Hvers vegna ekki fyrr fimm stjörnu hótel?

Loksins hefur fyrsta fimm stjörnu hótel landsins litið dagsins ljós. Að vísu ekki heil bygging heldur efsta hæð hótels.

Nú hafa verið ýmis svo góð hótel á Íslandi að ætla hefði mátt að eitthvað af þeim hlyti að vera fimm stjörnu.

Ein skýringin á þessu , sem ég hef fengið hjá eiganda afar góðs hótels, er sú að það sé betra að vera með fjögurra stjörnu hótel, sem er svo gott, að gestirnir verða undrandi yfir því að stjörnurnar séu ekki fimm og gefa hótelinu því gott orðspor, heldur en að vera með fimm stjörnu hótel, þar sem lítið má út af bregða til að hótelið missi þessa einu stjörnu, sem gerir gæfumuninn.

 


mbl.is Fyrsta 5 stjörnu hótel landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Boxaravélin er 120 ára.

Subaru-verksmiðjurnar eiga allt gott skilið fyrir tryggðina við boxaravél sína, sem nú er hálfrar aldar gömul. Kostirnir eru margir, lítil fyrirferð á lengd og hæð og stuttur sveifarás, lágur þyngdarpunktur, jafn gangur og léttleiki.Subaru´81   FÞ 400 Boxaravélar, línu-sexur og V-12 eru einu bílvélarnar sem ekki þurfa titringsjöfnun,

Meðal gallanna er að strokkhausarnir eru fleiri en einn. og strokkarnir.

Á gamla Subaru-bílnum mínum liggur varadekkið ofan á vélinni.  Subaruvél

Boxaravélin dregur nafn sitt af því að bullurnar hreyfast á þann hátt, að það likist handleggjahreyfingum hnefaleikamanna.

En boxaravélin í grunngerð sinni er miklu eldri, allt frá dögum Karl Benz 1896.

Sú langfrægasta er vélin í Volkswagen Bjöllunni, sem framleidd í hvorki meira né minna en hátt á þriðja tug milljóna eintaka´og hafa verið í Porshce bílum frá upphafi til þessa dags.

Citroen Bragginn, 2CV, Ami, Dyane og Mehari, og Panhard Dyna voru með tveggja strokka boxaravélar og Citroen GS með fjögurra strokka. Framleiðsla á Bragganum hófst 1948.  

Frá 1959-69 var sex strokka loftkæld boxaravél í bandaríska bílnum Chevrolet Corvair og í meira en 70 ár hefur meirihluti hreyfla í litlum flugvélum verið boxarahreyflar.Subaru´81. FÞ 400

BMW 600 og 700 voru með tveggja strokka boxaravélar og BMW vélhjól alla tíð, þó ekki allar gerðir þeirra.

Munurinn á Subaru-vélinni og Volkswagen vélinni er meðal annars sá, að Subaru-vélin er vatnskæld en Volkswagen-vélin er loftkæld.

En fyrsta fjöldframleidda vatnskælda boxaravélin var ekki Subaru-vélin heldur vélin í Lloyd Arbella fjórum árum fyrr.  

Núna eru bæði Subaru-vélin og Porsche-vélin vatnskældar og auk þess með yfirliggjandi kambása og fjóra ventla á hverjum strokk.

Það hefur lengi loðað við boxaravélar að vera í eyðslufrekari kantinum en það hefur dregið úr því með sífelldri þróun vélanna, sem framleiðendur Subaru og Porsche mega verið stoltar af.  

 


mbl.is Fagnar 50 ára afmæli Boxervélarinnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ein af ástæðum þess að leggja ekki embættið niður.

Í upphafi starfs stjórnlagaráðs voru ýmsar tillögur varðandi embætti forseta Íslands skoðaðar.

Ein þeirra var að leggja embætti forseta Íslands niður og önnur að skoða svipað fyrirkomulag og í Frakklandi og Bandaríkjunum.

Í starfi ráðsins var reynt að hafa eins mikið samráð og ferlið eins opið og unnt væri og okkur sýndist eftir athugun á forsetaembættinu að líklegt væri að meirihluti landsmanna vildi ekki leggja embættið niður.

Í lokin var niðurstaðan sú að fela forseta áfram valdið úr 26. grein núverandi stjórnarskrár og að hann gæti átt aðild að ákveðnu ferli varðandi val á hæstaréttardómurum, ef slíkt val lenti í ógöngum.

Í báðum tilfellum yrði forsetinn nokkurs konar neyðarhemill en ætti yfirleitt ekki að þurfa að beita málskotsrétti sínum, vegna þess að í stjórnarskránni yrðu ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur án aðkomu forseta.  

Þótt málskotsrétturinn yrði mun takmarkaðri en nú, fannst Feneyjaefndinni hann geta skapað óæskilegan óróa í samskiptum forseta við löggjafarvald og dómsvald.

Andstæðingar frumvarps stjórnlagaráðs hafa gert mikið úr þessu, en Feneyjanefndin hefði þá líklega gert miklu alvarlegri athugasemdir við núverandi stjórnarskrá, sem gerir eingöngu forsetanum kleyft slíkt málskot, en andstæðingar nýrrar stjórnarskrár mæra þó hástöfum!

Alveg eins og meirihluti þjóðarinnar virðist vilja sinn eina þjóðkjörna embættismann áfram, er ólíklegt annað en að meirihluti vilji líka viðhalda málskotsréttinum.

Að minnsta kosti tveir forsetaframbjóðendur hafa sett á oddinn hjá sér að í stjórnarskrá verði skýr ákvæði, sem tryggi rétt þjóðarinnar til að ráð beint um stærstu mál sín.

En nú stendur yfir mikil herferð eins frambjóðandans og fylgjenda hans til að fá fólk til að efast um að þessir meðframbjóðendur standi við eitt af aðalatriðunum í stefnumálum sínum.

Má það furðu gegna.


mbl.is Finnst forsetinn skipta máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Smáfréttirnar" um ölvaða ökumenn.

Á morgnana má oft heyra smáfréttir um störf lögreglu til dæmis um það hve margir ölvaðir ökumenn hafi verið stöðvaðir eða ökmenn undir áhrifum fíkniefna.

Ljóst er að þetta er toppurinn á ísjakanum, því að miklu fleiri ökumenn í annarlegu ástandi sleppa.

Þessar "litlu" fréttir þýða að í umferðinni á hverjum tíma er fjöldi stórhættulegra ökumanna á ferð.

Helsta hættan við þá er að þeir eru alveg óútreiknanlegir, en tilvist þeirra samsvarar því að fjöldi gangandi vegfarenda sé vopnaður byssum, og skjóti úr þeim út í loftið af handahófi án þess að slasa neinn.

Ölvaðir og uppdópaðir ökumenn eru sérstaklega hættulegir þar sem umferð er hröð og vegurinn með einni akrein í hvora átt.

Ökumenn, sem aka grandalausir inni við vegarmiðju , geta lítið gert ef bíll, sem kemur á móti þeim, sveigir yfir á rangan vegarhelming.

Enn hættulegri eru ökumenn í vímu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, sem eru algerlega berskjaldaðir ef eitthvað ber út af.


mbl.is Hlupu í burtu frá vettvangi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kennitöluflakkið og feluleikurinn eru heilagar kýr.

Frumvarp Karls Garðarssonar um að koma einhverjum böndum á kennitöluflakk hefur fengið dræmar viðtökur hjá ráðandi öflum, sem virðast líta á grunnforsendur þúsunda milljarða taps og dulbúins ráns frá almenningi eins og heilagar kýr.

Í ágætum fréttaskýringum síðustu vikna hér og þar í fjölmiðlum er byrjað að gægjast inn í þann heim sem hefur skapað tvær þjóðir á Íslandi, annars vegar heim almúgans, sem er læstur inni í krónuhagkerfinu og gjaldeyrishöftum, en hins vegar er yfirþjóðin, sem spilar á möguleikana til að flytja sitt fé til aflandsfélaga eða erlendra peningastofnana og fyrirtækja,- gerir jafnvel allt sitt bókhald í erlendri mynt.


mbl.is Kjöraðstæður fyrir kennitöluflakk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 18. maí 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband