Spilað úr sterkri stöðu?

Benedikt Jóhannesson lýsti því strax yfir eftir kosningar að hann hefði sagt við forseta Íslands, að hann teldi rétt að hann fengi umboð til stjórnarmyndunar. 

Það var hraustlega mælt hjá formanni nýs flokks með aðeins um tíunda hluta greiddra atkvæða í kosningunum, helmingi minna en fylgi Sjálfstæðisflokksins. 

Enginn nema Benedikt sjálfur veit, af hverju hann gaf þessa yfirlýsingu.

Er það vegna stöðumats hans, sem bendi til að út frá ákveðinni oddaaðstöðu geti hinn nýi flokkur, rétt hægra megin við miðju, ráðið mestu um það stjórnarmynstur sem verði ofan á að lokum og að þess vegna sé hættandi á að spila stjórnarmyndunarpókerinn strax út frá sterkri stöðu? 

Strax í kjölfar þessa spilaði Benedikt þannig úr stöðunni að líma Bjarta framtíð við sig og gera þessa tvo samanlímdu þingflokka að næst stærsta þingmannahópnum. 

Allt í einu var kominn með þingmannahóp sem var fjölmennari en þingflokkar Vg og Pírata og slagaði hátt í Sjálfstæðisflokkinn.

En það sem mikilvægast var: Þessi 17 manna þinmannahópur lagði undir sig næstum tvöfalt stærra svæði á hinni öllu ráðandi miðju en Viðreisn ein eða Björt framtíð höfðu haft fram að því, hvor flokkurinn um sig. 

Ef límið á milli þessara þingflokka heldur, er staða Benedikts stórum sterkari en virtist í upphafi. 

Og viðræðurnar fram að þessu hafa gert það ólíklegra en áður að mynduð verði stjórn yfir miðjuna framhjá Viðreisn. 

Ennfremur fært Benedikt þá óskastöðu að hafa getað haft áhrif á báðar þær formlegu stjórnarmyndunarviðræður, sem hafa farið fram með því einfaldlega að vera eini flokkurinn, ásamt Bjartri framtíð, sem hefur tekið þátt í báðum tilraununum og geta mótað að vild þau skilyrði, sem sett hafa verið sitt á hvað fyrir þátttöku í þessum tveimur módelum. 

Hingað til hefur Benedikt spilað djarflega en vel úr stöðunni, að því er virðist með jafn mikið sjálfstraust og birtist í yfirlýsingunni að hann ætti að koma til greina við að leiða formlegar stjórnarmyndunarviðræður.

Nú er spurningin hvort þetta stöðumat hans heldur, hvort niðurstaðan verði stjórn, sem hann tekur þátt í, hugsanlega sem forsætisráðherra, sem nær málefnum sínum betur fram en sem nemur þingmannafjöldanum. 

Eða hvort annað hvort verði ómögulegt að mynda meirihlutastjórn eða að Viðreisn lendi eftir allt utan stjórnar. 

 

 

 


mbl.is Auknar líkur á þriggja flokka stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Bahrain norðursins" síbyljan. Hið ódrepandi Hrunæði.

Í áfergju sinni í að virkja öll helstu ósnortnu náttúruverðmæt Íslands sundur og saman hafa menn farið óravegu fram úr sjálfum sér í áratugi. 

Þegar margumtalaður sæstrengur milli Íslands og Skotlands kom fyrst til umræðu fyrir um tveimur áratugum var skrifað fjálglegt Reykjavíkurbréf um málið á þá lund að "Ísland gæti orðið Bahrain norðursins," og í framhaldinu var farið að ræða um það að orkan væri svo gífurleg, að við Íslendingar gætum stjórnað orkuverði í Evrópu! 

Setið við strenginn sem nokkurs konar ígildi olíufursta í skikkjum með vefjarhetti og deilt og drottnað á meginulandinu! 

Þegar nánar var aðgætt kom í ljós að öll þessi gífurlega orka Íslands var langt innan við eitt prósent af orkuframleiðslu álfunnar! 

En síbyljan holar steininn og enn er fimbulfambað með þetta mál á sömu nótum og ævinlega, og framlag fransks fyrirtækis til strengsins miklað mjög. 

Þegar það er skoðað út af fyrir sig nemur það um einum þúsundasta af kostnaðinum, sem áætlaður er! 

Rætt er um í tengdri frétt að sæstrengurinn gæti gert fyrirhugað kjarnorkuver í Hinkley óþarft. 

Ekki er haft fyrir því að fletta upp hvað það á að verða stórt, en áætlað afl þess verður 3200 megavött eða hátt í fimm Kárahnjúkavirkjanir! 

Sem sagt: Öll núverandi orkuframleiðsla Íslands næstum þrefölduð! 

Það þurfti bankahrun til þess að slæva aðeins tryllingslegar hugmyndir manna um að Ísland gæti orðið Singapúr norðursins. 

En ekkert virðist geta slævt hugsunina um "Bahrain norðursins".


mbl.is Íslensk eldfjöll hiti upp bresk hús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beit af sér tíu Bandaríkjaforseta.

Frægt er hve mörg banatilræði voru gerð við Adolf Hitler. Þau voru þó áreiðanlega hvergi nærri eins mörg og þau sem gerð voru við Fidel Castro, enda fékk maðurinn miklu lengri líftíma til að sleppa en Hitler. 

Á valdatíma Castros l959-2008 voru eftirtaldir menn forsetar Bandaríkjanna og allan tíman reyndi leyniþjónusta Kananna að kála Castro: 

Dwight D. Eisenhover - John F. Kennedy (drepinn) - Lyndon B. Johnson - Richard M. Nixon - Gerald Ford - Jimmy Carter - Ronald Reagan (næstum drepinn) - Georg Bush - Bill Clinton - Georg W. Bush.  

Ef menn segja að með stjórn bróður Castros hafi hann í raun ráðið miklu, bætist Obama við sem ellefti forsetinn.  En nú verða þeir ekki fleiri, Castro er allur. 

Þótt ókostir einveldis og harðstjórnar Castros blasi við og menn dundi sér við að finna út hve margir hafi látið lífið vegna þess, þarf þó að draga frá á móti og giska á hve marga áframhaldandi einveldi manna eins og Battista og ýmissa einvalda, þóknanlegum Bandaríkjamönnum, hefði drepið með omurlegu heilbrigðiskerfi og velferðarkerfi, að öllum líkindum mun lakara en það sem Castro kom þó á.

Giska má á hvort hægt hefði verið að ná fram jafn öflugu heilbrigðiskerfi eða jafnvel betra ef vægar hefði verið farið í sakir og komið á lýðræðislegu félagshyggjustjórnarfari í ætt við "norræna módelið" sem ekki hefði kallað yfir sig harkaleg viðbrögð Bandaríkjamanna. 

Einnig má giska á hve miklu tjóni á þjóðlífi og efnahagslífi Kúbu refsiaðgerðir Bandaríkjamanna ollu.

Sennilega þarf nokkur tími að líða þar til hægt verður að meta þetta til fulls.

Eða, eins og Barack Obama hefur orðað það: Framtíðin mun kveða upp sinn dóm.    


mbl.is Fidel Castro látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband