Hverjir eru frambjóðendur fasista?

Umræðan um forsetaframbjóðendur er að færast niður á nýtt plan. Páll Vilhjálmsson spyr í bloggpistli, hvaða forsetaframbjóðandi sé frambjóðandi fasista.

Hann væri varla að varpa þessu upp nema vegna þess að honum þyki það nauðsynlegt.

Páll er heldur ekki venjulegur bloggskrifari heldur í miklu dálæti hjá einum frambjóðandanum, Davíð Oddssyni og fylgismönnum hans, sem vitna iðulega í hann, jafnvel í heilu Staksteinunum og eiga mörg innlit hjá honum.

Páll svarar sér að vísu ekki beint í þessum pistli en lætur í raun svar sitt þeim mun betur óbeint í ljósi í fyrri skrifum sínum og textanum fyrr í þessum bloggpistli þar sem hann skilgreinir vinstri menn á Íslandi sem fasista af því að þeir vilji ganga inn í ESB og setja landinu nýja stjórnarskrá.

Svo virðist sem nóg sé að vilja nýja stjórnarskrá til að vera skilgreindur sem fasisti, því að Páll undanskilur ekki Vinstri græna, sem eru andvígir ESB aðild.

Og auðvitað ekki vesaling minn eða aðra þá sem sátu í stjórnlagaráði.

Þvert á móti tekur hann það fram í pistlinum að Vinstri grænir skuli teljast fasistar vegna aðildar sinnar að vinstri stjórninni 2009.

Áður hefur Páll skrifað um það að vegna þess að vinstri menn séu í meirihluta fylgismanna ákveðinna frambjóðenda séu þessir frambjóðendur, sem vilji uppgjöf þjóðarinnar með inngöngu í ESB og nýrri stjórnarskrá, handbendi hinna illu vinstrimanna, og skuli því fá á sig stimpilinn fasistar.

Páll spyr að vísu í eintölu eftir að hafa sjálfur búið til forsenduna fyrir svarinu: Hver er frambjóðandi fasista?

En það er, þótt furðulegt kunni að sýnast, eðlilegt að hann noti eintölu, því að Guðni Th. Jóhannesson er, samkvæmt skoðanakönnunum hingað til og eins og sakir standa, eina hindrunin fyrir því að Davíð Oddsson verði forseti.

Og þar með í stöðunni, eins og hún er núna, nóg að slátra honum einum.

En að sjálfsögðu er hægt að nota spurninguna og óbeint svar Páls við henni um fleiri frambjóðendur, svo sem Andra Snæ Magnason, á grundvelli þess að Andri hafi drjúgt fylgi hjá vinstri mönnum (fasistum) og vilji nýja stjórnarskrá eins og fasistarnir.

Ekki nóg með það. Páll fullyrðir ekki einasta að allir vinstri menn séu fasistar, hefur hann það upp úr krafsinu með því að leiða að því rök að Guðni sé frambjóðandi fasista, að þau 40 prósent þeirra sem segjast ætla að kjósa Sjálfstæðísflokkinn og kjósa Guðna, séu fasistar.

Eins gott fyrir þessa fylgjendur Sjálfstæðisflokksins að snúa sér að "innvígðum og innmúruðum" sjálfstæðismanni í staðinn og snúa frá villu síns vegar.

Daglegum árásum á mótframbjóðendur Davíðs Oddssonar, sem ekki hafa hrifið fram að þessu, virðist ekki ætla að linna, heldur er nú með þessum pistli eins helsta talsmanni þess framboðs, hert á þeim og farið niður á nýtt og lægra plan en sést hefur áður í kosningum á Íslandi.

Með þessu tiltæki Páls er Davíð gerður óleikur og væri gott að hann gerði þennan áróður eins síns öflugasta fylgismanns ekki að sínum.

 


mbl.is „Af hverju kýstu ekki Davíð?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar tilveran var án Corn flakes og Cheerios.

Sú var tíðin á mínum unglingsárum að tilveran gekk sinn vanagang að öllu leyti án "morgunkorns".

Morgunkornið þá var haframjöl, í svipuðum umbúðum og það er enn í dag.

Ég komst fljótlega upp á að borða haframjöl þurrt með mjólk eða undanrennu út á og geri það enn í dag, 65 árum síðar.

Á síðari hluta sjötta áratugarins ruddu Corn flakes og síðar Cheerios sér til rúms og urðu að nógu órjúfanlegum hluta af daglegu lífi að Bjartmar Guðlaugsson gat sungið: "Súrmjólk í hádeginu´og Cherrios á kvöldin..."

Úr því að kornmatur hefur af og til breyst í aldanna rás ætti stöðnun ekki að vera lögmál á því sviði neyslu.

Ég hlakka því til að prófa nýjar tegundir.

Munum, að kornflögur (corn flakes) urðu til sem mistök í eldamennsku.


mbl.is Fyrsta nýja morgunkornið í 15 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sveiflur geta enn orðið.

Hverjar kosningar á Íslandi virðast lúta sérstökum og eigin lögmálum.

1968 virtist snemma ljóst að hverju stefndi varðandi Kristján Eldjárn þótt þá væru engar marktækar skoðanakannanir eftir viðurkenndum vísindalegum aðferðum að ræða.

Ég tók þátt í þeirri kosningabaráttu og skynjaði þetta allan tímann.

Man líka vel eftir kosningabaráttunni 1952 þegar mikill straumur lá með Ásgeiri Ásgeissyni gegn frambjóðenda þáverandi stjórnarflokka, Sjalla og Framsóknar, sem höfðu þó meira en 60 prósent fylgi samanlagt á landsvísu.

Kosningarnar 1980 voru tvísýnar fram á morgun kosninganóttina.

Í kosningunum 1996 sótti Ólafur Ragnar Grímsson í sig veðrið í kosningabaráttunni, og þegar hin mjög svo frambærilega Guðrún Pétursdóttir dró sig í hlé, virtist það efla fylgi Ólafs Ragnars.

Sagan geymir dæmi um stærri sveiflur í Alþingiskosningum.

Bandalag jafnaðarmanna, Borgaraflokkurinn og Þjóðvaki fengu öll gríðar mikið fylgi í fyrstu í aðdraganda kosninganna 1983, 1987 og 1995.

Öll misstu þau fylgi fram að kosningum, og svo hröð var sveiflan síðustu vikurnar 1995 frá Þjóðvaka, að hugsanlega hefði hún gengið enn lengra ef kosið hefði verið viku síðar en gert var.

Þótt Davíð Oddsson og Ástþór Magnússon sæki hart að Guðna Th virðast fylgistölurnar hjá fylgismestu frambjóðendunum lítið breytast enn sem komið er.

En enn eru tvær og hálf vika til kosninga og sem kunnugt er er vika langur tími í pólitík.


mbl.is Guðni með mest fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það næsta, sem ég hef komist dauðanum."

Ofangreind orð eru ein af mörgum fleygum setningum sem Muhammad Ali sagði á lífsleiðinni og munu lifa.

Þau mælti í kjölfar þriðja og síðasta bardaga hans og Joe Frazier sem háður var í óbærilegum hita í Manila árið 1975.

Heil klukkustund ítrustu átaka og sársauka sem hugsast getur í íþróttum.

Margir telja þetta mesta hnefaleikabardaga allra tíma og í lok 14. lotu, áður en 15. og síðasta lotan gæti hafist, kom Eddie Futch, þjálfari Fraziers í veg fyrir að "Smoking Joe" færi inn í 15. lotuna, stokkbólginn í andliti, hættur að sjá og geta varist höggahríð Alis, - örmagna í ofanálag.

Ali orkaði með erfiðismunum að standa upp í horni sínu og lyfta hendi, en rétt á eftir féll hann saman, gersamlega þrotinn að kröftum og kom ekki upp orði.

Nokkrar setningar lifa eftir þennan bardaga, svo sem:

 

Frazier (Í horninu): 

    "Ég vil halda áfram."

Futch : "Vinur minn, veröldin mun aldrei gleyma því sem þú afrekaðir hér í kvöld."

 

Frazier (síðar):   

     "Ég kom á hann mörgum höggum, sem hefðu getað fellt múra, en ekkert virtist bíta á hann:"

Ali (síðar):

    "Frazier laðar fram það besta í mér. Hann er mesti bardagamaður, sem uppi hefur verið, - að mér undanskildum.  Þetta var það næsta sem ég hef komist dauðanum."

Nú hefur Ali lokið sínum lang lengsta, erfiðasta og glæsilegasta bardaga, við Parkinsonsjúkdóminn, sem hann háði á þann hátt að aldrei gleymist.

Hann hélt áfram af sama hugrekki og æðruleysi sem fyrr að láta að sér kveða til hinstu stundar í baráttunni fyrir brýnum málefnum í þágu frelsis, mannréttinda og líkarmála.

Að lokum komst hann nær dauðanum en í "The thrilla´in Manila."

"The Louisville lip" er kominn heim.   

 


mbl.is „Ali er kominn heim“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. júní 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband