Everest, Ásbyrgi - Skógafoss.

Everest, hæsta fjall heim, gnæfir enn upp í himinhvolfið með ósnerta útsýn til sín úr öllum áttum. Engum hefur enn dottið í hug, enda ekki framkvæmanlegt, að setja í alla dali umhverfis fjallið svo risastór og viðfeðm hótel, að engin leið verði að eiga leið að fjallinu eða framhjá því til að fá útsýn til þess ótruflaða, nema að sjá hótelið fyrst og helst að kaupa sér herbergi í því til að njóta útsýnis til fjallsins.

Frá norðausturhorni Íslands suður til Vatnajökuls og þaðan ótruflað í suðvestur til Suðurjökla og niður á sandana sunnan við þau liggur ósnortin og einstæð náttúra Íslands, eitt af örfáum helstu undrum veraldar.

Inni í þessi svæði er keðja ótal náttúruundra, allt frá Ásbyrgi, Jökulsárgljúfri og Dettifossi í norðri, um Herðubreið, Öskju, Kverkfjöll, Vatnajökul, Grímsvötn, Lakagíga og Fjallabak yfir Mýrdalsjökuls niður um Skógafoss.

Nú er búið að ákveða að í stað þess að ferðafólk sem fer framhjá Skógafossi og sér hann ótruflaðan af mannvirkjum frá hringveginum skuli hér eftir sæta því að í forgrunni á þeim örstutta kafla, þar sem fossinn blasir beint við, skuli rísa stærðar hótel með tilheyrandi þyrpingu af byggingum, sem byrgja muni sýn til fossins.

Það er til þess að besta útsýnið til fossins verði í höndum hinna útvöldu, sem geta keypt sér gistingu í þessu hóteli.

Nefna má marga hliðstæða staði í heiminum, þar sem mönnum dettur ekki svona lagað í hug.

En á Íslandi er þetta gert. Nú er að rísa hár turn við Frakkastíg í Reykjavík sem eyðileggja á allt útsýni hundraða þúsunda heimamanna og ferðamanna, sem hafa getað horft niður stíginn með óhindrað útsýni yfir Kollafjörð og Esjuna.

Íbúðir hinna útvöldu í turninum, sem munu troða sér með búsetu þar fram fyrir almúgann til að njóta þess útsýnis, sem rænt var af honum, munu seljast á margra milljóna hærra verði hver, turneigendum til ágóða.

Ég er á leið austur á Hvolsvöll að hitta ferskt ungt fólk, sem ætlar í sérframboð vegna þess, að áformin við Skógafoss fyllti mælinn í huga þess varðandi eftirlátssemi við þá sem vilja troða sér fram fyrir almenning til að geta selt herbergi eða íbúðir á uppsprengdu verði.

Ég hlakka til að hitta þetta fólk þótt tilefnið sé dapurlegt.  


mbl.is Fyrsti Færeyingurinn á toppi Everest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Tók eftir því síðast þegar ég var á ferð um svæðið, að það er þegar búið að planta fullt af trjám norðan megin við þjóðveginn þegar ekið er framhjá Skógafossi. Þessi gróður er þegar farin að skyggja á útsýnið frá veginum. Annars er ég að hanna og teikna nokkur ljósleiðarakerfi á suðurlandinu til að bæta hag íbúa á svæðinu. Í leiðinni kom ég með hugmyndir um að bæta aðbúnað ferðamanna til muna og m.a. við Skógafoss. Þar legg ég til að loftlínur verði fjarlægðar og settar í jörðu svo að það verði hægt að skoða fosinn ósnortinn frá veginum úr meiri fjarlægð. Yfir vetratímann þegar dagsbirtan getur farið niður í 3 tíma á dag að þá legg ég til að lýsa upp fossinn svo að ferðamenn sem eru þar á ferð á þessum tíma sjái dýrðina betur. Samhliða þeim pælingum vil ég vera með beinar útsendingar frá svæðinu og frítt WiFi svo að fólk sem á leið um geti m.a. tekið myndir á snjallsímana sína og sett beint á samfélagsmiðlana = ókeypis auglýsing sem síðan hefur keðjuverkandi áhrif og margir sjá. Hægt er að skoða málið nánar hér: http://www.kps.is/main.php?g2_itemId=1379

Kjartan Pétur Sigurðsson, 29.5.2014 kl. 11:35

2 identicon

Auðvitað er þetta dapurlegt. En að breyta áætluninni varðandi turninn við Frakkastíg er einum of seint í rassinn gripið, því að fyrir mörgum árum voru reistir 20 hæða skítahaugar við Skúlagötuna. Ég er að tala um svörtu, ljótu blokkirnar sem leyfa hinum efnuðu að fá gott útsýni að Esjunni og skyggja á alla aðra í Skuggahverfinu.

.

Útsýnið að Skógafossi frá þjóðveginum er eitt af því fegursta sem sést á Íslandi. Það væri hörmulegt ef fégráðugir aðilar í ferðaþjónustunni fá að eyðileggja það með einhverju andskotans hóteli.

Pétur D. (IP-tala skráð) 29.5.2014 kl. 11:40

3 identicon

Þess má geta að því fer fjarri að Everest sé hæsta fjall heims.

Hóllinn sá ku víst vera það fjall sem nær hæst yfir sjávarmál á Jörðinni.

En hærri fjöll finnast, sem eru þó að miklu leiti undir sjávarmáli.

Enginn veit hver hæsta fjall heims er, enda milljarðar pláneta í heiminum sem geta geymt margfalt hærri fjöll.

Árni Tryggvason (IP-tala skráð) 30.5.2014 kl. 22:02

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Afsakið en ég notaði þá merkingu orðsins "heimur" sem meðal annars lýsir sér í því að sumir eru heimsfrægir, eru heimsborgarar og syngja "Heims um ból" á jólunum.

Ómar Ragnarsson, 30.5.2014 kl. 23:21

5 identicon

Árni, ég held, að þú sért að rugla saman hugtökunum "heimur" sem er jörðin (fyrir jarðarbúa í öllu falli), þ.e. að ekki eru fleiri plánetur í heiminum en jörðin. "Alheimur" er hins vegar allt rými sem til er (það geta auðvitað verið fleiri en einn alheimur, en ekki er enn búið að sýna fram á það).

Fyrir nokkrum árum héldu sumir því fram, að K2 (fjallið sem enginn veit hvað á að heita) væri hærra en Everest (sem er 8.848 metra hátt), en síðari GPS-mælingar staðfestu að það sé 2. hæsta yfir sjávarmáli, 8.611 m.

Pétur D. (IP-tala skráð) 31.5.2014 kl. 20:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband