eru margar og svalt í veðri. 

Þar að auki þarf langoftast að nota miðstöðvarnar, sem eru í bílum hér á landi, og einhvers staðar las ég, að til sölu væru litlar bensínknúnar miðstöðvar, sem hægt væri að setja í bílana til að spara rafmagnið!Rafreiðhjól

Það er eðlilegt, því að miðstöðin krefst langmestrar orku af því sem þarf rafmagn í farartækjum.

Ég fékk mér slíka miðstöð í NSU-Prinz 1000 1965, loftkældan bíl, sem var með lélegt miðstöðvarkerfi.

Í Noregi hefur reynslan verið sú, að rafbíllinn er annar tveggja bíla á heimilinu. Ólíkt því sem búist var við fyrirfram, hefur rafbíllinn orðið að bíl númer eitt á heimilinu, enda afar hentugur fyrir bæjarsnatt, sem er að meðaltali um 80-90 aksturs hjá fólki. 

Þarna nýtist rafbíllinn fullkomlega, enda er meðalaksturvegalengd innanbæjar á dag rúmlega 33 kílómetrar hér á landi. Honda PCX og Vespa

Það var opinber draumur minn í hitteðfyrra að eignast "rafbíl litla mannsins", Renault Twizy, en það er ekki aðeins að ég hafi ekki efni á því að kaupa slíkan bíl, heldur myndi hann ekki gagnast mér lengra til ferða út úr bænum en upp á Kjalarnes, til Hafnarfjarðar eða upp í Litlu kaffistofuna.  

Aukin sala tengi-tvinnbíla er afleiðing af þessu ástnandi og við erum langt, langt á eftir Norðmönnum í þessum efnum. Eðli málsins samkvæmt eru tengil-tvinnbílar, með tvö mismunandi kerfi hreyfla og drifa, mun flóknari og dýrari en bílar, sem eru annað hvort rafbílar eða knúnir jarðefnaeldsneyti eingöngu. Kolefnisspor framleiðslu og förgunar tengil-tvinnbíla er líka stórt. 

"Litli maðurinn" ræður ekki fjárhagslega við að eignast hina nýju vistskárri bíla.

Getur þó komist áleiðis með því að fá sér einhvern af ódýrustu bílunum á markaðnum.

Eða þá að prófa aðferð sem skilar miklu betri árangri með því að nota þau farartæki, sem nota miklu minni orku, heldur eru auk þess auki með minnstu kolefnissporin varðandi framleiðslu og förgun. 

Niðurstaða mín varð 700 þúsund króna fjárfesting í tveimur farartækjum: 250 þúsund fyrir rafreiðhjól til innanbæjarferða og 450 þúsund fyrir létt vespu-vélhjól (Honda PCX) sem skilar mér jafn hratt og bíll hvert á land sem er með eyðslu upp á 2,5 lítra á hundraðið á þjóðvegum og 2,2 lítrum innanbæjar, og heildar fjárfestingar- og rekstrarkostnað sem er um 70% minni en ef ég hefði getað keypt ódýrasta smábílinn á markaðnum. 

Þessi tvíþætta aðgerð, sem kynnt var í fyrra með rafhjólsferð frá Akureyri ("Orkuskipti - koma svo!") og í sumar með mörgum ferðum, meðal annars allan hringinn á vespuhjólinu á þjóðvegi 1 ("Orkunýtni - koma svo!"), er nú að ganga fullkomlega upp.  

Síðan er í gangi hjá mér og vini mínum að framkvæma hugmynd, sem er enn vistvænni, en tekur talsverðan tíma að vinna að. Ekki nánar um það að sinni, samanber afbrigði af máltæki: Mey skal að morgni lofa og fréttamann að kvöldi. 

Hekla lét bera út myndarlegan bækling í hús í dag um umhverfisskárri bíla og er með fína sýningu og fyrirlestra um málið þessa dagana. 

Fleiri mættu gera eitthvað svipað. 

 


mbl.is Rafbílasala dregst saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig hefði Sanders staðið sig?

Í ljósi kjörs Donalds Trump kemur hið óvænta fylgi, sem Bernie Sanders fékk í forkosningunum hjá Demókrötum kannski ekki svo mikið á óvart. 

Bæði Sanders og Trump stilltu framboðum sínum upp sem andófi gegn hinu stjórnmálalega valdakerfi í Bandaríkjunum og virkjuðu óánægju þess hluta millistéttarinnar sem hefur lent í erfiðleikum vegna alþjóðavæðingarinnar og færslu framleiðslu úr landi. 

Ef Sanders hefði skákað Clinton, hefði hluti þessarar óánægju fengið þá þegar vissa útrás og þar með dregið úr broddi framboðs Trumps. 

Með því að velja Sanders var líka hægt að kjósa "eitthvað annað." 

Þegar hér heima er talað um "félagslegt" ný-íhald hjá Trump og Pence, varaforseta hans, er heldur betur farið að fegra þessa ofsafengnu hægri stefnu Teboðshreyfingarinnar, sem meðal annars fólst í aðgerðum Pence í Indiana gegn hinsegin fólki og konum.

Þetta "félagslega" ný-íhald er ekki félagslegra en það að miðað við loforð Trumps verður það efst á framkvæmdalistanum við valdatökuna að svipta 20 milljónir Bandaríkjamanna sjúkratryggingum, sem tekið hefur áratugi að berjast fyrir. 

Þá munu að nýju 50 þúsund Bandaríkjamenn deyja um aldur fram á hverju einasta ári vegna þess að þeir hafa ekki ráð á læknisþjónustu eða fresta of lengi að fara til læknis.

Síðan Hillary Clinton reyndi að koma "Obama-care" á hefur milljón ótryggðra Bandaríkjamanna látið lífið vegna skorts á læknishjálp.  

Talsmenn Trumps tala líka um "frjálsa verslun" sem lyftistöng í hinni nýju einangrunarstefnu, og eru þá búnir að snúa hugtakinu á haus, ef þessi nýja "frjálsa verslun" felst í því að rifta fríverslunarsamningum og reisa tollamúra um heim allan. 

 


mbl.is Millistéttin studdi Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Esjan "sjúkleg"?

"Finnst þér ekki Esjan vera sjúkleg?" orti Megas og bætti við: "Og Akrafjallið geðbilað að sjá?" Esjukláfur, fundur

Þetta kom í hugann á almennum fundi á Kjalarnesi í kvöld þar sem kynntar voru hugmyndir, sem framtakssamir menn hafa unnið að varðandi stóran og afkastamikinn kláf, sem flutt geti hundruð þúsunda ferðamanna upp á Esjuna, beint gegnt Reykjavík.

Gætu orðið þrír áningarstaðir með veitingaaðstöðu á leiðinni, neðst, ofarlega og uppi á brún.  

Þetta virðist komið ansi langt, birtar myndir af fyrirbærinu á fundinum og hugmyndin reifuð svo að það virðist sem þegar sé búið að leggja í þetta fé og fyrirhöfn.Esjukláfur

Málið komið inn á borð hjá borgaryfirvöldum, og af því leiðir væntanlega, að það mun leiða til fjártjóns ef þetta verður ekki að veruleika. 

Lykt af túrbínutrixinu? Spurning. 

Þann tíma sem ég var á fundinum kom fram gagnrýni á bæði hugmyndina og málsmeðferð. Hugmyndin væri vanreifuð og lítt kynnt né rökrædd, og byrjað á öfugum enda.

Fyrst hefði átt að rannsakað málið vel og rökræða sig til niðurstöðu, meðal annars með mati á umhverfisáhrifum, og síðan að afgreiða önnur atriði varðandi framkvæmdina, ef af yrði.Esjukláfur, neðri hluti

Ég hef áður bent á það hér á blogginu að íbúar höfuðborgarsvæðisins eigi betri útsýnisstað fyrir austan borgina, efst uppi á Bláfjöllum, í svipaðri hæð yfir sjó sá staður, þar sem kláfurinn mikli á að enda uppi á brún Esjunnar.

Meira að segja búið að leggja bílveg upp á topp Bláfjalla, reisa veitingaskála og lyftur fyrir skíðafólk, sem mætti breyta í lyftur fyrir ferðafólk á sumrin.Esjukláfur, efri hluti

Útsýnið:  Allur Reykjanesskaginn og Faxaflóinn með Snæfellsjökul og Snæfellsnesfjallarðinn, Akrafjall, Esja, Skálafell, Botnssúlur, Mosfellsheiði, Vífilfell, Hengill, glyttir í fjöll og jökla norður af Þingvallasveit / Bláskógabyggð, - til austurs allt Suðurlandsundirlendið, Surtsey, Vestmannaeyjar, hinn heimsfrægi Eyjafjallajökull, að baki hans Mýrdalsjökull og Katla, þá Tindfjöll, Torfajökull fjær, hin heimsfræga Hekla nær. 

260 kílómetra loftlína frá Snæfellsjökli til Mýrdalsjökuls. 

Hvað er þá eiginlega í gangi?  Við erum að drukkna í ferðamönnum og þurfum helst að hægja á straumi þeirra og eigum fleiri kosti en að ráðast í gerð risamannvirkis á mest áberandi stað bæjarfjalls Reykjavíkursvæðisins. Nefndir voru aðrir möguleikar en þessi staðsetning kláfs upp á Esju og minnt á tilvist Skálafells.

Enginn minntist á Akrafjall þrátt fyrir ljóðlínur Megasar um að það væri geðbilað að sjá.  

Eftir að hafa hlustað á umræðurnar sagði borgarsjórinn, Dagur B. Eggertsson, í lok fundarins að ekkert lægi á í þessu máli og að um það yrði fjallað af vandvirkni og yfirvegun.  


mbl.is Framkvæmdir í Austurstræti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband