Leyndi mamma því dögum saman að ég hefði fæðst?

Móður mína og yfirlækninn á fæðingardeild Landsspítalans greindi á um það á meðgöngutíma hennar hvenær ég myndi fæðast.

Raunar taldi hann snemma á meðgöngunni þegar hún varð veik og allt benti til að hún myndi missa fóstrið, að þannig hlyti það að fara og væri í raun farsælast fyrir eignalaust unglingspar á botni kreppunnar.

En með dæmalausri ákveðni tókst henni að fá hann, sjálfan yfirlækninn, til að koma til sín upp í kvistherbergi á háalofti í timburhúsi á Lindargötu til að sinna sér persónulega daginn, sem fósturlátið virtist ætla að gerast og gargaði á hann að ef hann færi frá henni væri hann morðingi!

Fannst yfirlækninum áreiðanlega nóg um þessa frekju hennar og hróp.  

Eftir að fósturlátinu var afstýrt stóð mamma fast á því að hún ætlaði sér ekki að vera átján ára gömul þegar hún fæddi frumburðinn, heldur vera orðin nítján ára. 

Yfirlæknirinn taldi þetta fásinnu hjá henni, öll gögn hnigu að því að fæðingin myndi verða í ágúst, minnst hálfum mánuði fyrir 19 ára afmæli hennar. 

Þannig fór að fæðingin varð á 19 ára afmælisdegi hennar og yfirlæknirinn færði henni blóm á sængina með orðunum: "Með frekjunni hafðist það!"

Aldrei greri um heilt með henni og yfirlækninum eftir þetta og meðan hann var yfirlæknir fæddi hún næstu fjögur börn sín heima!

Þegar maður hugsar um það hvað er í kringum fæðingu hvers manns í nútíma velferðarþjóðfélagi eru með hreinum ólíkindum þær spunasögur, sem nú fá flug í fjölmiðlum. 

Þótt mamma væri ákveðin er ég viss um að henni tókst ekki að leyna því dögum saman að ég væri fæddur bara til þess að fá barn í afmælisgjöf. 


mbl.is Segja Katrínu ekki hafa fætt barnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið værum við fátækari ef þú hefðir ekki átt svona frekju fyrir mömmu, engar Stiklur eða þessar nýju Ferðastiklur, þar sem þú og dóttir þín fara á kostum. Hafði sérstaklega gaman af þættinum um Kerlingafjöll.  

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 4.5.2015 kl. 21:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband