Eðlileg samskipti eru langtímamarkmið.

Samskipti Kúbu og Bandaríkjanna hafa verið þess eðlis meira en hálfa öld, að það mun taka langan tíma að koma þeim í eðlilegt horf, ef það verður nokkurn tíma fyllilega hægt. 

Samskipti þessara ríkja hafa ekki aðeins áhrif á Kúbu, heldur líka í Bandaríkjunum. Gott dæmi um það er, að talið er að bætt samskipti, sem Barack Obama átti þátt í að koma á fót, hafi orðið til þess að meðal fjölmennra kúbverskra útlaga á Florida, voru margir hinnar eldri, sem kusu Donald Trump en ekki Hillary Clinton og réðu með því úrslitum um að Trump hafði betur í ríkinu. 

Kúbverjar munu sjálfir og einir þurfa að hafa sig alla við komast í gegnum það að kveðja Castro þótt utanaðkomandi atriði eins og viðvera Bandaríkjaforseta verði ekki til að skapa aukalega óvissu og óróa.

Oft er rætt um það að Bandaríkjaforseti sé í hlutverki "lamaðrar andar" eða "lame duck" síðustu vikur forsetatíðar sinnar, og er þar átt við þær takmarkanir, sem hann hafi við að búa í stjórnarathöfnum sem binda hendur eftirmanns hans um of.

Nú er aðeins rúmur mánuður til valdatöku Donalds Trumps og bátnum ruggað alltof mikið með því að forsetinn fari til jarðarfarar Castros. 

Raunar hafa breytingar á samskiptum ríkjanna verið afar hægar, þrátt fyrir hið nýja samkomulag um að taka upp stjórnmálasamband og löng leið að fara til þess að breyta þeim svo miklu nemi. 


mbl.is Obama ekki í jarðarför Castro
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðalspurningin: Hve lengi verður þessi straumur?

Eftir Fyrri heimsstyrjöldina voru mörg lönd Evrópu í sárum eftir ófriðinn og öfgaflokkum óx fiskur um hrygg. Rússland féll í hendur kommúnista og 1922 tóku fasistar völdin á Ítalíu. 

Hægri þjóðernissinnaðir flokkar juku smám saman fylgi og smám saman óx fylgi nasistaflokks Hitlers í Þýskalandi. 

Þegar hann náði alræðisvöldum 1933 komst Austurríki á áhrifasvæði hans og þar vofði yfir fasistabylting auk þess sem svipaðar stjórnir komust á í ýmsum ríkjum, allt austur í Rúmeníu. 

Straumurinn í þessa átt var ekki alltaf jafn hraður en hver alda sem reis, náði aðeins lengra en fyrri öldur og þessi þróun stóð í raun frá 1917-1939 eða í um 20 ár þar til fasistar Francos náðu völdum á Spáni. 

Á sama tíma réðu einangrunarsinnar miklu í Bandaríkjunum og í Japan komust heimsvaldasinnar til valda og hófu strax útþenslustríð 1931. 

Straumurinn, sem liggur nú í þessa átt, er tiltölulega nýbyrjaður, - hefur aðeins staðið í 2-3 ár. 

Nú hefur hann skollið á að hluta líka vestan hafs og virkað hvetjandi á svipaða þjóðernisstefnu í öðrum löndum. 

Hér á landi fengu þjóðernissinnar takmarkaða hylli á fjórða áratugnum, en kjörorð þeirra var: "Íslandi allt!"

Spurningin er ekki aðeins hve langt þessi bylgja nær nú, heldur ekki síður hve lengi hún muni vara, samanber reynsluna frá árunum 1917-1939. 


mbl.is Öfgaflokkur stærstur í Hollandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rúnturinn í Dagsljósi. "Ýkt bæld..."

Mikið er gott að einhver tók að sér það verk sem rétt var tæpt á að byrja í þættinum Dagsljósi fyrir 18 árum. Þá var staldrað stutt við á þremur rúntum, Á Akureyri, Akranesi og í Reykjavík.

Nú er verið að gera löngu þarfa heimildarmynd um fyrirbærið.  

Tveir rúntar að minnsta kosti voru enn enn "í góðum gír", - 1. gír, á Akureyri og Akranesi á þessum árum, en í Reykjavík, þar sem forðum daga var lang stærsti rúntur sögunnar, var allt steindautt á sama tíma. 

Ég lagðist í frekari rannsóknir á þessu og komst að þeirri niðurstöðu að ástæðan væri sú, að á blómatíma rúntsins var jafnmikil örtröð af fólki á gangstéttunum og af bílum á götunni. 

Það tryggði höfuðatriði rúntsins, að sýna sig og sjá aðra. 

Ég tæpti síðan á því í fréttum síðar árið 2006 hvort hægt yrði að breyta þessu með því að taka upp tvístefnuakstur á hluta rúntsins líkt og tíðkaðist á Akureyri og Akranesi og mældi meira að segja breidd gatnanna til þess að sjá hvort þetta gengi tæknilega upp. 

Fékk þáverandi borgarstjóra í stutt spjall. Hugmyndin fékk ágætar undirtekir hjá honumm en dræmar hjá ýmsum, sem töldu þetta fela í sér stórvarasama mengun. 

Mín mótrök voru þau að ekki mætti gleyma gildi þess að gera sér dagamun, rúnturinn sæi um að þjóna því hlutverki. 100 þúsund bílar ækju Miklubrautina á hverjum degi og nokkrir tugir eða kannski hundrað á rúntinum væri aðeins 0,001% af því. 

Þegar ég var að taka mynd við Ingólfstorg af steindauðum rúntinum um kvöld gerðist skemmtilegt atvik. 

Nokkrir strákar um fermingu voru þeir einu sem voru á ferli á torginu, þeystu eftir því á ofsahraða fram og til baka og sneru sér á punktinum með skrensi þegar þeir skiptu um stefnu. 

Ég var með stóra myndavélarhlunkinn Sjónvarpsins á öxlinni, þegar einn strákurinn tók eftir mér útundan sér, snarhemlaði, tók vinkilbeygju, þeysti á fullu alveg að mér og snarhemlaði á síðustu stundu þannig að andlit hans var alveg upp við mitt. 

Mér krossbrá, en hann glennti hvessti sjónir beint upp í andlit mér og við horfðumst beint í augu, þegar hann benti sallarólegur með fingri framan í mig og sagði: "Hey, þú. Ýkt bæld sjónvarpsstöð sem þú vinnur hjá."

Snarsneri sér síðan snöggt og var þotinn í burtu. 

 


mbl.is Hvernig datt ykkur þetta í hug?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. nóvember 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband