Kreppubörnin og Sumargleðibörnin.

Árgangurinn frá árinu 1940 sem útskrifaðist frá M.R. 1960 var sá síðasti, sem var innan við 100 stúdentar. 

Árið eftir stækkaði árgangurinn um marga tugi. 

Ástæðan? 

Jú, fram til 10. maí 1940 ríkti kreppan mikla í öllu sínu veldi og náði raunar hámarki árið 1939. 

Með hernáminu hófst mesti uppgangstími, sem komið hafði í sögu síðari alda hér á landi og næstu árgangar urðu stærri og stærri.

En áhrif hernámsins komu ekki fram á sama tíma, til dæmis hvað varðaði fjölgun fæðinga, því að eðli málsins samkvæmt byrjuðu áhrifin á því sviði ekki að koma fram fyrr en í mars 1941.  

Ég hef verið að skoða ýmislegt úr fortíðinni síðustu mánuði og eitt af því sem hefur komið upp er það, hvort það séu til Íslendingar, sem kalla mætti "stórdansleikjabörn," það er, fædd níu mánuðum eftir stórar skemmtanahelgar á síðustu öld á borð við sjómannadag, 17. júní, verslunarmannahelgi og þær stórsamkomur með dansleikjum, sem héraðsmót og síðar Sumargleðin voru á landsbyggðinni á tímabilinu 1959-1986, einkum síðasta áratug þessa tímabils.

Sumargleðibörn er dálítið skemmtilegur möguleiki, en það þyrfti talsverða vinnu við að lesa úr fólksfjöldaskýrslum til að finna út, hvort það hugtak stenst hvað snertir fjölgun fæðinga í viðkomandi byggðum.   


mbl.is Kynlíf Íslendinga í þýskum fjölmiðlum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hella eldi á olíu.

Alþjóðasamfélaginu er slétt sama um það sem er að gerast í löndum eins og Jemen á meðan engin hætta er á því að sams konar áhrif breiðist þaðan út eins og gerst hefur í Sýrlandi. 

Jemen er afskekkt land og því áhyggjur litlar af stórfelldum flóttamannastraumi alla leið í áttina að Miðjarðarhafi. 

Einu hagsmunirnir, sem truflað geta út á við geta falist í olíulindum, en í öllum ríkjum Arabaheimsins, þar sem olía er í jörð, má snúa máltækinu um að hella olíu á eldinn við og segja að allt fari í bál og brand þegar eldi hagsmuna og græðgi sé hellt á olíuna.

Svo er að sjá sem Túnis, upphafsland Arabíska vorsins, sé eina landið, þar sem Arabíska vorið barði að dyrum og hrærði upp í öllu og ástandið versnaði ekki.  


mbl.is Hvað gengur á í Jemen?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hin rómaða hagræðing kvótakerfisins og gengis krónunnar.

Það er orðið ansi langt síðan fyrsta málið kom upp af því tagi að vinnsla, skip eða útgerð hefur verið flutt úr byggðarlagi þvert ofan í hátíðleg loforð um hið gagnstæða. 

Og listinn yfir þessi mál er langur og málinn mörg. 

Stundum var því lofað, til dæmis fyrir um aldarfjórðungi á Vestfjörðum, að mikið aflaskip héldi áfram að leggja upp afla eða vera gert út vestra þrátt fyrir breytt eignarhald, en síðan komið til þess að eigendurnir sviku þetta loforð á grundvelli þess að það hefði í för með sér óviðráðanlegan taprekstur. 

Oft gerðist svipað og núna gerist á Akranesi, að breyttum rekstaraðstæðum, til dæmis vegna gengissveiflna krónunnar, aða talið er óhjákvæmilegt að flytja vinnsluna úr byggðarlagi, jafnvel alla leið frá Djúpavogi til Grindavíkur. 

Eftir á er síðan almennt talað um dásemd þess að kvótakerfið skuli hafa áhrif af þessu tagi, því að það sé grundvöllur framfara og velmegunar hér á landi. 

Og sömuleiðis eru stórfelldar sveiflur upp og niður á gengi krónunnar taldar helsti kostur hennar. 

En um allt land er að finna byggðarlögð, sem líta út eins og sviðin jörð af völdum kvótakerfisins. 

Það kann að koma upp í hugann, að 93 starfsmenn HB Granda á Akranesi geti einfaldlega gert það sama og sett var fram sem lausn á Djúpavogi, að starfsfólkið flytji sig um set. 

Á Djúpavogi var um lítilræði að ræða, bara rétt að kippa sér 600 kílómetra vegalengd með sig og sína! 

Af því að Akranes er á sama atvinnusvæði og Reykjavík vaknar spurningin um það hvort svipað verði lagt til þar, einkum vegna þess að þá myndu viðkomandi starfsmenn einfaldlega ekki þurfa að flytja heimili sín, heldur færu bara í og úr vinnu 50 kílómetra leið eins og margir gera, sem vinna í Reykjavík en eiga heima á Suðurnesjum og fyrir austan fjall. 

En hin spurningin vaknar líka, að hagræðingin hjá HB Granda felist ekki eingöngu í því að færa vinnsluna ofan af Skaga til Reykjavíkur, heldur felist hún líka í því að hægt verði að fækka störfum í heild hjá fyrirtækinu. 

 


mbl.is „Reiðarslag fyrir bæjarfélagið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 28. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband