Enn að mestu eins og í þróunarlöndum.

Það hefur verið reiknað út að virðisaukinn af álframleiðslunni á Íslandi sé næstum þrisvar minni en hjá sjávarútvegi og ferðaþjónustu.

Ástæðurnar fyrir þessu eru aðallega þær að mestallur hagnaðurinn af álframleiðsunni rennur beint til útlendinga og hagnaður okkar er, líkt og í þróunarlöndunum, fólginn í að selja vinnuafl og ódýrt rafmagn.

Hráefnið er líka flutt hingað um þveran hnöttinn en hráefni sjávarútvegsins sprettur að mestu úr sjávarauðlindinni í kringum landið, sem við eigum sjálf.

Þegar fyrsta álverið var reist í Straumsvík var ég eindregið fylgjandi því og stækkunum þess af ýmsum ástæðum.

Það var dýrara að halda áfram að virkja í smáum virkjunum fyrir venjulegar innanlandsþarfir, við fengum loks erlendan fjárfestingu inn í landið og of áhættusamt væri að hafa nær öll egg útflutningsins í einni körfu, körfu sjávarútvegsins.

Það "verður að renna fleiri stoðum undir hagkerfið" var sagt og ég og fleiri, við keyptum það.

Því var líka haldið fram að í tengslum við álframleiðsluna myndi spretta upp enn verðmætari framleiðsla, framleiðsla iðnaðarvara af ýmsum toga úr áli, sem væri alengt í ótal iðnaðarvörum svo sem álpappír, þakplötum úr áli o. s. frv.

Þau 43 ár, sem liðið hafa síðan fyrsta álverið hóf starfsemi, hafa hins vegar sýnt, að þetta hefur ekki ræst og það liggur beinast við að álykta að trú okkar á þessar fullyrðingar hafi verið barnalegar.

Ástæðan er sú að svonefnd "hagkvæmni stærðarinnar" er lögmál, sem erfitt er að komast fram hjá. ´

Lítið dæmi sýndi mér þetta í hnotskurn í fyrra. Þá hitti ég mann sem var að láta setja þakplötur úr áli á stórt hús. ´

Ég spurði hann hvort honum þætti það ekki blóðugt að þurfa að kaupa þessar þakplötur um langan veg frá öðrum löndum.

Hann sagði að sér hefði fundist það og spurt þann, sem seldi honum plöturnar, af hverju þær væru ekki framleiddar hér á landi.

Svar álplötusalans var einfalt: "Verksmiðjan, sem við kaupum þetta frá, framleiðir meira magn af þakplötum úr áli á einum degi en notuð éru í heilt ár á Íslandi. Við gætum ekki orðið samkeppnisfærir við að keppa við svo hagkvæma framleiðslu, enda eru hér gjaldeyrishöft og veik króna sem fælir alla fjárfesta frá."

Erlendir fjárfestar þurfa ekki annað en að kynna sér verðbólgutölur hér á landi til að sjá, að raungildi krónunnar fellur stöðugt. Nú síðast eru fjárfestar í hóteli við Hörpuna að fælast frá af þessum sökum.

Forstjóri Landsvirkjunar segir að erlendir fjárfestar segi, að þeir verði að bíða þangað til "sjáist til sólar" varðandi efnahagskreppuna sem ríkir í Evrópu og Ameríku.   

Í sjónvarpsviðtali fyrir viku færði Friðrik Sigurðsson að því rök að hvað þessi mál snerti væri Ísland "Kúba norðurins" í samanburði við önnur lönd í okkar heimshluta. Það er talsvert til í því.


mbl.is Áliðnaðurinn enn óþróaður hérlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Við Íslendingar þurfum að skapa mörgum sinnum fleiri störf en þau sem við gætum unnið í álverum.

Og hér verður í mesta lagi reist eitt álver í viðbót, enn eitt á suðvesturhorni landsins.

Ekkert álver verður reist á Vesturlandi norðan Hvalfjarðar, á Vestfjörðum, Norðurlandi eða Suðurlandi. Hvað þá í Vestmannaeyjum.

Við þurfum að einbeita okkur að ferðaþjónustu, hátækni og útflutningi fullunninna landbúnaðarafurða og sjávarafurða.


Og aukinni menntun hér í tæknigreinum.

Þorsteinn Briem, 10.3.2013 kl. 22:34

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Samtök iðnaðarins:

"Mikilvægi hátækniiðnaðar fyrir atvinnulíf framtíðarinnar speglast í því að fimmtungur allra nýrra starfa sem urðu til í landinu á árunum 1990 til 2004 sköpuðust vegna hátækni.

Á sama tíma fjölgaði aðeins um 500 störf í stóriðju og fækkaði um fjögur þúsund í sjávarútvegi.

Í lok tímabilsins störfuðu 5% vinnuaflsins, 6.500 manns, við hátækni, 900 við stóriðju (0,7%) og ríflega 10 þúsund í sjávarútvegi.

Í hátækni eru 40% starfsfólksins með háskólamenntun og um 60% með háskóla- og iðnmenntun.


Ef borinn er saman virðisauki Íslendinga af stóriðju og hátækni sést að virðisauki framleiðslunnar í hátækni er rúmlega þrefalt meiri en í stóriðju.

Þetta skýrist af því að hátæknigeirinn er vinnuaflsfrekur og í innlendri eigu, einungis þriðjungur virðisaukans í stóriðju verður eftir í landinu en um 70% eru flutt úr landi.
"

Þorsteinn Briem, 10.3.2013 kl. 22:41

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fjöldi starfa í ferðaþjónustunni hér á Íslandi var um 8.400 árið 2007 (fyrir fimm árum) og þar af voru 5.400 störf í einkennandi ferðaþjónustugreinum, til dæmis gisti‐ og veitingaþjónustu, farþegaflutningum og ferðaskrifstofum.

Um þrjú þúsund störf voru þá í tengdum greinum, til dæmis smásölu, afþreyingu, verslun, menningu, tómstundum og þjónustu tengdri farþegaflutningum.

Þar að auki er ferðaþjónusta í öllum bæjum, þorpum og sveitum landsins.

Stóriðja er hins vegar einungis á örfáum stöðum á landinu.


7.3.2012:


"Þrjú álver eru rekin á Íslandi og hjá þeim starfa um tvö þúsund manns en þegar bætt er við þeim sem tengjast álverunum teljast um 4.800 starfa í áliðnaði og tengdum greinum.

Þetta kemur fram í skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann fyrir Samtök álframleiðenda."

Fjöldi starfa í ferðaþjónustunni
hérlendis var um 8.400 árið 2007 og ef þeim störfum hefur fjölgað frá þeim tíma um 6,8% á ári að meðaltali, líkt og erlendum ferðamönnum fjölgaði hér á síðasta áratug, voru þessi störf um tólf þúsund í fyrra, um þrisvar sinnum fleiri en í álverunum hér og tengdum greinum.

Erlendum ferðamönnum hefur hins vegar fjölgað mun meira en um 6,8% á ári að meðaltali hér á Íslandi síðastliðin fimm ár.

Þorsteinn Briem, 10.3.2013 kl. 22:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband