Brotin loforð, gærnótt, samnemandi og margt fleira.

Nú á dögum þykir fólki broslegt hver mikil áhrif danska hafði á íslenskt mál á 19. öld. 

Nú eru þau áhrif horfin en ensk áhrif sækja æ meira á. 

Engu er líkara en að ungt fólk kunni ekki einföldustu atriði og orð í íslensku máli. 

Þannig hefur jafnan verið talað um svikin loforð á íslensku, en það er eins og ungt fólk viti þetta ekki, heldur vilji þýða beint úr ensku og tala um brotin loforð. 

Íslenskan hefur verið með ágæta tímaröð á þeim tíma sem er næstur okkur. 

Hún er þessi ef talið er afturábak: Í dag, í nótt, í gær, í fyrrinótt. 

En enskan er í vandræðum þegar komið er aftur fyrir gærdaginn: "The day before yesterday" þegar á íslensku er einfaldlega sagt "í fyrradag."

Og í raun er orðið gærnótt vandræðalegt og algerlega óþarft, því hvort er gærnótt síðasta nótt eða fyrrinótt, hvort er það nóttin fyrir gærdaginn eða eftir gærdaginn?

Nú má alveg búa sig undir að svipað gerist fram í tímann. Í stað þess að segja "aðra nótt" verði sagt "morgunnótt" sem yrði alveg hliðstæða "gærnæturinnar." 

Tökum aðra vandræðabreytingu málsins: 

Íslenskan býr yfir átta orðum sem hægt er að nota um allar tegundir af tengslum nemenda.

Við höfum átt skólafélaga, skólasystur, skólabræður, skólasystkin, bekkjarfélaga, bekkjarsystkin, bekkjarbræður og bekkjarsystkin.

Málið gefur altæka möguleika til þess að orða nákvæmlega tengsl nemenda. 

 

En nú virðist brýn nauðsyn að breyta þessu, - því að það virðist unnið markvisst af því á fjölmiðlum að eyða öllum þessum orðum og nota ólánsorðið samnemandi í staðinn.

Í hádeginu æstkomandi föstudag ætla ég að hitta bekkjarsystkín mín úr 6. bekk MR frá árinu 1960, en ef enskan heldur áfram eyðingarferðalagi sínu um íslenskan orðaforða, ætla ég að hitta samnemendur mína, þótt ég hafi aldrei verið kennari þeirra.

 

Því að hvernig gengur það upp að hitta þessa tegund af nemendum sínum án þess að hafa verið kennari þeirra? 


mbl.is Gjalda með blóði fyrir brotin loforð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju með ferðina og athyglina.

Ég finn til mikillar samkenndar með Jóni Jóhanni Jóhannssyni og Jónasi Guðmundssyni vegna ferðar þeirra á rafbíl til Ísafjarðar. 

Því miður virðist þurfa mikla fyrirhöfn til þess að vekja athygli á þörfum umbótum á ýmsum sviðum. 

Í júlí 2009 fórum við Einar Vilhjálmsson hringveginn með útúrdúrum um Sauðárkrók og um Fjarðaleiðina eystra, og var það fyrsta slíka bílferðin þar sem eingöngu var notað íslenskt og umhverfisvænt eldsneyti til að komast hringinn. 

Nokkrum árum fyrr höfðu framtakssamir menn ekið hringinn á rafbíl og þurft til þess langan tíma. 

Fyrstu rafbílsferðina hringveginn á skaplegum tíma fóru Gísli Gíslason á Teslu í júlí í fyrra og voru þeir 30 klukkustundir á leiðinni brúttó.

Það er hraðamet rafbíls um hringveginn, - Tesla er langdrægasti rafbíllinn, en þarf talsverðan tíma í hleðslu.

Tesla er dýr lúxusbíll og ekki á færi almennings að eignast hann og því var það skynsamlegt hjá Jóni og Jónasi að nota bíl eins og Kia Soul á viðráðanlegra verði.  

Fyrir réttu ári var farið á rafhjólinu Sörla frá Akureyri til Reykjavíkur eingöngu á eigin vélarafli hjólsins, og var það alls 42 klukkustundir á leiðinni, en hjólið var sjálft á hreyfingu í 25 klukkustundir. 

Orkukostnaðurinn var 115 krónur. 

Og fyrir 9 dögum var svo farið á vespubifhjólinu Létti ( Honda PCX) á þjóðvegahraða hringinn um Fjarðaleið á alls 31 klukkustund, en þar af var hjólið 18 klukkustundir á ferð.

Eyðslan var 2,65 lítrar á hundraðið að meðaltali, og orkukostnaðurinn aðeins tæplega 6700 krónur, þar af 1916 krónur milli Reykjavíkur og Akureyrar, þar sem eyðslan var aðeins 9,9 lítrar alls.  

Þetta er tvisvar til þrisvar sinnum minna en á meðalbíl, og í innanbæjarakstri er eyðslan aðeins um 2,3 - 2,3 lítrar á hundraðið á þessu farartæki, sem er fljótara í förum innanbæjar en bíll og kostar aðeins fjórðung af verði ódýrustu bíla. 

Það sem gerir leiðina Reykjavík-Ísafjörður áhugaverða er sú staðreynd, að ef farið er með Baldri yfir Breiðafjörð, er þjóðvegaaksturinn aðeins rúmlega 290 kílómetrar, eða álíka og frá Reykjavík til Varmahlíðar. 

Ef hraðhleðslustöð væri í Stykkishólmi myndi það eitt og sér tákna byltingu fyrir rafbílana, því að þá væri hægt að fara um borð í Baldur með hlaðinn bíl og stytta brúttó ferðatímann úr 27 klukkustundum niður í þriðjung, allt að níu klukkustundir að því gefnu að hleðslustöð væri á Ísafirði og að rafbíllinn dragi í einum áfanga frá Brjánslæk til Ísafjarðar.

Mikið væri nú gaman ef hægt væri að koma á almennilegum rafbílasamgöngum vestur, jafnvel áður en leiðin Reykjavík-Akureyri verður fær fyrir venjulega rafbíla á viðráðanlegu verði.

Enn í dag búa Vestfirðingar að mestu einir allra landshluta að samgöngum á svipuðu stigi og fyrir hálfri öld og má alveg fara að kippa þeim inn í nútímann.  

 


mbl.is Komust á rafmagninu einu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skilningsleysi borgaryfirvalda sker sig úr.

Á eyju eins og Íslandi gera menn sér betri grein fyrir mikilvægi flugs og siglinga en hjá þjóðum á meginlöndum.

Þar eru landsamgöngur aðalatriðið.

Ein undantekning er þó hér á landi varðandi flugið. Hvarvetna úti á landi ríkir mikill skilningur og velvild í garð flugsins, svo sem á Akureyri, þar sem er flugsafn Íslands, nokkuð sem sýnir í hnotskurn andstæðuna við afstöðu borgaryfirvalda í Reykjavík gagnvart flugi.

Ekkert flugsafn er í Reykjavík, sem þó var vagga flugs á Íslandi á fyrstu tveimur áratugum þess. Merkilegir munir frá fyrstu árum Reykjavíkurflugvallar eru varðveittir á flugsafni, ja, getið þið upp á því hvar, - bænum Hnjóti í Patreksfirði! 

Dæmisagan um þráðinn að ofan, þegar köngullóin klippti í sundur fyrsta þráðinn, sem hún spann og lá niður á vefsvæðið, af því að þessi þráður var ekki inni í vefnum, á vel við um flugið í Reykjavík.

Gott dæmi um skilningsleysi á því, að flug er hátæknistarfsemi og einn af þremur grunnstoðum samgangna, er þegar borgarstjórinn sagði í sjónvarpsviðtali að neyðarbrautin hefði fengið þetta nafn af því að hún væri svo hættuleg! 

Svona álíka og að sagt væri að neyðarþjónusta og neyðarblys hétu þessu heiti, af því að þessi fyrirbæri væru svo hættuleg.

Sömuleiðis sagði sami embættismaður, að vel mætti flytja allt sjúkraflugið suður á Keflavíkurflugvöll. Má furðu gegna að læknir átti sig ekki á því eðli sjúkraflugs, að því nær sjúklingnum sem sjúkraflugvél er, þegar tilfelli hans kemur upp, því skemmri tíma tekur það að flytja hann á viðeigandi sjúkrahús.

Samgöngur og eðli þeirra er helsta grunnstoð þéttbýlis. Ef allt væri með felldu, reyndu borgaryfirvöld að stuðla að sem bestum og greiðustum samgöngum og samgöngustarfsemi af öllu tagi í borg, sem er miðstöð samgangna á landinu, en ekki að reyna að flæma hana í burtu.

Firring gagnvart samgöngum í víðara samhengi en innan þröngrar byggðar er að vísu skiljanleg hjá fólki, sem lifir og hrærist í innsta hring borgarsamfélags án tengsla við það sem liggur utan borgarinnar og hefur sjóndeildarhring og þekkingu á samgöngum í samræmi við það.

Í þeim efnum, eins og svo mörgum, er nauðsynlegt að efla þekkingu á gildi og eðli samgangna á landi, sjó og í lofti til þess að skapa grundvöll fyrir sem bestum ákvörðunum á þessu sviði sem öðrum.  

 


mbl.is Mikil tækifæri leynast í fluginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. ágúst 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband