Svipuð vandamál víða um heim.

Sjá má fjallað um það að vandamál vegna flóttafólks frá Norður-Afríku til Suður-Evrópu sé eingöngu því að kenna að fólkið sé flest múslimatrúar og aðlagi sig ekki að aðstæðum í Evrópu, heldur búi til hryðjuverkahópa sem ætli að rústa vestrænu þjóðskipulagi. 

Múslimatrú sé því ógnin mikla og að nauðsynlegt sé að koma öllu múslimatrúarfólki úr landi.

Sagt er að það séu það "mistök en ekki mannúð" að taka á móti þessu fólki og leyfa tilvist þess nema það verði áfram heima hjá sér. 

En í svona tali felst mikil einföldun því að svipuð vandamál eru víðar. 

Í Bandaríkjunum er svipað vandamál fólgið í milljónum löglegra og ólöglegra innflytjenda úr suðri. Þar er svipaður söngur heimamanna, sem benda á að þessir innflytjendur aðlagi sig ekki að bandarísku þjóðskipulagi, heldur "rotti sig saman" í sérstökum fátækrahverfum, glæpatíðni sé mun meiri hjá því en öðrum og tilvist þessa fólks ógni öryggi Bandaríkjamanna. 

Munurinn á röksemdunum vestra og því sem kyrjað er í Evrópu er hins vegar sá, að trúarbrögðum er ekki blandað inn í hana í Ameríku, því að innflytjendurnir vondu eru nefnilega kaþólskir mestan part. 

Röksemdirnar um hærri glæpatíðni, sérstök fátækrahverfi þar sem "hyskið rottar sig saman" og ógn við vestrænt samfélag hefur líka alla tíð verið notað gegn blökkufólki í Bandaríkjunum og sagt fullum fetum að stuðningur við jafnréttisbaráttu blökkufólks og innflytjendur sé "ekki mannúð heldur mistök."

Í Bandaríkjunum þekkist líka sams konar vandamál og í Evrópu. Innflytjendurnir taka að sér láglaunastörf sem eru grunnurinn að því að hinn velmegandi hvíti meirihluti geti haldið sínum kjörum án þess að vinna störf sem hann vill ekki vinna.

Þetta á við í Þýskalandi og fleiri Evrópuríkjum um Tyrki og aðra innflytjendur sunnan að.

Einn munur er þó á Bandaríkjunum og Evrópu. Andúðin á innflytjendum í Bandaríkjunum á erfiðara uppdráttar en í Evrópu af því að Bandaríkin eru upphaflega innflytjendasamfélag og það að taka á móti innflytjendum á meðan mesti innflytjendastraumurinn var, var mannúð og nauðsyn en ekki mistök.

Og lunganum af blökkufólkinu, sem flutt var inn til að verða ófrjálsir þrælar, var ekki hægt að kenna um að ryðjast óboðið inn í landið. Það fluttist ekki inn af eigin völdum, heldur skófluðu hvítir menn því ófrjálsu inn í landið til að vinna erfiðustu og verstu störfin.   

 


mbl.is Grípa til aðgerða gegn smyglurum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta blogg er gersamlega út og suður í málflutningi, mótsagnakennt, rangt að miklu leiti og annað ýkt.

Í fyrsta lagi, þá eru Bandaríkjamenn ekki með öflugt velferðarkerfi sem tekur á móti flóttamönnum, og sér þeim farborða. Flóttamenn eru því ekki sami baggi á skattkerfinu og í Evrópu.

Í öðru lagi, þá hafa íslamskir innflytjendur verið tiltölulega fámennir miðað við aðra í sögulegu tilliti. Þeim hefur ekki verið búin sama aðstaða í Bandaríkjunum og Evrópu, að samfélagið aðlagi sig að þeim, en ekki öfugt. Þeir hafa sem sagt ekki það forskot á aðra innflytjendur, sem fasíska þöggunarkrafan um eðli íslam í Evrópu hefur gefið þeim.
Það kann þó vera að breytast, íslömskum innflytjendum hefur fjölgað mjög undanfarin ár, og vel hugsanlegt að það skili sér í aðskilnaði við þá heimamenn sem fyrir eru.

Í þriðja lagi, þá eru Bandaríkjamenn ekkert umburðarlyndari í garð hvítra en annarra þjóðfélagshópa. Það kemur reglulega upp einhver efnahagsbóla í einhverju fylkinu í Bandaríkjunum, og því fylgir aðflutningur atvinnulausra, hvítra sem svartra, frá öðrum fylkjum. Því fylgja vandamál, og óumflýjanlega, sí-versnandi samskipti heimamanna við þá aðkomnu. Andúðin þar, er því nákvæmlega sú sama og annars staðar. Steríótýpískar lýsingar á hugarfari Bandaríkjamanna í garð innflytjenda, vegna sögu landsins, er röng.

Í fjórða lagi, þá verða þeir innflytjendur í Bandaríkjunum að standa á eigin fótum, sem þýðir að þeir verða að skapa sér atvinnu, ef enga er að fá. Þeir fara ekki á bætur, og geta því ekki myndað margra kynslóða félagsbótaþega, eins og í Evrópu.

Í fimmta lagi, þá skapar innflutningur á fólki í leit að störfum, alltaf, í öllum tilvikum, samkeppni um störf við þá sem fyrir eru. Og ef starfið krefst ekki sérþekkingar eða kunnáttu, þá verða markaðslaunin vel fyrir neðan framfærsluþarfir.
Seðlabankastjóri Bretlands lýsti því yfir í síðustu viku, að aukin samkeppni um störf, vegna innflytjenda, hafi skilað sér í mun verri afkomu breskra verkamanna en ella hefði orðið, og heldur launum þeirra niðri meðan að aðrir skríða upp á við.

Hilmar (IP-tala skráð) 19.5.2015 kl. 12:05

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég var nú einmitt að lýsa svipuðu fyrirbrigði í Bandaríkjunum gagnvart innflytjendum úr suðri eins og er í Evrópu en tiltek líka ákveðin blæbrigði. 

Ómar Ragnarsson, 19.5.2015 kl. 19:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband