Gat hann ekki einu sinni "mæmað"?

Íslendingar og Norðmenn eru frændþjóðir og það hefði mátt ætla að tengsl Justins Biebers við þessar tvær þjóðir yrðu svipuð.

En það er nú öðru nær. Eftir tónleika Biebers á dögunum mátti heyra miklar rökræður um frammistöðu hans, sem ýmsir gagnrýndu nokkuð, svo sem það hve lítið hann söng beint og að hann stæði að baki öðrum stórstirnum bæði fyrr og nú, sem færu oftast hamförum á sviðinu.

Niðurstaðan varð þó oftast sú að sýna Bieber samúð og sanngirni, og langflestir virðast hafa verið ánægðir hér á landi.

Öðru máli gegnir um Norðmenn. Bieber hefur verið harðlega gagnrýndur, ekki aðeins fyrir að syngja lítið og "mæma" þeim mun meira, heldur líka fyrir dauðyflisskap og að kunna ekki einu sinni að "mæma".

Og eitthvert leiðinlegt fúllyndi virðist líka sækja að Bieber í Noregi og frændur okkar fara mikið í taugarnar á honum.  


mbl.is „Þið eruð glötuð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt fyrir Hrun með minnstu spillingu heims.

Rétt fyrir Hrun sýndi alþjóðleg rannsókn að á Íslandi væri minnsta spilling í heimi. 

Fyrir rúmum áratug vorum við nálægt toppnum í umhverfismálum í alþjóðlegri rannsókn, en þegar rýnt var í tölur frá Íslandi, var því logið, að það skorti upplýsingar um ástand jarðvegs. 

Hið sanna var að nokkrum árum fyrr fékk Ólafur Arnalds umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir nákvæmalega það að hafa rannsakað ástand gróðurs og jarðvegs á Íslandi af stakri snilld.

Ef niðurstöður þeirrar rannsóknar hefðu verið teknar með í reikninginn hefði Ísland hrunið niður eftir listanum. 

Alveg fram á síðustu ár höfum við notið góðs af því að heilbrigðiskerfi okkar hefur verið gott og haft minni ungbarnadauða, reykingar og minni aukningu offitu en aðrar þjóðir.

Í rannsókninni í Lancet er Ísland efst á lista hvað snertir heilbrigðisástand, en ekki hvað snertir heilbrigðiskerfi eins og nú er strax byrjað að veifa hér innanlands. Ísland er að sönnu efst á lista, en "skarar ekki fram úr" eins og sagt er, heldur býr enn um sinn yfir naumri forystu á næstu þjóðir, vegna þess að við njótum góðs ástands fyrri ára, sem skilar sér enn í tölum um heilbrigði.

Það er hæpið, svo ekki sé meira sagt, að það sé "framúrskarandi heilbrigðiskerfi" sem lætur mann engjast í óvissu í sjö mánuði um það, hvort hugsanlegt krabbamein sé að láta á sér kræla, af því að biðlistar eftir skoðun séu svona langir.

Heldur ekki, að vegna þess að einn minna bestu vina var svo óheppinn að greinast með gáttaflökt í október í fyrra, en þá var fjárveitingin til aðgerða fyrir það ár búin, og hann lenti á biðlista sem gaf ekki vonir um skoðun á því ári, heldur alltof seint, á þessu ári.

Ekki kemur fram í opinberum tölum, hve miklar uppsafnaðar þjáningar og skert starfshæfni eru hjá þúsundum fólks sem bíður mörgum mánuðum og jafnvel árum saman eftir aðgerðum, svo sem liðskiptum.  

Vinur minn tapaði rússneskri rúllettu sinni þótt ég ynni mína. 

Óteljandi tilfelli sem nú hrúgast upp af þessu tagi vegna fjársveltis í heilbrigðiskerfinu koma ekki umsvifalaust fram í rannsóknum á heilbrigðisástandi.  


mbl.is Skarar fram úr í heilbrigðismálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hvernig ætlar þú að aka til Keflavíkur?"

Því ölvaðri sem menn eru, því fjær eru þeir því að geta tekið vitrænar ákvarðanir. Það sýna tvær fréttir um öfurölvi menn undir stýri bíla í Hafnarfirði. 

Slíkir menn hafa fengið nýjan sess í huga mér eftir að ég fór að nota rafhjól og létt vélhjól nær eingöngu til ferða minna. 

Tilhugsunin um blindfulla menn undir stýri verðir ógnvænlegri þegar maður er jafn berskjáldaður og á hjóli. 

Þegar ég var drengur lá þjóðleiðin til Keflavíkur með byggðinni á Vatnsleysuströnd.

Á stríðsárunum voru miklir flutningar varnings frá erlendum skipum, sem komu til hafnar í Reykjavík, suður til herliðsins við Keflavíkurflugvöll.

Oft var biðröð vörubíla á hafnarbakkanum við uppskipum, og átti þreyttir bílstjórar þá til að dotta augnablik undir stýri í biðröðinni.

Eitt sinn þegar búið var að hlaða einn vörubílinn, brá svo við að engin viðbrögð fengust hjá bílstjóranums, þegar bankað var í frambrettið á bílnum til að láta hann vita að hann ætti að aka af stað.

Fór þá verkamaður, og opnaði dyrnar til að ræða við bílstjórann.

Reyndist hann þá svo ölvaður, að hann var nálægt því að velta út úr bílnum, en rankaði við sér og gerðist líklegur til að aka af stað.

"Takk fyrir, ég dríf mig af stað," umlaði hann.

"Hvernig í ósköpunum þykist þú ætla að komast suðureftir svona á þig kominn?," spurði verkamaðurinn.

"Það er enginn vandi," svaraði bílstjórinn. "ég fylgi bara ströndinni", var svarið.  

 


mbl.is Nálægt áfengisdauða undir stýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miklar og skiljanlegar hræringar á nokkrum klukkustundum.

Forseti Íslands lýsti því í beinni útsendingu frá Bessastöðum eftir örlagaríkan fund hans með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, að hann hefði synjað honum alfarið um að skrifa undir þingrofsheimild á þeim forsendum að með því væri hann að færa honum vopn í hendur í átökum við Sjálfstæðismenn og slíkt vildi hann ekki láta leiða sig út í. 

Þetta sáu og heyrðu ekki aðeins allir þeir landsmenn sem horfðu á sjónvarp, heldur barst þessi vitneskja til þingflokks Framsóknarmanna, sem varð svo brugðið við að heyra af för forsætisráðherra til forsetans, að einn þingmanna var nánast klökkur þegar rætt var við hann. 

Augskilin fyrstu viðbrögð þingflokksins við þessum einleik formannsins voru að rísa gegn honum og bjarga samstarfi stjórnarflokkanna. 

En til samþykktar vantraustsyfirlýsingar kom ekki vegna þess að þess reyndist ekki þörf, af því að sú lausn fram að Sigmundur Davíð stigi til hliðar og Sigurður Ingi Jóhannsson yrði forsætisráðherra í hans stað. 


mbl.is Voru búin að ákveða að setja Sigmund af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. september 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband