Nýr flugvöllur, Sauðárflugvöllur, kominn með starfsleyfi.

Í dag var gefið út starfsleyfi fyrir Sauðárflugvöll á Brúaröræfum. p1010700.jpgFlugvöllurinn er með fjórar flugbrautir, flughlað, upphitaðan íverustað í formi húsbíls, vindpoka, valtara og annað það sem krafist er fyrir flugvelli af þessari stærð, en lengd brauta og öryggissvæða þeirra er alls 3,7 kílómetrar og flugvöllurinn því á stærð við Reykjavíkurflugvöll. p1010691_1002430.jpg

Lengsta brautin er nothæf fyrir vélar á stærð við Fokker F50 vélar Flugfélags Íslands, sem getur komið sér vel í neyðartilfellum sem og næst lengsta brautin. 

Flugvöllurinn er eini viðurkenndi og skráði flugvöllurinn á hálendinu af þessari stærð og raunar eru aðeins tveir skráðir flugvellir hjá Flugmálastjórn á öllu landsvæðinu norðan Vatnajökuls og þessi sá eini sem nothæfur er fyrir allar flugvélar sem eru í innanlandsflugi, smáar sem stórar. p1010696_1002431.jpg

Vegna þess að völlurinn er í 660 metra hæð yfir sjó er hann ekki nothæfur að vetrarlagi og hef ég tekist þá skyldu á herðar að halda honum við svo að hann sé nothæður og standist allar kröfur og láta í té upplýsingar um ástand hans. 

Ég hef lent á vellinum frá síðustu mánaðamótum og brautir hans eru í mjög góðu ástandi. 

Þær eru allar ágætlega merktar en þó verður að yfirfara þessar merkingar og breyta þeim samkvæmt kröfum þar um og er það verk framundan. Vindpokinn er skemmdur og annar verður settur í hans stað um næstu helgi.  p1012200.jpg

Þegar því er lokið vonast ég til að geta haldið þarna opnunarathöfn.

Flugmálastjórn heldur úti upplýsingagjöf um flugvelli landsins, svo sem um það hvort þeir hafi verið valtaðir og yfirfarnir af ábyrgðarmönnum og stefni ég að því að hafa opnunarathöfnin í júlí og síðan árlega hér eftir þegar búið er að yfirfara völlinn eftir veturinn. 

Ef vel er að því staðið verður þessi völlur nothæfur meira en hálft árið, þótt hann sé uppi á miðju hálendinu. 

Undirbúningur að þessum áfanga í fluginu hefur staðið í sjö ár hefur alls þurft að leita eftir tíu mismunandi vottorðum og umsögnum til þess að öllum skilyrðum sé fullnægt. 

Á þessu tímabili hefur þetta mál komið til kasta, athugunar eða umsagnar eftirtalinna aðila: p1012204_1002445.jpg

Flugmálastjórnar, sveitarstjórnar, landeiganda, Landsvirkjunar, flugklúbbsins eystra, Umhverfisstofnunar, Landmælinga Íslands, Imgpregilo á meðan það fyrirtæki var með starfsemi við Kárahnjúka, Mýflugs, fulltrúa Flugfélags Íslands á Akureyri, lögreglunnar á Egilsstöðum og sýslumannsins. 

Fokker F50 gerði meira að segja aðflug að vellinum og sömuleiðis Boeing 757! 

Efast ég um að sambærileg fyrirbæri hafi fengið svo margbreytilega og ítarlega umfjöllun. p1012205_1002467.jpgp1012205.jpg

Með þessum pistli fylgja myndir af vellinum, meðal annars úr ferðalagi okkar Helgu í gær þegar við fórum landleiðina frá Akureyri til að huga að vellinum og búnaði á honum. 

Á leiðinni frá Möðrudal til vallarins, sem er rúmlega 60 kílómetra löng, er frábært útsýni á einum stað fyrir Fagradal og Herðubreið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Snillingur ertu Ómar!

Megi þetta verða vísir að því sem koma skal. Með samhentu átaki flugáhugafólks og -klúbba ætti að vera hægt að opna aftur eitthvað af þeim brautum sem aflagðar hafa verið víðsvegar um landið.

Þá væri ekki úr vegi að fara í ímyndarherferð til stuðnings Reykjavíkurflugvallar. Megi hann vera í Vatnsmýri um aldur og ævi.

Sigurður Ingi Jónsson, 22.6.2010 kl. 12:42

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Með því að lengja austur-vestur-brautina og leggja núverandi norður-suður-braut niður og gera aðra 1100 metra braut sem lægi út í sjó þar sem olíustöðin hefur verið í Skerjafirði væri hægt að fara með flugvöllinn úr Vatnsmýri, því að þessi gerð af Reykjavíkurflugvelli myndi aðeins standa á Skildingarnesmelum !

Ef austur-vestur-brautin er orðin aðalbraut vallarins þarf aðeins að nota hina stuttu norður-suður-braut nokkra daga úr ári þegar mjög hvasst er á norðan eða sunnan.

Völlurinn myndi við þetta hverfa úr augsýn séð frá gömlu miðborginni og mestöll flugumferðin líka sem og umferð yfir Kársnes í Kópavogi.

Skapast myndi bygginarými vestur af Háskóla Reykjavíkur. Núna tekur völlurinn aðeins 7% af flatarmáli Seltjarnarness vestan Elliðaáa og myndi þetta rými geta minnkað niður í 5%, sem er minna en Reykjavíkurhöfn tekur. 

Ómar Ragnarsson, 22.6.2010 kl. 15:49

3 Smámynd: gudni.is

Sæll Ómar.

Glæsilegur áfangi hjá þér Ómar að fá völlinn þinn fína á hálendinu skráðan og löglegan! Skráðum flugvöllum hefur nefnilega fækkað leiðinlega mikið á undanförnum árum og þeir eru hreinlega að leggjast af. 

Ég lennti þarna hjá þér og hitti þig á Sauðármelum eða Sauðárflugvelli seint í ágúst 2008 á Jodel flugvélinni okkar TF-ULV og það er mér alltaf minnisstætt.  Þetta eru svo langar og miklar brautir að þarna er hægt að lenda næstum hverju sem er.  Við getum reyndar lennt okkar vél mjög mjög víða án vandræða sökum léttleika hennar. En ég man þó eftir því að í flugtakinu þegar við fórum frá þér þá þurftum við líklega í kringum 150 metra í loftið í stað 70-80 venjulega nær sjávarmáli. Það er ótrúlega mikið minni afkastageta í 2000 feta hæð en við sjávarmál.

Flugkveðja,
Guðni

gudni.is, 24.6.2010 kl. 01:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband