Hjálmur getur aldrei verið til annars en bóta.

Umræðan um að hafa hjálm á höfði eða ekki hjálm hefur tekið á sig sérkennilegar myndir og beitt er vafasömum rökum.

Til dæmis með því að segja, að það að hjóla með hjálma og rökræða gagnsemi þess að nota hjálma setji hjálmanotkun í vont ljós og leiði umræðuna frá mikilvægari atriðum varðandi hjólreiðar eða gefi í skyn að hjólreiðar séu hættulegri en annar samgöngumáti.

Með slíkri rökræðu mætti leggja niður allar varúðarráðstafanir í formi upplýsinga og umræðu um borð í flugvélum um notkun björgunarvesta og súrefnsigríma eða hvernig bera skuli sig að í neyðartilfellum með þeim rökum að slík umræða gefi í skyn að farþegaflug sé hættulegra en annar samgöngumáti, þótt tölurnar sýni að ferðir í farþegaflugvélum sé einmitt einhver hættuminnsti samgöngumáti í heimi. 

Fróðlegt væri að sjá tölur um slysatíðni á hjólum miðað við samtals hjólaða vegalengd í samanburði við farna vegalengd í bíl. 

En jafnvel þótt slíkar tölur yrðu hjólreiðum í vil er barnalegt að halda því fram að umræða um notkun hjálma og notkun þeirra almennt brengli mat manna á mikilvægi mismunandi þátta í hjólreiðum eða varpi að óþörfu skugga á þennan mjög svo góða samgöngumáta.

Þvert á móti ber hjálmur á höfði hjólreiðamanns vott um jákvæða hegðun og hugsunarhátt hans og notkun hjálms getur aldrei verið til annars en bóta.

Nema menn geti sannað hið gagnstæða, en miðað við notkun hjálma á öðrum sviðum en hjólreiðum getur annað varla verið hugsanlegt en að notkun hjálma sé ávallt til bóta og minnki slysatíðni.

Eða hvers vegna ætti notkun hjálma fyrir börn að vera gagnleg ef hún er það ekki líka fyrir fullorðna? 


mbl.is Settu hjálm á Gísla Martein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tek undir með þér. Ég held að Gísli Marteinn haldi að hann sé eitthvað púkó með hjálm. Mér finnst hann yfirleitt alltaf púkó, en hann gæti breytt mínu áliti ef hann væri með hjálm á hjólinu.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 8.5.2015 kl. 22:18

2 identicon

Hvers vegna ætti notkun hjálma fyrir börn að vera gagnleg ef hún er það ekki líka fyrir fullorðna? Það er röng spurning. Hvers vegna ætti notkun hjálma fyrir börn að vera lögleidd skylda en ekki fyrir fullorðna? Er rétta spurningin. Börn hafa ekki frelsi til að taka ákvarðanir en það höfum við, eða eigum að hafa.

Gagnsemin kemur málinu ekkert við þegar við erum að ræða frelsi fullveðja einstaklings til að ákvarða hversu mikla áhættu hann vill taka. Hjólreiðar án hjálms, fallhlífarstökk eða fjallaklifur. Það þarf að berjast á móti þegar þú eða löggjafinn viljið ákveða hvaða áhættu ég má taka.

Hversu langt má ganga í frelsissviptingu til að minnka slysatíðni? Hvenær verðum við pökkuð inn í bómull og geymd í kassa? Bönnum frekar ekkert og hinir hæfustu komast af, mannkyninu til framþróunar og heilla.

Espolin (IP-tala skráð) 8.5.2015 kl. 22:57

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Pistill minn fjallar ekki um réttmæti þess að skylda fólk til að hafa hjálm heldur um þá röksemdafærslu sem beitt er til þess að andmæla því að fólk noti hjálm.  

Ómar Ragnarsson, 9.5.2015 kl. 01:17

4 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Eftir því sem hraðinn verður meiri því ríkari ástæða er til að nota hjálm. Hraðinn er meiri hjá fullorðnum og því ætti að vera meiri ástæða fyrir þá að nota hjálm en börn. 

Birgir Þór Bragason, 9.5.2015 kl. 04:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband